Skip to main content

Aðgát í nærveru jarðar

Jón Ásgeir Kalmansson, Sagnfræði- og heimspekideild

Maðurinn horfist um þessar mundir í augu við kringumstæður sem eru einstakar. Sífellt umfangsmeiri vísindaleg gögn virðast benda til þess að ef ekki verður breyting á háttum manna innan fárra ára muni eiga sér stað keðjuverkandi breytingar á veðurskilyrðum, og jafnvel algert visthrun víða um heim.

„Í skugga þessara vísbendinga vakna áleitnar spurningar um lífsgildi og siðferðilega sýn okkar nútímamanna,“ segir Jón Ásgeir Kalmansson sem vinnur að doktorsritgerð í heimspeki um siðferðisskilning og sjálfbæra þróun.

Jón Ásgeir Kalmansson

Sífellt umfangsmeiri vísindaleg gögn virðast benda til þess að ef ekki verður breyting á háttum manna innan fárra ára muni eiga sér stað keðjuverkandi breytingar á veðurskilyrðum, og jafnvel algert visthrun víða um heim.

Jón Ásgeir Kalmansson

Hvað einkennir menningu sem teflir svo á tvær hættur um framtíð sína? „Í rannsókninni verða slíkar spurningar skoðaðar út frá sígildum hugmyndum um hlutskipti mannsins. Vandi okkar er greindur í ljósi vilja manna til að afsala sér frelsi sínu og velferð í ákafri eftirsókn eftir verðmætum sem þó eru í raun ekki eftirsóknarverð sem slík, og geta aðeins að að vissu marki gert líf okkar betra. Sem andsvar við samfélagi sem byggist á þessu sjálfskapaða helsi mannsins, sem ógnar nú framtíð siðmenningarinnar, verður haldið á lofti hugmyndinni um hinn hugsandi mann, sem gerir sér staðreyndir tilvistar sinnar á jörðinni ljósar; hann leitast sífellt við að gera sér betur ljóst hve ofurviðkvæmt og hverfult hans eigið líf er, og sömuleiðis hve háð sjálft lífríkið er brothættu jafnvægi jarðarinnar,“ segir Jón.

Að sögn Jóns þá felur viðurkenning mannsins á þessum grundvallarstaðreyndum í sér að hann finnur merkingu í lífi sínu með því að gleðjast yfir tilvist sinni, sýna öðrum lifandi verum virðingu og samúð, og annast af athygli og umhyggju um þá jörð sem líf hans sprettur af og hverfur aftur til.

Leiðbeinandi: Róbert H. Haraldsson, prófessor við Sagnfræði- og heimspekideild.