Skip to main content

1. háskólaþing 25. september 2008

1. háskólaþing Háskóla Íslands haldið 25. september 2008 í Hátíðasal Háskóla Íslands í Aðalbyggingu

Fundartími: Kl. 13.00-16.30

Dagskrá

Kl. 13.00 - 13.05    Rektor setur háskólaþing, fer yfir dagskrá og tímaáætlun og gerir grein fyrir fundargögnum.
Kl. 13.05 - 13.25    Dagskrárliður 1. Rektor reifar mál sem eru efst á baugi hjá Háskóla Íslands.
Kl. 13.25 - 13.55    Dagskrárliður 2. Umsögn um reglur sem háskólaráð setur:
a) Reglur um skipan og fundarsköp háskólaþings, samþ. í háskólaráði 26. júní 2008, með breytingu samþ. 28. ágúst 2008.
b) Reglur um tilnefningu fulltrúa háskólasamfélagsins og nemenda í háskólaráð Háskóla Íslands, samþ. í háskólaráði 28. ágúst 2008.
Kl. 13.55 - 14.50        Fundarhlé.
Kl. 14.50 - 15.30    Dagskrárliður 3. Tilnefning tveggja fulltrúa og tveggja varafulltrúa háskólasamfélagsins í háskólaráð Háskóla Íslands. Kynning á framboðum og ábendingum um fulltrúa í háskólaráð og kjör tveggja fulltrúa og tveggja varafulltrúa í háskólaráð.
Kl. 15.30 - 16.30    Dagskrárliður 4. Stefna Háskóla Íslands 2006-2011: Skýrsla nefndar um inntöku nýnema og aðgerðir gegn brottfalli úr námi.
Kl. 16.30    Rektor slítur háskólaþingi.

Kl. 13.00-13.05: Fundarsetning

Rektor setti 1. háskólaþing Háskóla Íslands og bauð fundarmenn velkomna til starfa. Háskólaþing er haldið í samræmi við lög um opinbera háskóla sem tóku gildi 1. júlí  2008 og er arftaki háskólafundar sem var settur á laggirnar samkvæmt lögum um Háskóla Íslands frá 1999.

Sérstaklega bauð rektor velkomna nýja forseta fræðasviða, þau Ástráð Eysteinsson, forseta Hugvísindasviðs, Jón Torfa Jónasson, forseta Menntavísindasviðs og Ólaf Þ. Harðarson, forseta Félagsvísindasviðs. Kristín Vala Ragnarsdóttir, forseti Verkfræði- og náttúruvísindasviðs og Sigurður Guðmundsson, forseti Heilbrigðisvísindasviðs gátu ekki sótt þingið, en í stað þeirra voru viðstödd Sigurður S. Snorrason, forseti Líf- og umhverfisvísindadeildar, og Inga B. Árnadóttir, forseti Tannlæknadeildar, sem stjórnir fræðasviðanna tilnefndu til að sitja háskólaþing sem staðgenglar forsetanna. Einnig bauð rektor sérstaklega velkomna nýja deildarforseta og forstöðumenn þeirra stofnana sem eiga fulltrúa á háskólaþingi, þau Björn Zoëga, starfandi forstjóra Landspítala, Véstein Ólason, forstöðumann Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Brynjólf Sigurðsson, forstjóra Happdrættis Háskóla Íslands, auk Ólafs Proppé, fyrrverandi rektors Kennaraháskóla Íslands.

Næst gerði rektor grein fyrir fyrirkomulagi fundarins. Háskólaráð hefði fyrir skömmu sett tvennar reglur, annars vegar um skipan og fundarsköp háskólaþings og hins vegar um tilnefningu fulltrúa háskólasamfélagsins og nemenda í háskólaráð Háskóla Íslands. Lög gerðu ráð fyrir því að háskólaþing veiti umsögn um slíkar reglur og væri það verkefni fyrri hluta fundarins. Að því búnu yrði gert fundarhlé og á meðan kæmi háskólaráð saman til stutts fundar til að staðfesta reglurnar endanlega. Að loknum fundi háskólaráðs héldi háskólaþingið áfram og færi þá fram kjör tveggja fulltrúa háskólasamfélagsins í háskólaráði.

Rektor fól Magnúsi Diðrik Baldurssyni, skrifstofustjóra rektorsskrifstofu og gæðastjóra Háskólans, að rita fundargerð.

Kl. 13.05-13.25 - Dagskrárliður 1: Rektor reifar mál sem eru efst á baugi hjá Háskóla Íslands

Rektor greindi frá því að mikil gróska hefði verið í starfi Háskóla Íslands frá því síðasti háskólafundur var haldinn 17. apríl sl. Þrennt stæði upp úr:

1. Framkvæmd heildarendurskoðunar á skipulagi og stjórnkerfi Háskóla Íslands.
Fyrsti stóri viðburðurinn á síðustu mánuðum var innleiðing nýs skipulags og stjórnkerfis fyrir Háskóla Íslands. Meginmarkmiðið með hinu nýja stjórnskipulagi er að auðvelda Háskólanum að ná markmiðum sínum um framúrskarandi kennslu, rannsóknir, stjórnun og stoðþjónustu. Innleiðingarinnar hefur verið beðið með nokkurri óþreyju því nokkur tími leið frá því að háskólafundur og háskólaráð samþykktu nýtt stjórnskipulag fyrir Háskóla Íslands þar til ný lög um opinbera háskóla tóku gildi, en lögin voru forsenda þess að Háskólinn gat hrint stjórnkerfisbreytingunni í framkvæmd með því að auglýsa fimm ný störf forseta fræðasviða. Nú er lokið ráðningu forsetanna og búið að auglýsa laus til umsóknar fimm ný störf rekstrarstjóra fræðasviðanna.

