Skip to main content

Háskólaráðsfundur 5. desember 2013

10/2013


HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR

Ár 2013, fimmtudaginn 5. desember var haldinn fundur í háskólaráði sem hófst kl. 13.00.

Fundinn sátu Kristín Ingólfsdóttir, Anna Rut Kristjánsdóttir, Börkur Hansen, Ebba Þóra Hvannberg, Guðrún Hallgrímsdóttir, Jakob Ó. Sigurðsson, Kristinn Andersen, Margrét Hallgrímsdóttir, María Rut Kristinsdóttir, Tinna Laufey Ásgeirsdóttir og Þorfinnur Skúlason. Fundinn sátu einnig Jón Atli Benediktsson og Magnús Diðrik Baldursson sem ritaði fundargerð.

Áður en gengið var til dagskrár greindi rektor frá því að engar athugasemdir hefðu borist við fundargerð síðasta fundar og hefði hún því skoðast samþykkt og verið birt á háskólavefnum. Jafnframt spurði rektor hvort einhver teldi sig vanhæfan til að taka þátt í meðferð máls á dagskrá. Svo var ekki. Engar athugasemdir voru gerðar við liðinn „bókfærð mál“ og skoðast hann því samþykktur.

1. Mál á döfinni í Háskóla Íslands.

Rektor gerði grein fyrir nokkrum málum og viðburðum frá síðasta fundi háskólaráðs og framundan.

a) Laugardaginn 9. nóvember sl. var haldin á Háskólatorgi nýsköpunarráðstefnan „Iceland Innovation UnConference“ í samstarfi Landsbanka Íslands og Háskóla Íslands.

b) Þriðjudaginn 12. nóvember sl. var tilkynnt að orðið „ljósmóðir“ hefði orðið hlutskarpast í samkeppni Hugvísindasviðs Háskóla Íslands og RÚV um fegursta orð íslenskrar tungu.

c) Miðvikudaginn 13. nóvember sl. var haldinn í Hátíðasal viðburður á vegum Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum í tilefni af 350 ára afmæli Árna Magnússonar. Margrét Þórhildur drottning Danmerkur var viðstödd viðburðinn.

d) Föstudaginn 15. nóvember sl. voru undirritaðir samningar við níu fyrirtæki sem munu styrkja Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum. Fyrirtækin eru Íslandshótel, Landsbankinn, MP banki, Promens, fasteignafyrirtækið Reginn, Bláa lónið, Icelandair Group, Icelandic Group og olíufélagið N1.

e) Á Degi íslenskrar tungu 16. nóvember sl. hlaut Máltæknisetur – rannsóknarsetur í máltækni, sem er samstarfsverkefni Háskóla Íslands og Háskólans í Reykjavík, sérstaka viðurkenningu fyrir að stuðla að notkun íslensku í nútíma samskiptatækni. Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, veitti verðlaunin í Þjóðmenningarhúsinu.

f) Þriðjudaginn 19. nóvember sl. var haldinn opinn fundur rektors fyrir starfsfólk Háskóla Íslands og við það tækifæri var þremur starfsmönnum veitt viðurkenning fyrir lofsvert framlag til háskólans. Viðurkenningarnar hlutu Þorsteinn Loftsson, prófessor við Lyfjafræðideild Heilbrigðisvísindasviðs, Baldur Sigurðsson, dósent við Kennaradeild Menntavísindasviðs, fyrir framlag til kennslu, fyrir framlag til rannsókna, og Gréta Björk Kristjánsdóttir, rannsóknastjóri Verkfræði- og náttúruvísindasviðs, fyrir framlag til stoðþjónustu við rannsóknir.

g) Miðvikudaginn 20. nóvember sl. var haldinn fyrirlestur í röðinni „Fyrirtæki verður til“. Fyrirlesari að þessu sinni var Einar Stefánsson, prófessor við Læknadeild Heilbrigðisvísindasviðs og yfirlæknir við augndeild LSH. Bar fyrirlestur hans heitið „Vísindi og nýsköpun í augsýn“ og fjallaði um sprotafyrirtækin Risk, Oculis og Oxymap.

