Skip to main content

10. háskólaþing 19. apríl 2013

10. háskólaþing Háskóla Íslands haldið 19. apríl 2013 í Hátíðasal Háskóla Íslands í Aðalbyggingu

Fundartími: Kl. 13.00-16.00

Dagskrá
Kl. 13.00 – 13.05 Rektor setur háskólaþing, fer yfir dagskrá og tímaáætlun og gerir grein fyrir fundargögnum.
Kl. 13.05 – 13.20 Dagskrárliður 1. Rektor reifar mál sem eru efst á baugi hjá Háskóla Íslands.
Kl. 13.20 – 14.25 Dagskrárliður 2. Stefna Háskóla Íslands 2011-2016: Drög að stefnu Háskóla Íslands um opinn aðgang að rannsóknaniðurstöðum og lokaverkefnum.
Kl. 14.25 – 14.45 Fundarhlé.
Kl. 14.45 – 16.00 Dagskrárliður 3. Nýjar áskoranir og tækifæri fyrir kennslu og kennsluhætti: Vefstudd kennsla og nám.
Kl. 16.00 Rektor slítur háskólaþingi.

Kl. 13.00-13.05: Fundarsetning

Rektor setti háskólaþing Háskóla Íslands og bauð þingfulltrúa velkomna til starfa. Háskólaþing er haldið í samræmi við lög um opinbera háskóla nr. 85/2008 sem tóku gildi 1. júlí 2008 og var þetta 10. háskólaþing (sem áður hét háskólafundur) Háskóla Íslands. Sérstaklega bauð rektor velkomna þá fulltrúa sem mættir voru í fyrsta sinn á þingið. Jafnframt gesti frá öðrum stofnunum, þau Ólaf Baldursson, framkvæmdastjóra lækninga, fulltrúa Landspítala, Ingibjörgu Steinunni Sverrisdóttur landsbókavörð, Sigurð Ingvarsson, forstöðumann Rannsóknastöðvar Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum, Guðrúnu Kvaran, fulltrúa Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Sigurð Guðnason, fulltrúa Raunvísindastofnunar, Ernu G. Agnarsdóttur, fulltrúa Endurmenntunar Háskóla Íslands og Jón Atla Hermannsson, varaformann Stúdentaráðs.

Fundargerð síðasta háskólaþings var send fulltrúum fyrir þingið og bárust engar athugasemdir við hana. Þá gerði rektor grein fyrir tímaáætlun og gögnum fundarins og fól Magnúsi Diðriki Baldurssyni, skrifstofustjóra rektorsskrifstofu og gæðastjóra háskólans, að vera fundarritari.

Kl. 13.05-13.20 - Dagskrárliður 1: Rektor reifar mál sem eru efst á baugi hjá Háskóla Íslands

Rektor fór yfir helstu verkefni umliðins vetrar og stærstu mál framundan í starfi Háskóla Íslands.

Viðburðir að baki og framundan
• Hátíð brautskráðra doktora var haldin í Hátíðasal 1. desember sl.
• Brautskráning kandídata fór fram í Háskólabíói 23. febrúar sl.
• Háskóladagurinn var haldinn 9. mars sl.
• Fyrirlestraröðin „Fyrirtæki verður til“:
- Marel – Kristinn Andersen, rannsóknastjóri Marel (14. nóv. sl.)
- Actavis – Guðbjörg Edda Eggertsdóttir, forstjóri Actavis á Íslandi (22. jan. sl.)
- CCP – Hilmar Veigar Pétursson, framkvæmdastjóri (13. feb. sl.)

Ný lög er varða Háskóla Íslands
• Breyting á lögum um opinbera háskóla nr. 85/2008:
- Ákvæði um samstarf opinberu háskólanna undir forystu Háskóla Íslands
- Landbúnaðarháskólarnir falla nú undir lögin
• Lög nr. 53/2013 um stofnun opinbers hlutafélags um byggingu nýs Landspítala við Hringbraut í Reykjavík (opinber framkvæmd)
• Lög um Þjóðminjasafn Íslands nr. 57/2013
- Þjóðminjasafnið verður háskólastofnun
- Kveðið á um náið samstarf við Háskóla Íslands skv. sérstökum samstarfs- og þjónustusamningi

Háskóli Íslands – nokkrar tölulegar stærðir
• Stúdentar: 14.000.
- Grunnnám 9.600
- Meistaranám 3.900
- Doktorsnám 500
- Erlendir stúdentar 1.150
• Starfsfólk: 1.270, auk 2.000 stundakennara (1.300 starfsígildi).
- Prófessorar 261 (konur 27%)
- Dósentar 156 (konur 42%)
- Lektorar 150 (konur 57%)
- Aðjunktar 77  (konur 62%)
- Akademískir sérfræðingar 18 (konur 39%)
- Rannsóknarfólk 216 (konur 67%)
- Stjórnsýsla (þ.m.t. RHÍ og EHÍ) 338 (konur 72%)
- Tæknifólk 54 (konur 35%)
- Gestakennarar 45 (úr atvinnulífi, erlendum háskólum, stofnunum)
- Akademískir nafnbótarhafar 148 (flestir frá Landspítala)
• Heildartekjur: 16,9 milljarðar kr.
- þar af 1,8 milljarðar vegna byggingarframkvæmda
- 2/3 ríkisframlag
- 1/3 sértekjur

Fjármál
• Raunhækkun fjárveitinga í fyrsta sinn eftir efnahagshrun
• Nemendaígildum sem ekki er greitt fyrir fækkar umtalsvert
• Hækkun í 3. umræðu um fjárlög varið innanhúss til hækkunar á lægsta reikniflokki
• Áætlaðar heildartekjur Háskóla Íslands eru 16,9 milljarðar kr.
• Ríkisframlag er 10,4 milljarðar kr. (61,5%  af heildartekjum)
• Sértekjur eru 6,5 milljarðar kr. (38,5% af heildartekjum)
• Nýleg samþykkt ríkisstjórnar: 35 m.kr. framlag til kaupa á örgreini fyrir jarðvísindin

Úthlutun úr Aldarafmælissjóði
• Til ráðstöfunar 2012-2014: 1.050 m.kr.
• Árleg skipting fjármuna:
- Beint til fræðasviða (40% eða 140 m.kr. á ári), ráðstafað skv. ákvörðun fræðasviða
- Nýliðunarsjóður (35% eða 122,5 m.kr.), 10 nýdoktorastörf sumarið 2013 og 7 störf lektora auglýst vorið 2013
• Innviðir (15% eða 52,5 m.kr. á ári)
- Úthlutað hefur verið til fræðasviða samtals 157,5 m.kr. til ráðstöfunar í samræmi við fyrirliggjandi forgangsröðun hvers fræðasviðs
• Sameiginleg verkefni (10% eða 35 m.kr. á ári)
- Verður ráðstafað í stuðning við sjóðasókn erlendis, Kennslumálasjóð, rafræna fjarkennslu, nýsköpun og hagnýtingu hugverka, Afreks- og hvatningarsjóð o.fl.

Áhersluverkefni 2012-2013
• Rannsóknir og nýsköpun
- Stefna um opinn aðgang
- Endurskoðun starfsemi Rannsóknaþjónustu og yfirfærsla verkefna til Rannís
- Aukin tengsl við atvinnulíf á öllum fræðasviðum
- Sameining Innovit og Klaks í undirbúningi. Nýtt fyrirtæki verður staðsett í Tæknigarði. Veitir stúdentum og brautskráðum kandídötum margs konar þjónustu í tengslum við hagnýtingu hugverka og stofnun og þróun sprotafyrirtækja
- Vísindagarðar
- Íslendingaappið. Þrír nemendur í hugbúnaðarverkfræði við Háskóla Íslands
• Gæðamál stjórnsýslu
- Gæðahandbók – verkferlar
• Kennsla
- Upplýsingatækni og vefstudd kennsla (MOOC‘s)
- Endurskoðun stefnu um inntökukröfur og námsástundun –  aðgangsprófi beitt í fyrsta sinn við Hagfræðideild vorið 2012. Lagadeild 2014
- Endurskoðun kennslukönnunar í grunn- og framhaldsnámi. Undirbúningur miðmisseriskönnunar sem verður lögð fyrir í byrjun október 2013
- Endurskoðun starfsemi Alþjóðaskrifstofu og yfirfærsla verkefna til Rannís
• Mannauður
- Vinnustaðakönnun meðal starfsmanna, skv. Stefnu Háskóla Íslands 2011-2016
- Starfsmanna Uglan – innri vefur starfsmanna -breytingar kynntar fljótlega
- Aðlögun Uglu fyrir snjallsíma og spjaldtölvur
- Skýrsla um stöðu og þróun jafnréttismála – eftirfylgni
- Ný jafnréttisáætlun í undirbúningi