Síðastliðið vor hélt rektor röð funda með deildarforsetum og starfsfólki flestra hinna 25 deilda Háskólans til að ræða hið nýja skipulag og stjórnkerfi og taldi rektor þar koma skýrt fram mikinn sóknarhug og vilja til að nýta nýtt stjórnskipulag í þágu stefnu og markmiða skólans. Jafnframt gáfu fundirnir rektor tækifæri til að kynnast betur styrkleikum, tækifærum og þörfum hinna ólíku deilda. Þakkaði rektor deildarforsetum sérstaklega fyrir góða fundi og fyrir að taka að sér að stýra deildunum jafn vel og raun bæri vitni á miklum breytingartímum. Einnig þakkaði rektor verkefnisstjórn innleiðingar hins nýja skipulags, þeim Guðmundi Ragnarssyni, ráðgjafa á rektorsskrifstofu, Halldóri Jónssyni, sviðsstjóra vísindasviðs, og Guðrúnu Jóhönnu Guðmundsdóttur, sviðsstjóra starfsmannasviðs, fyrir gott starf. Sagði rektor að þótt mikið starf væri þegar að baki væru enn ýmsir lausir endar, en gera mætti ráð fyrir að innleiðingu hins nýja stjórnskipulags yrði að mestu lokið um komandi áramót.

2. Sameining Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands.
Annar stór viðburður á síðustu mánuðum var sameining Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands sem tók formlega gildi 1. júlí sl., sama dag og hið nýja stjórnskipulag. Hinn sameinaði Háskóli Íslands er lang stærsti háskóli landsins með um 13.500 nemendur. Sagði rektor að þótt þessir viðburðir hefðu tekið gildi á sama tíma ættu þeir sér ólíkan aðdraganda, enda var endurskoðun á skipulagi Háskólans ákveðin í stefnumótunarstarfi skólans veturinn 2005-2006, en ákvörðun um sameiningu háskólanna var tekin nokkru síðar. Markmið skipulagsbreytingarinnar er að bæta vinnuumhverfi, aðstöðu og þjónustu við kennara, vísindamenn og nemendur, en markmið sameiningarinnar er að bæta kennaramenntun í landinu og efla rannsóknir og nýsköpun á sviði uppeldis- og menntavísinda. Sameiningin mun væntanlega efla öll skólastig í landinu og um leið skapa nýja möguleika á þverfræðilegri nálgun í kennslu og rannsóknum. Til samans munu þessar breytingar vonandi verða til þess að efla sókn hins sameinaða háskóla að auknum árangri og gæðum í starfinu og bæta vellíðun starfsmanna og nemenda.

3. Nýr vefur hins sameinaða háskóla.
Þriðji stóri viðburðurinn frá síðasta háskólafundi var innleiðing nýs ytri og innri vefs fyrir hinn sameinaða háskóla. Vefurinn var formlega opnaður af menntamálaráðherra á hátíðarsamkomunni í tilefni sameiningar Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands, en áætlað er að þróun vefsins verði að mestu leyti lokið um komandi áramót.

Við þetta bætist að fyrir tæpu ári síðan voru nýjustu byggingar Háskólans, Háskólatorg og Gimli vígðar. Frágangi bygginganna er nú svo gott sem lokið og þær komnar í fulla nýtingu. Óhætt er að segja að vígsla Háskólatorgs og Gimlis hafi ekki aðeins verið breyting heldur í raun bylting fyrir alla aðstöðu starfsfólks og stúdenta Háskólans.

Að lokum rakti rektor stuttlega aðra viðburði í starfsemi Háskóla Íslands frá síðasta háskólafundi og stöðu mála varðandi framkvæmd Stefnu Háskóla Íslands 2006-2011:

Samstarf og styrkir
·    Félagsráðgjafardeild Háskólans og Barnaverndarstofa tilkynntu í maí sl. um nýtt diplómanám í barnavernd. Námið er skipulagt í samstarfi við Barnaverndarstofu sem jafnframt veitir veglegan styrk til kennslu og rannsókna. Þetta er í fyrsta sinn sem boðið er upp á sérstaka námsleið í barnavernd en talsverð eftirspurn hefur verið eftir slíku námi.
·    Utanríkisráðuneytið og Háskólinn undirrituðu viljayfirlýsingu um samstarf á sviði jafnréttismála í júní sl. Samstarfið felur m.a. í sér stofnun jafnréttisseturs og jafnréttisskóla við Háskóla Íslands. Rannsóknastofa í kvenna- og kynjafræðum (RIKK), sem starfrækt er við Háskóla Íslands, verður hluti af hinu nýja jafnréttissetri.
·    Freymóðs-Danley verðlaunin fyrir góðan námsárangur við University of California í Santa Barbara (UCSB) voru afhent í apríl sl. Verðlaunahafar voru tveir doktorsskiptinemar við UCSB, þau Ásdís Helgadóttir (vélaverkfræði) og Brynjar Grétarsson (tölvunarfræði).
·    Í júní sl. var tilkynnt um 100 m.kr. úthlutun úr Umhverfis- og orkurannsóknasjóði Orkuveitu Reykjavíkur og náðu vísindamenn Háskóla Íslands þar glæsilegum árangri því meirihluti styrkjanna rann til verkefna þeirra.
·    Í maí sl. var tilkynnt um stofnun Konfúsíusarstofnunarinnar Norðurljósa við Háskóla Íslands fyrir tilstilli íslenskra og kínverskra menntamálayfirvalda. Norðurljós er menntastofnun sem sinnir sérstaklega fræðslu um kínverska menningu og samfélag og stendur fyrir námskeiðahaldi í kínversku og kínverskum fræðum. Er þetta mikill heiður fyrir Háskóla Íslands
·    Á árinu var hrundið af stokkunum samvinnuverkefni Háskóla Íslands og Ningbo háskóla í Kína. Átta íslenskir nemendur héldu í skiptinám við skólann á þessu hausti.
·    Sex nemendur úr eðlis- og efnafræðiskorum raunvísindadeildar hlutu verðlaun úr Verðlaunasjóði Guðmundar P. Bjarnasonar.
·    Styrktarsjóður Ingibjargar R. Magnúsdóttur fékk veglegt framlag í tilefni af eins árs afmæli sjóðsins og 85 ára afmælis Ingibjargar. Markmið sjóðsins að efla rannsóknir í hjúkrunarfræði og ljósmóðurfræði. Nam gjöfin 2.750.000 kr., en Ingibjörg gaf 1.750.000 kr. og Sigurður Helgason, prófessor við MIT í Bandaríkjunum, gaf 1.000.000 kr.
·    Fyrsta úthlutun úr Afreks- og hvatningarsjóði stúdenta við Háskóla Íslands fór fram 20. júní sl. 25 afburðastúdentar hlutu 300.000 kr. styrk hver auk niðurfellingar skrásetningargjalds. Við ákvörðun um hverjir skyldu hljóta styrkina var litið til afburða árangurs á stúdentsprófi, virkni í félagsstörfum og árangurs á öðrum sviðum.

100 ára afmæli Kennaraháskóla Íslands
·    Kennaraháskóli Íslands fagnaði aldarafmæli sínu 7. júní sl. með veglegri hátíð í Borgarleikhúsinu, en þá voru liðin 100 ár frá setningu fyrstu fræðslulaga og stofnun Kennaraskóla Íslands. Brautskráðir voru þrír doktorar frá skólanum, þau Sigurður Pálsson, Guðrún Geirsdóttir og Rúnar Sigþórsson. Einnig var lýst kjöri fjögurra heiðursdoktora, þeirra Indriða Gíslasonar, Jóns G. Ásgeirssonar, Þuríðar J. Kristjánsdóttur og Edwards Befring.

Viðurkenningar
·    Í júní sl. var dr. Donna E. Shalala sæmd heiðursdoktorsnafnbót frá viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands. Shalala er fyrrverandi heilbrigðisráðherra Bandaríkjanna og núverandi rektor University of Miami í Flórída. Við þetta tækifæri flutti hún fyrirlestur undir heitinu „The American Presidency.“
·    Hinn 19. júní sl. var frú Vigdísi Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta Íslands, og Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum við Háskóla Íslands (SVF) færð þakkargjöf frá íslenskum konum. Gjöfin fólst í sérstaklega gerðum tækifæriskortum sem verða seld til styrktar SVF.
·    Í júní sl. hlaut Friðbert Jónasson prófessor alþjóðleg verðlaun vegna rannsókna á gláku. Verðlaunin hlaut Friðbert sameiginlega með Kára Stefánssyni, forstjóra Decode Genetics. Um er að ræða ein virtustu verðlaun á sviði augnlækninga sem veitt eru í heiminum.
·    Í september sl. hlaut Einar Stefánsson prófessor Jules Gonin verðlaunin sem veitt eru annað hvert ár þeim einstaklingum í heiminum sem þykja hafa staðið öðrum framar í rannsóknum í augnlæknisfræði, sérstaklega á sviði sjónhimnusjúkdóma.
·    Vísindaráð evrópsku gigtarsamtakanna heiðraði í júní sl. Björn Guðbjörnsson dósent fyrir rannsóknir hans á ættlægni sóragigtar.
·    Helgi Björnsson vísindamaður og Árný Erla Sveinbjörnsdóttir vísindamaður voru í júní sl. sæmd Hinni íslensku fálkaorðu fyrir vísindastörf sín.

