Skip to main content

Fundargerð háskólaráðs 28. ágúst 2008

10/2008

 

HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR

Ár 2008, fimmtudaginn 28. ágúst var haldinn fundur í háskólaráði sem hófst kl. 13.00.

Fundinn sátu: Kristín Ingólfsdóttir, Birna Arnbjörnsdóttir, Erna Kristín Blöndal, Helgi Þorbergsson, Ólafur Þ. Harðarson, Ólafur Proppé (áheyrnarfulltrúi Menntavísindasviðs), Rúnar Vilhjálmsson, Valgerður Bjarnadóttir, Þórdís Kristmundsdóttir, Þórður Sverrisson og Þórir Hrafn Gunnarsson. Fundargerð ritaði Magnús Diðrik Baldursson.

Áður en gengið var til dagskrár bauð rektor Þórð Sverrisson, viðskiptafræðing og forstjóra Nýherja, velkominn til starfa sem nýjan fulltrúa þjóðlífs í háskólaráði.

Einnig reifaði rektor stuttlega nokkra atburði í starfi Háskóla Íslands frá síðasta fundi háskólaráðs fyrir sumarhlé, s.s. útkomu Árbókar Háskóla Íslands 2007, glæsilega hátíð í tilefni af sameiningu Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands og gildistöku nýs skipulags og stjórnkerfis Háskólans sem haldin var á Háskólatorgi 1. júlí sl., nýjan vef Háskóla Íslands sem vígður var við sama tækifæri, vígslu Orkuskólans REYST 7. ágúst sl., tilkynningu um úrslit samkeppni um hönnun húss fyrir Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum 21. ágúst sl. og væntanlega stofnun nýs styrktarsjóðs til að efla samskipti Íslands og Japans í september nk.

Þá var færð til bókar breyting á 2. gr. starfsreglna valnefnda til að undirbúa ákvörðun háskólarektors um ráðningu forseta fræðasviða Háskóla Íslands sem háskólaráð samþykkti á milli funda 8. júlí sl. Svo breytt hljóðar 2. gr. í heild: „Rektor skipar fjóra til sjö menn til setu í hverri valnefnd. Hver deild fræðasviðsins hefur einn fulltrúa í valnefnd en tilnefnir þó tvo, konu og karl. Deildarforsetar fræðasviðsins gera sameiginlega tillögu til rektors um samsetningu valnefndar í samræmi við ákvæði 15. gr. laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Formaður er skipaður af rektor án tilnefningar. Þá eina má skipa í valnefnd sem hafa prófessors- eða dósentshæfi. Um sérstakt hæfi valnefndarmanna fer eftir II. kafla stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Umsækjendum er send tilkynning um skipan valnefndar og starfsreglur hennar."