Gæðamat innan Háskóla Íslands
Allar deildir og þverfræðilegar námsbrautir, samtals 27 einingar, fara í sjálfsmat á tímabilinu 2011-2015:
• 2011-2012
- Íslensku- og menningardeild (Hugvísindasvið) – lokið
- Jarðvísindadeild (Verkfræði- og náttúruvísindasvið) – lokið
- Lýðheilsuvísindi (Þverfræðileg námsleið) – lokið
- Stjórnmálafræðideild (Félagsvísindasvið) – lokið
- Umhverfis- og auðlindafræði (þverfræðileg námsleið) – lokið
• 2012-2013
- Deild erlendra tungumála, bókm. og málvísinda (Hugvísindasvið) – á lokastigi
- Félags- og mannvísindadeild (Félagsvísindasvið) – á lokastigi
- Félagsráðgjafardeild (Félagsvísindasvið) – í vinnslu
- Hagfræðideild (Félagsvísindasvið) – í vinnslu
- Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild (Verkfræði- og náttúruvísindasvið) – í vinnslu
- Matvæla- og næringarfræðideild (Heilbrigðisvísindasvið) – í vinnslu
- Sálfræðideild (Heilbrigðisvísindasvið) – á lokastigi
- Umhverfis- og byggingarverkfræðideild (Verkfræði- og náttúruvísindasvið) – í vinnslu
- Uppeldis- og menntunarfræðideild (Menntavísindasvið) – lokið
- Viðskiptafræðideild (Félagsvísindasvið) – í vinnslu
• 2013-2014
- Hjúkrunarfræðideild (Heilbrigðisvísindasvið) – í undirbúningi
- Íþrótta- tómstunda- og þroskaþjálfadeild (Menntavísindasvið) – í undirbúningi
- Lyfjafræðideild (Heilbrigðisvísindasvið) – í undirbúningi
- Raunvísindadeild (Verkfræði- og náttúruvísindasvið) – í undirbúningi
- Sagnfræði- og heimspekideild (Hugvísindasvið) – í undirbúningi
• 2014-2015
- Guðfræði- og trúarbragðafræðideild (Hugvísindasvið)
- Kennaradeild (Menntavísindasvið)
- Lagadeild (Félagsvísindasvið)
- Líf- og umhverfisvísindadeild (Verkfræði- og náttúruvísindasvið)
- Læknadeild (Heilbrigðisvísindasvið)
- Rafmagns- og tölvuverkfræðideild (Verkfræði- og náttúruvísindasvið)
- Tannlæknadeild (Heilbrigðisvísindasvið)
• 2014-2015
- Mat á Háskóla Íslands í heild

Áherslumál í aðdraganda alþingiskosninga 27. apríl 2013
• Festa farveg fyrir eftirfylgni ákvæðis samnings um Aldarafmælissjóð
- viðræður hefjist á árinu 2013 um fjármögnun HÍ 2015-2020 þannig að tekjur verði sambærilegar við meðaltal fjármögnunar háskóla í OECD löndum og Norðurlöndum
- með aðkomu forsætisráðuneytis, Alþingis, mennta- og menningarmálaráðuneytis, fjármálaráðuneytis og Háskóla Íslands
• Festa farveg fyrir viðræður um sértækan fjárhagsvanda Heilbrigðisvísindasviðs
- með aðkomu velferðarráðuneytis, mennta- og menningarmálaráðuneytis og Háskóla Íslands
• Samtöl við forystumenn stjórnmálaflokka
• Fundir með frambjóðendum – Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála, Stjórnmálafræðideild, Félag prófessora, Vísindafélag Íslendinga o.fl.

Alþjóðleg staða Háskóla Íslands
• Skipulegt samstarf við gagnagrunn Thomson Reuters (ISI) um áreiðanleika gagna um Háskóla Íslands
• Háskóli Íslands hefur nýverið fengið greiðari aðgang að gögnum sem liggja til grundvallar röðun í gegnum INCITES-hugbúnaðinn
• Nýr matslisti fyrir árið 2014 verður birtur í október nk.
• Röðun Háskóla Íslands hefur haft umtalsverð áhrif á stöðu og orðspor skólans á alþjóðlegum vettvangi og skapað margvísleg tækifæri

Umfang og gæði rannsókna við Háskóla Íslands – árangur 2005-2012
• Alþjóðlegar birtingar (ISI) – aukning um 134%
• Tilvitnanir – aukning um 280%
• Erlendir samkeppnissjóðir – aukning um 224%

Rannsóknasjóður Vísinda- og tækniráðs 2013
• Samtals úthlutað 416 m.kr., sem skiptast þannig:
- Öndvegisstyrkir (41 m.kr., 10%)
- Rannsóknastöðustyrkir (58 m.kr., 14%)
- Verkefnastyrkir (317 m.kr., 76%)
• Hlutdeild starfsmanna Háskóla Íslands 315 m.kr. (76%)
• Báðir öndvegisstyrkir ársins komu í hlut starfsmanna Háskóla Íslands
- Eiríkur Steingrímsson, prófessor við Læknadeild,. hlaut rúmlega 25 m.kr. vegna verkefnisins MITF transcription factor network in melanocytes and melanoma
- Tómas Grétar Gunnarsson, forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Suðurlandi, hlaut tæplega 16 m.kr. styrk vegna verkefnisins Integrating migratory bird conservation into land-management strategies in lowland Iceland

Nýlegir styrkir til nemenda og kennara
• Þrír styrkir úr Rannsóknarsjóði Hrafnistu (feb.) – tveir starfsmenn og einn doktorsnemi af Heilbrigðisvísindasviði
• Styrkir úr Orkurannsóknarsjóði Landsvirkjunar (feb.) – hópur kennara og nemenda af Verkfræði- og náttúruvísindasviði
• Verðlaunasjóður Bergþóru og Þorsteins Schevings Thorsteinssonar lyfsala (feb.) – þrír doktorsnemar við Lyfjafræðideild Háskóla Íslands
• Watanabe styrktarsjóðurinn við Háskóla Íslands (apr. ) – tveir nemendur og einn kennari Háskóla Íslands
• Styrktarsjóður Margrétar og Bent Scheving Thorsteinssonar (maí)
• Sjóður Sigríðar Lárusdóttur – styrkur til rannsókna á sviði bæklunarlækninga (maí)
• Háskólasjóður Eimskipafélags Íslands / Rannsóknasjóður Háskóla Íslands – 158 umsóknir um doktorsstyrki við Háskóla Íslands (maí)

Sumarnám við bandaríska háskóla í fremstu röð
• Á síðustu árum hefur nemendum við Háskóla Íslands í auknum mæli gefist kostur á að stunda sumarnám við öfluga bandaríska háskóla
• Sumarið 2013:
- Þrír nemendur fara til California Institute of Technology (Caltech)
- 12 nemendur fara til Stanford háskóla
- Nýr samningur við Purdue háskóla – 2 nemendur fara

Nýlegir samningar
• RannUng og Reykjavíkurborg
- Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar og RannUng (Rannsóknastofa í menntunarfræðum ungra barna) efla rannsóknasamstarf á sviði menntunar og uppeldi ungra barna
• Endurnýjun samnings Umhverfis- og byggingarverkfræðideildar og EFLU
- Samningur um rannsóknir og kennslu á sviði mannvirkjahönnunar
• Samningur við mennta- og menningarmálaráðuneytið um fjármögnun Rannsóknasetra Háskóla Íslands á landsbyggðinni
• Samningur fjármála- og efnahagsráðuneytis og Stjórnmálafræðideildar
- Efling nýsköpunar í opinberum rekstri
• Vísindagarðar Háskóla Íslands ehf. og lyfjaþróunarfyrirtækið Alvogen
- Viljayfirlýsing um faglegt samstarf og mögulega uppbyggingu lyfjaþróunarseturs
• Háskóli Íslands, SÁÁ og Íslensk erfðagreining
- Rannsóknir og kennsla í félags- og heilbrigðisvísindum á sviði fíknar
• Alþjóðleg tungumálamiðstöð við Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum starfar undir merkjum UNESCO

