Skip to main content

Reglur nr. 972-2009

Reglur um meistaranám við Háskóla Íslands í talmeinafræði, nr. 972/2009

með síðari breytingum

1. gr.  Gildissvið.

Reglur þessar gilda um meistaranám í talmeinafræði við Háskóla Íslands. Námið er þverfræðilegt og skipulagt sameiginlega af Menntavísindasviði, Íslensku- og menningardeild á Hugvísindasviði og Læknadeild og Sálfræðideild á Heilbrigðisvísindasviði.

Reglur um námið eru sérreglur gagnvart ákvæðum 69. gr. reglna nr. 569/2009, fyrir Háskóla Íslands, og reglum einstakra fræðasviða og deilda um framhaldsnám. Sameiginlegar reglur Háskóla Íslands og reglur Læknadeildar gilda þó eftir því sem við á ef þessar reglur um meistaranám í talmeinafræði hafa ekki að geyma ákvæði um einstök tilvik. Fyrirvarar í kennsluskrá um fjárveitingar, fáanlegt kennaralið og slík atriði gilda gagnvart þeim nemendum sem skráðir eru í námið.

2. gr.  Markmið.

Meistaranám í talmeinafræði er þverfræðilegt nám sem miðar að því að veita vísindalega menntun og þjálfun í talmeinafræði og búa nemendur undir störf talmeinafræðinga og vísindastörf sem tengjast greininni. Með náminu skal koma til móts við þarfir samfélagsins um rannsóknir, þjónustu og stefnumótun sem tengist talmeinafræði og efla þekkingu á því sviði.

3. gr.  Um námið.

Námið er skipulagt og stundað í umboði þeirra fræðasviða og háskóladeilda sem aðild eiga að því skv. 1. gr., án tillits til fjölda skráðra nemenda frá viðkomandi deild. Aðild að náminu felur í sér að viðkomandi deild er bundin af reglum þessum svo og af samkomulagi um námið, sbr. 2. mgr.

Námið er vistað í Læknadeild sem hefur umsjón með því og brautskrást nemendur þaðan. Samstarfsdeildir og fræðasvið gera með sér samkomulag um framkvæmd námsins og þróun þess. Í því skal kveða á um fjármögnun þess og önnur atriði sem lúta að fjárhagslegum samskiptum. Forsetar þeirra fræðasviða sem viðkomandi deildir tilheyra skulu staðfesta samkomulagið.

Umsjónardeild annast umsýslu námsins, s.s. upplýsingagjöf til nemenda, tilkynningar, frágang kennsluskrár og slík atriði. Nánar skal kveðið á um í samkomulagi deilda hvert hlutverk umsjónardeildar er.

4. gr.  Stjórn námsins.

Rektor skipar stjórn meistaranáms í talmeinafræði til þriggja ára í senn. [Stjórnin er skipuð sex fulltrúum samkvæmt tilnefningum Íslensku- og menningardeildar, Menntavísindasviðs, Sálfræðideildar og Heyrnar- og talmeinastöðvar Íslands, einum föstum kennara greinarinnar og fulltrúa úr Læknadeild sem rektor tilnefnir og er hann formaður námsstjórnar.]1 Hver þeirra tilnefnir tvo, einn karl og eina konu til að taka sæti í stjórn. Í námsstjórn skulu sitja bæði karlar og konur og skal þess gætt að hlutfall kynjanna sé ekki minna en 40%, sbr. 15. gr. laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

Námsstjórn ber faglega ábyrgð á náminu í umboði þeirra deilda og þess fræðasviðs sem aðild eiga að því. Námsstjórn fer með öll sameiginleg málefni námsins, skipuleggur það og hefur yfirumsjón með því.

Námsstjórnin tryggir gæði námsins m.a. með því að yfirfara og samþykkja umsóknir, samþykkja skipulag námsins og breytingar á því, áætluð rannsóknaverkefni, skipa leiðbeinendur og menn í meistaranámsnefnd og tilnefna prófdómara fyrir meistarapróf.

Falli atkvæði jöfn við atkvæðagreiðslu í stjórn sker atkvæði formanns úr.
1Breytt með 1. gr. rgl. nr. 139/2014.

5. gr.  Umsóknarfrestur.

Umsóknarfrestur er til 15. apríl fyrir innritun á haustmisseri. Stjórn námsins getur veitt undanþágu frá þessari tímasetningu ef sérstaklega stendur á.

6. gr.  Meðferð umsókna.

Umsóknum merktum „talmeinafræði“ skal skilað til Nemendaskrár Háskóla Íslands á sérstöku rafrænu eyðublaði sem aðgengilegt er á vef háskólans.