1.  Mál á dagskrá

1.1 Helstu verkefni framundan í starfi Háskóla Íslands. Funda- og starfsáætlun háskólaráðs 2008-2009.
Rektor fór yfir helstu viðburði í starfi Háskóla Íslands starfsárið 2008-2009. Í máli rektors kom m.a. fram að á síðustu misserum hefur verið unnið af kappi að mörgum viðamiklum verkefnum sem varða innra og ytra starf Háskóla Íslands, s.s. mótun Stefnu Háskóla Íslands 2006-2011, undirritun tímamótasamnings við menntamálaráðuneytið um fjármögnun stefnunnar, innleiðingu nýs skipulags og stjórnkerfis Háskólans, sameiningu Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands, vígslu Háskólatorgs og framkvæmd nýrra laga um opinbera háskóla sem samþykkt voru á Alþingi 30. maí sl. Á næstu mánuðum verða þessi stóru verkefni útfærð nánar og þeim hrint í framkvæmd. Nefndi rektor í þessu sambandi m.a. að í júní sl. hefðu verið auglýst laus til umsóknar fimm störf forseta fræðasviða Háskóla Íslands. Margar góðar umsóknir hefðu borist og væru valnefndir nú að störfum við að undirbúa ákvörðun rektors um ráðningu í störfin. Stefnt væri að því að ganga frá ráðningunum innan tveggja vikna. Þá verði áfram unnið að endurskipulagningu stjórnsýslu og stoðþjónustu á vettvangi fræðasviðanna auk þess sem hugað yrði að framtíðarfyrirkomulagi stofnana Háskólans. Þá stæði fyrir dyrum árleg vinna við gerð fjárhagsáætlana starfseininga Háskólans. Einnig nefndi rektor að á haustmisseri yrði tvívegis efnt til háskólaþings. Fyrra þingið fer fram 25. september nk. og verður á dagskrá kjör tveggja fulltrúa háskólasamfélagsins í háskólaráð og kynning og umræða um nýlega skýrslu um aðgerðir gegn brottfalli nemenda. Síðara þingið verður haldið í nóvember nk. og verður það helgað umræðu um fjármögnun opinberra háskóla. Loks gat rektor um helstu byggingaframkvæmdir á lóð Háskólans og sagði fyrirsjáanlegt að rætast muni úr húsnæðismálum allra fræðasviða Háskólans á næstu árum. Með tilkomu Háskólatorgs og Gimlis hafa Félagsvísindasvið og Hugvísindasvið nú þegar fengið mikla aðstöðubót og með nýbyggingum Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum og Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum mun aðstaða Hugvísindasviðs batna enn frekar. Bygging nýs Landspítala-háskólasjúkrahúss mun gjörbylta húsnæðismálum Heilbrigðisvísindasviðs, tilkoma Vísindagarða kemur til móts við húsnæðisþarfir Verkfræði- og náttúruvísindasviðs og loks er áformað að flytja starfsemi Menntavísindasviðs úr Stakkahlíð í væntanlega nýbyggingu á háskólalóðinni á næstu árum. Að endingu greindi rektor frá því að í vetur verður unnið að heildarendurskoðun reglna Háskóla Íslands á grundvelli nýrra laga um opinbera háskóla.

1.2  Innleiðing nýs skipulags Háskóla Íslands. Staða mála.
Rektor vísaði í framsögu sína undir dagskrárlið 1.1 um ráðningu forseta fræðasviða, endurskipulagningu stjórnsýslu og stoðþjónustu og endurskoðun á skipulagi stofnana. Þá skýrði rektor frá því að 1. október nk. taki til starfa nýtt háskólaráð skipað 11 fulltrúum. Rektor og núverandi fulltrúar menntamálaráðherra sitja áfram í ráðinu, en menntamálaráðherra á eftir að tilnefna tvo fulltrúa sína til viðbótar auk þess sem háskólaþing tilnefnir tvo fulltrúa háskólasamfélagsins og heildarsamtök stúdenta tilnefna aðra tvo. Þá mun þessi níu manna hópur velja tvo utanaðkomandi fulltrúa til viðbótar og er þá ráðið fullskipað. Næsta skref er tilnefning háskólaþingsfulltrúanna og er nú verið að undirbúa þingið.

1.3  Fjárhagsstaða Háskólans 2008, yfirlit eftir sjö mánuði.
Inn á fundinn kom Sigurður J. Hafsteinsson, sviðsstjóri fjármálasviðs og gerði grein fyrir framlögðu yfirliti um rekstur Háskóla Íslands á tímabilinu frá janúar til júlí 2008. Málið var rætt ítarlega og svaraði Sigurður framkomnum spurningum og athugasemdum ráðsmanna.

1.4 Ársfundur Vísindagarða Háskóla Íslands ehf.
Rektor skýrði frá því að fundur háskólaráðs Háskóla Íslands í ágústmánuði sé jafnframt ársfundur Vísindagarða Háskóla Íslands ehf. Lagði rektor til að ársfundinum yrði frestað í ljósi þess að beðið væri tiltekinna gagna.
- Samþykkt einróma.

1.5  Starfshópur um stofnun Rannsóknastofnunar í fjölskyldufræðum sem kennd verði við Ármann Snævarr, fyrrverandi háskólarektor.
Rektor gerði grein fyrir málinu og var það rætt. Lagði rektor til að skipaður verði starfshópur sem hafi það verkefni með höndum að gera tillögu til háskólaráðs um hvort og hvernig standa skuli að stofnun þverfræðilegrar rannsóknastofnunar í fjölskyldufræðum. Starfshópurinn verði skipaður þeim Björgu Thorarensen, prófessor við lagadeild, Sigrúnu Júlíusdóttur, prófessor við félags- og mannvísindadeild, Vilhjálmi Árnasyni, prófessor við sagnfræði- og heimspekideild og einum fulltrúa sem tilnefndur verði af Menntavísindasviði. Starfshópurinn skipti með sér verkum og skili tillögum sínum til háskólaráðs fyrir 1. desember nk. Formlegt fyrirkomulag stofnunarinnar, ef af verður, verði ákveðið samfara endurskoðun á reglum Háskólans í kjölfar gildistöku nýrra laga um opinbera háskóla.
- Samþykkt einróma.