Stór styrkur
·    Hinn 18. september sl. varð sá ánægjulegi viðburður að Toshizo Watanabe, japanskur kaupsýslumaður sem búsettur er í Bandaríkjunum, færði Háskóla Íslands að gjöf 3.000.000 bandaríkjadala. Þessi fjárhæð er stofnframlag til styrktarsjóðs sem kenndur er við Watanabe og hefur þann tilgang að veita nemendum í grunn- og framhaldsnámi styrki til skiptináms í Japan og á Íslandi, auk þess að stuðla að samvinnu vísindamanna og styrkja menningartengsl Íslands og Japans. Geir H. Haarde, forsætisráðherra, vottaði stofnskrá hins nýja sjóðs, en Watanabe og hann voru skólafélagar við Brandeis háskólann í Bandaríkjunum. Mun hinn nýi sjóður verða mikil lyftistöng fyrir samskipti Háskóla Íslands og Japans.

Gestir
·    Friðrik krónprins af Danmörku heimsótti Háskóla Íslands í maí sl. og var heimsóknin liður í fjögurra daga heimsókn hans til landsins. Sótti krónprinsinn, ásamt Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands, fyrirlestra um jöklafræði og loftslagsbreytingar sem haldin var í Öskju.
·    Rattan Lal, einn fremsti vísindamaður heims á sviði samspils landkosta og loftslagsbreytinga, var andmælandi við doktorsvörn við Háskóla Íslands í júní sl. Doktorskandídatinn var Marin Ivanov Kardjilov, landmælingaverkfræðingur við Háskólann, og var ritgerðin á sviði landfræði.
·    Robert Kaplan, prófessor við Harvard Business School, og höfundur hins þekkta Balanced Scorecard-kerfis, kom í september sl. til landsins og flutti erindi í Háskólabíói undir heitinu „The Execution Premium - Linking Strategy to Operations for Competitive Advantage“. Erindið var flutt í boði Capacent og í samstarfi við Háskóla Íslands.

Háskóli unga fólksins
·    Háskóli unga fólksins var haldinn í 5. sinn sl. vor. Háskólalóðin bókstaflega iðaði af lífi í júní þegar Háskóli Íslands bauð nemendum á aldrinum 12-16 ára að stunda vikulangt nám í 38 mismunandi greinum undir leiðsögn kennara Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands. Í ár tóku 250 ungmenni þátt í skólanum sem var metþátttaka.

Háskólahátíð 14. júní 2008
·    Á háskólahátíð 14. júní sl. voru tæplega 1.100 kandídatar brautskráðir frá Háskóla Íslands. Aðsókn að Háskóla Íslands hefur aukist hratt á milli ára. Við sameiningu Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands bættust á fjórða þúsund nýnemar við í haust en svo margir nýnemar hafa aldrei áður hafið háskólanám við skólann. Á háskólahátíðinni tilkynnti rektor að Háskólinn stefndi að því að byggja upp fjögur til sex afburðasvið eða stofnanir sem tryggt yrði sérstakt fjármagn og grundvöllur til að skara fram úr á alþjóðavísu. Umsóknarfrestur var til 15. september sl. og bárust 39 umsóknir.

Ný lög um opinbera háskóla
·    Alþingi samþykkti ný lög um opinbera háskóla rétt fyrir lok vorþings. Lögin renna m.a. mikilvægri lagastoð undir hið nýja stjórnskipulag Háskóla Íslands.

Stefna Háskóla Íslands 2006-2011
·    Stefna Háskóla Íslands 2006-2011 felur í sér að skólinn hyggst ná framúrskarandi árangri á sviði kennslu, rannsókna, stjórnunar og stoðþjónustu. Vel hefur tekist við að framfylgja stefnunni og hefur árangurinn í sumum tilvikum jafnvel farið fram úr settu marki. Þannig hefur birtingum fræðimanna Háskóla Íslands og tengdra stofnana í svonefndum ISI-tímaritum fjölgað úr 299 árið í 406 árið 2007 og á árinu 2007 birtust þrjár greinar eftir höfunda úr röðum vísindamanna Háskólans í tímaritunum Nature og Science, sem er svipað hlutfall og í bestu háskólum á Norðurlöndunum. Þó liggur fyrir að nokkur misbrestur er á að höfundar úr röðum starfsmanna Háskólans annað hvort merki greinar sínar skólanum eða þeir merki þær rétt. Því gætu birtingatölur hækkað umtalsvert með því einu að bætt yrði úr þessu. Er hér um að ræða mikið hagsmunamál fyrir Háskólann, enda er fjöldi ISI-greina einn mikilvægasti mælikvarðinn fyrir alþjóðlega röðun háskóla. Til að bregðast við þessu samþykkti háskólaráð fyrir skömmu nýjar reglur um birtingar sem fela m.a. í sér að ómerktar eða ranglega merktar greinar verða ekki teknar til greina í tengslum við vinnumatskerfi Háskólans.

Húsnæðismál
·    Í ágúst sl. var tilkynnt um úrslit í samkeppni um hönnun húss fyrir Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Gert er ráð fyrir að kennsla og rannsóknir í íslensku og íslenskum fræðum við Háskóla Íslands hafi aðsetur í hinu nýja húsi. Verðlaunin hlutu Hornsteinar arkítektar ehf.