h) Fimmtudaginn 21. nóvember sl. veitti Rannsóknastofnun Ármanns Snævarr um fjölskyldumálefni (RÁS) þremur meistaranemum við Háskóla Íslands styrk vegna þátttöku þeirra í rannsókn á stöðu barna innan heilbrigðiskerfisins.

i) Hinn 21. nóvember sl. fór fram í Hátíðasal afhending Hagnýtingarverðlauna Háskóla Íslands, sbr. dagskrárlið 9c. Fyrstu verðlaun hlaut verkefnið „Verkfræðileg hönnun á efnahvötum: Áburður framleiddur á hagkvæmari hátt“. Að verkefninu standa Egill Skúlason, lektor við Raunvísindadeild, ásamt Younes Abghoui, Önnu Garden, Valtý Frey Hlynssyni, Snædísi Björgvinsdóttur og Hrefnu Ólafsdóttur. Önnur verðlaun hlaut Sigríður Guðrún Suman, dósent við Raunvísindadeild, fyrir verkefnið „Meðferð gegn blásýrueitrun“. Þriðju verðlaun voru veitt fyrir verkefnið „Þorskaslóð, þverfræðilegt frumkvæði í ferðaþjónustu“ og eru aðstandendur þess Ragnar Edvardsson og Guðbjörg Ásta Ólafsdóttir sem bæði starfa við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Vestfjörðum. Við athöfnina var Rögnvaldur Ólafsson, dósent í eðlisfræði og forstöðumaður Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands, heiðraður fyrir framlag sitt til rannsókna og nýsköpunar.

j) Föstudaginn 22. nóvember sl. var tilkynnt um að nefnd á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytisins og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins hefði veitt Íslenskuþorpinu Evrópumerkið 2013. Viðurkenningin er veitt fyrir árangursríka nýbreytni og frumleika í tungumálakennslu og tungumálanámi.

k) Miðvikudaginn 27. nóvember sl. var haldið málþing um tækifærin til virkjunar hugvits og mannlífs í Vatnsmýrinni.

l) Í lok nóvember sl. voru veittir styrkir úr Frumkvöðlasjóði Íslandsbanka til tveggja verkefna sem eiga rætur að rekja til rannsókna og starfs kennara og nemenda við Háskóla Íslands, sprotafyrirtækisins Marsýn ehf. og verkefnisins „hugbúnaður til aðgreiningar síldarstofna“.

m) Miðvikudaginn 27. nóvember sl. hélt Dennis Meadows, einn þekktasti fræðimaður heims á sviði sjálfbærrar þróunar, fyrirlestur í Hátíðasal undir yfirskriftinni „Endurskoðun hugtaksins sjálfbær þróun“.

n) Á fullveldisdaginn 1. desember sl. var haldin í þriðja sinn í Hátíðasal hátíð brautskráðra doktora með afhendingu gullmerkis Háskóla Íslands. Á tímabilinu frá 1. desember 2012 til 30. nóvember 2013 brautskráðust 53 doktorar frá Háskóla Íslands.

o) Þriðjudaginn 3. desember sl. fór fram úthlutun úr Þórsteinssjóði til styrktar blindum og sjónskertum.

p) Í lok nóvember var þremur rannsóknahópum við LSH veittir hvatningarstyrkir úr Vísindasjóði spítalans. Rannsóknahóparnir eru undir forystu Pálma V. Jónssonar, yfirlæknis og prófessors, Sigurðar Yngva Kristinssonar, sérfræðilæknis og prófessors, og Tómasar Guðbjartssonar, yfirlæknis og prófessors.

q) Í morgun, fimmtudaginn 5. desember, var haldið árlegt haustþing Rannís um nýlega samþykkta stefnu Vísinda- og tækniráðs. Á þinginu voru einnig veitt hvatningarverðlaun Rannís og féllu þau í skaut Jóns Gunnars Bernburg, prófessors í félagsfræði við Félagsvísindasvið Háskóla Íslands. Er þetta í fyrsta sinn sem fræðimaður á sviði félagsvísinda fær þessi verðlaun. Á þinginu tók rektor þátt í pallborði.

