Skip to main content

Reglur nr. 890-2016 um doktorsnám og doktorspróf við Heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands

Reglur um doktorsnám og doktorspróf við Heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands, nr. 890/2016.

með síðari breytingum

1. gr.  Gildissvið.

Reglur um doktorsnám og doktorspróf við Heilbrigðisvísindasvið eru settar með hliðsjón af Viðmiðum og kröfum um gæði doktorsnáms við Háskóla Íslands og reglum fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009. Reglur Heilbrigðisvísindasviðs um doktorsnám og doktorspróf eru rammareglur fyrir deildir sviðsins.

2. gr.  Markmið.

Markmið doktorsnáms á Heilbrigðisvísindasviði er að veita doktorsnemanum þjálfun og innsýn í rannsóknaraðferðir heilbrigðisvísinda og tengdra greina og að neminn öðlist ítarlega þekkingu á því sviði sem doktorsverkefni hans nær til. Í náminu felst þjálfun í undirbúningi og framkvæmd rannsókna, úrvinnslu og túlkun rannsóknarniðurstaðna, kynningu og rökræðum á eigin rannsóknum í samhengi við þekkingu á fræðasviðinu svo og birtingu í alþjóðlegum ritrýndum tímaritum. Þannig verði doktorsefnið vel undir það búið að starfa sjálfstætt að vísindum.

Miðstöð framhaldsnáms við Háskóla Íslands hefur umsjón með og fylgir eftir settum viðmiðum og kröfum um gæði framhaldsnáms við Háskóla Íslands, sbr. 66. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009. Standa ber skil á upplýsingum og gögnum sem Miðstöð framhaldsnáms við Háskóla Íslands kallar eftir.

3. gr.  Doktorsnámsnefnd Heilbrigðisvísindasviðs.

Stjórn Heilbrigðisvísindasviðs skipar doktorsnámsnefnd sviðsins og tilnefnir hver deild svo og Miðstöð í lýðheilsuvísindum einn fulltrúa. Verði stofnaðar nýjar námsbrautir innan Heilbrigðisvísindasviðs geta þær óskað eftir setu í nefndinni. Nefndin kýs sér formann. Skipan nefndarinnar skal vera í samræmi við 15. gr. laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Doktorsnámsnefnd fer með málefni doktorsnámsins í umboði sviðsstjórnar. Hlutverk hennar er að móta og hafa áhrif á stefnu og markmið námsins og ber hún ábyrgð á doktorsnámi innan sviðsins í samræmi við erindisbréf. Formaður doktorsnámsnefndar er tengiliður Heilbrigðisvísindasviðs við Miðstöð framhaldsnáms.

4. gr.  Umsóknarfrestur.

Heimilt er að taka við umsóknum um doktorsnám utan hefðbundins umsóknarfrests við Háskóla Íslands.

5. gr.  Meðferð umsókna og rannsóknaráætlana.

Umsóknum er skilað á rafrænum eyðublöðum Háskóla Íslands sem aðgengileg eru á vef skólans eða hjá skrifstofu sviðsins. Deild ber ábyrgð á að skrá umsókn og tilkynna nemendaskrá um að skráning hafi farið fram. Afgreiðslu umsóknar skal að jafnaði vera lokið og henni svarað innan sex vikna frá því að hún berst. Umsókn má rita á ensku eða íslensku, henni skal fylgja útdráttur á ensku og íslensku, námsáætlun, lýsing rannsóknarverkefnis og rannsóknaráætlun skv. lið c hér að neðan, sbr. umsóknareyðublað. Synji deild stúdent um inngöngu skal hún rökstyðja niðurstöðu sína. Afgreiðslu umsóknar skal í öllum tilvikum tilkynna til nemendaskrár.

Ferill umsókna og mat á rannsóknaráætlun:

  1. Nemandi sækir um inngöngu í doktorsnám á sérstöku eyðublaði sem fæst á heimasíðu, á skrifstofu Heilbrigðisvísindasviðs og deilda sviðsins. Með umsókn skulu fylgja afrit af prófskírteinum svo og ferilskrá (CV) umsækjanda og væntanlegs umsjónarkennara/ leiðbeinanda og nöfn tveggja umsagnaraðila.
  2. Umsóknin er skráð hjá Heilbrigðisvísindasviði og gengið úr skugga um að hún sé fullnægjandi m.t.t. þeirra atriða sem nefnd eru í lið a og að umsækjandi uppfylli almenn inntökuskilyrði skv. 6. gr. reglna þessara.
  3. Framhaldið fer eftir öðrum af tveimur ferlum eftir því hvenær rannsóknaráætlun liggur fyrir: Ítarleg rannsóknaráætlun skal innihalda eftirtalda kafla: Heimilt er að veita umsækjanda tækifæri til að endurbæta rannsóknaráætlun í samræmi við framkomnar athugasemdir.
    1. Í umsókn er gerð ítarleg grein fyrir námsáætlun, rannsóknarverkefni og rannsóknaráætlun. Í slíkri umsókn skal tilgreina ósk um væntanlega doktorsnefnd. Námsáætlun og rannsóknaráætlun eru metnar og umsækjandi ásamt leiðbeinanda boðaður í viðtal við fulltrúa doktorsnámsnefndar sviðs. Umsóknin er afgreidd með rökstuddri umsögn.
    2. Í umsókn er gerð stuttlega grein fyrir námsáætlun, rannsóknarverkefni og rannsóknaráætlun. Umsækjandi innritast í deild að uppfylltum almennum skilyrðum og gæðakröfum. Umsækjandi mótar ítarlega rannsóknaráætlun í samráði við umsjónarkennara sinn og leiðbeinanda og leggur hana fram ásamt ósk um væntanlega doktorsnefnd eigi síðar en [sex mánuðum eftir innritun.]1 Námsáætlun og rannsóknaráætlun eru metnar og umsækjandi ásamt leiðbeinanda boðaður í viðtal við fulltrúa doktorsnámsnefndar sviðs. Rannsóknaráætlun er afgreidd með rökstuddri umsögn.
    3. Lýsingu á rannsókn og hlutverki/þátttöku doktorsnefndarmanna í rannsókn (1-2 bls.). Ferilskrá nefndarmanna skal fylgja.
    4. Greinargerð um faglegar forsendur rannsóknar, þ.m.t. stutt fræðilegt yfirlit, stöðu þess á fræðasviði, uppbyggingu rannsóknar, aðferðafræði, rannsóknarspurningu/tilgátu ef við á (3-5 bls.).
    5. Verk-, tíma- og fjárhagsáætlun (1-2 bls.).
  4. Fastanefndir deilda fara yfir umsóknir og senda til doktorsnámsnefndar Heilbrigðisvísindasviðs.
  5. Doktorsnámsnefnd Heilbrigðisvísindasviðs synjar umsókn ef hún uppfyllir ekki gæðakröfur eða samþykkir umsóknina og tilkynnir niðurstöðu til viðkomandi deildar.
  6. Í framhaldi af niðurstöðu doktorsnámsnefndar ber deild ábyrgð á að tilkynna umsækjanda, nemendaskrá og Miðstöð framhaldsnáms hvort umsókn hafi verið samþykkt eða henni hafnað.
  7. Nemandi sem Heilbrigðisvísindasvið hefur samþykkt í doktorsnám skal snúa sér til nemendaskrár og ganga frá skráningu sinni í námið og greiðslu skrásetningargjalds komandi háskólaárs. 

1Breytt með 1. gr. rgl. nr. 1014/2023.

6. gr.  Inntökuskilyrði.

Til að innritast í doktorsnám á Heilbrigðisvísindasviði þarf nemandi að hafa lokið [meistaraprófi]1 frá Háskóla Íslands með lágmarkseinkunn 7,25 (á kvarðanum 0 til 10), eða öðru prófi sem doktorsnámsnefnd metur að sé samsvarandi. Heimilt er að víkja frá reglunni um lágmarkseinkunn hafi umsækjandi t.d. sýnt fram á námshæfni og/eða hæfni í sjálfstæðum rannsóknum. [Heimilt er að innrita nemanda í samþætt doktorsnám og meistaranám að loknu BS-/BA-námi, eða samþætt doktorsnám og kandídatsnám í læknisfræði að loknu þriðja námsári til kandídatsprófs í læknisfræði við Læknadeild, þ.e. að loknu 180 eininga námi til BS-prófs í læknisfræði.]1 Deildir geta sett skilyrði um forkröfur eða sérstakan undirbúning.

1Breytt með 1. gr. rgl. nr. 839/2019.

7. gr.  Skyldur nemenda.

