Skip to main content

Fundargerð háskólaráðs 1. júní 2017

6/2017

HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR

Ár 2017, fimmtudaginn 1. júní var haldinn fundur í háskólaráði sem hófst kl. 13.

Fundinn sátu Jón Atli Benediktsson, Borgar Þór Einarsson (varamaður fyrir Orra Hauksson, kom inn á fundinn eftir lið 2a), Eiríkur Rögnvaldsson, Erna Hauksdóttir, Guðrún Geirsdóttir, Stefán Hrafn Jónsson, Svanhildur Konráðsdóttir (varamaður fyrir Ásthildi Margréti Otharsdóttur og Rögnu Árnadóttur), Tómas Þorvaldsson, Tryggvi Másson (varamaður fyrir Rögnu Sigurðardóttur) og Þengil Björnsson. Fundinn sátu einnig Elín Blöndal, Magnús Diðrik Baldursson, sem ritaði fundargerð og Þórður Kristinsson.

1.    Setning fundar.
Rektor setti fundinn og greindi frá því að engin athugasemd hefði borist við fundargerð síðasta fundar og hefði hún því skoðast samþykkt og verið birt á háskólavefnum. Þá spurði rektor hvort einhver hefði athugasemd við dagskrá fundarins og var svo ekki. Jafnframt spurði rektor hvort einhver teldi sig vanhæfan til að taka þátt í meðferð máls á dagskrá og var svo ekki. Ekki voru gerðar athugasemdir við liðinn „bókfærð mál“ og skoðast hann því samþykktur.

2.    Fjármál Háskóla Íslands. Staða, horfur, áætlun.
Inn á fundinn kom Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri miðlægrar stjórnsýslu.

a)    Ársreikningur Háskóla Íslands 2016.
Fyrir fundinum lá ársreikningur Háskóla Íslands áritaður af ríkisendurskoðanda. Guðmundur gerði grein fyrir málinu og var það rætt.
– Ársreikningur Háskóla Íslands fyrir árið 2016 samþykktur einróma.

b)    Tillaga frá fjármálanefnd háskólaráðs um uppgjör vinnuframlags vegna kennslu umfram starfsskyldur, sbr. síðasta fund.
Fyrir fundinum lágu umsagnir um tillögu fjármálanefndar háskólaráðs um uppgjör vinnuframlags vegna kennslu umfram starfsskyldur, sbr. síðasta fund, ásamt uppfærðri tillögu fjármálanefndar háskólaráðs. Skriflegar umsagnir höfðu borist frá Félagi háskólakennara, Félagi prófessora og forsetum Menntavísindasviðs og Hugvísindasviðs, auk þess sem lögfræðingar háskólans skiluðu minnisblaði um málið. Rektor, sem jafnframt er formaður fjármálanefndar, gerði grein fyrir málinu og var það rætt.
– Samþykkt einróma.

c)    Langtímaáætlun í ríkisfjármálum.
Rektor gerði grein fyrir málinu og var það rætt. Fram kom að fimm ára áætlun í ríkisfjármálum var samþykkt á Alþingi sl. nótt.

d)    Um verklag við fimm ára fjárhagsáætlunargerð fyrir Háskóla Íslands, sbr. síðasta fund.
Fyrir fundinum lá tillaga starfshóps háskólaráðs um verklag við fimm ára fjárhagsáætlunargerð fyrir Háskóla Íslands. Inn á fundinn kom Daði Már Kristófersson, forseti Félagsvísindasviðs og meðlimur í starfshópnum, en auk hans skipuðu hópinn Sigurður Jóhannesson, forstöðumaður Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, formaður starfshópsins og Ásthildur Otharsdóttir, fulltrúi í háskólaráði. Daði Már gerði grein fyrir tillögum starfshópsins í forföllum Sigurðar og voru þær ræddar.
– Samþykkt einróma að rektor fari yfir tillögurnar og leiti utanaðkomandi ráðgjafar við úrvinnslu málsins. Gerð verði áætlun um innleiðingu og framkvæmd. Staða málsins verður kynnt á næsta fundi háskólaráðs í september nk.

