Skip to main content
6. maí 2016

Framlag Göngum saman mjög mikilvægt

""

Styrktarfélagið Göngum saman hefur á undanförnum árum stutt dyggilega við grunnrannsóknir á brjóstakrabbameini. Félagið hefur þannig styrkt vísindamenn við Háskóla Íslands af miklum krafti um tugi milljóna króna og í hópi þeirra sem notið hafa rannsóknastyrkjanna er Jórunn Erla Eyfjörð, prófessor á Rannsóknastofu í krabbameinsfræðum við Læknadeild Háskóla Íslands. Jórunn Erla hefur um árabil stundað gríðarlega mikilvægar grunnrannsóknir á brjóstakrabbameini.

„Framlag Göngum saman til grunnrannsókna er mjög mikilvægt, ekki aðeins fjárstuðningur þeirra heldur líka viðhorf til rannsókna. Það er ótrúleg hvatning til ungra vísindamanna að þessi frábæri hópur kvenna hafi trú á þeim og leggi á sig ómælda vinnu þeim til stuðnings,“ segir Jórunn Erla sem hefur verið afar virk í rannsóknum á brjóstakrabbameini og átt í öflugu alþjóðlegu samstarfi. 

Þegar taldir eru með styrkir til vísindamanna við Landspítala Háskólasjúkrahús hefur Göngum saman stutt grunnrannsóknir á krabbameini um meira en 60 milljónir króna á síðustu átta árum. 

Styrktarganga Göngum saman 2016 fer að þessu sinni fram á mæðradaginn, sunnudaginn 8. maí nk. Gengið verður á 16 stöðum um allt land; í Borgarnesi, Stykkishólmi, á Patreksfirði, Ísafirði, Hvammstanga, Siglufirði, Akureyri, Vopnafirði, Egilsstöðum, Neskaupstað, Reyðarfirði, Höfn, í Vestmannaeyjum, Hveragerði og Reykjanesbæ auk Reykjavíkur.

Í Reykjavík hefst gangan frá Háskólatorgi. Húsið opnar kl. 10 og lagt verður af stað í gönguna kl. 11. Á Háskólatorgi geta göngumenn kynnt sér á undan og eftir rannsóknir nokkurra vísindamanna Háskóla Íslands sem hlotið hafa styrk úr rannsóknasjóði Göngum saman.

Ein þeirra sem mun kynna rannsóknir sínar er Jórunn Erla Eyfjörð. Eftir hana liggur fjöldi vísindagreina í mörgum af virtustu vísindaritum heims. Hún hefur auk þess leiðbeint fjölmörgum meistara- og doktorsnemum við Háskóla Íslands, tekið virkan þátt í stjórnunarstörfum og setið í fagráðum sænsku og finnsku Vísindaakademíanna. Árið 2006 hlaut hún viðurkenningu Ásu Wright frá Vísindafélagi Íslendinga og árið 2012 hlaut hún viðurkenningu Háskóla Íslands fyrir lofsvert framlag til vísinda.

„Grunnrannsóknir eru nauðsynlegar á öllum fræðasviðum,“ segir Jórunn Erla. „Án þeirra er ekki hægt að vera virkur þáttakandi í alþjóðlegu vísindasamfélagi og heldur ekki  að sinna starfi sem háskólakennari eða leiðbeinandi.“

Rannsóknahópur Jórunnar Erlu fæst nú við ýmiss konar rannsóknir á krabbameini. „Göngum saman hefur styrkt marga framhaldsnema hjá mér til rannsókna á brjóstakrabbameini. Nú styrkir Göngum saman doktorsnema sem vinnur að rannsókn á hlutverki telomera í brjóstakrabbameini.“ 

Þess má geta að varningur til styrktar Göngum saman verður til sölu á Háskólatorgi og á öllum stöðunum. Allir eru velkomnir í gönguna. 

Frá styrktargöngu Göngum saman á síðasta ári.
Frá styrktargöngu Göngum saman á síðasta ári.