Ýmsir viðburðir
·    Í lok apríl sl. var haldið háskólahlaup með góðri þátttöku starfsmanna og nemenda Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands. Hlaupin var 7 km vegalengd í kringum flugvöllinn í Vatnsmýrinni og var sigurvegari hlaupsins Sigurbjörn Árni Arngrímsson, lektor við Menntavísindasvið á Laugarvatni og margfaldur Íslandsmeistari í hlaupum. Hlaupið var hápunktur heilsumánaðar við Háskólann, en við þetta tækifæri var jafnframt fagnað 60 ára afmæli íþróttahúss skólans.
·    Efnt var til sýningar í Þjóðarbókhlöðunni í maí sl. í tilefni af 100 ára afmæli Kennaraháskóla Íslands. Yfirskrift sýningarinnar var „Að vita meira og meira. Brot úr sögu almenningsfræðslu á Íslandi".
·    Rannsóknarstofnun um lyfjamál við Háskóla Íslands hratt í maí sl. af stað átaki og vitundarvakningu meðal almennings um förgun lyfja. Átakið var liður í rannsókn á sóun lyfja.
·    Háskóli Íslands tók virkan þátt í menningarnótt eins og undanfarin ár. Latabæjarhlaupið hófst fyrir framan Aðalbyggingu og var boðið upp á fjölbreytta skemmtidagskrá á Háskólatorgi sem stúdentar og starfsfólk Háskólans stóð að í sameiningu.
·    Háskóli Íslands átti glæsilega fulltrúa á Ólympíuleikunum í Peking sl. sumar. Ásdís Hjálmarsdóttir, nemi í lyfjafræði, keppti í spjótkasti, Jakob Jóhann Sveinsson, nemi í umhverfis- og byggingarverkfræði, keppti í sundi og Ragna Ingólfsdóttir, nemi í heimspeki og sálfræði, tók þátt í badmintonkeppni leikanna. Það er mikill heiður fyrir Háskóla Íslands að geta státað af slíku afreksfólki úr röðum nemenda sinna.
·    Fjölmennasta ráðstefna sem haldin hefur verið við Háskóla Íslands fór fram á Háskólatorgi í ágúst sl. þegar um eittþúsund eldfjallasérfræðingar komu saman til að ræða um hamfaragos, eyðingu lífs í eldsumbrotum, loftslagsbreytingar og orsakir eldgosa.
   
Viðburðir framundan
·    Hinn 1. október nk. verða liðin 100 ár frá því kennsla í lögfræði hófst á Íslandi.
·    Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands fagnar 25 ára afmæli sínu 2. október nk.
·    Viðskipta- og hagfræðideildir Háskólans halda upp á 70 ára afmæli í nóvember nk.
·    Haldinn verður haustfagnaður starfsfólks Háskóla Íslands 27. september nk.
·    Aldarafmæli Háskóla Íslands árið 2011.

Kl. 13.25-13.55 - Dagskrárliður 2: Umsögn um reglur sem háskólaráð setur:

a)    Reglur um skipan og fundarsköp háskólaþings, samþ. í háskólaráði 26. júní 2008, með breytingu samþ. 28. ágúst 2008.

Rektor greindi frá því að framlagðar reglur væru liður í því að gera nýtt skipulag og stjórnkerfi Háskóla Íslands starfhæft. Mikilvægur þáttur í því væri skipan nýs háskólaráðs og það væri verkefni þessa háskólaþings að kjósa tvo fulltrúa háskólasamfélagsins í hið nýja ráð. Til þess þurfi að setja reglur um skipan og fundarsköp háskólaþings annars vegar og reglur um tilnefningu fulltrúa háskólasamfélagsins og nemenda í háskólaráð Háskóla Íslands hins vegar. Gat rektor þess að á síðustu misserum hefði verið um það rætt að tímabært væri að endurskoða hlutverk og skipan háskólafundar, sem nú heiti háskólaþing. Í því mikla breytingarferli sem staðið hefði yfir að undanförnu hefði sú vinna ekki farið fram og gerðu framlagðar reglur því ekki ráð fyrir öðrum breytingum á fyrri reglum um skipan og fundarsköp háskólafundar en þeim sem ný lög um opinbera háskóla kveða á um og eru í samræmi við nýtt skipulag og stjórnkerfi Háskóla Íslands og sameiningu Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands.

Rektor gaf orðið laust. Málið var rætt og lýstu fundarmenn sig almennt sátta við reglurnar, þótt fram hafi komið ólík sjónarmið, einkum varðandi viðbótarfulltrúa fræðasviða og kjörtímabil fulltrúa stúdenta.

Rætt var um það, hvort öll fræðasvið ættu að hafa sama fjölda fulltrúa eða hvort stærri sviðin ættu að fá viðbótarfulltrúa. Í framhaldi af þessu var einnig fjallað um það, á hvaða grundvelli ætti að velja viðbótarfulltrúana. Töldu sumir fundarmenn að miða ætti við fjölda akademískra starfsmanna eða rannsóknaafköst fremur en fjölda nemenda, enda ættu nemendur sína eigin fulltrúa og myndu með þessari tilhögun fá óeðlilega mikið vægi við ákvörðun fulltrúa á háskólaþingi, auk þess sem stúdentar dvelja tiltölulega stutt við í skólanum. Á móti var á það bent, að öllum fræðasviðum væru tryggðir sjö fulltrúar á grundvelli starfsmannafjölda og því væri ekki óeðlilegt að viðbótarfulltrúar væru kjörnir á grundvelli nemendafjölda, enda væri mikill stærðarmunur á fræðasviðunum sérstaklega hvað nemendafjölda varðar.