3.    Starfsáætlun háskólaráðs 2016-2017. Yfirlit um stöðu mála.
Fyrir fundinum lá starfsáætlun háskólaráðs 2016-2017 sem samþykkt var á fundi ráðsins 12. október sl. og yfirlit um framkvæmd og stöðu einstakra mála. Rektor gerði grein fyrir málinu og var það rætt. Fram kom að starfsáætlunin hefur gengið eftir að mestu leyti.

4.    Álit nefndar háskólaráðs um störf ráðsins á liðnu háskólaári, sbr. 10. gr. starfsreglna ráðsins.
Eiríkur Rögnvaldsson, varaforseti háskólaráðs og formaður nefndar ráðsins um störf þess á liðnu starfsári, gerði grein fyrir áliti nefndarinnar, en hlutverk hennar er að rýna vinnubrögð ráðsins og leggja eftir atvikum til umbætur á starfsháttum þess. Málið var rætt og tekið undir þær ábendingar sem settar eru fram í álitinu.
– Sameiginlegri stjórnsýslu falið að undirbúa útfærslu og framkvæmd tillagnanna. Starfsreglur háskólaráðs verða uppfærðar til samræmis á fundi ráðsins í september nk., sbr. 11. gr. starfsreglnanna.

5.    Nýtt stjórnsýslusvið, upplýsingatæknisvið.
Fyrir fundinum lá minnisblað um nýtt stjórnsýslusvið, upplýsingatæknisvið. Inn á fundinn komu Guðbjörg Linda Rafnsdóttir, aðstoðarrektor vísinda og Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri miðlægrar stjórnsýslu og gerðu grein fyrir málinu hefur verið kynnt og rætt á fyrri stigum í háskólaráði.
– Samþykkt einróma að fela rektor að útfæra fyrirliggjandi tillögu um nýtt upplýsingatæknisvið og að henni verði hrint í framkvæmd á háskólaárinu 2017-2018.

6.    Niðurstöður háskólaþings 19. maí 2017.
Fyrir fundinum lá minnisblað um niðurstöður háskólaþings 19. maí sl. Rektor gerði grein fyrir málinu. Fram kom að í vinnuhópum á þinginu var m.a. rætt um fyrirkomulag háskólaþings og verður fjallað um þetta í þriðja og síðasta áfanga yfirstandandi úttektar á stjórnkerfi og skipulagi Háskóla Íslands sem gert er ráð fyrir að ljúki í haust.

7.    Framkvæmd verklagsreglna um rekstur rannsóknaverkefna sem njóta erlendra styrkja. Staða mála.
Inn á fundinn kom Halldór Jónsson, sviðsstjóri vísinda- og nýsköpunarsviðs og gerði grein fyrir hvernig staðið er að rekstri rannsóknaverkefna sem njóta erlendra styrkja, sbr. verklagsreglur um skyldur styrkþega rannsóknastyrkja og þjónustu við þá sem samþykktar voru í háskólaráði 8. desember sl. Málið var rætt og svaraði Halldór spurningum fulltrúa í háskólaráði.

8.    Heiðursdoktorsnafnbót í Guðfræði- og trúarbragðafræðideild.
Fyrir fundinum lá tillaga Guðfræði- og trúarbragðafræðideildar um veitingu heiðursdoktorsnafnbótar ásamt umsögn heiðursdoktorsnefndar.
– Tillaga Guðfræði- og trúarbragðafræðideildar um veitingu heiðursdoktorsnafnbótar samþykkt einróma.