2.  Fjármál Háskóla Íslands. Staða, horfur og áætlun.

a) Staða og horfur varðandi fjárlög fyrir árið 2014.

b) Fjárhagsáætlun Háskóla Íslands fyrir árið 2014.


Inn á fundinn kom Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri fjármála og reksturs, og gerði grein fyrir stöðu og horfum í fjármálum og rekstri Háskóla Íslands. Málið var rætt ítarlega og svaraði Guðmundur spurningum fulltrúa í háskólaráði.

3. Niðurstöður háskólaþings 14. nóvember 2013.

a) Nýmæli á sviði gæða náms og kennslu.

b) Viðmið og kröfur um gæði meistaranáms.


Fyrir fundinum lá minnisblað um niðurstöður háskólaþings 14. nóvember 2013 og gerði rektor grein fyrir málinu.

– Bókanir háskólaþings 14. nóvember sl. staðfestar. Viðmið og kröfur um gæði meistaranáms við Háskóla Íslands samþykkt einróma.

4. Málefni Háskóla Íslands og Landbúnaðarháskóla Íslands, sbr. síðasta fund. Staða mála.

Rektor gerði grein fyrir stöðu mála varðandi mögulega sameiningu Háskóla Íslands og Landbúnaðarháskóla Íslands. Málið var rætt ítarlega og svaraði rektor spurningum ráðsmanna.

5.  Stofnun rannsóknasetra Háskóla Íslands. Framtíðarskipulag, sbr. síðasta fund.

Inn á fundinn kom Þórður Kristinsson, sviðsstjóri kennslusviðs. Fyrir fundinum lágu drög að breyttum reglum um Stofnun fræðasetra Háskóla Íslands nr. 480/2010. Rektor og Þórður gerðu grein fyrir málinu og var það rætt.

– Tillaga að breyttum reglum um Stofnun fræðasetra Háskóla Íslands nr. 480/2010 samþykkt með nokkrum orðalagsbreytingum. Svo breyttar reglur taka gildi 1. janúar 2014.

6. Málefni vísindasiðanefndar Háskóla Íslands.

a) Tillögur vísindasiðanefndar Háskóla Íslands um vísindasiðareglur.

b) Drög að verklagsreglum fyrir vísindasiðanefnd Háskóla Íslands.


Fyrir fundinum lágu endurskoðuð drög að vísindasiðareglum og drögum að verklagsreglum fyrir vísindasiðanefnd Háskóla Íslands. Inn á fundinn komu Jónína Einarsdóttir, prófessor og formaður vísindasiðanefndar Háskóla Íslands, og Halldór Jónsson, sviðsstjóri vísinda- og nýsköpunarsviðs, og gerðu grein fyrir málinu. Málið var rætt ítarlega og svöruðu þau Jónína og Halldór spurningum fulltrúa í háskólaráði. Í umræðunni komu fram ábendingar um fáein atriði sem betur mega fara í regludrögunum.

– Rektor falið að ganga frá vísindasiðareglum og verklagsreglum fyrir vísindasiðanefnd Háskóla Íslands í ljósi framkominna ábendinga. Reglurnar verða lagðar fram sem bókfært mál og þannig formlega samþykktar á næsta fundi háskólaráðs.

7. Áherslur í starfi Háskóla Íslands 2014.

Rektor gerði grein fyrir málinu. Á fundi háskólaráðs 5. september sl. var samþykkt starfsáætlun Háskóla Íslands fyrir starfsárið 2013-2014 og er rétt að uppfæra hana á miðju háskólaári. Óskaði rektor eftir því að fulltrúar í háskólaráði sendu henni tillögur að nýjum áherslumálum fyrir næsta fund ráðsins.