2.  Erindi til háskólaráðs

2.1  Tillögur að breytingum á reglum og að nýjum reglum.
a. Tillaga að reglum um tilnefningu fulltrúa háskólasamfélagsins og nemenda í háskólaráð Háskóla Íslands.
Fyrir fundinum lá tillaga að reglum um tilnefningu fulltrúa háskólasamfélagsins og nemenda í háskólaráð Háskóla Íslands og minnisblað Ólafs Þ. Harðarsonar, fulltrúa deilda félagsvísindasviðs í háskólaráði, um kjör háskólaþings á tveimur fulltrúum í nýtt háskólaráð. Inn á fundinn kom Þórður Kristinsson, sviðsstjóri kennslusviðs, og gerði grein fyrir málinu. Ólafur gerði grein fyrir minnisblaðinu. Málið var rætt ítarlega. Fram komu nokkrar minniháttar breytingartillögur.
- Reglur um tilnefningu fulltrúa háskólasamfélagsins og nemenda í háskólaráð Háskóla Íslands samþykktar einróma svo breyttar.

b. Bókun vegna fyrsta þings á hverju fræðasviði Háskóla Íslands, skv. lögum nr. 85/2008.
Fyrir fundinum lá svohljóðandi tillaga að bókun frá kennslusviði vegna fyrsta þings á hverju fræðasviði Háskóla Íslands, skv. lögum nr. 85/2008:
„Þegar fyrsta þing fræðasviðs er haldið á hverju fræðasviði fyrir sig í byrjun september 2008, til þess að kjósa fulltrúa á háskólaþing 25. september 2008, skal við skipan og framkvæmd fræðasviðsþingsins taka mið af ákvæðum um deildarfundi í 17. og 18. gr. reglna Háskóla Íslands nr. 458/2000. Í tilviki Menntavísindasviðs skal taka mið að framkvæmd misserisþinga sem verið hafa í Kennaraháskóla Íslands. Stjórn fræðasviðs undirbýr þing fræðasviðsins og tilnefnir einn úr sínum hópi til þess að boða til þingsins og stýra því. Heimilt er að kjósa fulltrúa á háskólaþing í rafrænni kosningu og þarf þá ekki að kalla þing fræðasviðsins saman til fundar. Við kjör viðbótarfulltrúa á háskólaþing, þar sem við á skv. a)-lið 5. gr. reglna um skipan og fundarsköp háskólaþings sem háskólaráð hefur samþykkt, skal tekið mið af tölum um fjölda stúdenta á einstökum fræðasviðum Háskóla Íslands eins og þær voru skv. gögnum Nemendaskrár fimmtudaginn 28. ágúst 2008."
Þórður Kristinsson skýrði tillöguna og var hún rædd.
- Samþykkt einróma.

c. Tillaga að breytingu á d)-lið 5. gr. reglna um skipan og fundarsköp háskólaþings, sem samþykktar voru í háskólaráði 26. júní 2008.
Rektor gerði grein fyrir tillögu sinni um að í upptalningu stofnana sem tilnefna hver einn fulltrúa á háskólaþingi í d)-lið 5. gr. reglna um skipan og fundarsköp háskólaþings sem samþykktar voru í háskólaráði 26. júní 2008 bætist við tvær stofnanir: Raunvísindastofnun Háskólans og Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands.
- Samþykkt einróma.

2.2  Stjórnir, nefndir og ráð:
a. Stjórn Styrktarsjóðs Selmu og Kay Langvad.
Rektor greindi frá því að Ármann Snævarr, fyrrverandi háskólarektor, hefði beðist lausnar úr stjórn Styrktarsjóða Selmu og Kay Langvad og bar í framhaldinu upp tillögu um að Hafliði Pétur Gíslason prófessor verði skipaður fulltrúi háskólaráðs í stjórn sjóðsins til þriggja ára, sbr. 2. grein skipulagsskrár sjóðsins.
- Samþykkt einróma.

b. Framlenging umboðs stjórnar Endurmenntunarstofnunar Háskóla Íslands til 31. janúar 2009.
Rektor bar upp tillögu um að skipunartími núverandi stjórnar Endurmenntunarstofnunar Háskóla Íslands verði framlengdur til 31. janúar 2009.
- Samþykkt einróma.