9.    Starf jafnréttisnefndar. Helstu mál á döfinni.
Inn á fundinn kom Herdís Sveinsdóttir, formaður jafnréttisnefndar háskólaráðs og gerði grein fyrir helstu málum á döfinni hjá nefndinni. Málið var rætt og svaraði Herdís spurningum ráðsmanna. Fram kom að Herdís mun láta af starfi formanns nefndarinnar 30. júní nk. en 1. júlí nk. tekur hún við starfi deildarforseta Hjúkrunarfræðideildar. Þakkaði rektor Herdísi fyrir vel unnin störf á vettvangi jafnréttisnefndar.

10.    Bókfærð mál.
a)    Endurskoðuð erindisbréf starfsnefnda háskólaráðs m.t.t. jafnréttissjónarmiða.
– Samþykkt.

b)    Skipan starfsnefnda háskólaráðs.
Starfsnefndir háskólaráðs eru skipaðar skv. erindisbréfum sem háskólaráð setur, sbr. 7. gr. reglna nr. 569/2009. Skipunartími starfsnefndanna er þrjú ár. Að svo stöddu hefur ekki verið gengið frá skipun formanna vísindanefnda, gæðanefnda, kennslumálanefnda og jafnréttisnefnda fræðasviðanna, nema í einstökum tilvikum. Hið sama á við um tilnefningu fulltrúa stúdenta. Lagt er til að rektor verði falið að ganga formlega frá skipun starfsnefndanna er ákvörðun um formenn á öllum fræðasviðum liggur fyrir og tilnefningar hafa borist um fulltrúa stúdenta.

Lagt er til að starfsnefndir háskólaráðs verði skipaðar eins og hér segir:

Fjármálanefnd: Í nefndinni eiga sæti forsetar fræðasviða og rektor, sem er formaður. Nefndin verður þannig skipuð 1.7.2017-30.6.2020: Jón Atli Benediktsson, rektor, formaður, Daði Már Kristófersson, prófessor, forseti Félagsvísindasviðs, Guðmundur Hálfdanarson, prófessor, forseti Hugvísindasviðs, Inga Þórsdóttir, prófessor, forseti Heilbrigðisvísindasviðs, Jóhanna Einarsdóttir, prófessor, forseti Menntavísindasviðs og Sigurður Magnús Garðarsson, prófessor, verðandi forseti Verkfræði- og náttúruvísindasviðs.

Gæðanefnd: Í nefndinni eiga sæti einn fulltrúi frá hverju fræðasviði, formaður tilnefndur af rektor og einn fulltrúi tilnefndur af stúdentum. Lagt er til að Sigurður Magnús Garðarsson, prófessor á Verkfræði- og náttúruvísindasviði, verði formaður, en rektor verði falið að ganga frá skipun annarra fulltrúa þegar tilnefningar liggja fyrir.

Jafnréttisnefnd: Í nefndinni eiga sæti formenn jafnréttisnefnda fræðasviða, formaður skipaður af rektor og einn fulltrúi tilnefndur af stúdentum. Lagt er til að Hanna Ragnarsdóttir, prófessor á Menntavísindasviði, verði formaður, Samúel Lefever, dósent, verði fulltrúi Menntavísindasviðs (varamaður hans verði Brynja Elisabeth Halldórsdóttir, lektor), en rektor verði falið að ganga frá skipun annarra fulltrúa þegar tilnefningar liggja fyrir.

Kennslumálanefnd: Í nefndinni eiga sæti formenn kennslumálanefnda fræðasviða, formaður skipaður af rektor og einn fulltrúi tilnefndur af stúdentum. Steinunn Gestsdóttir, prófessor og aðstoðarrektor kennslu og þróunar, verður formaður og lagt er til að Þórdís Katrín Þorsteinsdóttir, lektor, verði fulltrúi Heilbrigðisvísindasviðs en rektor verði falið að ganga frá skipun annarra fulltrúa þegar tilnefningar liggja fyrir.