Byggingarframkvæmdir
• Hús íslenskra fræða
- Fyrsta skóflustunga tekin 1. mars 2013
- Áætlaður kostnaður 3 milljarðar kr.
- 6000 m2 (HÍ hluti 2000 m2)
- Arkitektastofan Hornsteinar arkitektar ehf.
• Hús Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum
- Áætlaður kostnaður 1,4 ma. króna
- 3000 m2
- Arkitektastofan Arkitektúr.is
• Landspítali háskólasjúkrahús og nýbygging við Læknagarð fyrir  Heilbrigðisvísindasvið HÍ
- Læknagarður 10.000 m2
- Nýbygging 9.300 m2
• Aðrar framkvæmdir
- Viðbygging við Háskólatorg – stækkun á 1. og 2. hæð Háskólatorgs – 750 m2
- Nýir Stúdentagarðar á háskólasvæðinu – áætlað að framkvæmdum ljúki 2013
- Nýtt hús fyrir Menntavísindasvið á horni Hjarðarhaga og Suðurgötu – deiliskipulag samþykkt og á fjárfestingaáætlun stjórnvalda 2015
• Brýnn húsnæðisvandi Verkfræði- og náttúruvísindasviðs – til skoðunar
• Bókastofan í Aðalbyggingu – opnuð í mars 2013
Ýmsir viðburðir framundan
• Málþing um samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða 30. apríl nk.
- Jafnréttisnefnd háskólaráðs í samstarfi við jafnréttisnefndir fræðasviða og jafnréttisnefnd SHÍ
• Með fróðleik í fararnesti
- Sex gönguferðir í samstarfi við Ferðafélag Íslands
• Apríl – heilsumánuður með fjölbreyttri dagskrá
- Háskólahlaupið 8. maí. Hjólað í vinnuna 8.-28. maí
• Háskólalestin á Patreksfirði (10.5.), Sauðárkróki (17.5.) og Neskaupstað (24.5.)
• Úthlutun úr Afreks- og hvatningarsjóði Háskóla Íslands í júní nk.
• Háskóli unga fólksins 10.-14. júní nk.
• Brautskráning kandídata í Laugardalshöll 22. júní nk.
• „Fjársjóður framtíðar“ – sex nýir sjónvarpsþættir um vísindin í Háskóla Íslands sýndir í RÚV vorið 2013

Kl. 13.20-14.25 - Dagskrárliður 2: Stefna Háskóla Íslands 2011-2016: Drög að stefnu Háskóla Íslands um opinn aðgang að rannsóknaniðurstöðum og lokaverkefnum

Elín Soffía Ólafsdóttir, prófessor við Lyfjafræðideild og fulltrúi í starfshópi um opinn aðgang að rannsóknaniðurstöðum og lokaverkefnum, gerði grein fyrir málinu.

Starfshópur rektors – drög að stefnu um opinn aðgang (OA) fyrir Háskóla Íslands
• Eiríkur Rögnvaldsson, formaður
• Áslaug Agnarsdóttir
• Elín Soffía Ólafsdóttir
• Gunnhildur Björnsdóttir
• Jóhanna Gunnlaugsdóttir
• Viðar Guðmundsson
• Með hópnum starfaði Baldvin Zarioh deildarstjóri á Vísindasviði

Forsagan – hvers vegna OA?

Berlínaryfirlýsingin (okt. 2003)
• Ráðstefna The Max Planck Society for the Advancement of Science
• Berlin declaration on open access to knowledge in the sciences and humanities:
• „Our mission of disseminating knowledge is only half complete if the information is not made widely and readily available to society“
• „Establishing open access as a worthwhile procedure ideally requires the active commitment of each and every individual producer of scientific knowledge and holder of cultural heritage“
• 31. janúar 2013 höfðu 417 stofnanir undirritað yfirlýsinguna (2011/324)
http://oa.mpg.de/lang/en-uk/berlin-prozess/berliner-erklarung/

Þróun OA birtinga 1993-2009

Línurit: Þróun OA birtinga frá 1993 til 2009

Laakso, M.; Welling, P.; Bukvova, H.; Nyman, L.; Björk, B. C.; Hedlund, T. (2011). „The Development of Open Access Journal Publishing from 1993 to 2009“. In Hermes-Lima, Marcelo. PLoS ONE 6 (6): e20961.

Hvernig skal birta? Hver borgar?
• Lokaður aðgangur – kaupa þarf aðgang
• Höfundar senda niðurstöður sínar til birtingar á alþjóðavettvangi (frítt), útgáfufyrirtæki og tímarit „eiga“ ritverkið og selja aðgang að því
• Opinn aðgangur – frítt aðgengi fyrir alla
• Gullna leiðin: höfundar birta í OA gegn borgun
• Græna leiðin: höfundar birta með „gamla laginu“ (frítt) en fá leyfi til að vista lokaskjal sitt í opnu, rafrænu,varðveislusafni í sínum háskóla

Open Access to the Scientific Journal Literature: Situation 2009
Björk et al. (2010). „Open Access to the Scientific Journal Literature: Situation 2009“. PLoS ONE 5 (6): e11273.

Drög að stefnu Háskóla Íslands um OA
• Háskóli Íslands leggur áherslu á að sem flestir geti notið afurða þess vísindastarfs sem unnið er innan skólans
• Skólinn ætlast því til þess af akademískum starfsmönnum sínum að þeir birti fræðigreinar sínar á vettvangi þar sem aðgangur er opinn og ókeypis, svo sem í tímaritum í opnum aðgangi, safnvistun, forprentagrunnum, eða á annan hátt
• Akademískir starfsmenn skulu veita vísindasviði án endurgjalds rafrænan aðgang að lokaútgáfu vísindagreina sinna ekki seinna en á útgáfudegi
• Þetta má gera með því að afhenda greinarnar á viðeigandi formi (svo sem PDF), senda krækju á veffang opins aðgangs að greinunum, eða á annan hátt samkvæmt nánari reglum
• Skólanum er heimilt að vista greinarnar og gera þær aðgengilegar í opnum gagnagrunnum s.s. Skemmunni (opnu, rafrænu varðveislusafni)
• Undanskildar þessum ákvæðum eru vísindagreinar sem lokið var við fyrir gildistöku þessarar samþykktar og greinar sem vinna var hafin við fyrir gildistökuna og um gilda skilmálar sem ekki falla að samþykktinni
• Vísindasvið mun jafnframt undanskilja einstakar vísindagreinar frá samþykktinni, eða seinka birtingu þeirra um tiltekinn tíma, beri viðkomandi starfsmaður fram rökstudda skriflega ósk þess efnis
• Afrakstur vísindastarfs innan Háskóla Íslands kemur einnig fram í lokaverkefnum stúdenta, bæði í grunn- og framhaldsnámi. Skólinn leggur áherslu á að þessi verkefni séu gerð öllum aðgengileg eftir því sem kostur er, samkvæmt nánari reglum þar um
• Vísindasvið ber ábyrgð á túlkun samþykktarinnar, lausn ágreiningsmála og tillögum um endurbætur þegar við á
• Hafa skal samráð við kennslusvið í málum sem varða lokaverkefni stúdenta
• Samþykktin verður endurskoðuð innan þriggja ára og skýrsla um framkvæmd hennar kynnt fyrir akademískum starfsmönnum

Krafa rannsóknasjóða og stofnana um OA
• Rannís
• Evrópusambandið
• Sívaxandi fjöldi styrktarsjóða
• Úr stefnu Rannís: „Í þeim tilvikum, þar sem útgefandi tímarits leyfir ekki birtingu greina í opnum varðveislusöfnum, samtímis eða  innan sex mánaða frá birtingu í tímaritinu, skal höfundur krefjast undanþágu ella birta í öðru tímariti.“

Rektor þakkaði Elínu Soffíu fyrir kynninguna og gaf orðið laust.

Forseti Hugvísindasviðs þakkaði fyrir góða kynningu og spurði, hvaða ástæður væru fyrir því að ekki væri getið um hugvísindi á yfirlitsmyndinni um birtingartíðni í opnum aðgangi á ýmsum fagsviðum.

Svaraði Elín Soffía því til að algengt birtingarform á sviði hugvísinda væri í formi bóka og bókakafla og bækur féllu ekki undir opinn aðgang.

Aðstoðarrektor vísinda og kennslu sagðist styðja fyrirliggjandi drög að stefnu Háskóla Íslands um opinn aðgang að rannsóknaniðurstöðum og lokaverkefnum. Það væri kostur að drögin væru ekki eins afdráttarlaus og t.d. stefna Rannís heldur væri meginreglan sú að birta í opnum aðgangi um leið og gert væri ráð fyrir undanþágum eftir því sem við á. Þetta væri í samræmi við stefnu háskóla á borð við Harvard í Bandaríkjunum. Háskóli Íslands legði áherslu á birtingar á vettvangi sem gerir strangar fræðilegar kröfur og of afdráttarlaus stefna mætti ekki verða til að vinna gegn því markmiði. Því væri skynsamlegt að hafa sveigjanlega stefnu, fylgjast með þróuninni á alþjóðlegum vettvangi og endurskoða stefnuna eftir ástæðum að fáum árum liðnum. Loks sagðist aðstoðarrektor ekki hrifinn af hinni svokölluðu „gullnu leið“ þar sem greiða þyrfti verulegar fjárhæðir fyrir birtingar.

Deildarforseti Félags- og mannvísindadeildar sagði það vera sameiginlegt hagsmunamál okkar allra að birta sem mest í opnum aðgangi, en tók jafnframt undir sjónarmið aðstoðarrektors og sagðist styðja framlögð stefnudrög.