Eftir skráningu gagna í Nemendaskrá fjallar námsstjórn um umsóknir og ber að líta til gæða þeirra og inntökuskilyrða. Námsstjórn afgreiðir umsóknir og annast val milli nemenda ef fleiri sækja um en unnt er að taka inn í námið sbr. 2. mgr. 7. gr.  Enn fremur tilnefnir námsstjórn umsjónarkennara.

Að lokinni umfjöllun í námsstjórn tilkynnir hún umsækjanda um niðurstöðu sína. Afgreiðsla námsstjórnar skal skráð í rafrænt kerfi Nemendaskrár.  Afgreiðslu umsóknar skal að jafnaði vera lokið og henni svarað skriflega innan sex vikna frá móttöku. Umsókn er synjað ef hún uppfyllir ekki gæðakröfur.

[Nemandi sem námsstjórnin hefur samþykkt í meistaranám skal ganga frá greiðslu skrásetn­ingar­gjalds komandi háskólaárs hjá nemendaskrá. Nemandi þarf síðan að skrá sig ár hvert fyrir komandi háskólaár og greiða skrásetningargjald. Skráning og greiðsla skrásetningargjalds er for­senda þess að nám geti hafist eða haldið áfram.]1
1Breytt með 1. gr. rgl. nr. 126/2023.

7. gr.  Inntökuskilyrði og val nemenda.

Nemendur sem hefja meistaranám í talmeinafræði skulu uppfylla eftirfarandi skilyrði:

[a. Hafa lokið BA, B.Ed. eða BS-prófi með 1. einkunn]1
b. Hafa lokið eftirfarandi námskeiðum eða námskeiðum sem metin eru sambærileg af viðkomandi deild Háskóla Íslands:

I. [Málfræði (íslenska/almenn málvísindi) – 40 einingar
i. Málkerfið - hljóð og orð ÍSL209G (10e)
ii. Setningar og samhengi ÍSL321G (10e)
iii. Tal- og málmein AMV307M (10e)
iv. Máltaka barna ÍSL507M (10e)]1
II. Sálfræði – 34 einingar
i. Tölfræði I SÁL102G (8e)
ii. Tölfræði II SÁL203G (6e)
iii. Þroskasálfræði SÁL414G (10e)
iv. Mælinga- og próffræði SÁL418G (10e)

[...]2
1Breytt með 2. gr. rgl. nr. 139/2014.
2Breytt með 1. gr. rgl. nr. 155/2010.

8. gr.  Einingafjöldi og tímalengd náms.

Nám í talmeinafræði er 120 einingar. Miðað skal við að lengd námsins sé tvö ár (fjögur misseri). Við brautskráningu skal stúdent sýna fram á að hann hafi verið skráður og greitt skráningargjald allan námstímann, eða samkvæmt nánari reglum sem Háskóli Íslands kann að setja.

9. gr.  Námsleiðir, framvinda og samsetning náms.

Nám í talmeinafræði skal fela í sér þjálfun í vísindalegum vinnubrögðum og þátttöku í námskeiðum á framhaldsnámsstigi, auk starfsþjálfunar. Náminu lýkur með rannsóknar- eða þróunarverkefni innan talmeinafræða og ritgerð sem byggist á því. Stærð verkefnisins er 30 einingar. Aðrar einingar fást með þátttöku í námskeiðum og málstofum. Námsstjórn setur sérstakar reglur um starfsþjálfun.

Allir nemendur þurfa að hafa lokið tilteknum skyldunámskeiðum, þ.e. skyldukjarna, til að útskrifast með M.S.- gráðu í talmeinafræði frá Læknadeild Háskóla Íslands. Námskeið í skyldukjarna eru ákveðin af námsstjórn og tilgreind í kennsluskrá. Hafi nemandi við innritun þegar lokið námi sem er sambærilegt tilteknu námskeiði í skyldukjarna getur námsstjórn samþykkt að valnámskeið sé tekið í þess stað.

Við lok fyrsta námsárs skal nemandi hafa valið sér leiðbeinanda fyrir rannsóknarverkefni og veitir umsjónarkennari aðstoð við valið. Þá skal einnig liggja fyrir lýsing á rannsóknarverkefni og áætlun um framkvæmd þess. Námsstjórn samþykkir lýsinguna og áætlunina.

10. gr.  [Meistaraverkefni og kröfur til umsjónarkennara og leiðbeinanda.

Sérhver meistaranemi skal frá upphafi náms hafa umsjónarkennara úr hópi fastra akademískra starfsmanna Háskóla Íslands sem hann ráðfærir sig við um rannsóknarverkefni og annað sem tengist náminu. Umsjónarkennari ásamt nemanda leggur fram áætlun um rannsóknarverkefni sem stjórn námsins samþykkir. Umsjónarkennari og leiðbeinandi eru að jafnaði sami maðurinn. Nemanda er heimilt að hafa utanaðkomandi leiðbeinanda enda uppfylli hann kröfur þessara reglna. Ef umsjónarkennari og leiðbeinandi eru ekki sami maðurinn, þá hefur umsjónarkennari umsjón með verkefninu og er ábyrgur fyrir því að það sé í samræmi við kröfur Læknadeildar, en leiðbeinandi sér um að leiðbeina nemanda í rannsóknarverkefni. Ef leiðbeinandi kemur ekki úr áðurnefndum hópi þarf hann að hafa lokið a.m.k. meistaraprófi á viðkomandi fræðasviði. Gæta þarf þess að verkefni nemandans sé á sérsviði leiðbeinandans.]1
1Breytt með 3. gr. rgl. nr. 139/2014.