Doktorsnemar skulu ástunda fagleg vinnubrögð og forðast að hafast nokkuð það að í námi sínu eða framkomu innan og utan háskólans sem er þeim til vanvirðu eða álitshnekkis eða varpað getur rýrð á nám þeirra eða háskólann. Þeim ber að kynna sér vel þær reglur og siði sem akademískt starf lýtur og temja sér í hvívetna viðurkennd fræðileg vinnubrögð í rannsóknum og meðferð heimilda, þ.m.t. að starfsfólk og nemendur sýni hvert öðru virðingu í framkomu, ræðu og riti, eigi málefnaleg skoðanaskipti, vinni saman af heilindum, leiti sannleikans og setji hann fram samkvæmt bestu vitund og forðist að láta persónuleg tengsl og hagsmuni hafa áhrif á samvinnu.

8. gr.  Einingafjöldi, tímalengd og framvinda náms.

Doktorsnám við Heilbrigðisvísindasvið að loknu meistaraprófi skal jafngilda a.m.k. þriggja ára námi í fullu starfi. Doktorsnám felst í vinnu við rannsóknarverkefni sem [telst 180 eða 240 einingar.]1 Að auki geta verið allt að 30 einingar í námskeiðum á framhaldsstigi. Heimilt er að doktorsnemi sé skráður í hlutanám frá upphafi. Sjái nemandi fram á að geta ekki lokið náminu innan fjögurra ára frá því það hófst skal hann sækja um til fastanefndar deildar að vera áfram innritaður í námið í allt að eitt ár til viðbótar. Ef frekari framlengingar er þörf skal slík umsókn endurtekin, þó þannig að heildarnámstími verði aldrei lengri en sex ár, nema samþykkt hafi verið að nemandi fái að stunda nám sem hlutastarf.

Miðað er við að í eðlilegri námsframvindu sé heildarlengd náms til kandídatsprófs í læknisfræði og áframhaldandi náms til doktorsprófs níu ár en að lágmarki skal námstíminn vera átta og hálft ár. Doktorsneminn þarf að hafa lokið kandídatsprófi frá Læknadeild Háskóla Íslands áður en til doktorsvarnar kemur.

Nemandi skilar framvinduskýrslu við lok hvers misseris, sem skal vera staðfest af umsjónarkennara/leiðbeinanda. Framvinda er metin og tilkynnt nemendaskrá. Fullnægjandi framvinda er skilyrði fyrir skráningu á næsta misseri. Við brautskráningu skal sýnt að nemandi hafi verið skráður og greitt skráningargjald allan námstímann. Hafi skráningargjald ekki verið greitt á námstímanum skal nemandi ganga frá skuld sinni við háskólann áður en brautskráning er staðfest.

1Breytt með 2. gr. rgl. nr. 839/2019.

9. gr.  Samsetning náms.

Doktorsnámið felur fyrst og fremst í sér þjálfun í vísindalegum vinnubrögðum og vinnu að samfelldu rannsóknarverkefni. [Hafi doktorsnemi ekki þegar lokið námskeiðum í tölfræði, vísindalegri aðferðafræði og siðfræði er honum skylt að taka slík námskeið.]1 Önnur námskeið í doktorsnámi geta verið málstofur deilda, [...]2 lesnámskeið og önnur námskeið á fagsviði doktorsverkefnis.

[Ætlast er til að doktorsnemi taki þátt í ráðstefnum á viðkomandi fræðasviði.]1 Stefnt skal að því eftir því sem kostur er að doktorsnemar fái tækifæri til að taka þátt í kennslu.

1Breytt með 3. gr. rgl nr. 839/2019.
2Breytt með 2. gr. rgl. nr. 1014/2023.

10. gr.  Breytingar á námsáætlun.

Ekki er heimilt að nota meistararitgerð aftur sem uppistöðu í doktorsritgerð.

Veigamiklar breytingar á námsáætlun í doktorsnámi eru háðar samþykki fastanefndar viðkomandi deildar og skulu kynntar doktorsnámsnefnd sviðsins og Miðstöð framhaldsnáms til staðfestingar.

11. gr.  Umsjónarkennari og leiðbeinendur.

Nemandi skal frá upphafi náms hafa umsjónarkennara úr hópi fastra kennara eða sérfræðinga við deild á Heilbrigðisvísindasviði í viðkomandi grein. Doktorsnemi ráðfærir sig við umsjónarkennara um gerð rannsóknaráætlunar, skipulag námsins, val námskeiða, ef við á, og annað sem tengist náminu. Umsjónarkennari ber ábyrgð á að doktorsnámið uppfylli kröfur Heilbrigðisvísindasviðs. Umsjónarkennari er venjulega jafnframt leiðbeinandi. Auk umsjónarkennara er heimilt að hafa einn eða tvo leiðbeinendur, sem mega vera utanaðkomandi enda uppfylli þeir þær kröfur sem gerðar eru í 12. gr. þessara reglna.