Samráðsnefnd um kjaramál: Í nefndinni eiga sæti þrír fulltrúar, tveir þeirra starfs síns vegna en formaður er valinn úr röðum fastráðinna kennara. Lagt er til að nefndin verði þannig skipuð 1.7.2017-30.6.2020: Guðmundur R. Jónsson, prófessor og framkvæmdastjóri miðlægrar stjórnsýslu, formaður, Ásta Möller, sviðsstjóri starfsmannasviðs og Jenný Bára Jensdóttir, sviðsstjóri fjármálasviðs.

Vísindanefnd: Í nefndinni eiga sæti formenn vísindanefnda fræðasviða Háskóla Íslands, formaður skipaður af rektor og einn fulltrúi (doktorsnemi) tilnefndur af stúdentum. Guðbjörg Linda Rafnsdóttir, prófessor og aðstoðarrektor vísinda, verður formaður og lagt er til að Einar Stefán Björnsson, prófessor, verði fulltrúi Heilbrigðisvísindasviðs (varamaður hans verði Elín Soffía Ólafsdóttir, prófessor), en rektor verði falið að ganga frá skipun annarra fulltrúa þegar tilnefningar liggja fyrir.

– Samþykkt.

c)    Skipan fagráðs Háskóla Íslands um viðbrögð við kynbundinni og kynferðislegri áreitni og öðru kynferðislegu ofbeldi.
Háskólaráð skipar fagráðið til þriggja ára skv. 3. gr. verklagsreglna þess. Sem formann skal skipa einstakling sem hefur fagþekkingu og reynslu af meðferð mála af þessu tagi en er ekki í föstu starfi vð Háskóla Íslands. Auk formanns skal skipa einn fulltrúa tilnefndan af starfsmannasviði og einn fulltrúa tilnefndan af náms- og starfsráðgjöf. Lagt er til að fagráðið verði þannig skipað 1.7.2017-30.6.2020: Þóra Sigfríður Einarsdóttir, sálfræðingur hjá Domus Mentis – Geðheilsustöð, formaður, Brynhildur G. Flóvenz, dósent við Lagadeild, tilnefnd af starfsmannasviði og Ragnar Pétur Ólafsson, dósent við Sálfræðideild, tilnefndur af náms- og starfsráðgjöf.
– Samþykkt.

d)    Tillaga stjórnar Hugvísindasviðs að breytingu á reglum nr. 569/2009 sem lýtur að því að veitt verði heimild til Íslensku- og menningardeildar til að gefa nemendum kost á að ljúka BA-prófi án lokaritgerðar í námsbraut í íslensku sem annað mál.
– Samþykkt.

e)    Skipan vísindasiðanefndar Háskóla Íslands.
Háskólaráð skipar vísindasiðanefnd skv. gr. 5.1 verklagsreglna nefndarinnar. Nefndin er skipuð einum fulltrúa og varamanni frá hverju fræðasviði Háskóla Íslands eftir tilnefningu frá forsetum fræðasviðanna. Auk þess tilnefnir Siðfræðistofnun Háskóla Íslands einn fulltrúa og varamann. Formaður nefndarinnar og varamaður hans eru skipaðir af rektor án tilnefningar. Lagt er til að nefndin verði þannig skipuð 1.7.2017-30.6.2020: Sólveig Anna Bóasdóttir, prófessor á Hugvísindasviði, formaður, Ásdís Rósa Magnúsdóttir, prófessor á Hugvísindasviði (varamaður: Jón Karl Helgason, prófessor), Guðmundur Arnkelsson, prófessor á Heilbrigðisvísindasviði (varamaður: Bryndís Benediktsdóttir, prófessor), Hafsteinn Þór Hauksson, dósent við Félagsvísindasvið (varamaður: Guðrún Dröfn Whitehead, lektor), Ástríður Stefánsdóttir, dósent á Menntavísindasviði (varamaður: Ólafur Páll Jónsson, prófessor), Sigurður Erlingsson, prófessor við Verkfræði- og náttúruvísindasvið (varamaður: Árný Erla Sveinbjörnsdóttir, vísindamaður við Raunvísindastofnun), Henry Alexander Henrysson, aðjúnkt, tilnefndur af Siðfræðistofnun (varamaður: Eyja Margrét Brynjarsdóttir, sérfræðingur).
– Samþykkt.

