Skip to main content
25. ágúst 2016

Sveppa leitað í síðsumarferð

""

Síðsumarið er tími uppskerunnar. Það á ekki aðeins við um heyforðann sem nú er kominn í hlöður og rúllur landsins eða grænmeti úr matjurðargörðum fólks heldur einnig ber og sveppi í náttúru Íslands sem nú eru að ná fullum þroska. Háskóli Íslands og Ferðafélag barnanna, undirdeild Ferðafélags Íslands, bjóða áhugasömum með í för í Heiðmörk laugardaginn 27. ágúst þar sem leitað verður að gómsætum sveppum undir styrkri leiðsögn Gísla Más Gíslasonar, prófessors við Háskóla Íslands, og samstarfsfólks hans. Ferðin er öllum opin og er þátttaka ókeypis.

Sveppir eru sælgæti en það er betra að þekkja þá góðu frá þeim vondu og eitruðu. Gísli og félagar munu kenna fólki að þekkja matsveppi og gefa góð ráð um hvernig best er að matreiða þá eða geyma.

Ferðir Háskólans og Ferðafélagsins á slóðir sveppanna í Heiðmörk hafa verið árviss viðburður og notið mikilla vinsælda. Þar geta bæði ungir sem aldnir notið sín enda eru fulltrúar frá Ferðafélagi barnanna, undirdeild Ferðafélags Íslands, með í för. Á laugardaginn kemur verður hist kl. 11 á einkabílum á bílastæðinu við Rauðhóla og þaðan ekið inn í Heiðmörk en áætlað er að ferðin taki á bilinu tvær til þrjár klukkustundir.

Á þriðja þúsund sveppategundir skráðar á Íslandi

Um 2.100 tegundir sveppa er skráðar á Íslandi og á hverju ári bætast við nýjar tegundir í þenna sérstaka flokki lífvera. Að sögn Gísla Más hafa sumar sveppategundir m.a. flust hingað með trjátegundum því margar þeirra eiga sveppi sem sambýlisveru, t.d. lerki og fura. 

Um 30 sveppategundanna hér á landi teljast ætar en þær er bæði að finna í skógarlundum, eins og þeim í Heiðmörk, og á víðavangi. Meðal ætra tegunda eru furusveppur, lerkisveppur, kantarella, merarostur og kúalubbi. Sem fyrr segir munu Gísli og samstarfsfélagar hans hjálpa göngugestum á laugardag að greina æta sveppi frá óætum ásamt því að gefa góð ráð um matreiðslu þeirra og geymslu til lengri tíma. Gísli hvetur göngugesti til þess að taka með sér ílát undir sveppina og eins bækur um sveppi ef þeir luma á slíku. 

Fregnir hafa borist af góðri berjasprettu samfara hlýju og björtu sumri  en hvaða áhrif skyldi það hafa á sveppavöxt á suðvesturhorninu? „Vöxturinn hefur verið ágætur sunnanlands en staðreyndin er sú að rigning örvar sveppavöxt og það hefur ekki verið eins mikið af henni í sumar og síðustu sumur,“ segir Gísli Már en bendir á að væta sé í kortunum fyrir helgi sem eigi að stuðla frekari sveppavexti.

Sveppaferðin í Heiðmörk á laugardag er sú næstsíðasta í samstarfi Háskóla Íslands og Ferðafélags Íslands á þessu ári. Samstarf aðilanna tveggja um gönguferðir undir yfirskriftinni „Með fróðleik í fararnesti“ má rekja aftur til ársins 2011 þegar Háskólinn fagnaði aldarafmæli sínu. Markmiðið með ferðunum er að nýta bæði reynslu og þekkingu fararstjóra Ferðafélagsins og þekkingu kennara og vísindamanna Háskólans í stuttum en áhugaverðum ferðum fyrir almenning á og í nágrenni höfuðborgarsvæðisins. Ferðirnar hafa verið opnar öllum og ókeypis.

Þrjú börn í sveppaferð
Þrjú börn í sveppaferð