Skip to main content

Háskólaráðsfundur 14. janúar 2010

01/2010

HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR

Ár 2010, fimmtudaginn 14. janúar var haldinn fundur í háskólaráði sem hófst kl. 13.00.

Fundinn sátu Kristín Ingólfsdóttir, Anna Agnarsdóttir, Elín Ósk Helgadóttir, Gunnar Einarsson, Gunnlaugur Björnsson, Sigríður Ólafsdóttir, Sigrún Ingibjörg Gísladóttir, Silja Aðalsteinsdóttir, Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir og Þórður Sverrisson. Einnig sat fundinn Jón Atli Benediktsson. Hilmar B. Janusson boðaði forföll. Fundargerð ritaði Magnús Diðrik Baldursson.

Áður en gengið var til dagskrár greindi rektor frá sviplegu fráfalli Halldórs Bjarnasonar, aðjunkts við Sagnfræði- og heimspekideild. Anna Agnarsdóttir greindi nánar frá starfi Halldórs en hann var afar vel metinn jafnt af nemendum sem samstarfsfólki. 

Rektor skýrði frá nokkrum atburðum frá síðasta fundi, þ. á m. ferð Ólafs Þ. Harðarsonar, prófessors í stjórnmálafræði og forseta Félagsvísindasviðs og Guðrúnar Gísladóttur, prófessors í landafræði, til Indlands í föruneyti forseta, en í ferðinni flytja þau m.a. fyrirlestra við Nehru-háskólann og vísinda- og tæknistofnunina TERI, væntanlegri heimsókn rektors Háskóla Íslands til King's College í London í boði skólans, fyrirhuguðum fundum rektors með öllum deildum Háskóla Íslands þar sem farið verður yfir innleiðingu nýs skipulags skólans og árangur og sóknarfæri deilda hans, og loks gagnlegum og góðum fundi rektors með Stúdentaráði nýlega. 

Fundargerð síðasta fundar var lögð fram og hún samþykkt. 

1. Mál á dagskrá

1.1 Fjármál Háskólans. Fjárhagsáætlun Háskóla Íslands fyrir árið 2010, sbr. síðasta fund.
Inn á fundinn kom Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri fjármála og reksturs, og gerði ásamt rektor grein fyrir fjárhagsáætlun Háskóla Íslands fyrir árið 2010. Fram kom í máli Guðmundar að allt bendi til þess að uppgjör fyrir árið 2009 verði í jafnvægi og sama muni gilda um áætlunina fyrir árið 2010. 
- Fjárhagsáætlun Háskóla Íslands fyrir árið 2010 samþykkt einróma. 

1.2 Háskólasjúkrahús. Staða mála.
Rektor gerði grein fyrir stöðu mála varðandi undirbúning fyrirhugaðrar nýbyggingar fyrir starfsemi Landspítala og heilbrigðisvísindadeilda Háskólans. Málið var rætt og verður það áfram á dagskrá ráðsins. 

1.3 Matskerfi opinberra háskóla. 
Inn á fundinn kom Halldór Jónsson, sviðsstjóri vísindasviðs, og gerði grein fyrir nýsamþykktu endurskoðuðu matskerfi opinberra háskóla, árangri Háskóla Íslands á sviði vísindalegra birtinga og áhrifum matskerfisins á fjármál Háskólans. Málið var rætt ítarlega og svaraði Halldór framkomnum spurningum og athugasemdum ráðsmanna. Málið verður áfram á dagskrá háskólaráðs. 

1.4 Stefna Háskóla Íslands 2006-2011. Endurskoðaðar reglur um framgang og ótímabundna ráðningu akademískra starfsmanna, sbr. síðasta fund.
Rektor gerði grein fyrir málinu og var það rætt. 
- Samþykkt að óska eftir umsögn fræðasviða og kjarafélaga kennara um fyrirliggjandi drög að endurskoðuðum reglum um framgang og ótímabundna ráðningu akademískra starfsmanna. Umsagnirnar berist vísindasviði eigi síðar en 8. febrúar 2010. 