Deildarforseti Jarðvísindadeildar sagði það vera mikilvægt að Háskóli Íslands fylgdi þeim meginstraumum sem ríktu í hinum alþjóðlega vísindaheimi – og straumurinn lægi í átt til birtingar í opnum aðgangi. Jafnframt væri mikilvægt að kynna vel hvað opinn aðgangur þýddi og hvað í honum fælist. Mjög dýrt væri að birta í opnum aðgangi í bestu tímaritunum. Þegar til kastanna kæmi fengju viðkomandi vísindamenn sendan reikning fyrir birtingu í tímaritum og því lenti málið með einum eða öðrum hætti á þeim sjálfum. Mikilvægt væri að gera sér grein fyrir því um hve háan kostnað væri að ræða. Á vettvangi jarðvísindanna væru t.d. birtar um 40-50 greinar á ári, flestar í lokuðum aðgangi. Ef greiða ætti fyrir opinn aðgang að þeim öllum mætti gera ráð fyrir kostnaði sem hlypi á nokkrum tugum milljóna króna á ári.

Elín Soffía sagði það vera mikilvægt að samfara mótun almennrar stefnu um opinn aðgang yrðu skilgreindir verkferlar og vinnulag, auk þess sem fram þyrfti að fara víðtæk kynning á málinu innan háskólans. Ef farin yrði „gullna leiðin“ þyrftu rannsóknasjóðir sem gera strangar kröfur um birtingar í opnum aðgangi að meta viðbótarkostnað og fá fjárveitingar eða styrki til að mæta honum.

Fulltrúi í starfshópi um mótun stefnu Háskóla Íslands varpaði fram þeirri spurningu hvort e.t.v. væri skynsamlegra að nota slíka peninga frekar í landsaðgang að tímaritum.

Varadeildarforseti Umhverfis- og byggingarverkfræðideildar þakkaði starfshópnum fyrir góða vinnu og Elínu Soffíu fyrir kynninguna. Lýsti hann ánægju með fyrirliggjandi stefnudrög og sagði þau skynsamlegri en stefnu Rannís um opinn aðgang sem byggði á „gullnu leiðinni“. Sagði varadeildarforsetinn það vera mistök því „gullna leiðin“ fæli alls ekki í sér opinn aðgang. Að greiða tugi eða hundruð þúsunda króna fyrir opinn aðgang að vísindagrein væri í reynd áskriftarleið eða fyrirfram áskrift sem malaði gull fyrir vísindatímaritin. Við þetta bættist að í reynd stæðu vísindamennirnir undir allri starfsemi tímaritanna, sem höfundar, ritstjórar, ritnefndir og ritrýnar, en fengju vanalega ekki greitt fyrir þá vinnu. Einnig þyrfti að hafa í huga að bókasöfn gætu komist yfir allar birtingar í gegnum millisafnalán. Ósiðlegt væri að sóa skattfé almennings sem ætti með réttu að fara í menntakerfið með háum greiðslum til tímarita. Til að bregðast við þessu væru sum bókasöfn byrjuð að fara þá leið að kaupa aðeins aðgang/áskrift þegar fram kæmi ósk um uppflettingu, en ekki almennt og óháð eftirspurn. Í ljósi alls þessa sagði varadeildarforsetinn réttast að banna „gullnu leiðina“ innan Háskóla Íslands.

Kjörinn fulltrúi Félagsvísindasviðs þakkaði Elínu Soffíu fyrir framsöguna og starfshópnum fyrir vinnuna. Sagði fulltrúinn að hér væri á ferðinni mjög áhugavert mál fyrir heim vísinda og fræða. Aðgangur væri ekki aðeins að opnast að tímaritum heldur væri það líklega aðeins spurning um tíma hvenær aðgangur að bókum yrði einnig opnaður. Varðandi framkvæmdina innan Háskóla Íslands varpaði fulltrúi Félagsvísindasviðs fram þeirri spurningu, hvort birting í opnum aðgangi væri valkvæð fyrir vísindamenn eða hvort hún væri afdráttarlaus skylda þeirra og undir vísindasviði komið að heimila eftir atvikum undanþágur. Þá vék fulltrúinn að því sem fram kom í kynningunni, að nú þegar hefðu 417 stofnanir undirritað Berlínar-yfirlýsinguna um opinn aðgang, og spurði hvers konar stofnanir hér væru á ferð og hvort þeirra á meðal væru háskólar á Norðurlöndum? Einnig varpaði fulltrúinn fram þeirri spurningu, hvort opinn aðgangur kippti ekki forsendunum undan tímaritunum, þ. á m. íslenskum tímaritum, og svipti þau með því tilvistargrundvelli sínum? Loks vék fulltrúi Félagsvísindasviðs nokkrum orðum að framsetningu fyrirliggjandi stefnudraga og sagði þau þarfnast heldur meiri vinnslu, t.d. þyrfti að setja nákvæmari reglur um skyldur vísindamanna í þessum efnum, kveða á um að vísindasvið hafi með höndum lausn ágreiningsmála o.fl. Fyrirliggjandi stefnudrög fælu m.ö.o. í sér grundvallarbreytingu til hins betra, en hugsa þyrfti öll skref sem fylgdu í kjölfarið og útfæra reglur og ferla nákvæmlega.

Elín Soffía þakkaði fyrir gagnlegar ábendingar og tók undir það sjónarmið að vinnunni væri ekki lokið, t.d. ætti eftir að greina áhrif stefnunnar og útfæra ferla og reglur. Varðandi spurningu fulltrúa Félagsvísindasviðs um það, hvers konar stofnanir hefðu undirritað Berlínar-yfirlýsinguna sagði hún að hér væru á ferðinni bæði háskólar og rannsóknastofnanir. Þá hefði starfshópurinn kynnt sér stefnu ýmissa annarra háskóla, bæði í Bandaríkjunum og á Norðurlöndum, enda væru langflestir háskólar þar búnir að móta sér stefnu um málið. Varðandi spurninguna, hvort birting í opnum aðgangi væri valkvæð, sagði Elín Soffía að svo væri strangt til tekið ekki því vísindamennirnir hefðu ekki ótakmarkað frelsi til að gera það sem þeim sýndist. Stefnuyfirlýsingum um opinn aðgang væri m.a. ætlað að hafa áhrif á hegðun vísindamanna og því væri meginreglan orðuð frekar afdráttarlaust. Varðandi áhrif opins aðgangs á tímarit, þ. á m. íslensk tímarit, sagði hún starfshópinn ekki hafa rannsakað það sérstaklega en þó væri auðvitað mikilvægt að huga að því. Varðandi tímaritin sagði Elín Soffía að m.a. hefði verið nefnd sú leið að innleiða birtingartöf þannig að með tímanum yrði opnaður aðgangur að t.d. eldri tölublöðum.

Varadeildarforseti Raunvísindadeildar þakkaði fyrir góðar umræður og sagðist taka undir margt af því sem fram hefði komið. Lýsti hann þeirri skoðun sinni að hann væri almennt mjög fylgjandi opnum aðgangi og væri að sama skapi algjörlega mótfallinn því að greiða fyrir birtingar í tímaritum sem reka sig á áskriftum, enda væri þá verið að tvígreiða fyrir birtinguna. Ef greitt yrði fyrir aðganginn þyrfti Raunvísindadeild að greiða um 200 m.kr. fyrir sínar birtingar sem væri svipuð fjárhæð og nú væri greidd fyrir landsaðganginn. Spurningin væri hins vegar, hvernig bilið yrði brúað frá núverandi stöðu og þar til kominn væri á opinn aðgangur. Að lokum varpaði varadeildarforseti Raunvísindadeildar fram þeirri spurningu, hvaðan heimildin væri komin sem getið væri um í stefnudrögunum með orðunum „Skólanum er heimilt að vista greinarnar og gera þær aðgengilegar í opnum gagnagrunnum, s.s. Skemmunni“?

Elín Soffía brást við framkomnum spurningum og ábendingum og sagði að höfundar þyrftu að fá heimild frá viðkomandi tímaritum til að mega birta greinar sínar í opnum aðgangi. Þá sagði hún að í fyrirliggjandi stefnudrögum væri alls ekki verið að segja höfundum að nota „gullnu leiðina“ og ef t.d. allir höfundar myndu einbeita sér að „grænu leiðinni“ gæti það gengið af þeirri gullnu dauðri þegar til lengdar léti. Bætti hún því við að langflest tímarit leyfðu „grænu leiðina“ og væri það val höfundarins. Ef höfundur vildi t.d. birta í Nature sækti hann sérstaklega um það.

Annar fulltrúi í starfshópnum benti á að til væri breskur listi, SHERPA/RoMEO (http://www.sherpa.ac.uk/romeo/), yfir tímarit sem birti yfirlit um hvaða leiðir væru opnar í hverju tímariti fyrir sig. Einnig sagði fulltrúinn að almennt þætti nú á tímum „græna leiðin“ lang heppilegust og „gullna leiðin“ væri líklega á leið út.