f)    Stjórn Miðstöðvar framhaldsnáms.
Skv. 66. gr. reglna nr. 569/2009 fyrir Háskóla Íslands ræður rektor forstöðumann Miðstöðvar framhaldsnáms við Háskóla Íslands til fimm ára í senn og setur honum erindisbréf. Forstöðumanni til ráðuneytis skipar háskólaráð fimm menn í stjórn sem skipuð skal fulltrúum fræðasviða. Forstöðumaður miðstöðvarinnar er formaður stjórnar. Guðbjörg Linda Rafnsdóttir, prófessor og aðstoðarrektor vísinda, er formaður stjórnar og lagt er til að aðrir stjórnarmenn á tímabilinu 1.7.2017-30.6.2020 verði Bjarni Diðrik Sigurðsson, prófessor, fulltrúi Landbúnaðarháskóla Íslands, Bryndís Eva Birgisdóttir, prófessor á Heilbrigðisvísindasviði, NN, áheyrnarfulltrúi, tilnefndur af doktorsnemum, Orri Vésteinsson, prófessor á Hugvísindasviði, Ólafur Pétur Pálsson, prófessor á Verkfræði- og náttúruvísindasviði, Ólöf Garðarsdóttir, prófessor á Menntavísindasviði (til 31.12.2017) og Þorgerður Einarsdóttir, prófessor á Félagsvísindasviði. Rektor verði falið að ganga frá skipun áheyrnarfulltrúa stúdenta þegar tilnefning liggur fyrir
– Samþykkt.

g)    Stjórn styrktarsjóðs Björns Þorsteinssonar.
Sbr. 5. gr. skipulagsskrár fyrir sjóðinn skal stjórn hans skipuð þremur mönnum og skulu þeir útnefndir af eftirgreindum aðilum, einn af hverjum: Stjórn Sagnfræðistofnunar, stjórn Sögufélagsins og háskólaráði Háskóla Íslands. Stjórnin kýs sér formann. Skipunartími stjórnar er þrjú ár. Fyrir liggur að Anna Agnarsdóttir, prófessor, hefur verið tilnefnd af stjórn Sögufélagsins og er lagt til að hún taki sæti í stjórn. Þar sem tilnefningar hafa ekki borist frá hinum tveimur útnefningaraðilunum er lagt til að rektor verði falið að ganga formlega frá skipun þeirra í kjölfar fundar háskólaráðs.
– Samþykkt.

h)    Stjórn Vísindagarða Háskóla Íslands ehf.
Samkvæmt samþykktum fyrir Vísindagarða Háskóla Íslands ehf. eru fimm menn í stjórn sem kjörin er á aðalfundi ár hvert. Fulltrúar Háskóla Íslands eru fjórir og fulltrúi Reykjavíkurborgar einn. Ráðgert er að aðalfundur verði haldinn 8. júní nk. Lagt er til að fulltrúar Háskóla Íslands verði áfram hinir sömu og verið hefur, nema að Einar Mäntylä, verkefnisstjóri, komi inn sem aðalmaður í stað Sigurðar Magnúsar Garðarssonar sem verði varamaður í stað Daða Más Kristóferssonar. Fulltrúar Háskóla Íslands í stjórn verði þessir: Hilmar Bragi Janusson, forseti Verkfræði- og náttúruvísindasviðs Háskóla Íslands, formaður, Einar Mäntylä, verkefnisstjóri, Eva Sóley Guðbjörnsdóttir, framkvæmdastjóri fjármála og reksturs hjá Advania og Steinunn J. Kristjánsdóttir, prófessor. Til vara: Kristín Pétursdóttir, forstjóri Mentor ehf. og stjórnarformaður Virðingar (1. varamaður), Sigurður Magnús Garðarsson, prófessor (2. varamaður). Rektor fer með atkvæði Háskóla Íslands á aðalfundi Vísindagarða Háskóla Íslands ehf.
– Samþykkt.

