Skip to main content
25. júlí 2016

Tíðni bráðs nýrnaskaða lág eftir opnar hjartaaðgerðir

Nýlega birtust tvær íslenskar vísindarannsóknir í Interactive Cardiovascular and Thoracic Surgery og Acta Anaesthesiologica Scandinavica um bráðan nýrnaskaða eftir opnar hjartaaðgerðir en hann er einn algengasti fylgikvilli slíkra aðgerða. Annars vegar var um að ræða rannsókn á nýrnaskaða eftir kransæðahjáveituaðgerðir og hins vegar ósæðarlokuskipti, en þetta eru tvær algengustu opnu hjartaaðgerðirnar á Íslandi, eða samtals í kringum 90% af þeim 200-250 hjartaaðgerðum sem framkvæmdar eru árlega á Íslandi. 

Rannsóknirnar unnu doktorsnemarnir Daði Helgason og Sólveig Helgadóttir undir handleiðslu Tómas Guðbjartssonar prófessors en um er að ræða samstarfsverkefni læknadeildar Háskóla Íslands, hjarta- og lungnaskurðdeildar, svæfinga- og gjörgæsludeildar og nýrnadeildar Landspítala.

Langflestir endurheimta fyrri nýrnastarfsemi 

Við stórar skurðaðgerðir er mikið álag á nýrun, ekki síst þegar sjúklingarnir eru tengdir við hjarta- og lungnavél þar sem blóðþrýstingur verður lægri en tíðkast við eðlilegar aðstæður. Þetta eykur hættu á nýrnabilun sem veldur m.a. því að líkaminn á erfitt með að losa sig við umframvökva og úrgangsefni. Oftast er um væga skerðingu á nýrnastarfsemi að ræða sem gengur yfir á nokkrum dögum en stundum getur þurft að beita meðferð með nýrnavél. Þess vegna er allt gert til að tryggja eðlilega nýrnastarfsemi í þessum aðgerðum. 

Á seinustu árum hefur bráður nýrnaskaði eftir hjartaaðgerðir verið viðfangsefni fjölda rannsókna enda um að ræða einn algengasta og alvarlegasta fylgikvilla þessara aðgerða. Íslensku rannsóknirnar sýndu að tíðni fylgikvillans hér á landi var sambærileg eða ívíð lægri en í nágrannalöndum okkar, en hún var 23% eftir ósæðarlokuskipti og 11% eftir kransæðahjáveitu. 

Langflestir sjúklingar sem fengu nýrnaskaða við aðgerð endurheimtu nýrnastarfsemi á nokkrum vikum eftir aðgerð og sárafáir (<1%) þurftu á langvarandi blóðskilun í nýrnavél að halda. 

2.000 sjúklingum fylgt eftir 

Við rannsóknina var hægt að notast við miðlæga gagnagrunna hér á landi sem gerði kleift að fylgja eftir öllum sjúklingunum til langs tíma, bæði með tilliti til lifunar og nýrnastarfsemi. Rannsóknirnar náðu til rúmlega 2000 sjúklinga. Þetta gerir rannsóknirnar einstakar og hefur þýðingu út fyrir landsteinana. 

Grein Daða í Interactive Cardiovascular and Thoracic Surgery

Grein Sólveigar í Acta Anaesthesiologica Scandinavica.

 Rannsóknirnar unnu doktorsnemarnir Daði Helgason og Sólveig Helgadóttir undir handleiðslu Tómas Guðbjartssonar prófessors.
 Rannsóknirnar unnu doktorsnemarnir Daði Helgason og Sólveig Helgadóttir undir handleiðslu Tómas Guðbjartssonar prófessors.