Skip to main content
19. júní 2017

Fyrsta alþjóðlega táknmálsráðstefnan á Íslandi

""

Von er á tæplega 100 fræðimönnum á sviði táknmálsfræða í Háskóla Íslands dagana 21.-22. júní en þá verður ráðstefnan Formal and Experimental Advances in Sign Language Theory (FEAST) haldin í skólanum. Þetta er fyrsta alþjóðlega táknmálsráðstefnan sem haldin er hér á landi.

Aðalskipuleggjandi ráðstefnunnar er Rannsóknastofa í táknmálsfræðum við Háskóla Íslands ásamt Málvísindastofnun. Ráðstefnunefnd skipa Rannveig Sverrisdóttir, lektor í táknmálfræði, Jóhannes Gísli Jónsson, prófessor í íslenskri málfræði, Kristín Lena Þorvaldsdóttir, sviðsstjóri á Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra, og Þórhalla Guðmundsdóttir Beck, doktorsnemi í íslenskri málfræði.  

FEAST-ráðstefnan var fyrst haldin í Feneyjum 2011 og hefur þegar unnið sér sess sem mikilvægur vettvangur fyrir táknmálsfræðinga um allan heim en þetta er í fyrsta skipti sem alþjóðleg táknmálsráðstefna er haldin hér á landi. Á ráðstefnunni verða 18 fyrirlestrar og 13 veggspjöld um margvísleg efni sem tengjast táknmálum en búist er við að tæplega 100 fræðimenn víðs vegar úr heiminum muni sækja ráðstefnuna.

FEAST-ráðstefnan er ætluð bæði heyrnarlausum og heyrandi fræðimönnum sem vinna að táknmálsrannsóknum. Tungumál ráðstefnunnar eru tvö, enska og amerískt táknmál (ASL), en túlkunin verður í höndum erlendra táknmálstúlka sem eru sérþjálfaðir í að túlka fyrirlestra um málvísindi á milli ensku og ASL. 

Fólk á gangi við Háskólatorg