Skip to main content

Fundargerð 126. fundar

Háskólaráð Kennaraháskóla Íslands kom saman til 126. fundar þriðjudaginn 26. febrúar 2008 kl. 15:00. Eftirtaldir sátu fundinn: Ólafur Proppé, Allyson Macdonald, Kristín Bjarnadóttir, Kristján Jóhann Jónsson, Ingunn Guðmundsdóttir, Júlía Þorvaldsdóttir, Jóhanna Karlsdóttir.

Gestur fundar:
Guðmundur Ragnarsson framkvæmdastjóri rekstrarsviðs v/ 5. og 7. dagskrárliðar.

Sjöfn Hjörvar og Svanhildur Kaaber sátu fundinn og rituðu fundargerð.

Dagskrá fundarins var svohljóðandi:

1.    Fundur settur og dagskrá kynnt
2.    Skýrsla rektors
3.     Starfshópur um aukið menntunarstig í leikskólum
4.    Skýrsla sérfræðinganefndar vegna umsóknar KHÍ um viðurkenningu á sviði félagsvísinda
5.    Bráðabirgðauppgjör KHÍ fyrir 2007
6.    Fimm ára samfellt kennaranám
7.    Sameining Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands
8.    Íðorðasafn
9.    Önnur mál

1.    Fundur settur og dagskrá kynnt
Rektor setti fundinn og kynnti dagskrá hans. Hann gerði grein fyrir því að nokkra liði á dagskránni þyrfti að færa til. Fundarritari hélt upphaflegri röð dagskrár við ritun  fundargerðar.

2.    Skýrsla rektors
Rektor gerði grein fyrir nokkrum málum:
-    Kristín Ingólfsdóttir rektor Háskóla Íslands kom í tvær óformlegar heimsóknir í Kennaraháskóla Íslands, annars vegar til starfsfólks í Bolholti og Skipholti, hins vegar í Stakkahlíð.
-    Rektor sagði frá ýmsum ráðstefnum sem haldnar hafa verið, svo sem ráðstefnu um         
fjölmenningu (25. janúar), ráðstefnu þroskaþjálfa (1. febrúar) og ráðstefnu FUM um  
kennaramenntun í eina öld (23. febrúar).
-    Þann 30. janúar var haldin málstofa í tilefni af afmælisárinu. Fyrirlesari var Pétur Gunnarsson rithöfundur.
-    Rektor hefur skrifað undir samning við Landsbanka Íslands um stuðning við norræna ráðstefnu um kennaramenntun sem haldin verður í skólanum í vor.
-    Stofnuð hefur verið fjórða rannsóknarstofan innan skólans, þ.e.  Rannsóknarstofa í íþrótta- og lýðheilsufræðum á Laugarvatni. Fram kom að í undirbúningi er að stofna fleiri rannsóknarstofur.
-    Rektor sagði frá kynningardegi háskóla þar sem lögð var áhersla á kynningu
grunnnáms. Dreift var bæklingnum: Háskóli Íslands - menntun á heimsmælikvarða. Einnig var dreift á fundinum nýjum kynningarbæklingi um meistara- og doktorsnám.
-    Fram kom að 17. janúar samþykkti háskólaráð Háskóla Íslands að fram að sameiningu skyldi Kennaraháskólinn eiga fulltrúa á fundum þess. Ákveðið hefur verið að rektor sitji alla fundi háskólaráðs HÍ og  Allyson Macdonald þegar mál sem varða sameininguna sérstaklega eru á dagskrá. 
-    Rektor sagði frá kynningardegi í skólanum 25. febrúar, þar sem einkum var lögð áhersla á að kynna meistara- og doktorsnám.
-    Dreift var inntökureglum fyrir meistara- og doktorsnám þar sem nokkrar orðalagsbreytingar hafa verið gerðar.
-    Rektor lagði til að stefnt yrði að síðustu fundum háskólaráðs þriðjudagana 1. apríl, 29. apríl, 27. maí og 24. júní.

