Skip to main content

Er lyfjameðferð við athyglisbresti ósiðleg?

Björn Hjálmarsson, MA-nemi við Sagnfræði- og heimspekideild

Björn Hjálmarsson, barnalæknir og MA-nemi í heilbrigðis- og lífsiðfræði, fjallar um athyglisbrest og ofvirkni barna og unglinga í siðrænu ljósi í meistararitgerð sinni. „Tilvist, orsakir og meðferð athyglisbrests og ofvirkni í börnum og unglingum gefur oft tilefni til hvassra skoðanaskipta. Það má segja að þessi togstreita hafi verið kveikjan að rannsókninni. Á að líta á athyglisbrest og ofvirkni sem tilvistarlega erfiðleika, þroskafrávik eða veikindi? Þetta eru knýjandi spurningar,“ segir Björn.

Björn Hjálmarsson

„Tilvist, orsakir og meðferð athyglisbrests og ofvirkni í börnum og unglingum gefur oft tilefni til hvassra skoðanaskipta. Það má segja að þessi togstreita hafi verið kveikjan að rannsókninni. Á að líta á athyglisbrest og ofvirkni sem tilvistarlega erfiðleika, þroskafrávik eða veikindi? Þetta eru knýjandi spurningar“

Björn Hjálmarsson

Aðspurður hvernig hann nálgast verkefnið segir Björn að fyrst geri hann læknisfræðilega grein fyrir vandanum en þar er barnalæknirinn vitaskuld á heimavelli. „Síðan segi ég frá gagnrýni á þessar algengustu hegðunargreiningar í börnum og unglingum. Spurt er hvort um ósiðlega sjúkdómsvæðingu sé að ræða. Leitað er að siðferðilegum viðmiðum sem réttlæta það að frávik í hegðun flokkist sem heilbrigðisvandamál. Siðferðileg álitamál eru skoðuð út frá höfuðsiðareglum heilbrigðis- og lífsiðfræði. Leidd eru rök að því að skoðanir fólks á orsökum vandans skipti miklu máli fyrir álit þess á læknisfræðilegri meðferð. Þeir sem telja vandann stafa af umhverfisþáttum telja lyfjameðferð ósiðlega. Þeir sem trúa því að vandinn stafi af arfgengri þroskaröskun í heila eru á öndverðum meiði,“ segir Björn.

„Ég geri tilraun með tvö ný hugtök, þ.e. innri útskúfun sem skilningsleysi á sérþörfum barna og unglinga með athyglisbrest og ofvirkni hafði í för  með sér og það að vandinn var vangreindur. Hinar öfgarnar kalla ég ytri útskúfun, þegar gengið er of langt í greiningu og meðferð og börn og unglingar verða að óábyrgum siðferðisverum. Bæði innri og ytri útskúfun skerða möguleika til heilbrigðrar sjálfsímyndar. Í anda meðalhófsreglu Aristótelesar legg ég til málamiðlun milli þessara andstæðu póla. Með verkefninu er lögð áhersla á hve siðfræði er mikilvæg í daglegum störfum heilbrigðisstarfsfólks,“ segir Björn.

Leiðbeinandi: Vilhjálmur Árnason, prófessor við Sagnfræði- og heimspekideild; meðleiðbeinandi: Ólafur Ó. Guðmundsson yfirlæknir.