Skip to main content

Hlutverk frístundaheimila

Kolbrún Þorbjörg Pálsdóttir, doktorsnemi í uppeldis- og menntunarfræði

„Staða frístundaheimila virðist óljós og að mörgu leyti utan við skólakerfið,“ segir Kolbrún Þorbjörg Pálsdóttir, doktorsnemi við Menntavísindasvið, sem rannsakar hlutverk og markmið frístundaheimila fyrir 6-9 ára börn. Hún segir enn fremur að viðtöl við starfsmenn frístundaheimila og kennara í skóla bendi til að samstarf milli skóla og frístundaheimila sé lítið.

Kolbrún Þorbjörg Pálsdóttir

Kolbrún rannsakar hlutverk og markmið frístundaheimila fyrir 6-9 ára börn. „Staða frístundaheimila virðist óljós og að mörgu leyti utan við skólakerfið.“

Kolbrún Þorbjörg Pálsdóttir

Rannsóknin byggist á greiningu á opinberum gögnum og jafnframt á tilviksathugunum á tveimur frístundaheimilum í Reykjavík og tilheyrandi skólum. Lítið hefur verið fjallað um starfsemi frístundaheimila hér á landi og því er hér um nýtt innlegg að ræða. Leiðbeinendur Kolbrúnar í verkefninu eru Jón Torfi Jónasson, forseti Menntavísindasviðs, og Jóhanna Einarsdóttir, prófessor við Menntavísindasvið.

„Í rannsókninni leitast ég við að draga fram sjónarhorn ólíkra hópa, barnanna sjálfra, starfsmanna og foreldra," segir Kolbrún.

„Fyrstu niðurstöður eru þær að starfið á báðum frístundaheimilunum byggist upp á vali barnanna á milli ólíkra leiksvæða á þeim tíma sem þau eru á frístundaheimilinu. Sá vettvangur er börnunum mikilvægur til að vera með vinum sínum og til að gera það sem þeim finnst skemmtilegt. Í skólanum hafa börnin takmarkað svigrúm til að ákveða hvað þau gera og fá lítinn tíma til að leika sér við vini sína."

Kolbrún vonast til að rannsóknin verði til þess að málefni frístundaheimila verði tekin fastari tökum í framtíðinni og að aðilar sem starfa við stefnumótun taki höndum saman um að efla gæði starfsins. „Jafnframt vonast ég eftir að rannsóknin efli skilning okkar á því hvernig börn upplifa vinnudag sinn, bæði í skóla og á frístundaheimili," segir Kolbrún. 

Kolbrún starfar nú sem lektor á Menntavísindasviði.