Skip to main content

Kortleggur alheiminn

Yuliya Tarabalka, doktorsnemi við Rafmagns- og tölvuverkfræðideild

„Langtímamarkmið mitt er að kanna og skilja innbyrðis tengsl og samskipti fólks annars vegar og umheimsins í kringum það hins vegar,“ segir Yuliya Tarabalka, sem er í sameiginlegu doktorsnámi í rafmagns- og tölvuverkfræði við HÍ og við Tækniháskólann í Grenoble (INPG) í Frakklandi.

„Til að gera þetta þarf ég að læra um alheiminn í þeim tilgangi að fá betri skilning á upphafi hans, tilurð jarðarinnar og skilja lífið á jörðinni.“

Yuliya segir að tækniþróun hafi opnað nýjar leiðir fyrir rannsóknir á jörðinni. Hægt sé m.a. að taka stafrænar fjarkönnunarmyndir af jörðinni úr flugvél og frá gervihnöttum. „Myndirnar eru síðan notaðar til að kortleggja jörðina. Ég fékk tækifæri til að sinna þverfaglegum rannsóknum í rannsóknatengslaneti sem heitir Hyper-I-Net, en þar horfði ég til notkunar fjarkönnunarmynda. Rannsóknanetið er svokallað Marie Curie Research Training Network og er styrkt af Evrópusambandinu.“

Yuliya Tarabalka

„Langtímamarkmið mitt er að kanna og skilja innbyrðis tengsl og samskipti fólks annars vegar og umheimsins í kringum það hins vegar,“

Yuliya Tarabalka

Yuliya segir að fjarkönnunarmyndir með hárri rófupplausn byggist á nýrri tækni sem safni og vinni úr upplýsingum um heiminn, að svo miklu leyti sem það er hægt, með aðstoð rafsegulbylgja. „Meginviðfangsefni rannsóknar minnar er að þróa nýjar og framsæknar aðferðir og algóritma fyrir greiningu og flokkun þessara mynda. Ein af mörgum áhugaverðum mögulegum niðurstöðum þessarar rannsóknar er sjálfvirk kortagerð með nýjustu landfræðiupplýsingum um yfirborð jarðarinnar og annarra reikistjarna,“ segir Yuliya Tarabalka.

Að hennar sögn hefur nákvæm flokkun fjarkönnunarmynda fjölbreytt notagildi fyrir vöktun og stjórnun á umhverfi, í landbúnaði og í öryggis- og varnarmálum.

„Hingað til höfum við þróað fjölmargar flokkunaraðferðir í rannsóknarverkefninu sem við höfum sannreynt með gerð mynda sem lýsa yfirborði svæða. Framúrskarandi niðurstöður hafa fengist. Aðferðirnar sem hafa verið þróaðar geta einnig nýst öðrum rannsóknarsviðum, t.d. við greiningu mynda sem notaðar eru í læknisfræði."

Aðalleiðbeinandi við HÍ: Jón Atli Benediktsson, prófessor í rafmagns- og tölvuverkfræði og aðstoðarrektor vísinda og kennslu.