Áheyrnarfulltrúi frá mennta- og menningarmálaráðuneyti benti á að forsætisráðherra Íslands væri eini aðilinn hér á landi sem hefði undirritað Berlínar-yfirlýsinguna og að það myndi væntanlega leiða til lagabreytinga í þá veru að allar vísindagreinar þyrfti að birta í opnum aðgangi. Þetta væri jafnframt ástæðan fyrir því hve afdráttarlaus stefna Rannís væri, en hvernig hún yrði nákvæmlega útfærð ætti eftir að koma í ljós. Jafnframt væri mikilvægt að hafa í huga að stefna Rannís tæki ekki til hugverkaréttar og nauðsynlegt að halda honum aðgreindum frá opnum aðgangi.

Fulltrúi Landsbókasafns-háskólabókasafns fagnaði því að umræða um stefnu Háskólans um opinn aðgang væri komin á dagskrá. Þakkar hún þeim sem tóku þátt í vinnunni og veittu umsagnir. Sagði fulltrúinn að Landsbókasafn-háskólabókasafn hefði einnig undirritað Berlínar-yfirlýsinguna og hvatti hann Háskóla Íslands til að gera það einnig. Sagði hún að starfsfólk bókasafna styddi almennt opinn aðgang, enda væru söfnin iðulega í klemmu gagnvart útgefendum, s.s. með því að þurfa að tvígreiða fyrir aðgang eins og fram kom í máli annars fulltrúa. Þá hefðu tímaritin hækkað áskriftargjöld sín á fárra ára fresti sem hefði hleypt kostnaði upp. Einnig vék fulltrúinn að mikilvægi þess að styðja við vísindamenn sem ætluðu að birta greinar og leiðbeina þeim um hvernig best væri að standa að því. Þá benti fulltrúi Landsbókasafns-háskólabókasafns á nýja vefsíðu, gogn.island.is, þar sem væri að finna ýmis opinber gögn í opnum aðgangi. Safnið hefði opnað aðgang að lýsigögnum og næst í röðinni væri hljóðbókaskráin sem væri hluti af Gegni. Að endingu vék fulltrúinn stuttlega að tveimur öðrum málum. Annað málið væru í undirbúningi kaup á svokölluðu CRIStin-upplýsingakerfi fyrir Ísland, en hlutverk kerfisins væri að halda utanum rannsóknir og birtingar. Landsbókasafn-háskólabókasafn hefði sýnt því áhuga að reka þetta kerfi, en ekki hefði verið tekin ákvörðun um það. Hitt málið væri geymsla hrágagna, en mikið væri nú rætt um framtíðarfyrirkomulag þeirra mála, þ.e. hvar og hvernig þau yrðu geymd svo tryggt væri að þau myndu varðveitast.

Varaforseti Umhverfis- og byggingarverkfræðideildar kvaddi sér aftur hljóðs og vakti athygli á því að ósamræmi væri á milli þess að styðja opinn aðgang annars vegar en heimila um leið að lokaverkefni nemenda gætu verið lokuð jafnvel árum síðar. Í því sambandi væru iðulega notuð þau rök að ritgerðirnar yrðu notaðar síðar í vísindagreinar. Þetta stangaðist þó á við það að jafnvel þar sem tímarit væru með lokaðan aðgang gerðu þau undantekningar varðandi heimild til að efnið mætti hafa birst áður í formi ritgerðar. Þetta gilti m.a.s. í Bandaríkjunum þegar í hlut ættu ritgerðir með efni sem væri mikilvægt fyrir hernað. Örðugt væri að koma auga á að lokaritgerðir nemenda á Íslandi geymdu svo mikilvæg leyndarmál að það réttlæti lokun þeirra.

Sviðsstjóri vísindasviðs lagði orð í belg og sagði að Háskóli Íslands hvetti vísindamenn til birtinga eftir ýmsum leiðum. Í því sambandi væri mikilvægt að vísindasvið hindraði ekki birtingar jafnvel á síðustu stigum. Varðandi stefnuna um opinn aðgang sagði sviðsstjórinn að í sjálfu sér lægi ekki mikið á að ljúka málinu heldur væri skynsamlegt að gefa sér þann tíma sem þyrfti til að vinna úr tillögum starfshópsins og framkomnum umsögnum og umræðum á háskólaþingi.

Fulltrúi Félags háskólakennara sagði að opinn aðgangur að vísindum og þekkingu væri mikið réttlætismál fyrir heimsbyggðina. Á sviði jarðvísinda hefðu evrópsk tímarit nú þegar opnað sig mikið og mætti segja að stefnan um opinn aðgang væri á bestu leið með að verða ráðandi þar. Einnig væri verið að stofna ný tímarit sem gagngert birtu í opnum aðgangi og þjónaði þetta jafnframt þeim tilgangi að þau gætu klifið hratt upp metorðastigann og fest sig í sessi á tímaritamarkaðnum.

Aðstoðarrektor vísinda og kennslu beindi sjónum að vefnum Google Scholar og sagði mikilvægt að hvetja háskólafólk til að byggja hann upp og nýta sér hann. Til dæmis um gagnsemi vefsins mætti nefna að í sumum tilvikum birtu t.d. meðhöfundar greinar í opnum aðgangi þótt viðkomandi tímarit væri lokað og þannig næðist aðgangur gegnum Google Scholar.

Að lokum þakkaði Elín Soffía fyrir góðar umræður og tók undir framkomnar ábendingar um að Háskóli Íslands ætti að gefa sér góðan tíma til að vinna vandaða stefnu og skilgreina í kjölfarið skýra verkferla og kynna málið vel meðal vísindamanna. Lauk hún máli sínu með því að segja það vera á valdi hvers vísindamanns hvar hann birti greinar sínar og ef vísindamenn tækju höndum saman gætu þeir breytt birtingaheiminum til hins betra.

Að umræðu lokinni þakkaði rektor Elínu Soffíu og starfshópnum fyrir vandaða vinnu og fundarmönnum fyrir góðar umræður. Þá bar rektor upp svohljóðandi tillögu til ályktunar:

„Háskólaþing ályktar að fela rektor að halda áfram vinnu við mótun stefnu Háskóla Íslands um opinn aðgang að rannsóknaniðurstöðum og lokaverkefnum, á grunni tillagna starfshóps um málið og umsagna og umræðna á háskólaþingi 19. apríl 2013, og leggja fyrir háskólaráð. Fyrir liggur að hér er á ferðinni flókið mál sem er í örri þróun á alþjóðlegum vettvangi. Háskóli Íslands þarf því að fylgjast vel með áframhaldandi þróun málsins, kynna það vandlega innan háskólans og vanda til verka við mótun stefnu sinnar.“

- Samþykkt einróma.

Til máls tóku undir þessum lið, auk rektors og Elínar Soffíu Ólafsdóttur, þau Ástráður Eysteinsson, Jón Atli Benediktsson, Guðbjörg Linda Rafnsdóttir, Magnús Tumi Guðmundsson, Viðar Guðmundsson, Björg Thorarensen, Áslaug Agnarsdóttir, Magnús Lyngdal Magnússon, Ingibjörg Steinunn Sverrisdóttir, Guðmundur Freyr Úlfarsson og Ármann Höskuldsson.

Kl. 14.25-14.45: Kaffihlé

Kl. 14.45-16.00 - Dagskrárliður 3: Nýjar áskoranir og tækifæri fyrir kennslu og kennsluhætti: Vefstudd kennsla og nám.

Hjálmtýr Hafsteinsson, dósent, fulltrúi í kennslumálanefnd háskólaráðs og formaður starfshóps um vefstudda kennslu og nám, og Anna Helga Jónsdóttir, doktorsnemi í tölfræði með áherslu á notkun vefstuddrar kennslu, gerðu grein fyrir málinu. Reið Hjálmtýr á vaðið.

Opin netnámskeið (MOOC’s)

Hvað eru MOOC’s?
• Massive Open Online Courses
• Massive: Mjög fjölmenn námskeið. Fjöldi nemenda skiptir oft nokkrum tugum þúsunda
• Open: Hver sem er getur tekið námskeiðið. Þarf aðeins einfalda skráningu.  Þátttakendur koma víða að úr heiminum
• Online: Allt námskeiðið fer fram á vefnum. Fyrirlestrar, dæmaskil, dæmayfirferð, umræður o.s.frv.
• Course: Aðeins einstök námskeið í boði, a.m.k. ennþá. Nokkuð ójafnvægi í framboði milli fræðasviða

Hverjir bjóða uppá MOOC?
• Háskólar – oftast tengdir einstökum fyrirtækjum
• Coursera
- 62 háskólar: Stanford, Princeton, Columbia, Brown, CalTech, Edinborg, DTU, Tokyo, Barcelona ...
- Reynir að finna viðskiptalíkan sem virkar
• EdX
- Byrjaði í MIT, út frá OpenCourseWare
- Aðrir skólar: Harvard, Berkeley, Toronto, McGill, Texas, Delft ...)
- Hugmyndafræði sem byggir á „open source“
• Udacity, Canvas, StraighterLine, Futurelearn ...

