Skip to main content

Háskólaráðsfundur 2. maí 2013

05/2013

HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR

Ár 2013, fimmtudaginn 2. maí var haldinn fundur í háskólaráði sem hófst kl. 13.00.

Fundinn sátu Kristín Ingólfsdóttir, Anna Rut Kristjánsdóttir, Ebba Þóra Hvannberg, Guðrún Hallgrímsdóttir, Hákon Hrafn Sigurðsson (varamaður fyrir Börk Hansen), Jakob Ó. Sigurðsson, Kristinn Andersen, Margrét Hallgrímsdóttir, María Rut Kristinsdóttir, Tinna Laufey Ásgeirsdóttir og Þorfinnur Skúlason. Fundinn sátu einnig Jón Atli Benediktsson og Magnús Diðrik Baldursson sem ritaði fundargerð.

Rektor bauð fulltrúa í háskólaráði velkomna og setti fundinn. Áður en gengið var til dagskrár greindi rektor frá því að engar athugasemdir hefðu borist við fundargerð síðasta fundar og hefði hún því skoðast samþykkt og verið birt á háskólavefnum. Tinna Laufey Ásgeirsdóttir lýsti sig vanhæfa til að taka þátt í meðferð dagskrárliðar 5.

1. Mál á döfinni í Háskóla Íslands.
Rektor gerði grein fyrir nokkrum viðburðum frá síðasta fundi háskólaráðs og framundan.
a) Íslensk stjórnvöld og UNESCO, menningar-, mennta- og vísindastofnun Sameinuðu þjóðanna, undirrituðu 15. apríl sl. samning um að Alþjóðleg miðstöð tungumála og menningar, sem heyrir undir Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum við Háskóla Íslands, starfi undir merkjum UNESCO, sbr. dagskrárlið 8g.
b) Úthlutað var úr Watanabe-styrktarsjóðnum við Háskóla Íslands við hátíðlega athöfn 16. apríl sl. Styrkina hlutu tveir nemendur í BA-námi í japönsku við Háskóla Íslands og Jón Karl Helgason, prófessor við Íslensku- og menningardeild á Hugvísindasviði, sbr. lið 8b á dagskrá fundarins.
c) Karl G. Kristinsson, prófessor við Læknadeild og yfirlæknir á Sýklafræðideild Landspítala, var kjörinn heiðursvísindamaður Landspítala 2013. Tilkynnt var um þetta á ráðstefnunni Vísindi á vordögum 24. apríl sl.
d) Árlegur samráðsfundur kennslumálanefndar háskólaráðs með skólameisturum framhaldsskólanna verður haldinn 13. maí nk. Aðalumræðuefni fundarins að þessu sinni verður aðgangspróf á háskólastigi, sbr. dagskrárlið 8a.
e) Úthlutað verður styrkjum til doktorsnema úr Háskólasjóði Eimskipafélags Íslands h/f og Rannsóknasjóði Háskóla Íslands 22. maí nk.
f) Samstarfi Háskóla Íslands og Ferðafélags Íslands um fræðandi gönguferðir undir yfirskriftinni „Með fróðleik í fararnesti“ er áfram haldið í ár og verða farnar sex ferðir á tímabilinu frá apríl til september. Næstu ferðir eru áformaðar 25. maí og 8. júní nk. og verða þær kynnar á heimasíðu háskólans.
g) Háskólalestin hefur viðkomu á þremur stöðum á landsbyggðinni í þessum mánuði og er förinni heitið til Patreksfjarðar, Sauðárkróks og Neskaupstaðar.
h) Rektor barst bréf frá stjórn Þroskahjálpar og ályktun sviðsráðs nemenda Menntavísindasviðs vegna aðkomu nemenda með þroskahömlun að brautskráningarathöfnum Háskóla Íslands, sbr. dagskrárlið 8d. Eins og fram kemur í svarbréfi rektors gildir sú almenna regla fyrir alla nemendur í diplómanámi á grunnnámsstigi að þeir taka ekki þátt í sameiginlegum brautskráningarathöfnum heldur í sérstökum athöfnum á vettvangi fræðasviðanna.

2. Stjórnunarstörf sem metin verði sérstaklega til lækkunar kennsluskyldu kennara í Félagi háskólakennara, sbr. fund ráðsins 10. janúar sl.
Fyrir fundinum lá samkomulag samráðsnefndar háskólaráðs um kjaramál og Félags háskólakennara (Fh) um fyrirkomulag vegna skilgreindra stjórnunarstarfa hjá kennurum í Fh, dags. 24. apríl 2013. Inn á fundinn kom Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri fjármála og reksturs og formaður samráðsnefndar, og gerði grein fyrir málinu. Málið var rætt og svaraði Guðmundur spurningum fulltrúa í háskólaráði.
- Samkomulag samráðsnefndar háskólaráðs um kjaramál og Félags háskólakennara samþykkt einróma.

3. Sameining Innovits ehf. og Klaks ehf.
Fyrir fundinum lá minnisblað um fyrirhugaða sameiningu Innovits ehf., nýsköpunar- og frumkvöðlaseturs, og Klaks ehf., nýsköpunarmiðstöðvar atvinnulífsins. Jón Atli Benediktsson gerði grein fyrir málinu og var það rætt.
- Sameining Innovits ehf. og Klaks ehf. undir heitinu Klak Innovit ehf. samþykkt einróma. Samþykkt einróma að Halldór Jónsson, sviðsstjóri vísinda- og nýsköpunarsviðs, verði fulltrúi Háskóla Íslands í stjórn sameinaðs félags og að Ólöf Vigdís Ragnarsdóttir, lögfræðingur á vísinda- og nýsköpunarsviði, verði varamaður hans. 