12. gr.  Kröfur til umsjónarkennara, leiðbeinenda og annarra sem leggja mat á námið og doktorsverkefnið.

Umsjónarkennari skal ávallt vera fastráðinn kennari í viðkomandi grein eða sérfræðingur á Heilbrigðisvísindasviði sem hefur fengið viðeigandi hæfnismat. Leiðbeinendur doktorsnema geta þeir einir orðið sem lokið hafa doktorsprófi og/eða áunnið sér dósentshæfi. Gæta þarf þess að verkefni nemandans sé á sérsviði leiðbeinenda. Leiðbeinendur doktorsnema, hvort sem þeir eru fastir kennarar við háskólann eða ekki, skulu vera viðurkenndir sérfræðingar á viðkomandi sviði og hafa birt ritsmíðar er tengjast verkefni nemanda á vettvangi sem gerir strangar fræðilegar kröfur.

13. gr.  Tengsl milli deilda og sviða og við aðra háskóla.

Doktorsnám getur farið fram við fleiri en eina deild innan Heilbrigðisvísindasviðs og getur einnig verið í tengslum við deildir annarra sviða. Doktorsnám getur verið í tengslum við erlendan háskóla, t.d. þannig að nemandinn taki hluta námsins við skólann eða fulltrúi hans sitji í doktorsnefndinni. Deildum Heilbrigðisvísindasviðs er heimilt að veita doktorsgráðu sameiginlega innan sviðsins eða í tengslum við deildir annarra sviða Háskóla Íslands. Heimilt er að veita doktorsgráðu sameiginlega með öðrum háskóla. Slíku erindi skal vísað til doktorsnámsnefndar Heilbrigðisvísindasviðs og samráð haft við Miðstöð framhaldsnáms og kennslusvið um samninga um sameiginlegt doktorsnám og prófgráður.

14. gr.  Doktorsnefndir.

Doktorsnemi og leiðbeinandi tilnefna þrjá til fimm sérfróða einstaklinga í doktorsnefnd sem doktorsnámsnefnd samþykkir og deild skipar. Í nefndinni skulu sitja: umsjónarkennari, leiðbeinandi/leiðbeinendur og tveir/fjórir aðrir og skal a.m.k. einn þeirra vera utan þeirrar stofnunar/rannsóknarstofu/námsbrautar/fræðasviðs sem verkefnið er unnið við. [Umsjónarkennari kallar doktorsnefnd saman ásamt doktors­nema innan 6 mánaða frá samþykkt rannsóknaráætlunar og svo a.m.k. tvisvar á ári meðan á náminu stendur.]1 [...]1 [Doktorsnefnd fylgist með framvindu námsins og ber ábyrgð á því að doktorsnámið samrýmist viðmiðum og kröfum Háskóla Íslands um gæði doktorsnáms.]1 [...]1 Doktorsefni getur kallað saman doktorsnefnd að eigin frumkvæði.

Í lok fyrsta námsárs metur doktorsnefnd hvort forsendur séu fullnægjandi fyrir áframhaldandi doktorsnámi. Þegar doktorsnám er u.þ.b hálfnað (eigi síðar en einu ári fyrir áætluð námslok) fer fram ítarlegt mat á stöðu verkefnisins (miðbikspróf). Doktorsneminn skrifar stutta samantekt um verkefnið og helstu niðurstöður sem hann sendir til doktorsnefndar og býður nefndarmönnum til opinnar kynningar á verkefninu. Á grundvelli hennar og umræðna er metin almenn þekking doktorsnemans og staða verkefnisins með tilliti til þess hvort efniviður sé nægur og hæfilegur fyrir doktorsritgerð. Er slíkt mat nauðsynlegt skilyrði fyrir doktorsvörn.