[...]2
2Breytt með 4. gr. rgl. nr. 139/2014.

[11. gr.]1  Meistaranámsnefnd.

Meistaranámsnefnd talmeinafræðinámsins er skipuð þremur mönnum. Námsstjórnin skipar tvo sérfróða menn í meistaranámsnefnd sem eiga þar fast sæti. Umsjónarkennari hvers nemenda tekur sæti í nefndinni þegar fjallað er um nám viðkomandi nemanda. Hlutverk meistaranámsnefndar er að fylgjast með að framgangur námsins sé í samræmi við skipulag námsins, svo og að tryggja fagleg gæði rannsóknavinnunnar í samræmi við reglur. Meistaranámsnefnd heldur reglulega fundi með hverjum nemanda og skilar árlegri skýrslu um framvindu námsins til námsstjórnarinnar.

Námsstjórnin getur vikið frá ákvæði 1. mgr. ef sérstaklega stendur á.
1Breytt með 4. gr. rgl. nr. 139/2014.

[12. gr.]1  Prófdómarar.

Námsstjórnin tilnefnir prófdómara. Prófdómari og meistaranámsnefnd prófa meistaranema og leggja mat á lokaverkefnið. Prófdómari skal ekki vera tengdur rannsóknarverkefninu.
1Breytt með 4. gr. rgl. nr. 139/2014.

[13. gr.]1  Námsmat og meistarapróf.

Þegar ritgerð er lögð fram skal jafnframt leggja fram til mats staðfest námsferilsyfirlit nemanda. Um einkunnir gilda ákvæði samkvæmt reglum fyrir Háskóla Íslands.
1Breytt með 4. gr. rgl. nr. 139/2014.

Í meistaraprófi flytur nemandi opinberan fyrirlestur um lokaverkefnið en að honum loknum er nemandinn prófaður. Prófdómari, ásamt meistaranámsnefnd, meta frammistöðu nemanda og úrskurða hvort nemandi hafi staðist prófið.
1Breytt með 4. gr. rgl. nr. 139/2014.

[14. gr.]1  Skil og frágangur meistararitgerða.

Meistaraprófsritgerð skal leggja fram í þremur eintökum fyrir meistaraprófsnefnd og prófdómara minnst þremur vikum fyrir áætlaðan prófdag. Við frágang lokaverkefna og meðferð heimilda skal nemandi fylgja reglum Læknadeildar sem hann brautskráist frá. Koma skal skýrt fram að verkefnið sé unnið innan talmeinafræða og við Læknadeild. Geta skal þeirra sjóða sem styrkt hafa verkefnið, ef það á við. Ritgerð skal vera á íslensku eða ensku, en útdráttur á báðum tungumálum skal fylgja.
1Breytt með 4. gr. rgl. nr. 139/2014.

[15. gr.]1  Tengsl við aðra háskóla.

Heimilt er með samþykki námsstjórnar að taka hluta meistaranámsins við aðra háskóla eða viðurkenndar rannsókna- eða vísindastofnanir, enda sé um sambærileg námskeið að ræða.
1Breytt með 4. gr. rgl. nr. 139/2014.

[16. gr.]1  Lærdómstitill.

Meistarapróf samkvæmt þessum reglum veitir rétt til lærdómstitilsins "Magister scientiarum"(M.S.) í talmeinafræði.
1Breytt með 4. gr. rgl. nr. 139/2014.

[17. gr.]1  Gildistaka o.fl.

Reglur þessar, sem samþykktar hafa verið í háskólaráði Háskóla Íslands, eru settar samkvæmt heimild í 3. og 4. mgr. 18. gr. laga nr. 85/2008 um opinbera háskóla. Reglurnar hafa verið samþykktar af viðkomandi háskóladeildum, fræðasviðum og Miðstöð framhaldsnáms, sbr. 66. og 69. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009. Reglurnar öðlast þegar gildi.

Auk birtingar í B-deild Stjórnartíðinda í samræmi við 1. mgr. 28. gr. laga nr. 85/2008, skal birta reglurnar í kafla þverfræðilegs náms í kennsluskrá og á heimasíðu Læknadeildar.
1Breytt með 4. gr. rgl. nr. 139/2014.


Háskóla Íslands, 16. nóvember 2009.