Skip to main content

Fundargerð háskólaráðs 12. október 2016

10/2016

HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR

Ár 2016, miðvikudaginn 12. október var haldinn fundur í háskólaráði sem hófst kl. 13.

Fundinn sátu Jón Atli Benediktsson, Ásthildur Margrét Otharsdóttir, Borgar Þór Einarsson (varamaður fyrir Orra Hauksson), Eiríkur Rögnvaldsson, Erna Hauksdóttir, Guðrún Geirsdóttir, Ragna Sigurðardóttir, Stefán Hrafn Jónsson, Svanhildur Konráðsdóttir (varamaður fyrir Rögnu Árnadóttur) og Tómas Þorvaldsson. Fundinn sátu einnig Elín Blöndal, Guðbjörg Linda Rafnsdóttir, Magnús Diðrik Baldursson sem ritaði fundargerð og Þórður Kristinsson. Þengill Björnsson boðaði forföll.

1.    Setning fundar.
Rektor setti fundinn og greindi frá því að engin athugasemd hefði borist við fundargerð síðasta fundar og hefði hún því skoðast samþykkt og verið birt á háskólavefnum. Þá spurði rektor hvort einhver hefði athugasemd við dagskrá fundarins og var svo ekki. Jafnframt spurði rektor hvort einhver teldi sig vanhæfan til að taka þátt í meðferð máls á dagskrá og var svo ekki. Eiríkur Rögnvaldsson óskaði eftir því að dagskrárliður 7a yrði tekinn til umræðu, en ekki voru gerðar athugasemdir við aðra liði undir „bókfærð mál“ og skoðast þeir því samþykktir.

2.    Fjármál Háskóla Íslands. Staða, horfur, áætlun.
Inn á fundinn komu Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri háskólans, og Jenný Bára Jensdóttir, sviðsstjóri fjármálasviðs. Fyrir fundinum lá minnisblað fjármálanefndar háskólaráðs um stöðu og horfur í fjármálum Háskóla Íslands árið 2017. Rektor fór yfir málið og greindi m.a. frá yfirstandandi fjáröflunarherferð íslensku háskólanna. Málið var rætt ítarlega.

3.    Starfsáætlun háskólaráðs fyrir háskólaárið 2016-2017, sbr. síðasta fund.
Fyrir fundinum lágu uppfærð drög að starfsáætlun háskólaráðs fyrir háskólaárið 2016-2017. Rektor gerði grein fyrir málinu og var það rætt. Fram komu nokkrar tillögur um breytingar á starfsáætluninni.
– Starfsáætlun háskólaráðs fyrir háskólaárið 2016-2017, með áorðnum breytingum, samþykkt einróma.

4.    Framkvæmdaáætlun (bygginga- og viðhaldsáætlun) Háskóla Íslands 2015-2024.
Inn á fundinn kom Sigurlaug I. Lövdahl, skrifstofustjóri framkvæmda- og tæknisviðs. Fyrir fundinum lá minnisblað um starfsáætlun háskólaráðs og stefnu og framkvæmdaáætlun Háskóla Íslands. Guðmundur gerði grein fyrir málinu og var það rætt ítarlega. Málið verður áfram á dagskrá háskólaráðs og í því sambandi verða málefni Vísindagarða Háskóla Íslands ehf. kynnt á næsta fundi.

5.    Innri endurskoðun. Drög að tillögu um almenna málsmeðferð, ábyrgð og framkvæmd ábendinga innri endurskoðanda, sbr. síðasta fund.
Rektor gerði grein fyrir málinu og var það rætt.
– Framlögð tillaga um málsmeðferð, ábyrgð og framkvæmd ábendinga innri endurskoðanda samþykkt einróma.

6.    Rannsóknasetur Háskóla Íslands.
Inn á fundinn kom Sæunn Stefánsdóttir, forstöðumaður Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands og gerði grein fyrir skipulagi og starfsemi setranna. Málið var rætt og svaraði Sæunn spurningum ráðsmanna.