Hvers vegna MOOC?
• Háskólar
- Auka sýnileika, æfa kennara í nýjum kennsluaðferðum, vera ekki skildir eftir!
• Nemendur
- Frí háskólanámskeið á formi sem hentar, eini möguleikinn til að komast í háskólanám ...
• Fyrirtækin
- Sum eru hugsjónafyrirtæki, en önnur ætla sér inná markað sem hefur verið lokaður

Hvaða námskeið eru í boði?
• Mjög fjölbreytt úrval
- Mest 1-2 árs námskeið í BS/BA-námi
• Tölvunarfræðinámskeið algeng
- Líka stærðfræði, verkfræði, líffræði
• Lengd: 6 til 12 vikur
- Keyrð á ákveðnu tímabili, oft ekki virk eftir það

Starfshópur um vefstutt nám og kennslu og netnámskeið
• Hjálmtýr Hafsteinsson, dósent við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild á Verkfræði- og náttúruvísindasviði, formaður
• Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor við Íslensku- og menningardeild á Hugvísindasviði
• Freydís J. Freysteinsdóttir, dósent við Félagsráðgjafardeild á Félagsvísindasviði
• Guðrún Geirsdóttir, dósent við Kennaradeild á Menntavísindasviði og forstöðumaður Kennslumiðstöðvar Háskóla Íslands
• Sesselja Sigurborg Ómarsdóttir, dósent við Lyfjafræðideild á Heilbrigðisvísindasviði
• Sólveig Jakobsdóttir, dósent við Kennaradeild á Menntavísindasviði
• Stefán Þór Helgason, fulltrúi stúdenta í kennslumálanefnd
• Magnús Diðrik Baldursson, skrifstofustjóri rektorsskrifstofu og gæðastjóri starfar með hópnum

MOOC í fréttum
• „Our MP3 is the MOOC“ (Clay Shirky prófessor við NYU)
• „MOOC’s are now at the forefront of the McDonaldization of higher education“ (Jason Lane og Kevin Kinser, SUNY Albany)
• „Will MOOCs destroy academia?“ (Moshe Y. Vardi, ritstjóri CACM)
• „I felt like the owner of an ice cream store giving away free ice cream“ (Mohamed Noor, prófessor við Duke)
• „Instructors will use MOOCs to push on the definition of a ,course’“ (Kevin Werback, prófessor við Pennsylvaníuháskóla)
• „MOOCs and their celebrity professors blow ordinary local universities and their professors out of the water“ (Simon Marginson, prófessor við háskólann í Melbourne)

Hvað á Háskóli Íslands að gera?
• Notkun á námskeiðum frá öðrum:
- Samhliða venjulegu námskeiði
- Sem lesnámskeið fyrir framhaldsnema
• Háskóli Íslands sér eingöngu um verkefnatíma og próf
• Til athugunar:
- Málstefna Háskóla Íslands
- Framboð námskeiða
• Framleiðsla eigin námskeiða:
- Námsefni þar sem HÍ hefur sérstöðu
- íslenskukennsla, jarðvísindi ...
• Hægt að nýta aðferðafræðina við „venjulega“ kennslu
• Til athugunar:
- Dýrt að búa til góð námskeið
- Á að tengjast einhverju fyrirtæki?

Að lokinni framsögu Hjálmtýs tók Anna Helga Jónsdóttir við.

Reynsla af vefstuddri kennslu: Tutor-web

Kerfið
• Tutor-web er kennslukerfi á netinu sem er opið öllum án endurgjalds
• Rannsóknarverkefni Gunnars Stefánssonar prófessors í nokkur ár
• Allur hugbúnaður sem kerfið notar er opinn („open source“) og getur
• Hver sem er getur notað og jafnvel breytt kennsluefninu („Creative Commons Attribution-ShareAlike License“)

Æfingar
• Æfingar tilheyra fyrirlestrum
• Spurningarnar eru ekki til að prófa kunnáttu nemenda heldur til að þeir læri af því að svara þeim
• Nemendur geta svarað eins mörgum spurningum og þá lystir eins lengi og þeir vilja
• Nemendur geta fylgst með stöðu sinni með einkunn sem byggir á átta síðustu svörum
• Kerfið velur spurningarnar sem nemandinn fær úthlutað, tveir nemendur fá ekki sömu spurningarnar

Hvernig er best að velja spurningarnar?
• Hvernig á að velja spurningar þegar markmiðið er að nemendur læri af því að leysa æfingarnar frekar en að meta kunnáttu nemenda?
1. Velja auðveldar spurningar í byrjun og erfiðari spurningar þegar einkunn nemenda hækkar
2. Velja spurningar sem nemandinn hefur svarað vitlaust áður
3. Velja spurningar úr eldra efni (þó úr sama námskeiði) til upprifjunar
4. Velja spurningar úr forkröfum ef nemandinn virðist ekki vera að læra

Reynsla okkar af kerfinu
• Kerfið hefur verið notað til að kenna nemendum með ýmiss konar bakgrunn tölfræði og stærðfræði við Háskóla Íslands
• Nemendur eru ánægðir með kerfið
- finnst gott og gaman að fá tilbreytingu
- fá niðurstöðu strax
• Ekki munur á lærdómi hjá nemendum sem nota kerfið og nemendum sem vinna hefðbundna heimavinnu
• Sparar mikinn yfirferðartíma

„Tölvuleikjahamur“
• Nemendur halda áfram að vinna í kerfinu þangað til hæstu einkunn er náð
• Einkunnin er reiknuð út frá átta síðustu svörum
• Gögn sem safnað var í Stærðfræðigreiningu IC í vetur (300 nemendur) sýna að líkurnar á að nemandi stoppi eftir að hafa reiknað 7 æfingar réttar í röð eru 9,1% en 73,3% eftir að hafa svarað átta spurningum réttum í röð

Könnun meðal nemenda í inngangsnámskeiði í tölfræði
• Finnst þér þú læra af því að svara krossaspurningum á Tutor-web?
- Já (105 þátttakendur)
- Ekki viss (18 þátttakendur)
- Nei (4 þátttakendur)
• Hvaða fyrirkomulag myndir þú helst kjósa á skilaverkefnum?
- Eingöngu Tutor-web (18 þátttakendur)
- Eingöngu Tutor-web (18 þátttakendur)
- Eingöngu hefðbundin (16 þátttakendur)
- Blöndu (100 þátttakendur)

Inntökuskilyrði
• Brottfall og fall nemenda í fyrstu námskeiðum í stærðfræðigreiningu á Verkfræði- og náttúruvísindasviði er mikið áhyggjuefni
• Kennarar upplifa að nemendur telja sig ekki vera með nægilega sterkan grunn úr framhaldsskólum fyrir þessi inngangsnámskeið og gefast því upp
• Mikið efni úr stærðfræði fyrir framhaldsskóla til í Tutor-web
• Setja inntökuskilyrði að nemendur vinni í kerfinu?
• Nemendur geta æft sig þangað til þeir öðlast þá þekkingu/færni sem þarf til að hefja nám

Rektor þakkaði þeim Hjálmtý og Önnu Helgu fyrir góðar kynningar og gaf orðið laust.

Kjörinn fulltrúi Hugvísindasviðs gerði að umtalsefni tæknilegar kröfur og kostnað í tengslum við vefstudda kennslu. Tók hann í því sambandi dæmi um vefinn Icelandic Online sem starfræktur hefur verið um nokkurt árabil. Sagði fulltrúinn að Íslensku- og menningardeild hefði notað Icelandic Online í tengslum við inntökupróf fyrir íslenskunám og hefði það hingað til gefið góða raun. Vandinn væri hins vegar sá að Icelandic Online væri að verða tæknilega úreltur og hentaði t.d. ekki snjallsímum. Þetta sýndi að tækniþróunin væri svo hröð að smíða þyrfti ný kerfi á nokkurra ára fresti og það gæti hæglega kostað tugi milljóna króna.

Forseti Heilbrigðisvísindasviðs þakkaði fyrir góðar framsögur og sagði brýnt að Háskóli Íslands fylgdist vel með þróuninni og gaumgæfði hvernig hann gæti sem best nýtt sér nýja tækni á sviði náms og kennslu. Mikilvægt væri að nýta sér kosti tækninnar en jafnframt að halda í hefðbundna kennslu þar sem hún reyndist best. Til dæmis mætti hugleiða hvort ástæða væri til að leysa kennara undan þeirri skyldu að halda margsinnis sömu fyrirlestra og gefa þeim í staðinn meiri tíma til að sinna rannsóknum, dæmatímum o.s.frv.