3.     Starfshópur um aukið menntunarstig í leikskólum
Rektor bauð Kristínu Karlsdóttur lektor velkomna á fundinn en hún var formaður starfshóps sem háskólaráð fól að leita leiða til að auka menntunarstig starfsfólks í leikskólum. Skýrsla hópsins var send með fundargögnum.

Í skýrslunni kemur fram að málefni leikskólastigs eru í deiglu um þessar mundir enda liggur fyrir Alþingi frumvarp til laga um breytt nám fyrir leikskólakennara og framundan eru kjarasamningar starfsfólks í leikskólum.  Kristín rakti helstu niðurstöður starfshópsins og gerði grein fyrir því að skýrslan speglar þá niðurstöðu sem hægt var að ná samkomulagi um.

Fulltrúi stúdenta benti á að mikilvægt væri að stúdentar tækju þátt í frekara starfi á grundvelli skýrslunnar.

Rektor þakkaði skýrslu starfshópsins og störf hans. 

4.    Skýrsla sérfræðinganefndar vegna umsóknar KHÍ um viðurkenningu á sviði félagsvísinda.
Rektor gerði grein fyrir lokaskýrslu sérfræðinganefndar vegna umsóknar skólans um viðurkenningu á sviði félagsvísinda. Skýrslunni, sem merkt er trúnaðarmál, og viðbrögðum skólans við henni var dreift með fundargögnum.

Fram kom að sérfræðinganefndin kemst einróma að þeirri niðurstöðu að skólanum skuli veitt viðurkenning á fræðasviði félagsvísinda.

Háskólaráð fagnaði þessari niðurstöðu og þakkaði þeim sem unnu að frágangi umsóknar skólans.

5.    Bráðabirgðauppgjör KHÍ fyrir 2007
Framkvæmdastjóri rekstrarsviðs gerði grein fyrir rekstraryfirliti og fór yfir drög að rekstrarreikningi og efnahagsreikningi 2007 en uppgjöri er ekki lokið. Gert er ráð fyrir að skólinn skili tekjuafgangi þar sem nemendur eru færri en ætlað var og kennslukostnaður því lægri. Hann gerði einnig grein fyrir kostnaði vegna kennslu og sagði frá fundi sem hann mun eiga á næstunni með fulltrúum menntamálaráðuneytis.

Háskólaráð ræddi fjárhagsstöðu skólans í tengslum við frumvarp sem nú liggur fyrir Alþingi þar sem gert er ráð fyrir löggildingu kennara að loknu fimm ára námi í stað þriggja.

    6.     Fimm ára samfellt kennaranám
Rektor gerði grein fyrir þeirri tillögu sinni að skipaður verði á vegum háskólaráðs starfshópur til að setja fram endurskoðaðar tillögur um inntak og áherslur í fimm ára samfelldu kennaranámi fyrir leik- og grunnskólakennara.  Gert er ráð fyrir að aðstæður breytist við afgreiðslu lagafrumvarps um ráðningu leik-, grunn- og framhaldsskólakennara sem nú liggur fyrir Alþingi. Rektor leggur til að starfshópnum verði ætlað að hafa samráð við brautarstjórn kennarabrautar og taka mið af þeirri vinnu sem þegar liggur fyrir vegna endurskipulagningar á náminu undanfarin þrjú ár. Jafnframt er lagt til að hópurinn hafi eftir atvikum samráð við annað starfsfólk skólans, stúdenta, nýlega brautskráða kennara og aðra hagsmunaaðila utan skólans. Rektor leggur til að í hópnum verði sex starfsmenn Kennaraháskólans og Háskóla Íslands auk fulltrúa stúdenta við Kennaraháskólann, fulltrúa Sambands íslenskra sveitarfélaga og Kennarasambands Íslands, alls níu manns. Þá leggur rektor til að starfshópnum verði ætlað að skila niðurstöðum sínum í þremur áföngum sem hér segir:
o    Fyrstu hugmyndum um heildarskipulag námsins í lok apríl 2008
o    Endurskoðuðum hugmyndum að ramma námsins í ljósi ahugasemda og fyrstu hugmyndum um útfærslur 15. júní 2008
o    Lokatillögum um námsskipulagið í lok ágúst.
Þannig má gera ráð fyrir að unnt verði að kynna hugmyndirnar í byrjun haustmisseris og ganga frá samþykktum breytingum fyrir lok nóvember 2008.

