Skip to main content
23. mars 2017

Samstarf Háskóla Íslands og Háskólans í Björgvin eflt

""

Háskóli Íslands og Háskólinn í Björgvin í Noregi hyggjast auka samstarf sitt í rannsóknum, kennslu, miðlun vísinda og stúdenta- og starfsmannaskiptum. Þetta kemur fram í samkomulagi sem rektorar háskólanna, Jón Atli Benediktsson og Dag Rune Olsen, undirrituðu í Björgvin í dag að viðstöddum forseta Íslands og Haraldi Noregskonungi.

Jón Atli og Steinunn Gestsdóttir, aðstoðarrektor kennslu og þróunar, eru með Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands, í för í opinberri heimsókn hans til Noregs og var tækifærið nýtt til að treysta bönd á sviði vísinda við frændur vora Norðmenn.

Háskóli Íslands og Háskólinn í Björgvin eiga nú þegar í samstarfi í gegnum Aurora sem er samstarfsnet níu virtra evrópskra háskóla sem eiga það sameiginlegt að leggja í starfi sínu áherslu á rannsóknir, samfélagslega ábyrgð og að gera samfélögum betur kleift að takast á við áskoranir samtímans. 

Í heimsókninni í Háskólann í Björgvin áttu Jón Atli og Steinunn fundi með stjórnendum skólans þar sem samstarf skólanna og ýmislegt fleira bar á góma. Staðfest var greiðsla á gjöf Háskólans í Björgvin til nýbyggingar fyrir Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum við Háskóla Íslands sem nemur hálfri milljón norskra króna, jafnvirði hátt í sjö milljóna króna. Nýbyggingin verður opnuð formlega í næsta mánuði. 

Með samkomulaginu sem rektorarnir undirrituðu í dag undirstrika háskólarnir tveir mikilvægi rannsókna fyrir framþóun í samfélagi og efnahagslífi og nauðsyn samvinnu á því sviði þvert á landamæri. Kveðið er á um rannsóknasamstarf á afmörkuðum fræðasviðum sem skólarnir eru sterkir í á alþjóðavettvangi, m.a. í jarðvísindum, hafrannsóknum, norðurslóðarannsóknum, sjálfbærni og umhverfisvísindum en einnig er sérstaklega getið rannsókna tengdum vestnorrænum tungumálum. 

Samkomulagið er til fimm ára og miðar m.a. að því að tryggja gagnkvæman aðgang að tækjakosti og rannsóknaaðstöðu skólanna, samstarf um vinnustofur og ráðstefnur og starfsmanna-, stúdenta- og upplýsingaskipti svo eitthvað sé nefnt. 

Skrifað var undir samkomulagið í framhaldi af fyrirlestri forseta Íslands í Háskólanum í Björgvin sem bar yfirskriftina The use and the abuse of history, national heritage and nationalism. Upptöku af fyrirlestrinum og pallborði í kjölfarið ásamt undirskrift samkomulagsins má sjá á YouTube-rás Háskólans í Björgvin.

Dag Rune Olsen, rektor Háskólans í Björgvin, og Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands