Skip to main content

Reglur nr. 547-2010

Reglur um Lagastofnun Háskóla Íslands, nr. 547/2010

PDF-útgáfa

1. gr.  Almennt.

Lagastofnun Háskóla Íslands er vísindaleg rannsóknastofnun sem starfrækt er af Háskóla Íslands.


Stofnunin heyrir undir Lagadeild á Félagsvísindasviði, og er vettvangur rannsókna- og þróunarstarfs í lögfræði.

2. gr.  Hlutverk.

Hlutverk Lagastofnunar er einkum:

  1. að efla tengsl rannsókna og kennslu og samhæfa rannsóknir í lögfræði sem unnið er að við Háskóla Íslands,
  2. að styðja kennslu og þjálfun í vísindalegum vinnubrögðum og veita nemendum í framhaldsnámi aðstöðu og búnað til rannsóknarstarfa eftir því sem kostur er, 
  3. að stuðla að samstarfi við innlenda og erlenda rannsóknaraðila á sviði lögfræði og sterkum tengslum við atvinnu- og þjóðlíf, 
  4. að sinna lögfræðilegum þjónustuverkefnum, 
  5. að gefa út og kynna niðurstöður rannsókna í lögfræði, 
  6. að veita fræðslu og ráðgjöf varðandi lögfræðileg málefni, 
  7. að gangast fyrir námskeiðum og fyrirlestrum í lögfræði, 
  8. safna gögnum um lögfræðileg efni, varðveita þau og veita aðgang að þeim til vísindalegrar úrvinnslu.

Að öðru leyti mótar stjórn stofnunarinnar starfsemi hennar.

3. gr.  Aðstaða.

Háskóli Íslands lætur stofnuninni í té starfsaðstöðu, svo sem húsnæði og búnað eftir því sem kostur er.

Stofnunin veitir starfsliði sínu og gestum aðstöðu og nauðsynlegan búnað til rannsókna eftir því sem unnt er.

4. gr.  Skipulag.

Á vegum Lagastofnunar starfa rannsóknarstofur, sem stjórn hennar hefur samþykkt að settar verði á fót. Stjórn Lagastofnunar skal setja starfsreglur um rannsóknarstofur sem starfa á hennar vegum. Lagastofnun annast skrifstofuhald fyrir rannsóknarstofur og önnur verkefni að því marki sem mælt er fyrir um í starfsreglum um rannsóknarstofur.

5. gr.  Stjórn.

Forseti Félagsvísindasviðs skipar Lagastofnun fimm manna stjórn til tveggja ára í senn að fenginni tilnefningu deildarfundar Lagadeildar. Skal stjórnin skipuð fjórum kennurum í fullu starfi við Lagadeild og sem jafnframt starfa við stofnunina auk eins fulltrúa stúdenta sem tilnefndur er af Orator - félagi laganema. Í stjórn skulu sitja bæði karlar og konur og skal þess gætt að hlutfall kynjanna sé ekki minna en 40%, sbr. 15. gr. laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.


Stjórnin kýs úr sínum hópi formann og varaformann og skiptir að öðru leyti með sér verkum. Stjórninni er heimilt að fela starfsmanni stofnunarinnar að annast daglegan rekstur hennar. Að öðrum kosti kemur stjórnarformaður fram fyrir hönd stofnunarinnar og annast daglegan rekstur hennar.

6. gr.  Stjórnarfundir.

Formaður stjórnar boðar stjórnarfundi bréflega, eða í tölvupósti, með þriggja daga fyrirvara. Fundarboð skal greina dagskrá fundar.


Skylt er að boða stjórnarfund óski tveir eða fleiri stjórnarmenn þess. Sama gildir ef forseti Lagadeildar, forseti Félagsvísindasviðs eða rektor ber fram slíka ósk og hafa þeir þá málfrelsi og tillögurétt á fundinum, en ekki atkvæðisrétt.


Falli atkvæði jöfn á stjórnarfundi ræður atkvæði formanns eða þess sem gegnir formannsstörfum.


Rita skal fundagerðir og skulu afrit þeirra send forseta Lagadeildar.

7. gr.  Verkefni stjórnar.

Stjórnin tekur allar stefnumarkandi ákvarðanir fyrir stofnunina og setur henni starfsreglur. Stjórnin sker úr í vafaatriðum sem upp kunna að koma og varða innri starfsemi stofnunarinnar. 


Stjórnin ber ábyrgð á fjármálum hennar gagnvart deild og forseta fræðasviðs, samþykkir rekstrar- og fjárhagsáætlun og gerir tillögu til deildar um fjárveitingar og skiptingu þeirra ásamt skiptingu annarra tekna.


Stjórnin gerir tillögu að samþykktum um þjónusturannsóknir sem háskólaráð staðfestir.


Stjórnin efnir til ársfundar með starfsmönnum lagastofnunar og föstum kennurum Lagadeildar þar sem ársskýrsla er lögð fram og fjallað um önnur mál svo sem kveðið er á um í 27. gr. almennra reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009.

8. gr.  Ráðning starfsmanna.

Um ráðningu starfsmanna stofnunarinnar fer eftir ákvæðum reglna nr. 569/2009 fyrir Háskóla Íslands. Sé um að ræða ráðningu í starf og ekki er gert ráð fyrir því starfsheiti í reglugerðinni fer deildarforseti eða stjórn stofnunarinnar í umboði hans með ráðningarmálið.

9. gr.  Fjármál.

Reikningshald stofnunarinnar skal vera hluti af reikningshaldi háskólans. Fjárhagsáætlun skal kynnt og lögð fram til samþykktar forseta Félagsvísindasviðs og á deildarfundi.


Tekjur Lagastofnunar Háskóla Íslands eru eftirfarandi:

  1. framlag frá Lagadeild,
  2. styrkir til einstakra verkefna, 
  3. greiðslur fyrir þjónustustarfsemi, 
  4. tekjur af útgáfustarfsemi, 
  5. aðrar tekjur, t.d. gjafir og framlög úr ríkissjóði eftir því sem kveðið kann að vera á um í fjárlögum.

Sé um að ræða útselda þjónustu, sem veitt er í samkeppni við einkaaðila, skal sú starfsemi fjárhagslega afmörkuð frá öðrum rekstri stofnunarinnar og þess gætt að sá rekstur sé ekki niðurgreiddur með öðrum tekjum, í samræmi við ákvæði samkeppnislaga.


Um stjórnunar- og aðstöðugjald af sértekjum fer eftir ákvæðum 73. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands.

10. gr.

Reglur þessar, sem háskólaráð hefur sett á grundvelli heimildar í 3. mgr. 11. gr. laga nr. 85/2008 um opinbera háskóla, að fenginni tillögu Lagadeildar og stjórnar Félagsvísindasviðs, öðlast þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi reglur um Lagastofnun Háskóla Íslands, nr. 979/2001 með síðari breytingum.

Háskóla Íslands, 15. júní 2010.