Skip to main content

Háskólaráðsfundur 19. júní 2008

HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR 8/2008

Ár 2008, fimmtudaginn 19. júní var haldinn fundur í háskólaráði sem hófst kl. 13.00.

Fundinn sátu: Kristín Ingólfsdóttir, Allyson Macdonald (áheyrnarfulltrúi frá Kennaraháskóla Íslands), Guðmundur Jónsson (varamaður Birnu Arnbjörnsdóttur), Helgi Þorbergsson, Ólafur Þ. Harðarson, Ólafur Proppé (áheyrnarfulltrúi Kennaraháskóla Íslands), Reynir Jóhannesson (varamaður Ernu Kristínar Blöndal), Rúnar Vilhjálmsson, Valgerður Bjarnadóttir, Þórdís Kristmundsdóttir og Þórir Hrafn Gunnarsson. Eyjólfur Árni Rafnsson (varamaður Ingu Jónu Þórðardóttur) boðaði forföll. Fundargerð ritaði Magnús Diðrik Baldursson.

Áður en gengið var til dagskrár reifaði rektor stuttlega nokkra atburði í starfi Háskóla Íslands um þessar mundir, s.s. vel heppnaða og fjölsótta alþjóðlega ráðstefnu OECD/NUS um stjórnun háskóla í byrjun júní, veitingu heiðursdoktorsnafnbótar og opinn fyrirlestur Donna E. Shalala, fyrrverandi heilbrigðisráðherra Bandaríkjanna og núverandi rektor University of Miami í Flórída 11. júní sl., glæsilega dagskrá og lokahátíð Háskóla unga fólksins vikuna 9.-13. júní sl., fjölmennustu brautskráningu kandídata í sögu Háskóla Íslands 14. júní sl. og kall eftir umsóknum um sérstakan stuðning við sterk rannsóknasvið innan Háskóla Íslands. Þá greindi rektor frá atburðum dagsins: Rektor og utanríkisráðherra undirrituðu viljayfirlýsingu um stofnun alþjóðlegs jafnréttisskóla og rannsóknaseturs um jafnréttismál við Háskóla Íslands, listamenn afhentu Vigdísi Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta Íslands, listaverk sem verða seld til ágóða fyrir Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum og undirritaður var samstarfssamningur við Ohio State University í Bandaríkjunum. Einnig gat rektor glæsilegrar 100 ára afmælishátíðar Kennaraháskóla Íslands í Borgarleikhúsinu 7. júní sl. Loks sagði rektor frá því að á morgun, 20. júní nk., verða veittir í fyrsta sinn styrkir úr nýstofnuðum Afreks- og hvatningarsjóði Háskóla Íslands til 25 nýnema við skólann.

1. Mál á dagskrá

1.1 Nýtt skipulag og stjórnkerfi Háskóla Íslands.
a) Lög um opinbera háskóla, samþykkt á Alþingi 30. maí 2008.
b) Umboð núverandi háskólaráðs framlengt til 1. október 2008, skv. nýjum lögum.
c) Sameining Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands 1. júlí 2008.
d) Tillögur að reglum sem setja þarf fyrir 1. júlí 2008.
e) Fundir rektors með deildum Háskólans.