i)    Stjórn Heimspekisjóðs Brynjólfs Bjarnasonar.
Skv. 5. gr. skipulagsskrár fyrir sjóðinn skal stjórn hans skipuð þremur mönnum og skulu þeir útnefndir af eftirtöldum aðilum, einn af hverjum: Afkomendum Brynjólfs Bjarnasonar, stjórn Félags áhugamanna um heimspeki og háskólaráði Háskóla Íslands. Ekki kemur fram hver skipunatími stjórnar er en lagt er til að hann verði þrjú ár. Þar sem tilnefningar hafa ekki borist frá öllum tilnefningaraðilum er lagt til að rektor verði falið að ganga formlega frá skipun stjórnarinnar fyrir tímabilið 1.7.2010-30.6.2020 í kjölfar fundar háskólaráðs.
– Samþykkt.

j)    Verðlaunasjóður Sigurðar Helgasonar, prófessors.
Í undirbúningi er stofnun verðlaunasjóðs Sigurðar Helgasonar, prófessors í stærðfræði við Masschusetts Institute of Technology (MIT) í Bandaríkjunum og leggur Sigurður sjóðnum til verulega fjármuni sem stofnfé. Ráðgert er að sjóðurinn verji formlega stofnaður 5. september nk. og er tilgangur hans að styrkja efnilega nemendur til náms og rannsókna í stærðfræði. Að svo stöddu liggur skipulagsskrá ekki fyrir og er lagt til að rektor verði falið fyrir hönd háskólaráðs að ganga frá málinu af hálfu Háskóla Íslands og þ.m.t. að skipa fulltrúa í stjórn verðlaunasjóðsins.
– Samþykkt.

11.    Mál til fróðleiks.
a)    Skipun framgangsnefndar Háskóla Íslands, sbr. reglur nr. 263/2010.
b)    Stjórn meistara- og doktorsnáms í umhverfis- og auðlindafræðum 2017-2020.
c)    Stjórn meistara- og doktorsnáms í lýðheilsuvísindum 2017-2020.
d)    Stjórn Háskólaútgáfunnar 2017-2020.
e)    Skipun nefndarmanns í siðanefnd Háskóla Íslands ad hoc.
f)    Dagskrá fundar Aurora 11-12. maí sl. í Háskóla Íslands.
g)    Dagskrá Akkerisfundar um innleiðingu HÍ21, Stefnu Háskóla Íslands 2016-2021, 17. maí sl. og akkerisyfirlit.
h)    Glærur rektors frá upplýsingafundi með starfsfólki Háskóla Íslands 18. maí sl.
i)    Glærur rektors frá háskólaþingi 19. maí sl.
j)    Ársreikningur RHnets 2016.
k)    Greinargerð um eftirfylgni með stofnanaúttekt Gæðaráðs háskóla á Háskóla Íslands, UI’s Institution-Wide Review. Follow-up Report 2017.
l)    Dagskrá árlegs fundar stjórnenda Háskóla Íslands með fulltrúa Gæðaráðs háskóla 30. maí 2017.
m)    Drög að fundaáætlun háskólaráðs starfsárið 2017-2018.
n)    Upptökur frá fundinum "Uppþornun viskubrunnsins - fundur um framtíð háskólastigsins", sem haldinn var af ungliðahreyfingum stjórnmálaflokkanna á Kex Hostel 10. maí 2017.
o)    Fréttabréf Félagsvísindasviðs, maí 2017.

p)    Ávarp rektors við opnun málþings og endurnýjun samstarfssamnings við University of Minnesota, 29. maí 2017.
q)    Ávarp rektors á tíu ára afmæli Keilis, 4. maí 2017.

                            Fleira var ekki gert.
                            Fundi slitið kl. 15.50.