8.  Bókfærð mál.
a) Tillögur fræðasviða um fjöldatakmörkun í einstakar námsleiðir háskólaárið 2014-2015, ásamt viðeigandi breytingum á reglum nr. 153/2010 um takmörkun á inntöku nemenda í tilteknar námsgreinar við Háskóla Íslands.

– Eftirfarandi tillögur fræðasviða og deilda um takmörkun á fjölda nýnema háskólaárið 2014-2015 samþykktar (tölur í sviga sýna fjölda nýnema háskólaárið 2013-2014) sem og samsvarandi breytingar á reglum um takmörkun á inntöku nemenda í tilteknar námsgreinar við Háskóla Íslands nr. 153/2010:

I. Heilbrigðisvísindasvið
a. Læknadeild
- læknisfræði 48 (48)
- sjúkraþjálfun 35 (25)
- MS-nám í talmeinafræði 15 (-)
 b. Hjúkrunarfræðideild
- hjúkrunarfræði 95 (95)
- ljósmóðurfræði 10 (10)
c. Tannlæknadeild
- tannlæknisfræði 7 (7)
- tannsmíðanám 5 (5)
d. Sálfræðideild
- cand. psych. 20 (20)
e. Matvæla- og næringarfræðideild
- BS-nám í næringarfræði 30 (30)
II. Félagsvísindasvið
a. Félags- og mannvísindadeild
- MA-nám í blaða- og fréttamennsku 21 (21)
- MA-nám í náms- og starfsráðgjöf 35 (35)
b. Félagsráðgjafardeild
- MA-nám í félagsráðgjöf til starfsréttinda 30 (40)
c. Lagadeild
- Lögfræði 150 (-)

b) Tillögur fræðasviða um nýjar námsleiðir, ásamt viðeigandi breytingum á reglum fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009.

– Samþykkt.

c) Stjórn styrktarsjóða Háskóla Íslands.

– Samþykkt. Stjórnin verður áfram skipuð þeim Gylfa Magnússyni, dósent við Viðskiptafræðideild, formaður, Ásu Ólafsdóttur, dósent við Lagadeild, og Jóhanni Ómarssyni, viðskiptafræðingi. Varamaður verður Sigurður Jóhannesson, sérfræðingur hjá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands. Skipunartíminn er til þriggja ára.

9.  Mál til fróðleiks.

a) Samkomulag um rekstur Heilbrigðisvísindabókasafns LSH og HÍ.

b) 
Framgangur akademískra starfsmanna Háskóla Íslands 2013.

c) Hagnýtingarverðlaun Háskóla Íslands 2013.

d) Bæklingur í tilefni af hátíð brautskráðra doktora 1. desember 2013.

e) Árangursmælikvarðar Aldarafmælissjóðs Háskóla Íslands (viðauki 2 í samningi).

f) Stefna Vísinda- og tækniráðs 2013-2016.

g) Fréttabréf Félagsvísindasviðs, nóvember 2013.

h) Fréttabréf Heilbrigðisvísindasviðs, nóvember 2013.

10. Önnur mál.
a) Tillaga Félagsvísindasviðs um ráðningu í starf prófessors án auglýsingar, sbr. 36. gr. reglna Háskóla Íslands nr. 569/2009.

Fyrir fundinum lá tillaga Félagsvísindasviðs f.h. Lagadeildar um ráðningu Davíðs Þórs Björgvinssonar, prófessors við lagadeild Kaupmannahafnarháskóla, í 40% starf prófessors við Lagadeild á grundvelli 3. og 4. mgr. 36. gr. reglna nr. 569/2009 um Háskóla Íslands.

– Samþykkt einróma.

Fleira var ekki gert.

Fundi slitið 16.05.