Rektor greindi frá því að frumvarp til laga um opinbera háskóla hefði verið samþykkt á Alþingi og orðið að lögum 30. maí sl. Samkvæmt nýju lögunum er umboð núverandi háskólaráðs framlengt til 1. október nk. Á síðasta fundi háskólaráðs, sem haldinn var sama dag og frumvarpið lá fyrir fundi Alþingis til annarrar umræðu, samþykkti ráðið að ef frumvarpið yrði óbreytt að lögum yrði leitað til núverandi starfsnefnda háskólaráðs um að starfa áfram til 1. október nk. Þetta hefur nú gengið eftir. Þá mun sameining Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands taka formlega gildi 1. júlí nk., á sama tíma og nýtt skipulag og stjórnkerfi Háskóla Íslands. Samkvæmt hinu nýja skipulagi verður Háskólanum skipað í fimm fræðasvið sem hvert um sig skiptist í 3-6 deildir. Fræðasviðin eru félagsvísindasvið, heilbrigðisvísindasvið, hugvísindasvið, menntavísindasvið og verkfræði- og náttúruvísindasvið. Þá greindi rektor frá því að nýlega voru auglýst til umsóknar fimm ný störf forseta fræðasviða og rennur umsóknarfrestur út 11. ágúst nk. Rektor mun ráða í störfin að fenginni umsögn valnefnda fræðasviðanna. Loks skýrði rektor frá því að hún hefði á síðustu vikum haldið fundi með flestum hinna verðandi 22 deildum Háskóla Íslands. Einnig voru haldnir fundir í starfshópum um málefni fræðasviðanna fimm, sem skipaðir voru deildarforsetum, fulltrúum stjórnsýslu fræðasviðanna og fulltrúum rektors. Rektor hafði áður haldið fundi með starfsfólki stjórnsýslu fræðasviðanna og með skrifstofustjórum deilda og einnig hafði starfsmannastjóri og fulltrúi rektors fundað einslega með hverjum skrifstofustjóra fyrir sig. Þetta ítarlega samráðsferli hefði verið til þess að upplýsa alla hagsmunahópa og tryggja aðkomu þeirra að útfærslu hins nýja stjórnskipulags.

Inn á fundinn kom Þórður Kristinsson, sviðsstjóri kennslusviðs, og gerði grein fyrir framlögðu minnisblaði um verkefni, stöðu mála, tillögur og framkvæmd í kjölfar nýrra laga um opinbera háskóla, dags. 16. júní 2008. Minnisblaðið hefur m.a. að geyma tillögur að reglum um ýmis mál í tengslum við innleiðingu nýrra laga og nýs stjórnskipulags. Um er að ræða tillögur að reglum um skipulagseiningar og starfsheiti stjórnenda (sbr. 4., 11. og 12. gr. laga um opinbera háskóla), um afmörkun ákvörðunarvalds forseta fræðasviðs um ráðningar o.fl. (sbr. 5., 8. og 17. gr. laganna) og um dómnefndir og valnefndir (sbr. 15.-17. gr. laganna). Auk þess gerir minnisblaðið grein fyrir vinnu að undirbúningi reglna um skipan fulltrúa á háskólaþingi (sbr. 10. og 14. gr. laganna), um framgang og ótímabundna ráðningu akademískra starfsmanna (sbr. 15.-17. gr. laganna), um gjaldtöku, ráðstöfun gjalda o.fl. (sbr. 24. gr. laganna), um viðbótarfulltrúa í háskólaráði sem og um reglur sem nýtt háskólaráð setur eftir 1. október 2008. Málið var rætt ítarlega og svöruðu rektor og Þórður spurningum og athugasemdum ráðsmanna. Fram komu tillögur um fáeinar minniháttar breytingar á minnisblaðinu.

- Framlagðar tillögur að reglum samþykktar samhljóða með minniháttar breytingum. Einnig var staðfest heiti fræðasviðanna fimm og deildanna sem þau mynda. Framangreindar reglur verða birtar sem auglýsing í Stjórnartíðindum og taka gildi 1. júlí nk. Fulltrúi Félags prófessora og Félags háskólakennara sat hjá við afgreiðslu málsins.

1.2 Skýrsla starfshóps háskólaráðs um endurskoðun upplýsingatæknimála og mótun upplýsingatæknistefnu.
Helgi Þorbergsson, fulltrúi deilda raunvísindasviðs og formaður starfshóps háskólaráðs um endurskoðun upplýsingatæknimála og mótun upplýsingatæknistefnu, gerði grein fyrir skýrslu starfshópsins. Málið var rætt ítarlega og svaraði Helgi spurningum og athugasemdum fulltrúa í háskólaráði. Góður rómur var gerður að tillögum sem fram koma í skýrslunni.

