Skip to main content

Facebook hentar vel í skólastarfi

Anna Guðrún Sigurvinsdóttir, meistaranemi við Kennaradeild

„Facebook, önnur vinsælasta vefsíðan í heiminum, er ekki aðeins til afþreyingar því að hún virðist að mörgu leyti henta vel til notkunar í skólastarfi,“ segir Anna Guðrún Sigurvinsdóttir, meistaranemi í Kennaradeild við Menntavísindasvið.

Í ritgerð sinni „Fésbók í skólastarfi: Boðin eða bannfærð?“ skoðar Anna niðurstöður fyrri rannsókna af notkun Facebook í skólastarfi auk þess sem hún tekur viðtöl við þrjá kennara sem nota samfélagsvefinn við kennslu í grunn- og framhaldsskólum. „Markmiðið með rannsókninni er að skoða hvernig hægt sé að nota Facebook við kennslu, kosti þess og galla, og hvort um raunhæfan kost sé að ræða í kennslunni,“ segir Anna.
 

Anna Guðrún Sigurvinsdóttir

„Facebook, önnur vinsælasta vefsíðan í heiminum, er ekki aðeins til afþreyingar því að hún virðist að mörgu leyti henta vel til notkunar í skólastarfi“

Anna Guðrún Sigurvinsdóttir

Anna segir að rannsókn sín staðfesti að nota megi Facebook sem viðbót við námsnet skóla en einnig geti hún komið í stað námsnetsins að miklu leyti. „Kostir þess að nota tengslanet í skólastarfi eru m.a. þeir að hægt er að safna á einn stað öllu því efni sem tengist námskeiðum. Þannig eru á einum stað almennar upplýsingar, glærur, myndir úr tímum, myndbönd úr skólastarfinu og af öðrum vefsíðum, umræður eða fyrirspurnir,“ segir Anna. Hún segir að nemendur geti einnig sett inn efni sjálfir sem þeir finni eða búi til og tengist námsefninu.

Reynsla kennaranna þriggja sem Anna ræddi við var góð að hennar sögn og þeir ætli hiklaust að halda áfram að nota Facebook við kennsluna. Kennararnir telji nemendur ánægða með þetta fyrirkomulag þótt sumir hverjir séu tregir að tjá sig á síðunum sjálfum. Nemendur geti hins vegar sótt námsefni á þeim tíma sem þeim henti og sent kennara fyrirspurnir á auðveldan hátt í gegnum Facebook.

„Kennari getur líka sent skilaboð til nemenda, t.d. minnt á verkefni og verkefnaskil. Nemandi sem er nærri skilafresti á verkefni, og fær áminningu í gegnum Facebook eftir skólatíma, er líklegri til að skila á réttum tíma en fengi hann ábendinguna í gegnum Mentor eða í tölvupósti á netfang skólans. Það eru mun meiri líkur á að nemandinn opni Facebook en skólatölvupóst eða Mentor að loknum skóladegi,“ segir Anna.

Leiðbeinandi: Sólveig Jakobsdóttir, dósent við Kennaradeild.