Skip to main content
23. júní 2016

Á þriðja þúsund brautskrást í dag

Á þriðja þúsund kandídatar verða brautskráðir úr grunn- og framhaldsnámi frá Háskóla Íslands í dag, laugardaginn 25. júní, en líkt og undanfarin ár verða tvær brautskráningarathafnir í Laugardalshöll.

Á fyrri brautskráningarathöfninni, sem hefst kl. 10.30, taka kandídatar í framhaldsnámi við útskriftarskírteinum sínum en alls verða 826 kandídatar brautskráðir með 834 prófgráður. Athöfnina sækja þeir sem eru að ljúka framhaldsnámi til prófgráðu, þ.e. meistaranámi og kandídatsnámi.

Meðal brautskráðra verða fyrstu nemendurnir sem útskrifast með MIS-gráðu í upplýsingafræði frá Félagsvísindasviði og MS-gráðu í verklegri eðlisfræði frá Verkfræði- og náttúruvísindasviði.

Á seinni athöfninni, sem hefst kl. 14, fer fram brautskráning kandídata sem eru að ljúka grunnnámi, þ.e. BA-, B.Ed.- og BS-námi. Alls ljúka 1282 kandídatar námi á grunnstigi að þessu sinni og taka við 1293 prófskírteinum.

Prófskírteini verða afhent í röð eftir fræðasviðum: Félagsvísindasvið, Heilbrigðisvísindasvið, Hugvísindasvið, Menntavísindasvið og Verkfræði- og náttúruvísindasvið. Á Félagsvísindasviði verða samtals afhent 712 prófskírteini, 432 á Heilbrigðisvísindasviði, 202 á Hugvísindasviði, 403 á Menntavísindasviði og 378 á Verkfræði- og náttúruvísindasviði.

Samtals útskrifast því 2108 kandídatar frá Háskóla Íslands í dag, 25. júní með 2127 prófskírteini.

410 kandídatar brautskráðust frá Háskóla Íslands í febrúar síðastliðnum og því er heildarfjöldi brautskráðra á árinu 2518.

Prófskírteini verða afhent í röð eftir fræðasviðum: Félagsvísindasvið, Heilbrigðisvísindasvið, Hugvísindasvið, Menntavísindasvið og Verkfræði- og náttúruvísindasvið.