2.3  Þverfræðilegt meistaranám í talmeinafræði, sbr. fund ráðsins 29. maí sl. Tillaga starfshóps háskólaráðs um að boðið verði upp á þverfræðilegt meistaranám í talmeinafræði haustið 2009, ásamt tillögu um undirbúning og uppbyggingu námsins.
Þórður Kristinsson gerði grein fyrir málinu og var það rætt. Fram kom í umræðunni að styrkur hefur fengist frá Heyrnar- og talmeinastöð Íslands vegna námsins og að viðræður standa yfir við fleiri aðila um styrki. Svaraði Þórður, ásamt Ólafi Þ. Harðarsyni, sem var fulltrúi félagsvísindadeildar í starfshópi sem skipaður var á fundi háskólaráðs 29. maí sl. og hafði það hlutverk með höndum að undirbúa tillögu um hvort bjóða skuli upp á þverfræðilegt meistaranám í talmeinafræði haustið 2009, framkomnum spurningum og athugasemdum.
- Samþykkt einróma að boðið verði upp á þverfræðilegt meistaranám í talmeinafræði frá og með haustinu 2009, með fyrirvara um að áætlun um fjármögnun gangi eftir. Samþykktin er til þriggja ára.

2.4  Samkomulag Háskóla Íslands og Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum um tengsl forstöðumanns stofnunarinnar við Háskóla Íslands.
Rektor gerði grein fyrir málinu og var það rætt. Lýstu fulltrúar í háskólaráði vilja sínum til þess að nýr forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum gegni jafnframt að hluta starfi prófessors við íslensku- og menningardeild á fræðasviði hugvísinda við Háskóla Íslands, eins og verið hefur, enda séu uppfyllt ákvæði laga nr. 85/2008 um opinbera háskóla varðandi ráðningu prófessora. Málið verður áfram á dagskrá háskólaráðs.

2.5  Erindi frá nemendum og umsækjendum um nám.
Inn á fundinn kom Ingibjörg Halldórsdóttir, lögfræðingur Háskólans, og gerði vandlega grein fyrir framlögðum erindum frá nemendum og umsækjendum um nám og drögum að svörum háskólaráðs. Málið var rætt.

a. Erindi til háskólaráðs frá nemanda í hjúkrunarfræðideild, dags. 31. júlí sl., sbr. afgreiðslu ráðsins 19. júní sl.
- Samþykkt einróma að hafna beiðni nemandans um endurupptöku á ákvörðun háskólaráðs í máli hans, dags. 19. júní sl.

b. Erindi frá nemanda um undanþágu til þess að ljúka námskeiðinu 10.02.10 Persónuleikasálfræði.
- Samþykkt einróma að hafna beiðni nemandans um endurskoðun á ákvörðun félagsvísindadeildar í máli hans.

c. Kvartanir frá umsækjendum sem hafnað hefur verið.
- Samþykkt einróma að hafna beiðni fimm umsækjenda um nám við Háskóla Íslands.

3.  Mál til fróðleiks

3.1  Árbók Háskóla Íslands 2007.

3.2  Úrslit í hönnunarsamkeppni um nýbyggingu sem hýsa mun Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og hluta íslensku- og menningardeildar hugvísindasviðs Háskóla Íslands.

3.3  Reglur um skipan og fundarsköp háskólaþings, samþykktar í háskólaráði 26. júní 2008.

3.4  Starfsreglur valnefnda til að undirbúa ákvörðun háskólarektors um ráðningu forseta fræðasviða Háskóla Íslands, samþykktar í háskólaráði 8. maí 2008, með breytingum 26. júní og 8. júlí 2008.

3.5  Úthlutun úr Tækjakaupasjóði 2008.

3.6  Ársskýrsla Keilis 2007.

3.7  Samstarfsráðstefna Háskóla Íslands og University of Manitoba, haldin 28. og 29. ágúst 2008 við Háskóla Íslands.

Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 16.00.