Skip to main content

Bráðavá í sýndarveruleika

Ebba Þóra Hvannberg, prófessor við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild„Markmið verkefnisins er að rannsaka og þróa gagnvirkan tölvuhermi til að þjálfa starfsfólk í viðbúnaði við bráðavá,“ segir Ebba Þóra Hvannberg, prófessor í tölvunarfræði, um verkefni sem ætlað er að einfalda æfingar á viðbrögðum við samgönguslysum. Ebba Þóra segir að margs konar slys verði t.d. í flugsamgöngum sem geti stefnt fjölda fólks í hættu. Viðbúnaður við slysunum felist í stjórnun bráðavár sem fjölmargt starfsfólk lögreglu, slökkviliðs, neyðarlínu, sjúkrahúsa, björgunarsveita og flugvalla komi að. Markmiðið með rannsókninni sé að draga úr kostnaði við þjálfun þessa fólks til að takast á við vána og að einfalda viðbrögð við vánni og gera þau markvissari með þjálfun í sýndarveruleika. Með herminum verði margfalt einfaldara en áður að standa að þjálfun því að eins og nú hátti spanni stórslysaæfingar vítt svið og kalli oft á mikið fjölmenni og aðstöðu.

Ebba Þóra Hvannberg

„Markmið verkefnisins er að rannsaka og þróa gagnvirkan tölvuhermi til að þjálfa starfsfólk í viðbúnaði við bráðavá“

Ebba Þóra Hvannberg

„Fjölmennustu æfingarnar felast í því að setja slys á svið og þá þarf að búa til sögu með aðstæðum sem segir hvað hefur gerst, hvernig fólk er slasað, hvernig veðrið er og fleira. Þó að mannmargar æfingar skili umtalsverðum árangri eru þær kostnaðarsamar því að þær krefjast viðamikils undirbúnings og skipulagningar. Slíkar æfingar eru haldnar á tveggja til fjögurra ára fresti en æskilegt væri að þær væru haldnar oftar. Því hefur verið leitað að aðferðum til að herma þjálfun við bráðavá í tölvu. Vissulega hafa þess konar kerfi verið þróuð en með framförum í tölvutækni, sem meðal annars hafa orðið í tölvuleikjagerð svo sem grafík og greind, er litið til þess hvernig megi rannsaka og þróa betri herma til að æfa viðbrögð við bráðavá. Að þessu vinnum við,“ segir Ebba Þóra.

Fjölþjóðlegt samstarfsverkefni

Ebba Þóra segir að í stað þess að settar séu upp fyrirfram ákveðnar sögur í herminum nýja, þar sem nemandinn velji úr nokkrum leiðum á fyrirsjáanlegum stöðum, sé notast við aðferðir tölvuleikja í framvindu atburða í sýndarveruleika. „Þannig munu nemendur geta æft sig í að meta aðstæður, greina vandamál, taka ákvarðanir og samhæfa aðgerðir í rauntíma. Ég vona að þessi viðamikla rannsókn skili okkur öflugum hermi til að þjálfa viðbúnað við bráðavá í flug- og lestarsamgöngum sem er árangursríkari, ódýrari og aðgengilegri notendum en núverandi tækni. Sérstaklega vona ég að við fáum betri skilning á því hvernig ný gagnvirknitækni nýtist í þjálfun í sýndarveruleika.“

Rannsóknin er fjölþjóðlegt samstarfsverkefni vísindamanna víða úr álfunni en að því koma einstaklingar með sérfræðiþekkingu í líkanagerð, notendaskilum og þarfagreiningu, leikjum og hermum, dreifðum kerfum, öryggi, ákvarðanafræðum og í árangursmati notenda. Tólf háskólar, fyrirtæki og stofnanir taka þátt í verkefninu, sem er styrkt af Sjöundu rammaáætlun Evrópusambandsins.

Ebba Þóra segir að þáttur Háskóla Íslands í verkefninu sé að rannsaka þarfir notenda, þ.e. að skilja hvaða verkefni séu framkvæmd á viðbúnaðarstiginu, hver framkvæmi hvað og hvernig fólk vinni saman. „Einnig skoðum við hver þjálfunarþörfin er. Þessi gögn eru síðan notuð til að hanna hugbúnaðarherminn með því að nota nýja gagnvirknitækni, svo sem tal, hreyfingu og þreifingu, m.a. með hliðsjón af mati notenda á nytsemi og notagildi hermisins.“