1.5 Málefni háskóla á Íslandi.
Rektor gerði grein fyrir stöðu mála varðandi umræður um framtíð háskólakerfisins á Íslandi, m.a. reglulegum fundum mennta- og menningarmálaráðherra með rektorum íslenskra háskóla, röð málþinga sem mennta- og menningarmálaráðuneytið stendur fyrir, viðræðum og samskiptum Háskóla Íslands við aðra háskóla o.fl. Málið var rætt.

1.6 Ráðning háskólarektors fyrir tímabilið 1.7.2010-30.6.2015, sbr. síðasta fund.
Rektor vék af fundi undir þessum dagskrárlið og tók Gunnlaugur Björnsson, varaforseti háskólaráðs, við stjórn fundarins. Inn á fundinn kom Þórður Kristinsson, sviðsstjóri kennslusviðs og gerði ásamt Gunnlaugi grein fyrir framlögðum drögum að auglýsingu um embætti rektors Háskóla Íslands, sbr. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 85/2008 um opinbera háskóla og 6. gr. reglna nr. 569/2009 fyrir Háskóla Íslands, en skv. reglum ber að auglýsa embætti rektors að kjörtíma liðnum. 
- Samþykkt einróma að fela þeim Gunnari Einarssyni, Gunnlaugi Björnssyni og Önnu Agnarsdóttur að undirbúa ákvörðun háskólaráðs um það hverjir umsækjenda uppfylla skilyrði um embættisgengi. 

2. Erindi til háskólaráðs

2.1 Um birtingar starfsfólks Háskóla Íslands í vísindatímaritum, sbr. erindi Sigríðar Ólafsdóttur til háskólaráðs, dags. 16. október sl.
Sigríður Ólafsdóttir gerði grein fyrir erindi sínu og var það rætt ítarlega. Í umræðunni kom m.a. fram að háskólaráð telur mikilvægt að efla enn frekar kynningu á vísindaafrekum fræðimanna á öllum sviðum Háskólans innan og utan hans. Unnið verður að málinu á vegum rektors. 
Að loknum dagskrárlið 2.1 þurfti Gunnar Einarsson að víkja af fundi. 

2.2 Tillögur að breytingu á reglum og að nýjum reglum.
a) Tillögur um fjöldatakmörkun í einstakar námsleiðir háskólaárið 2010-2011 og reglur um framkvæmd fjöldatakmörkunar.

Fyrir fundinum lágu tillögur fræðasviða um fjöldatakmörkun háskólaárið 2010-2011 og reglur um framkvæmd fjöldatakmörkunar, sbr. 18. gr. laga um opinbera háskóla nr. 85/2008. Þórður Kristinsson gerði grein fyrir málinu. Málið var rætt og svaraði Þórður spurningum ráðsmanna. 
- Samþykkt einróma.

b) Breyting á 92. gr. reglna Háskóla Íslands, skv. tillögu Félagsvísindasviðs f.h. Stjórnmálafræðideildar, sbr. síðasta fund.
Tvær nýjar námsleiðir í Evrópufræðum.Fyrir fundinum lá tillaga Félagsvísindasviðs f.h. Stjórnmálafræðideildar um að teknar verði upp tvær nýjar námsleiðir í Evrópufræðum á meistarastigi og um samsvarandi breytingu á 92. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands. Jón Atli Benediktsson gerði grein fyrir málinu og var það rætt. 
- Samþykkt samhljóða, en einn sat hjá. 

2.3 Fyrirvarar í kennsluskrá Háskóla Íslands 2010-2011 og aðhald með skráningum. 
Þórður Kristinsson gerði grein fyrir málinu.
- Samþykkt einróma. 

3. Mál til fróðleiks

3.1 Samstarfssamningur Háskóla Íslands og Landsbókasafns Íslands - Háskólabókasafns, 16. desember 2009.

3.2 Skýrsla Vinnumatssjóðs 2009 vegna verka ársins 2008.

Fleira var ekki gert.    
Fundi slitið kl. 16.00.