Fulltrúi stúdenta spurði, hvers vegna gert væri ráð fyrir að fulltrúar stúdenta væru kjörnir til eins árs en aðrir kjörnir fulltrúar til tveggja ára. Var því til svarað, að kveðið væri á um þetta í lögum og því gæti fundurinn ekki breytt.

Rektor benti á að mikilvægt væri að afgreiða reglurnar á fundinum svo ekki yrði frekari töf á innleiðingu hins nýja skipulags og stjórnkerfis. Sjálfsagt væri að endurskoða reglurnar um skipan og fundarsköp háskólaþings um leið og tími gefst til.

Að umræðu lokinni bar rektor upp til samþykktar, að því yrði beint til háskólaráðs að háskólaþing geri ekki athugasemdir við reglur um skipan og fundarsköp háskólaþings, samþ. í háskólaráði 26. júní 2008, með breytingu samþ. 28. ágúst 2008.

- Samþykkt með miklum meirihluta atkvæða.

Til máls tóku undir þessum dagskrárlið, auk rektors, þau Jón Torfi Jónasson, Jón Atli Benediktsson, Guðmundur G. Haraldsson, Oddný G. Sverrisdóttir, Rúnar Vilhjálmsson, Ingjaldur Hannibalsson, Anna Agnarsdóttir, Ólafur Þ. Harðarson, Bryndís Brandsdóttir, Gylfi Zoëga, Sigrún Gísladóttir, Þórður Kristinsson og Björg Thorarensen.

b) Reglur um tilnefningu fulltrúa háskólasamfélagsins og nemenda í háskólaráð Háskóla Íslands, samþ. í háskólaráði 28. ágúst 2008.

Næst voru teknar fyrir reglur um tilnefningu fulltrúa háskólasamfélagsins og nemenda í háskólaráð Háskóla Íslands. Rektor greindi frá því að málið hefði verið rætt ítarlega í háskólaráði. Ljóst væri að standa mætti með ýmsum hætti að kjöri þessara tveggja fulltrúa, en háskólaráð hefði orðið ásátt um þá niðurstöðu sem lægi fyrir þinginu til umsagnar.

Rektor gaf orðið laust og var málið rætt.

Fulltrúi Hugvísindasviðs benti á að síðasta mgr. 5. gr., þar sem fjallað er um það hvernig velja eigi á milli manna ef atkvæði eru jöfn á milli þeirra, skýrði ekki hvernig bregðast ætti við ef þeir sem verða í 2. og 3. fá jafn mörg atkvæði. Til að bæta úr þessu lagði fulltrúi Félagsvísindasviðs til að í stað orðanna „Ef atkvæði eru jöfn í vali skv. 1. mgr. á milli manna af sama fræðasviði skal hlutkesti ráða. Sömuleiðis skal hlutkesti ráða verði atkvæði jöfn við val á varamönnum.“ kæmi „Ef atkvæði eru jöfn í vali á milli manna skal hlutkesti ráða.“

Fulltrúi Menntavísindasviðs spurði, hvort ekki þyrfti að taka mið af ákvæðum jafnréttislaga við kjör fulltrúa háskólasamfélagsins í háskólaráð. Var því til svarað að jafnréttislög giltu aðeins um tilnefningu eða skipun en ekki um kosningu. Hins vegar væri það í höndum menntamálaráðherra sem skipar fjóra fulltrúa í háskólaráð sem og ráðsins sjálfs sem skipar síðustu tvo fulltrúana að gera það með þeim hætti að það samræmist kröfu jafnréttislaganna um að hvorugt kynið hefði færri fulltrúa í háskólaráði en sem næmi 40%.

Að umræðu lokinni bar rektor upp til samþykktar, að því yrði beint til háskólaráðs að umsögn háskólaþings um reglur um tilnefningu fulltrúa háskólasamfélagsins og nemenda í háskólaráð Háskóla Íslands, samþ. í háskólaráði 28. ágúst 2008, væri almennt jákvæð, en þingið beindi því til ráðsins að í síðustu mgr. 5. gr., kæmi í stað setninganna „Ef atkvæði eru jöfn í vali skv. 1. mgr. á milli manna af sama fræðasviði skal hlutkesti ráða. Sömuleiðis skal hlutkesti ráða verði atkvæði jöfn við val á varamönnum.“ ný setning sem hljóðar svo: „Ef atkvæði eru jöfn í vali á milli manna skal hlutkesti ráða.“

- Samþykkt einróma.

Til máls tóku undir þessum lið, auk rektors, þau Eiríkur Rögnvaldsson, Eiríkur Tómasson, Bryndís Brandsdóttir, Jón Torfi Jónasson og Ólafur Þ. Harðarson.

Kl. 13.55-14.50: Fundarhlé

Kl. 14.50-15.30 - Dagskrárliður 3: Tilnefning tveggja fulltrúa og tveggja varafulltrúa háskólasamfélagsins í háskólaráð Háskóla Íslands. Kynning á framboðum og ábendingum um fulltrúa í háskólaráð og kjör tveggja fulltrúa og tveggja varafulltrúa í háskólaráð.

