Skip to main content
27. júlí 2016

Stórgóður árangur kappsakstursliðs Háskólans

""

Team Spark, Formula Student kappaksturslið Háskóla Íslands, náði í fyrsta skipti í sögu liðsins að taka þátt í aksturshluta Fomula-keppni verkfræðinema í nýafstaðinni ferð til Englands og Ítalíu. Liðið er nú á heimleið eftir lærdómsríkar tvær vikur.

Team Spark tók þátt í Formula Student keppnum bæði á Silverstone-brautinni í Bretlandi og í Varano á Ítalíu með nýjasta rafmagnsbíl sinn TS16, en þetta var í fyrsta skiptið sem liðið var með á tveimur mótum. Þegar hönnun TS16 hófst síðasta haust setti liðið sér háleit markmið en meginmarkmiðið var að komast í aksturshluta keppnanna í fyrsta skiptið í sögu Team Spark, en slíkt er afar erfitt með rafmagnsbíla vegna strangra öryggiskrafna.

Team Spark hefur tekið þátt í hinni árlegu Formula Student UK verkfræðinemakeppni á Silverstone frá árinu 2011. Um er að ræða fjögurra daga mót þar sem fyrstu tveir dagarnir fara í kynningar á hönnun, kostnaði, sjálfbærni og viðskiptaáætlun bílsins. Þar kynna keppendur jafnframt hugmyndir sínar á bak við bílinn og þurfa að geta rökstutt allar ákvarðanir varðandi bílinn fyrir dómurum keppninnar. Síðari helmingur Formula Student er aksturshluti keppninnar. Til að geta tekið þátt í aksturshlutanum þurfa bílarnir að uppfylla strangar og margskiptar öryggisprófanir sem kallaðar eru "scrutineering".

Vængir bílsins vöktu athygli

Team Spark stóð sig vel í kynningum sínum í Bretlandi og fékk gagnlegar ábendingar um hvað var gott og hvað mætti betur fara. Í síðari hluta keppninnar tókust liðsmenn á við nýjar villur í rafkerfinu en þeim hafði tekist að reka langvarandi rafmagnsbilanir í bíl síðasta árs á dyr. Unnið var hörðum höndum bæði daga og nætur við að betrumbæta bílinn. Eftir mikið kapp við tímann tókst liðinu ekki að komast í gegnum öryggisprófanirnar og út á akstursbrautinna. Árangurinn var engu síður mjög góður í öðrum hlutum keppninnar og hafnaði liðið í 64. sæti af 114 í heildarkeppninni. „Við náðum ótrúlega miklum árangri þrátt fyrir að hafa ekki keyrt. Liðið náði að vinna í bílnum og gera hann kláran fyrir næstu keppni,” segir Snorri Tómasson, framleiðslustjóri Team Spark.

Þess má geta að liðið var þremur klukkustundum frá því að komast í gegnum scrutineering. Þá fékk liðið mikið hrós fyrir vængi bílsins en um var að ræða frumraun þess í vængjasmíði. Vængirnir vöktu mikla athygli, þar á meðal hjá einum fremsta loftaflfræðingi í Formúluheiminum, Willem Toet, sem hefur unnið við hönnun Formula 1 kappakstursbíla á borð við Ferrari, BMW Sauber og Benetton.

Hitinn mikill á Ítalíu en uppskera í takt við undirbúning

Team Spark tók í fyrsta sinn þátt í annarri keppni á sama tímabili eftir að Formula Student UK lauk. Ákveðið var að taka þátt í Formula Student Italy sem er í sömu mótaröð en örlítið minni. „Liðsmenn voru fullir tilhlökkunar og vildu sjá hvernig málum væri háttað á Ítalíu en það er alltaf blæbrigðamunur á keppnunum í Formula Student og mismunandi hvað dómarar í hverri keppni leggja áherslu á,“ segir Snorri. Fyrirkomulag keppnanna tveggja er þó sambærilegt, þ.e. keppt í í ýmsum kynningum í fyrri hluta keppninnar en aksturshluta í þeim seinni. 

Munurinn reyndist ekki mikill á keppnunum þegar á hólminn var komið en helsta áskorunin á Ítalíu var hitinn. „Að vinna 16 klukkustunda vinnudaga í allt að 36°C hita var ekki eitthvað sem liðsmenn hefðu getað undirbúið sig fyrir. En vinnan í vetur og í fyrri keppni skilaði sér og rúmlega það,“ segir Laufey Benediktsdóttir, framkvæmdastjóri Team Spark.

Liðið náði ekki aðeins að komast í gegnum öryggisprófanir og taka þátt í einni akstursgrein á Ítalíu heldur tók það þátt í þeim öllum og hafnaði liðið í 10. sæti í keppni rafbíla. Þess má geta að 24 rafbílar voru skráðir til keppni en eingöngu 12 þeirra náðu að komast í gegnum scrutineering. Í heildarkeppninni lenti Team Spark í 31. sæti af 85 skráðum bensín- og rafmagnsliðum sem verður að teljast frábær árangur í fyrstu tilraun á Ítalíu.

Ólýsanleg tilfinning að hafa náð settum markmiðum

Ljóst er að reynslan sem liðsmenn öðluðust skilar sér í öguðum og skipulögðum vinnubrögðum þegar út á vinnumarkaðinn er komið og þá kynnast liðsmenn fyrirtækjum á náinn hátt í gegnum verkefnið. Stór hluti verkefnisins og keppninnar snýst enda um tengslamyndum liðsmanna við nemendur, skóla og fyrirtæki. Mikilvægur hluti verkefnisins er einnig að vera góð fyrirmynd fyrir yngri kynslóðir og sýna hvað hægt er að gera með verkfræðiþekkingu og skipulögðum vinnubrögðum.

Liðsmenn eru að sögn Laufeyjar bæði andlega og líkamlega þreyttir eftir átök síðustu tveggja vikna en engu að síður kampakátir með árangurinn. „Tilfinningin sem fylgir því að koma heim með öll markmiðin uppfyllt og þessar gleðifréttir er ólýsanleg en liðið hefur líka unnið fyrir því og rúmlega það,“ segir Laufey að lokum.

Háskóli Íslands óskar Team Spark innilega til hamingju með árangurinn.

Team Spark liðar
Kappakstursbíllinn TS16
Kappakstursbíllinn TS16
Fulltrúi Team Spark vinnur í bílnum.
Team Spark liðar
Kappakstursbíllinn TS16
Kappakstursbíllinn TS16
Fulltrúi Team Spark vinnur í bílnum.