Loks metur doktorsnefnd ritgerðina áður en hún er lögð fram til varnar og skilar vandlega rökstuddu áliti til fastanefndar deildar og doktorsnámsnefndar sviðsins um það hvort doktorsritgerðin sé hæf til varnar og doktorsefni tilbúið til doktorsvarnar. Þar skulu koma fram upplýsingar um fyrra nám og háskólagráður, heiti verkefnis/ritgerðar, doktorsnefnd, samstarfsaðilar við verkefnið, upplýsingar um hvar vinnan fór fram, listi yfir og stutt lýsing á þeim vísindagreinum sem verkið byggir á, auk yfirlits sem lýsir faglegum ferli nemandans meðan á doktorsnáminu stóð (s.s. kennsla, fyrirlestrar, veggspjöld, skýrslur). [Umsjónarkennari hefur umsjón með ritun og skilum doktors­nefndar­álitsins en það skal undirritað af öllum doktorsnefndarmönnum.]1

1Breytt með 3. gr. rgl. nr. 1014/2023.

15. gr.  Andmælendur, dómnefnd og doktorsvörn.

Doktorsnámsnefnd Heilbrigðisvísindasviðs leggur mat á hvort innsend doktorsritgerð fullnægi almennum skilyrðum. Doktorsnámsnefndin fjallar um niðurstöðu doktorsnefndar og fastanefndar deildar um lok náms og tillögu um tvo andmælendur við verðandi doktorsvörn en þeir skulu vera óháðir aðilar, sem ekki eiga sæti í doktorsnefnd. Andmælendur skulu vera viðurkenndir sérfræðingar í viðfangsefni doktorsritgerðarinnar. Andmælendur mega ekki hafa þau faglegu eða persónulegu tengsl við doktorsnema, leiðbeinanda eða doktorsnefnd sem valda því að hægt sé að draga hæfi þeirra í efa. Tillögur um andmælendur eru sendar Miðstöð framhaldsnáms til samþykkis. Annar andmælandinn skal koma frá öðrum háskóla, en hinn má vera innan skólans eða innan deildar í undantekningartilfellum, þegar ekki er annar kostur. Skipuð er dómnefnd og eiga báðir andmælendur sæti í henni ásamt einum fulltrúa deildar sem er formaður nefndarinnar. Dómnefnd skilar áliti [fjórum]2 vikum fyrir doktorsvörn.

Andmælendur skulu fá endanlegt eintak doktorsritgerðar að minnsta kosti [átta]2 vikum fyrir doktorsvörn. Um framkvæmd doktorsvarnar gilda ákvæði 70. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009. [...]2

Ritgerð skal dæmd og varin samkvæmt reglum háskólans um doktorspróf. Doktorsefni skal verja ritgerð sína í háskólanum í heyranda hljóði. Deildarforseti stýrir doktorsvörn. Nánar er kveðið á um framkvæmd doktorsvarna í verklagsreglum háskólaráðs. Að lokinni munnlegri vörn ákveður deildarforseti ásamt andmælendum [...]1 hvort veita skuli doktorsnafnbót. [Verði ágreiningur fer um hann samkvæmt verklagsreglu sem háskólaráð setur, sbr. 70. g. reglna fyrir háskóla Íslands.]1 Fulltrúar nemenda á sviðsfundum eiga ekki atkvæðisrétt um mál er varða veitingu doktorsnafnbóta. Ekki eru gefnar einkunnir fyrir doktorspróf.

1Breytt með 1. gr. rgl. nr. 1535/2021.
2Breytt með 4. gr. rgl. nr. 1014/2023.

16. gr.  Skil og frágangur doktorsritgerðar.

Unnt er að skila inn doktorsritgerð til Háskóla Íslands á tvenns konar formi, annars vegar ritgerð sem byggist á birtum greinum (a), eða hins vegar ítarlegri ritgerð (monographia) án birtra greina (b), eins og nánar verður lýst hér að neðan. Doktorsritgerð skal skrifa á ensku. Í doktorsritgerð skal vera ítarlegur inngangur þar sem staða þekkingar á fræðasviðinu er rakin, aðferðum skal lýst, gerð grein fyrir niðurstöðum og loks skal vera ítarlegur umræðukafli sem fjallar um verkefnið í heild. Í ritgerð skal vera yfirlýsing um hvert framlag doktorsnemans var, tekið skal fram hvort aðrir hafa komið að verkinu og hver hlutur þeirra var. Geta skal stofnana eða fyrirtækja þar sem rannsóknin var unnin og tekið fram hverjir leiðbeinendur voru. Koma skal skýrt fram að verkefnið hafi verið unnið á vegum Háskóla Íslands og geta skal þeirra sem styrktu verkefnið. Um frágang ritgerðarinnar vísast til leiðbeininga Heilbrigðisvísindasviðs. [Prentuðum eintökum doktorsritgerðar skal skilað á skrifstofu Heilbrigðisvísindasviðs og rafrænu eintaki á Landsbókasafn-Háskólabókasafn. Um fjölda prentaðra eintaka vísast til leiðbeininga heilbrigðisvísindasviðs.]1 Í hverri doktorsritgerð skal vera útdráttur á íslensku og ensku og skal skila honum sérstaklega á tölvutæku formi til birtingar á heimasíðu Heilbrigðisvísindasviðs.