4. Niðurstöður 10. háskólaþings 19. apríl 2013.
a) Stefna Háskóla Íslands 2011-2016: Drög að stefnu Háskóla Íslands um opinn aðgang að rannsóknaniðurstöðum og lokaverkefnum.
b) Vefstudd kennsla og nám.
Fyrir fundinum lá minnisblað um niðurstöður 10. háskólaþings Háskóla Íslands 19. apríl sl., um drög að stefnu Háskóla Íslands um opinn aðgang að rannsóknaniðurstöðum og lokaverkefnum annars vegar og vefstudda kennslu og nám hins vegar. Rektor gerði grein fyrir málinu og var það rætt. Fram kom að á næsta fundi háskólaráðs í júní nk. verða kynntar niðurstöður starfshóps um vefstudda kennslu og nám sem háskólaráð skipaði 6. desember sl.
- Ályktanir háskólaþings Háskóla Íslands 19. apríl sl. staðfestar.

5. Fasteignin Sturlugata 8, 101 Reykjavík.
Fyrir fundinum lá minnisblað um tilboð um kaup á fasteigninni að Sturlugötu 8 (húsi Íslenskrar erfðagreiningar). Inn á fundinn kom Ingjaldur Hannibalsson, prófessor og stjórnarmaður í Vísindagörðum Háskóla Íslands ehf. (stjórnarformaður og framkvæmdastjóri voru staddir erlendis), og gerði ásamt Guðmundi R. Jónssyni grein fyrir málinu. Fram kom að sl. þriðjudag hélt framkvæmda- og tæknisvið kynningarfund um málið fyrir fulltrúa í háskólaráði. Málið var rætt ítarlega og svöruðu Guðmundur og Ingjaldur spurningum og athugasemdum ráðsmanna.
- Háskólaráð Háskóla Íslands samþykkir einróma nýta forkaupsrétt Háskóla Íslands að fasteigninni Sturlugata 8 í Reykjavík (fastanúmer 225-6085). Verði breytingar á forsendum málsins á þeim tíma sem forkaupsrétturinn gildir verður haft samband við háskólaráð.

Tinna Laufey Ásgeirsdóttir vék af fundi undir dagskrárlið 5 og tók ekki þátt í afgreiðslu málsins.

6. Gæðanefnd háskólaráðs. Jón Atli Benediktsson, prófessor, formaður gæðanefndar háskólaráðs, fjallar um skipan og störf nefndarinnar.
Jón Atli Benediktsson, prófessor og formaður gæðanefndar háskólaráðs, gerði grein fyrir skipan, hlutverki og verkefnum nefndarinnar. Málið var rætt og svöruðu Jón Atli og Magnús Diðrik Baldursson spurningum fulltrúa í háskólaráði.

7. Tillaga Deildar erlendra tungumála, bókmennta og málvísinda um kjör heiðursdoktors.
Fyrir fundinum lá tillaga Deildar erlendra tungumála, bókmennta og málvísinda um kjör Guðbergs Bergssonar, rithöfundar, sem heiðursdoktors við deildina, umsögn heiðursdoktorsnefndar Háskóla Íslands og samþykkt stjórnar Hugvísindasviðs. Rektor gerði grein fyrir málinu og var það rætt.
- Samþykkt einróma.

8. Mál til fróðleiks.
a) Dagskrá fundar kennslumálanefndar háskólaráðs og Félags íslenskra framhaldsskóla 13. maí 2013.
b) Úthlutun úr Watanabe-styrktarsjóðnum við Háskóla Íslands 16. apríl 2013.
c) Bréf rektors og formanna stjórna Styrktarsjóða Háskóla Íslands og Háskólasjóðs h/f Eimskipafélags Íslands, dags. 7. febrúar sl., til fjármála- og efnahagsráðherra, þar sem beðið er um undanþágu frá greiðslu fjármagnstekjuskatts fyrir styrktarsjóði Háskóla Íslands – og svarbréf fjármála- og efnahagsráðherra, dags. 14. mars sl.
d) Bréf stjórnar Þroskahjálpar til rektors, dags. 6. apríl sl. vegna útskriftar nemenda með þroskahömlun og ályktun Sviðsráðs [nemenda] Menntavísindasviðs um sama efni, dags. 8. apríl sl. – og svarbréf rektors, dags. 16. apríl og 17. apríl sl.
e) Lög afgreidd á 141. löggjafarþingi sem snerta Háskóla Íslands:
- Lög nr. 56/2013 um breytingu á lögum um opinbera háskóla nr. 85/2008.
- Lög nr. 53/2013 um breytingu á lögum um stofnun opinbers hlutafélags um byggingu nýs Landspítala við Hringbraut í Reykjavík (opinber framkvæmd) nr. 64/2010.
- Lög nr. 57/2013 um breytingu á lögum um Þjóðminjasafn Íslands nr. 41/2011.

f) Hugskeyti, fréttabréf Hugvísindasviðs, apríl 2013.
g) Vigdísarstofnun - alþjóðleg miðstöð tungumála og menningar undir formerkjum UNESCO, fréttatilkynning 15. apríl 2013.

Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 15.30.