Rektor greindi frá því að í fundarhléi hefði háskólaráð komið saman og staðfest reglurnar, sbr. dagskrárlið 2, í samræmi við umsögn háskólaþings. Ekkert væri því til fyrirstöðu að ganga til kjörs tveggja fulltrúa og tveggja varafulltrúa háskólasamfélagsins í háskólaráð skv. reglunum.

Skýrði rektor frá því að kallað hefði verið eftir ábendingum og framboðum og hefðu borist alls 9 ábendingar og framboð. Allir frambjóðendur uppfylltu skilyrði 3. gr. reglnanna um að vera akademískir starfsmenn Háskóla Íslands í fullu starfi (a.m.k. 75% starfshlutfalli), en þó hvorki forsetar fræðasviða, deildarforsetar né varadeildarforsetar. Gögn um starfsvettvang og stutt lýsing starfsferils var send út með fundarboði.

Frambjóðendur:
Allyson Macdonald, prófessor við Menntavísindasvið
Anna Agnarsdóttir, prófessor við Hugvísindasvið
Áslaug Geirsdóttir, prófessor við Verkfræði- og náttúruvísindasvið
Friðrik H. Jónsson, prófessor við Heilbrigðisvísindasvið
Gunnlaugur Björnsson, vísindamaður við Verkfræði- og náttúruvísindasvið
Ólafur S. Andrésson, prófessor við Verkfræði- og náttúruvísindasvið
Stefán Ólafsson, prófessor við Félagsvísindasvið
Tinna Laufey Ásgeirsdóttir, lektor við Félagsvísindasvið
Þóra Ellen Þórhallsdóttir, prófessor við Verkfræði- og náttúruvísindasvið

Næst lýsti rektor framkvæmd kosningarinnar. Dreift yrði kjörseðlum til þeirra sem hefðu atkvæðisrétt. Á kjörseðlinum væru rituð nöfn þeirra sem kosið væri um í stafrófsröð. Hver atkvæðisbær fulltrúi greiddi skriflega atkvæði sitt með tveimur (og aðeins tveimur) frambjóðendum, að öðrum kosti væri atkvæðaseðillinn ógildur. Við dyrnar á Hátíðasal væri kjörkassi fyrir útfyllta kjörseðla. Þegar atkvæðagreiðslu væri lokið yrði gert stutt kaffihlé á meðan atkvæði yrðu talin.

Atkvæðisbærir fulltrúar á háskólaþingi væru rektor, forsetar fræðasviða og staðgenglar þeirra, deildarforsetar, fulltrúar kjörnir af fræðasviðum, tveir fulltrúar samtaka háskólakennara, tveir fulltrúar starfsmanna við stjórnsýslu og fulltrúar Landspítala, Landsbókasafns-háskólabókasafns, Tilraunastöðvar Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum, Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Raunvísindastofnunar Háskólans og Endurmenntunarstofnunar Háskóla Íslands. Stúdentar hefðu ekki atkvæðisrétt í þessari kosningu, enda hefðu þeir þegar kosið sérstaklega sína tvo fulltrúa í háskólaráði. Með atkvæðisrétt færu því samtals 57 fulltrúar.

Lagði rektor til að tveir fulltrúar án atkvæðisréttar, þau Brynjólfur Sigurðsson, forstjóri HHÍ og Birna Arnbjörnsdóttir, fulltrúi í háskólaráði, önnuðust talningu atkvæða.

Spurði rektor hvort einhver vildi gera athugasemd við framkvæmd kosningarinnar. Enginn gerði athugasemd og var því gengið til kosningar.

Að loknu kaffihléi, þegar atkvæði höfðu verið talin, las rektor upp niðurstöðu kosningarinnar:

- Atkvæðisrétt höfðu 57 fulltrúar á háskólaþingi.
- Atkvæði greiddu 57 fulltrúar.
- Auðir og ógildir kjörseðlar voru 0.
- Gildir kjörseðlar voru 57.
- Flest atkvæði hlutu Gunnlaugur Björnsson (17), vísindamaður við Verkfræði- og náttúruvísindasvið og Anna Agnarsdóttir (16), prófessor við Hugvísindasvið og voru þau því réttkjörnir aðalmenn í háskólaráði.
- Friðrik H. Jónsson, prófessor við Heilbrigðisvísindasvið og Tinna Laufey Ásgeirsdóttir, lektor við Félagsvísindasvið hlutu 15 atkvæði hvort í kosningu til varamanns í háskólaráði. Því var varpað hlutkesti um það hvort þeirra skyldi vera varamaður hvors aðalmanns og var niðurstaða hlutkestisins sú að Friðrik H. Jónsson yrði varamaður Gunnlaugs Björnssonar og Tinna Laufey Ásgeirsdóttir varamaður Önnu Agnarsdóttur.

Kl. 15.30-16.30 - Dagskrárliður 4: Stefna Háskóla Íslands 2006-2011: Skýrsla nefndar um inntöku nýnema og aðgerðir gegn brottfalli úr námi.