1.3 Háskóli Íslands, stjórnsýsluúttekt. Stjórnsýsluendurskoðun (2005). Eftirfylgni, maí 2008.
Magnús Diðrik Baldursson, gæðastjóri Háskólans, gerði grein fyrir framlagðri greinargerð Ríkisendurskoðunar um eftirfylgni með stjórnsýsluúttekt á Háskóla Íslands sem fram fór árið 2005. Í greinargerðinni kemur fram að Háskóli Íslands hefur brugðist við flestum þeim ábendingum um úrbætur sem fram koma í úttekt Ríkisendurskoðunar. Málið var rætt og svaraði Magnús Diðrik spurningum ráðsmanna.

1.4 Ársskýrsla Flugkerfa hf. 2007, sbr. síðasta fund.
Inn á fundinn kom Ebba Þóra Hvannberg, prófessor og fulltrúi Háskóla Íslands í stjórn Flugkerfa hf., og gerði grein fyrir ársskýrslu félagsins. Málið var rætt og svaraði Ebba Þóra spurningum ráðsmanna. Helgi Þorbergsson vék af fundi undir þessum dagskrárlið.

2. Erindi til háskólaráðs

2.1 Kæra til háskólaráðs frá nemanda í hjúkrunarfræðideild, dags. 19. maí sl., sbr. síðasta fund. Tillaga að afgreiðslu.
Helgi Þorbergsson gerði grein fyrir tillögu millifundanefndar háskólaráðs um afgreiðslu á beiðni nemenda í hjúkrunarfræðideild um að háskólaráð endurskoði ákvörðun deildarráðs hjúkrunarfræðideildar um synjun á beiðni nemandans um framlengingu á námstíma. Í millifundanefndinni sátu, auk Helga, þau Þórdís Kristmundsdóttir, fulltrúi deilda heilbrigðisvísindasviðs og Þórir Hrafn Gunnarsson, fulltrúi stúdenta. Málið var rætt.
- Samþykkt einróma að staðfesta ákvörðun deildarráðs hjúkrunarfræðideildar og synja beiðni nemandans.

2.2 Fjárhagsáætlun fyrir MBA-nám við viðskipta- og hagfræðideild 2008-2010.
Kristín Ingólfsdóttir háskólarektor þurfti að víkja af fundi og tók Ólafur Þ. Harðarson, fulltrúi deilda félagsvísindasviðs og varaforseti háskólaráðs, við fundarstjórninni. Gerði Ólafur grein fyrir málinu og var það rætt.
- Samþykkt einróma.

2.3 Tillögur að breytingum á reglum og að nýjum reglum.
a) Tillaga frá viðskipta- og hagfræðideild að breytingu á 4. gr. reglna um Viðskiptafræðistofnun Háskóla Íslands nr. 824/2001.

Þórður Kristinsson gerði grein fyrir málinu og var það rætt stuttlega.
- Frestað til næsta fundar og óskað eftir skýringum viðskipta- og hagfræðideildar á því hvers vegna fulltrúi stúdenta á ekki lengur sæti í stjórn Viðskiptafræðistofnunar skv. tillögunum.

2.4 Brautskráning kandídata 25. október 2008.
Þórður Kristinsson gerði tillögu um að brautskráning kandídata 25. október 2008 verði samkvæmt eldri skipan þannig að kandídatar brautskráist frá núverandi 11 deildum og núverandi forsetar þeirra annist brautskráninguna. Framkvæmd brautskráningar kandídata frá núverandi Kennaraháskóla Íslands fari fram með hliðstæðum hætti. Með því lýkur í reynd háskólaárinu 2007-2008. Fram kom að starfshópur rektors vinnur að endurskoðun á fyrirkomulagi brautskráninga.
- Samþykkt einróma.

2.5 Framlenging umboðs nokkurra stjórna og ráða, sbr. minnisblað.
Þórður Kristinsson gerði grein fyrir málinu.
- Samþykkt einróma.

3. Mál til fróðleiks

3.1 Ræða rektors við brautskráningu kandídata í Laugardalshöll 14. júní sl.

3.2 Úthlutun úr Afreks- og hvatningarsjóði stúdenta.

Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 16.10.