Deildarforseti Sálfræðideildar þakkaði fyrir fróðlega kynningu. Sagði hann víst að Háskóli Íslands þyrfti að taka einhver skref í þá átt að nota í auknum mæli vefstudda kennslu og netnámskeið, en jafnframt þyrfti að hafa í huga að tæknibúnaður og tæknivinna væri mjög dýr og því væri skynsamlegt að byrja á völdum tilraunaverkefnum sem allir ættu að geta sameinast um. Nærtækt væri að halda áfram með það sem þegar hefði verið vel gert, s.s. með því að þróa áfram vefinn Icelandic Online. Einnig gæti verið skynsamlegt að nýta vefnámskeið fyrir íslenska nemendur, t.d. á sviði íslenskukennslu, rithjálpar o.s.frv.

Deildarforseti Lyfjafræðideildar varpaði fram þeirri spurningu, hvort Háskóli Íslands gæti brugðist við því að nemendur kæmu iðulega með ónógan undirbúning fyrir háskólanám með því að stofna eins konar konar framhaldsskóla á netinu þar sem nemendur gætu fengið staðfestingu á færni sinni áður en þeir hæfu háskólanám?

Varaformaður Stúdentaráðs þakkaði f.h. stúdenta fyrir þarfa og góða umræðu. Sagðist hann sjálfur hafa nokkra reynslu af því sem hér væri til umræðu, t.d. með töku tölfræðinámskeiða á netinu og aðgangi að Tutor-web sem Anna Helga hefði greint frá. Sagði varaformaðurinn mikilvægt að Háskóli Íslands fylgdist vel með þróuninni og að stúdentar væru mjög áhugasamir um slíkar framfarir á sviði kennsluhátta.

Deildarforseti Kennaradeildar sagðist hafa talsverða reynslu af fjarkennslu og hefði margt af henni lært. Sagði hún sérlega mikilvægt að Háskóli Íslands reyndi ekki að þróa eigin tæknilausnir og hugbúnað heldur ætti skólinn að nýta sér opinn og ókeypis hugbúnað sem þegar væri fyrir hendi. Nefndi deildarforsetinn í því sambandi vefinn Menntamidja.is, sem væri vettvangur sem nýtti m.a. félagsmiðla sem málstofuvettvang o.fl. Vefurinn væri í þróun og enn sem komið væri ekki einingabær. Meðal þess sem þegar hefði lærst væri að erfitt geti verið að fá nemendur til að taka þátt í virkum umræðum á netinu.

Forseti Menntavísindasviðs þakkaði fyrir góðar kynningar og sagði hér vera gríðarlega mikilvæga umræðu á ferðinni. Grundvallarspurningarnar í því sambandi væru, hvað Háskóli Íslands þyrfti að gera og hvað hann ætti að gera. Sagðist forsetinn sannfærður um að við ættum að gera meira en við nauðsynlega þyrftum að gera. Mikilvægt væri þó að gera sér grein fyrir því að málið væri flókið og snérist ekki síst um peninga. Tók hann sem dæmi að þegar útvarp var stofnað á Íslandi hafi það verið eitt helsta markmiðið að koma kennslu til allra landsmanna. Þetta hefði hins vegar strandað á ágreiningi um hver ætti að borga. Einnig væri mikilvægt að gera greinarmun á því sem raunverulega væri nýtt og því sem ekki væri nýtt. Gott dæmi um það væri þróun bókarinnar. Áður fyrr hefði fólk þurft að lesa þær sjálft, en nú væru þær lesnar fyrir fólkið – og samt væri bókin ennþá grundvöllurinn. Þetta tengdist einnig spurningum um hlutverk kennarans, því það væri ekki góð nýting á tíma, kröftum og þekkingu hans að lesa upp úr bókum fyrir nemendur heldur þyrfti að leita nýrra leiða til að nýta fagmennsku kennarans upp úr bókunum. Loks vék forseti Menntavísindasviðs að veflausnum fyrir könnunarpróf sem hann sagði fela í sér mikil tækifæri. Með því að nota tækni á borð við þá sem Anna Helga Jónsdóttir hefði kynnt væri auðvelt að kanna stöðu nemenda, ekki aðeins við inngöngu heldur á öllum stigum námsins, og með því mætti draga úr hefðbundnum prófum og staðlaðri kennslu sem þvældi nemendum í gegnum námsefni sem þeir hefðu þegar tileinkað sér.

Hjálmtýr Hafsteinsson brást við framkomnum spurningum og athugasemdum. Sagði hann ekkert augljóst svar við því hvað stefnu Háskóli Íslands ætti að taka varðandi svokölluð MOOC enda væri örðugt að segja fyrir um það í hvaða átt málið myndi þróast. Sumir segðu t.d. að stór fyrsta árs námskeið yrðu fyrst til að verða leyst af hólmi með netnámskeiðum og myndu sjálfsagt einhverjir kennarar fagna því. Í staðinn gætu t.d. komið netnámskeið með bestu kennurum og vísindamönnum í heiminum, en kennarinn myndi þess í stað einbeita sér að umræðutímum, dæmakennslu og öðrum stuðningi við nemendur. Sagði Hjálmtýr það vera sannfæringu sína að þrátt fyrir allar tækniframfarir væru bein samskipti kennara og nemenda ómissandi þáttur í allri kennslu og öllu námi. Nemendur og kennarar þyrftu að ,snertast’ og mynda lifandi samfélag. Vissulega væri þó ekki útilokað að slík tengsl og samfélagsmyndun gæti að einhverju leyti átt sér stað á vefnum. Þannig byði Coursera t.d. upp á spjallrásir sem væru mjög virkar og þar gætu t.d. nemendur frá ólíkum löndum myndað undirhópa. Alltént væri ljóst að þessi þróun kallaði á sérstaka þjálfun kennara sem þyrftu að læra að tileinka sér hina nýju miðla í kennslu. Loks tók Hjálmtýr undir það sjónarmið, sem fram kom í umræðunni, að Háskóli Íslands ætti ekki að eyða kröftum og peningum í að þróa eigin tæknilausnir heldur að byggja á því sem til væri erlendis og á opnum veflausnum.

Anna Helga Jónsdóttir brást við innleggi forseta Menntavísindasviðs og sagði að ekki ætti að líta á veflausnir á borð við Tutor-web sem inntökupróf í háskóla heldur sem þjálfun til að ná þeirri færni sem nauðsynleg væri til að geta hafið háskólanám. Þá tók Anna Helga undir það sjónarmið að hæpið væri fyrir Háskóla Íslands að reyna að þróa með sjálfstæðum hætti eigin tæknilausnir heldur ætti að nýta þær lausnir sem þegar væru til. Einnig mætti nýta tæknina til að draga úr því að sömu eða svipuð námskeið væru margkennd víða í skólanum. Til dæmis væri kennd tölfræði um allan háskólann, en Anna fékk sjálf nýverið styrk úr kennslumálasjóði til að gera sérstök tölfræðikennslu myndbönd.

Deildarforseti Jarðvísindadeildar þakkaði fyrir góðar kynningar og umræðu. Sagði hann að þær nýjungar á sviði náms og kennslu sem kynntar hefðu verið á þinginu vera mjög spennandi og fela í sér mörg tækifæri. Það sem skipti mestu máli í þessu öllu saman væru þó gæði og hvernig við tryggjum gæði háskólanáms. Ef netkennsla veitti góða kennslu væri hún frábær. Ef netkennsla væri hins vegar ekki af góðum gæðum geti hún verið hættuleg. Við blasti að netkennsla gæti dregið mjög úr þörf fyrir fyrirlestrum og þannig sparaði mikla vinnu og peninga. Einnig væri áhugavert að velta fyrir sér möguleikum á blönduðu kennsluformi t.d. með því að fyrirlestrar væru í netformi en kennarinn einbeitti sér að því að vera hópstjóri í umræðutímum o.s.frv. Hins vegar mætti ekki vanmeta félagslegan þátt námsins – það að vera hluti af hópi, hitta aðra og læra af kennurum sem væru persónur. Slíkt sé augljóslega erfitt í 160.000 manna MOOC-námskeiði. Sagði deildarforsetinn að þrátt fyrir að mörgum spurningum sé enn ósvarað ættum við að vera opinn fyrir þessum nýjungum og taka þeim fagnandi.

Forstöðumaður Kennslumiðstöðvar Háskóla Íslands og fulltrúi í starfshópnum um vefstudda kennslu og netnámskeið greindi frá því að í starfshópnum hefði m.a. verið rætt um möguleikann á að nota tilbúin erlend MOOC-námskeið og hvort skynsamlegt væri að Háskóli Íslands beitti sér fyrir framleiðslu slíkra námskeiða. Í því sambandi vaknaði m.a. sú spurning, á hvaða sviðum Háskóli Íslands eða Ísland almennt ætti efnivið sem hentaði og væri líklegur til að vekja athygli á alþjóðavísu. Sagði forstöðumaðurinn það vera skoðun sína að mikilvægt væri að vera reiðubúin að yfirgefa hefðbundnar brautir og hefðbundna kennsluskrárhugsun. Þannig gæti svarið við spurningunni ekki aðeins verið „jarðvísindi“, heldur allt eins „Sigur Rós“, „íslenski hesturinn“ o.s.frv. Einnig væri mikilvægt í tengslum við netnámskeið að huga að samstarfi við aðra innlenda og erlenda háskóla. Kennarar við Háskóla Íslands væru í miklu samstarfi við kennara víða um heim og þessir aðilar gætu tekið höndum saman og búið til námskeið á grundvelli tengslaneta sem þegar væru fyrir hendi.