Form doktorsritgerðar:

  1. Ritgerð byggð á birtu efni eða efni samþykktu til birtingar. [Slík ritgerð skal byggð á ígildi a.m.k. þriggja vísindagreina í viðurkenndum ritrýndum tímaritum. Ekki færri en ein grein skal vera endanlega samþykkt til birt­ingar af ritstjórn ritrýnds tímarits. Skal doktorsefni vera fyrsti höfundur að þeirri grein en þó að jafnaði að öllum þremur greinunum. Deildir geta í sérreglum gert ríkari kröfur til ritgerðar en þær sem að framan greinir.]1 Með orðinu vísindagrein er að jafnaði átt við grein sem byggir á eigin gögnum/niðurstöðum, úrvinnslu og túlkun á þeim [og er í samræmi við viður­kennda staðla, þ.m.t. kerfisbundnar samantektir (systematic review), safngreiningar (meta-analysis) og aðferðafræðilegar rannsóknir.]1 Samræmis skal gætt við viðurkenndar hefðir á hverju fræðasviði. [... ]1 Ávallt skal vera skýrt hver þáttur doktorsnema er í viðkomandi verkefni og skal doktorsnámsnefnd bera ábyrgð á að sannreyna með doktorsnefnd að hlutverk doktorsnema sé fullnægjandi í samræmi við ofangreind ákvæði.
  2. Ítarleg ritgerð (monographia), þar sem þess er ekki krafist að ritgerðin, efni hennar eða hlutar efnis hennar hafi verið birtir eða samþykktir til birtingar. Slík ritgerð fer í strangara matsferli innan deildar en ritgerð sem byggð er á birtu efni. Doktorsnefnd og [fastanefnd deildar]1 bera sameiginlega ábyrgð á því að umfang verkefnis, hlutdeild doktorsnema í verkinu, umfang og formlegur frágangur ritgerðar sé af sömu gæðum og annars er krafist. [...]1 Dómnefnd er heimilt að kalla til fulltrúa doktorsnefndar til ráðuneytis. Dómnefnd skal skila mjög ítarlegu áliti með nákvæmri og gagnrýninni ritrýni.

1Breytt með 5. gr. rgl. nr. 1014/2023.

17. gr.  Lærdómstitill.

Að loknu doktorsnámi hlýtur nemandinn lærdómstitilinn Philosophiae Doctor (Ph.D.).

18. gr.  Doktorspróf án undangengins skipulagðs náms.

Sé doktorsritgerð lögð fram á Heilbrigðisvísindasviði til varnar án undangengins skipulagðs náms, í samræmi við 70. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009, vísar deildarráð viðkomandi deildar henni til doktorsnámsnefndar til umsagnar. Slík ritgerð skal að jafnaði hafa verið skrifuð án leiðbeiningar frá starfsmönnum Háskóla Íslands og stofnana sem tilheyra skólanum eða hann er í formlegum tengslum við. Doktorsnámsnefnd gerir tillögu til deildarráðs viðkomandi deildar um þriggja manna dómnefnd og andmælendur, sbr. 2. málsgrein 70. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands.

19. gr.  Staðfesting á reglum.

Reglur þessar eru settar í samræmi við VI. kafla reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009 og með heimild í lögum nr. 85/2008 um opinbera háskóla. Reglurnar hafa verið samþykktar af deildum Heilbrigðisvísindasviðs, stjórn fræðasviðsins og Miðstöð framhaldsnáms, sbr. 66. og 69. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009. Reglur þessar öðlast þegar gildi. Frá sama tíma falla úr gildi reglur nr. 1252/2011 um doktorsnám og doktorspróf við Heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands, reglur nr. 798/2006 um doktorsnám og doktorspróf við læknadeild Háskóla Íslands, reglur nr. 257/2004 um doktorsnám við hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands og reglur nr. 140/2004 um doktorsnám við lyfjafræðideild Háskóla Íslands.

Háskóla Íslands, 14. október 2016.