Rektor kynnti hugmyndir sínar um fulltrúa í starfshópinn, og leggur til að þar verði Anna Kristín Sigurðardóttir brautarstjóri kennarabrautar (formaður), Arna H. Jónsdóttir, Guðrún Geirsdóttir, Hrönn Pálmadóttir, Ingvar Sigurgeirsson og Ólafur Páll Jónsson. Auk þeirra sitji í hópnum fulltrúar tilnefndir af Kennarasambandi Íslands og Sambandi sveitarfélaga og fulltrúi tilnefndur af stúdentum í Kennaraháskólanum. 

Háskólaráð tók tillögu rektors vel og samþykkir hana einróma. Háskólaráð fól rektor að skipa starfshópinn nú þegar svo starf hans dragist ekki.

7.    Sameining Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands
Rektor dreifði skýrslu verkefnahóps um skipulag og framkvæmd náms á nýju menntavísindasviði Háskóla Íslands ásamt viðbrögðum verkefnisstjórnar.

Farið var yfir ýmis verkefni sem fyrir liggja og rætt hvernig framkvæmd skuli hagaðv live dominas. Ákveðið að ræða skýrsluna frekar á næsta fundi.

Framkvæmdastjóri rekstrarsviðs, sem á sæti í verkefnisstjórninni, gerði grein fyrir ýmsum málum sem verið er að vinna að. Fram kom að ekki er lokið endurskipulagningu sviða og deilda í Háskóla Íslands. Einnig er verið að skoða hvernig háttað verður starfi stofnana innan hins sameinaða háskóla, s.s. rannsóknar- og símenntunarstofana. Fram kom að sameiningarferlið framundan mun taka nokkur ár þó hin formlega sameining gangi í gildi 1. júlí. Því má vænta þess að breytingar taki smám saman gildi á næstu árum. 

Fram kom að helstar þeirra breytinga sem verða strax eru t.d. að nýr stjórnandi kemur til starfa á yfirstandandi ári, símavarsla verður flutt í HÍ ásamt tölvukerfi og rekstri á því, einnig verður breyting á skjala- og tölvupóstkerfi. Starfsmenn munu að einhverju leyti flytjast til í störfum, t.d. er gert ráð fyrir miðlægri nemendaskrá og þar af leiðandi breytingum á þjónustuveri Kennaraháskólans. Þá kom fram að gert er ráð fyrir því að breyting á fjárhagslegum rekstri taki gildi um áramótin 2009. Fram kom að framundan eru kjarasamningar og samræming kjara starfsmanna skólanna.

Fram kom að mikilvægt væri að tryggja starfsöryggi fólks við þær viðamiklu breytingar sem fram undan eru.

    8.    Íðorðasafn
Rektor gerði grein fyrir því að skólanum hefur borist erindi FUM - Félags um menntarannsóknir, sem hefur hug á að taka aftur upp þráðinn við gerð íðorðasafns í uppeldis- og menntunarfræðum og leggur til að stofnuð verði formleg íðorðanefnd. Óskað er eftir fulltrúa skólans í slíka nefnd og stuðningi við framkvæmd.

Háskólaráð telur mikilvægt að skólinn leggi sitt af mörkum við þetta mikilvæga verkefni. Rektor var falið að skipa fulltrúa í nefndina, tryggja henni aðstöðu til fundarhalda og ræða frekar við forsvarsmenn FUM - Félags um menntarannsóknir um annan stuðning við verkið.

Næsti fundur verður haldinn þriðjudaginn 1. apríl.     
Fundinum lauk kl.17:30

Sjöfn Hjörvar/Svanhildur Kaaber