Deildarforseti Deildar erlendra tungumála, bókmennta og málvísinda fagnaði því að þessi mál væru tekin til umræðu á þinginu. Hóf hún mál sitt á að beina sjónum að tengslum tækniframfara á sviði náms og kennslu og jafnræðis til náms. Það væri eitt af yfirlýstum markmiðum þeirra sem stæðu að gerð MOOC-námskeiða að gera þau aðgengileg stórum hópum fólks sem allajafna ætti ekki kost á háskólanámi. Þá lagði deildarforsetinn áherslu á að Háskóli Íslands væri raunsær varðandi áform um framleiðslu og dreifingu netnámskeiða. Til dæmis hefði enska verið kennd í fjarnámi um árabil, en slíkt útheimti mikla vinnu sem ekki væri greitt aukalega fyrir. Spurningin væri því, hvað við réðum við að gera og hvernig við gætum beint atgervi okkar í þær brautir þar sem það nýttist best. Varðandi þá spurningu, hvort leggja ætti áherslu á hreint netnám eða blandað nám sagðist deildarforsetinn fyrir nokkrum árum hafa tekið þátt í gerð hreins vefnámskeiðs á sviði spænskukennslu við háskólann í Texas, en það hefði ekki gefið góða raun og hefði skólinn í kjölfarið tekið upp blandað módel. Lauk deildarforsetinn innleggi sínu með þeim orðum að Háskóli Íslands ætti að beina kröftum sínum að því sem hann væri bestur í og láta auðuga háskóla í Bandaríkjunum gera það sem þeir væru bestir í.

Kjörinn fulltrúi Félagsvísindasviðs kvaddi sér hljóðs og lagði til að hluta af framlögum í Aldarafmælissjóð Háskóla Íslands yrði varið til að styrkja fjarkennslu.

Annar fulltrúi í starfshópnum, sem jafnframt er dósent í fjarkennslufræðum, sagði mikilvægt að huga að aðgengi að menntun við Háskóla Íslands. Sagði hún að í Kennaraháskóla Íslands hefði fjarnám og staðnám skipst nokkurn veginn til helminga áður en skólinn sameinaðist Háskóla Íslands. Í tengslum við sameininguna hefði farið fram stefnumótun á sviði fjarnáms með það í huga að efla það einnig á öðrum fræðasviðum og deildum, en hún hefði lítt gengið eftir. Þá rakti fulltrúinn stuttlega þróun netnáms sem hófst kringum árið 2002 með opnu kennsluefni á vef (e. open courseware) sem hafði að markmiði að auka aðgengi að háskólanámi. Síðan hefði þetta smám saman þróast út í eiginleg netnámskeið af því tagi sem hér væru til umræðu. Ein þeirra spurninga sem Háskóli Íslands þyrfti að svara væri hvort skólinn vildi hafa opið aðgengi að kennsluefni og fyrirlestrum, eins og t.d. MIT í Bandaríkjunum hefði gert um árabil? Varðandi MOOC-netnámskeiðin þyrfti að gera greinarmun á tveimur tegundum þeirra, þ.e. er svokölluðum xMOOC’s annars vegar og cMOOC’s hins vegar. xMOOC’s byggðust einkum á að miðla kennsluefni og prófa úr því. cMOOC’s (e. connectivist MOOC’s) legðu áherslu á myndun tengslaneta og lærdómssamfélags. Sem dæmi um síðarnefndu tegundina mætti nefna vefinn Icelandic Online sem væri lærdómssamfélag sem legði ekki áherslu á próf. Öll þessi mál væru þó í hraðri þróun og engar töfralausnir í boði. Endaði fulltrúinn mál sitt á að segja að til að fylgjast með þróuninni væri mikilvægt að setja á laggirnar í Háskóla Íslands varanlegan starfshóp eða nefnd sem hefði það hlutverk að fylgjast með þessum málum, móta stefnu og gera tillögur um aðgerðir.

Rektor sagðist að undanförnu hafa sótt nokkra fundi með rektorum háskóla frá Bandaríkjunum og Evrópu og þar væru þessi mál ofarlega á baugi og skoðanir skiptar. Sagði rektor ekki telja það vera skynsamlegt að taka afstöðu alfarið með eða á móti netnámskeiðum, heldur ætti að gaumgæfa alla möguleika með opnum huga og tileinka sér það sem stuðlaði að bættum kennsluháttum og auknum gæðum náms. Til dæmis notaði Duke-háskólinn í Bandaríkjunum MOOC’s með tvennum hætti, þ.e. annars vegar með því að búa til námskeið í völdum greinum og hins vegar með því að nota valin MOOC’s frá öðrum háskólum sem grunn sem svo væri byggt ofan á og dýpkað með staðbundinni kennslu og þjálfun. Slíkt blandað form gæti verið mjög spennandi. Þá sagði rektor að á fundunum með erlendu rektorunum hefði einnig komið fram að litlir háskólar hefðu áhyggjur af því að opin netnámskeið voldugra og auðugra háskóla gæti ógnað tilveru þeirra. Þróunin á þessu sviði væri mjög hröð og hefði t.d. Coursera tvöfaldast að stærð á skömmum tíma og í hverri viku skráðu sig þar um 600.000 manns í námskeið. Meðal þeirra spurninga sem vöknuðu í þessu sambandi væri, hvernig meta ætti slíkt nám. Einnig væru minni skólarnir almennt ekki í stakk búnir að keppa við stóru háskólana vegna þeirra tæknilegu krafna sem netnámskeið gera, því til að þjónusta mörg hundruð þúsund nemendum á sama tíma þyrfti mjög öfluga netþjóna og annan tæknibúnað. Einnig bæri til þess að líta að þótt námskeiðin væru á netinu kæmi fjöldi fólks beint og óbeint að því að þjónusta þau, t.d. með því að svara spurningum nemenda á spjallþráðum. Loks væru háskólar í sumum löndum uggandi yfir því að stjórnvöld myndu líta á netnámskeið sem tækifæri til hagræðingar og niðurskurðar framlaga. Að endingu greindi rektor frá því að í skoðun væri að Íslensk erfðagreining og Háskóli Íslands stæðu saman að tilraunaverkefni með gerð netnámskeiðs á sviði mannerfðafræði.

Að umræðu lokinni þakkaði rektor Hjálmtý og starfshópnum fyrir góða vinnu og bar upp svohljóðandi tillögu til ályktunar:

„Háskólaþing ályktar að brýnt sé að Háskóli Íslands fylgist náið með þeim áskorunum og tækifærum sem felast í notkun upplýsingatækni í kennslu og námi, s.s. vefstuddri kennslu og netnámskeiðum (þ.m.t. svonefndum „Massive Open Online Courses“, MOOC’s). Mikilvægt er fyrir Háskóla Íslands að nýta þau tækifæri sem í þessu felast fyrir nám og kennslu, þróun kennsluhátta, aðstöðu, búnað o.s.frv. Í því samhengi ber að gæta að faglegu og fjárhagslegu sjálfstæði skólans og hlutverki hans í íslensku samfélagi.“

- Samþykkt einróma.

Til máls tóku undir þessum lið, auk rektors, Hjálmtýs Hafsteinssonar og Önnu Helgu Jónsdóttur, þau Jón Karl Helgason, Sigurður J. Grétarsson, Már Másson, Jón Atli Hermannsson, Anna Kristín Sigurðardóttir, Jón Torfi Jónasson, Magnús Tumi Guðmundsson, Guðrún Geirsdóttir, Hólmfríður Garðarsdóttir, Jónína Einarsdóttir, Sólveig Jakobsdóttir.

Að endingu þakkaði rektor fulltrúum á háskólaþingi fyrir góðar og málefnalegar umræður. Sleit rektor háskólaþingi og bauð fundarmönnum að þiggja hressingu í anddyri og Bókastofu Aðalbyggingar.

Útsend gögn og gögn sem lögð voru fram á 10. háskólaþingi 19. apríl 2013:

1. Dagskrá og tímaáætlun 10. háskólaþings 19. apríl 2013.
2. Listi yfir fulltrúa á háskólaþingi.
3. Fundargerð 9. háskólaþings 16. nóvember 2012.
4. Gögn um opinn aðgang að rannsóknaniðurstöðum og lokaverkefnum.