7.    Bókfærð mál.
a)    Tillaga að breytingu á reglum um viðurkenningu Háskóla Íslands á akademísku hæfi starfsmanna á Landspítala og veitingu akademískra nafnbóta nr. 212/2011.
Eiríkur Rögnvaldsson vakti máls á því að skerpa þyrfti á orðalagi í 5. gr. reglna nr. 212/2011, í þá veru að akademíska nafnbótin verði ótímabundin að fimm árum liðnum uppfylli nafnbótarþegi settar kröfur.
– Framlögð tillaga að breytingu á reglum um viðurkenningu Háskóla Íslands á akademísku hæfi starfsmanna á Landspítala og veitingu akademískra nafnbóta nr. 212/2011 samþykkt einróma svo breytt. Gert er ráð fyrir að relgurnar verði birtar undir nýju númeri.

b)    Formaður stjórnar Rannsóknasjóðs Háskóla Íslands.
– Samþykkt að nýr formaður stjórnar Rannsóknasjóðs Háskóla Íslands verði Hanna Ragnarsdóttir, prófessor við Menntavísindasvið. Aðrir í stjórn Rannsóknasjóðs eru Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, prófessor við Menntavísindasvið, Tómas Philip Rúnarsson, prófessor við Verkfræði- og náttúruvísindasvið, Björn Þorsteinsson, prófessor við Hugvísindasvið, Margrét Þorsteinsdóttir, dósent við Heilbrigðisvísindasvið og Oddný Mjöll Arnardóttir, prófessor við Félagsvísindasvið.

c)    Nýr fulltrúi í gæðanefnd háskólaráðs.
– Samþykkt að nýr fulltrúi í gæðanefnd háskólaráðs verði Jóhanna Gunnlaugsdóttir, prófessor við Félagsvísindasvið. Aðrir fulltrúar í nefndinni eru Sigurður Magnús Garðarsson prófessor, formaður, Amalía Björnsdóttir, prófessor við Menntavísindasvið, Guðmundur Valur Oddsson, lektor við Verkfræði- og náttúruvísindasvið, Jón Ólafsson, prófessor við Hugvísindasvið, Helga M. Ögmundsdóttir, prófessor við Heilbrigðisvísindasvið, og Aron Ólafsson, fyrrverandi formaður Stúdentaráðs, fulltrúi stúdenta. Magnús Diðrik Baldursson, gæðastjóri og skrifstofustjóri rektorsskrifstofu, starfar með nefndinni.

d)    Tillögur Félagsvísindasviðs f.h. Félagsráðgjafardeildar um breytingu á 86. gr. reglna Háskóla Íslands nr. 569/2009.
– Samþykkt.

e)    Tillögur Heilbrigðisvísindasviðs að endurskoðuðum reglum um doktorsnám við deildir sviðsins.
– Samþykkt.

f)    Tillaga kennslusviðs f.h. Náms- og starfsráðgjafar um breytingu á 13. gr. reglna nr. 244/2014 um gjaldskrá Háskóla Íslands vegna þjónustu við nemendur o.fl.
– Samþykkt.

g)    Tillaga kennslusviðs að breytingu á 5. mgr. 61. gr. reglna Háskóla Íslands nr. 569/2009.
– Samþykkt.

8.    Mál til fróðleiks.
a)    Háskóli Íslands í hnotskurn.
b)    Nýr matslisti Times Higher Education World University Rankings 2016-2017.
c)    Skipun óháðrar ytri nefndar til að rannsaka Macchiarini-málið. Með fylgir bréf Háskóla Íslands og Landspítala til Persónuverndar, dags. 27. september 2016.
d)    Bréf mennta- og menningarmálaráðuneytis, dags. 9. september 2016: Tilkynning um val á aðila til að annast kennslu- og rannsóknarstarfsemi á sviði lögreglufræða. Með fylgir skýrsla matsnefndar.
e)    Erindisbréf og skipun málnefndar Háskóla Íslands.
f)    Endurnýjaður samstarfssamningur Háskóla Íslands og Veðurstofu Íslands, dags. 26. september 2016.
g)    Umsögn Háskóla Íslands um frumvarp til laga um kjararáð.
h)    Fréttabréf Félagsvísindasviðs, september 2016.
i)    Stofnun HÖFÐA friðarseturs Reykjavíkurborgar og Háskóla Íslands.
j)    Framsaga rektors um samstarf Háskóla Íslands og Landspítala, flutt á málstofu um rannsóknahús nýs háskólasjúkrahúss á Hótel Nordica 6. október sl.

Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 15.30.