Skip to main content

Erfðarannsóknir, lýðræði og vísindalæsi

Vilhjálmur Árnason, prófessor við Sagnfræði- og heimspekideild

Undanfarin ár hefur mikil umræða farið fram um einstök siðfræðileg álitamál í tengslum við erfðafræði og erfðarannsóknir. Minna hefur farið fyrir heimspekilegri og siðfræðilegri hugsun um þau áhrif sem erfðarannsóknir hafa á samfélagið og vitund borgaranna. Vilhjálmur Árnason, prófessor við Sagnfræði- og heimspekideild, hefur unnið að rannsókn um þetta mál. Hann byggir rannsóknina einkum á hugmyndum um rökræðulýðræði sem eiga rætur í lýðræðiskenningu þýska heimspekingsins Jürgens Habermas. Íslenskt samfélag og íslenskar gagnagrunnsrannsóknir eru í brennidepli.
 

Vilhjálmur Árnason

„Mér finnst mikilvægt í lýðræðissamfélagi, þar sem umhverfið er mótað æ meira af vísindum og tækni, að efla vísindalæsi og vitund borgaranna um vísindaleg efni.“

Vilhjálmur Árnason

Vilhjálmur segir að áhuginn hafi kviknað í kjölfar vangaveltna hans um samþykki fyrir gagnagrunnsrannsóknum. „Mér finnst mikilvægt í lýðræðissamfélagi, þar sem umhverfið er mótað æ meira af vísindum og tækni, að efla vísindalæsi og vitund borgaranna um vísindaleg efni. Tvenns konar viðhorf til borgaranna hafa verið ríkjandi í umræðu um lífsiðfræði og stefnumótun um lífvísindi. Fyrra viðhorfið er að það þurfi að vernda fólk gegn hvers konar misnotkun og mismunun. Hið síðara er að rannsóknir og vísindastarf eigi að skila efnahagslegum ávinningi fyrir þjóðfélagið og þegna þess.“

Vilhjálmur telur bæði viðhorfin mikilvæg en bendir jafnframt á takmarkanir þeirra: „Þau fela ekki í sér neinar ástæður fyrir því að styrkja ígrundun og upplýsingu borgaranna sem litið er á sem óvirka þiggjendur. Ég færi rök fyrir nauðsyn þess að leita leiða til að efla vitund fólks um þátt vísinda í nútímasamfélagi og skapa  skilyrði fyrir aukinni þátttöku borgaranna í stefnumótun á sviði vísinda.“

Í rannsókninni er aðallega hugað að fjórum þáttum sem skipta sköpum í því verkefni að efla vísindalæsi í nútímaupplýsingasamfélagi. Í fyrsta lagi er það hvernig stjórnvöld skapa skilyrði fyrir upplýsta umræðu um erfðarannsóknir eða hindra hana. Í öðru lagi er hugað að því hvernig menntakerfið býr fólk undir þátttöku í lýðræðissamfélagi. Þriðji þátturinn tengist því hvaða hlutverk fjölmiðlar geta leikið í þessu skyni og sá síðasti hvernig þátttakendur eru upplýstir um rannsóknir, svo sem um framvindu gagnagrunnsrannsókna. Saman skapa þessir þættir það sem kalla má vísindalega borgaravitund. Vilhjálmur heldur áfram og segir: „Án vísindalegrar menntunar og upplýsingar verður þjóðin ekkert annað en óvirk auðlind fyrir erfðarannsóknir.“

Vilhjálmur bendir á að Íslendingar virðast að mörgu leyti eftirbátar nágrannaþjóðanna varðandi það að skapa skilyrði fyrir upplýstar lýðræðislegar ákvarðanir á þessu sviði. Niðurstöður rannsóknarinnar eru þó ekki ljósar þar sem verkefnið er enn í gangi.