Magnús Diðrik Baldursson, gæðastjóri Háskólans og skrifstofustjóri rektorsskrifstofu, gerði grein fyrir málinu í forföllum Róberts H. Haraldssonar, prófessors við hugvísindadeild og formanns nefndarinnar. Byrjaði Magnús á því að greina frá skipan nefndarinnar, en í henni sátu, auk Róberts og Magnúsar Diðriks, þau
·    Arnfríður Ólafsdóttir, deildarstjóri Námsráðgjafar
·    Dagný Ósk Aradóttir, formaður stúdentaráðs 2007-2008
·    Friðrik H. Jónsson, prófessor við félagsvísindadeild og forstöðumaður Félagsvísindastofnunar
·    Gestur Guðmundsson, prófessor við Kennaraháskóla Íslands
·    Kristín S. Færseth, skrifstofustjóri Nemendaskrár

Þá benti Magnús á að gagnlegt væri að lesa saman tillögur brottfallsnefndar og tillögur kennslumálanefndar um framkvæmd stefnu Háskóla Íslands á sviði náms og kennslu, sem samþykktar voru á háskólafundi 17. apríl 2008. Helstu forsendur nefndarstarfsins voru þessar:

·    Stefna Háskóla Íslands 2006-2011, ytri úttektir á Háskóla Íslands í heild og á einstökum deildum, erindisbréf nefndarinnar, samþykkt í háskólaráði 28. júní 2007.
·    Tillögur nefndarinnar tækju mið af gildandi lögum og reglum. Ekki væru gerðar tillögur um innheimtu skólagjalda eða almennar aðgangstakmarkanir.
·    Tillögurnar miðuðu að því að auka gæði kennslu og náms við Háskóla Íslands og að efla gæðamenningu innan skólans.
·    Gæðaumbótatillögurnar ættu almennt við, óháð skólagjöldum og aðgangstakmörkunum.
   

Nefndin kynnti sér fjölmörg gögn sem fyrir lágu um málefnið:

·    Eldri skýrslur skoðaðar (1989, 1992, 2005, 2007).
·    Aflað var gagna um fyrsta árs brottfall í grunn- og framhaldsnámi, námsframvindu við Háskóla Íslands og námsframvindu við Kennaraháskóla Íslands.
·    Tekið var mið af nýjum norskum skýrslum um brottfall (2008, 2006).
·    Nefndin lét Félagsvísindastofnun gera sérstaka könnun um brottfall við Háskóla Íslands (maí 2008). Um var að ræða
- símakönnun sem byggði á 1.200 manna tilviljunarúrtaki á meðal brottfallsnema við Háskóla Íslands á árunum 2003-2006.
- Skýrsla um könnunina fylgdi með skýrslu nefndarinnar sem Viðauki II.

Næst tíundaði Magnús helstu niðurstöður nefndarstarfsins:

·    Skráningarbrottfall er mjög hátt við Háskóla Íslands, þ.e. hlutfall þeirra sem innritast/greiða skrásetningargjald en hefja í reynd aldrei nám.
·    Um 54,4% þeirra sem „hættu“ námi við Háskóla Íslands á árunum 2003 til 2006 sóttu enga fyrirlestra eða verklega tíma við skólann.
·    Fyrsta árs brottfall er mikið við Háskóla Íslands, frá 11% til 55% eftir deildum, en meðaltalið er 38%. Það er hæst í hug- og félagsvísindagreinum.
·    Margir hætta eftir að hafa lokið 45 einingum og jafnvel eftir að hafa lokið meira en 80 einingum.
·    Verulegt fyrsta árs brottfall er í framhaldsnámi.
·    Þótt brottfall sé hlutfallslega mest við Háskóla Íslands af innlendum háskólum er skólinn einnig í flestum tilvikum skilvirkasti íslenski háskólinn sé litið til kennsluþáttarins (hvort heldur sem miðað er við framleiðni fjármagns eða vinnuafls) og raunar eini innlendi skólinn sem stenst að einhverju leyti samanburð við erlenda háskóla hvað þetta áhrærir.
·    Háskóli Íslands býr ekki yfir upplýsingakerfi sem veitir með skjótum og áreiðanlegum hætti upplýsingar um brottfall og námsframvindu nemenda við skólann.
- Upplýsingaöflun krefst mikillar handavinnu.
- Skrifað er yfir eldri upplýsingar í nemendakerfi skólans.
·    Flestir stjórnendur deilda/námsbrauta og í miðlægri stjórnsýslu hafa brotakennda og óáreiðanlega yfirsýn yfir brottfall og námsframvindu nemenda
·    Ekki er skýrt hverjir bera ábyrgð á málaflokknum brottfall í deildum og miðlægri stjórnsýslu.
·    Mjög er ólíkt eftir deildum hve vel er fylgst með námsframvindu nemenda. Nokkrar deildir telja sig ekki hafa mannafla eða tæknilegar forsendur til að fylgjast með námsframvindu nemenda sinna. Sumar deildir benda á að ekki sé hægt að fá slíkar upplýsingar með skjótum og öruggum hætti úr nemendaskrá.
·    Eftirfylgni eða viðurlög við ófullnægjandi námsframvindu eru að sama skapi misjöfn eftir deildum og í mörgum tilvikum brotakennd.

Loks gerði Magnús grein fyrir helstu tillögum nefndarinnar:

·    Lagt er til að skilgreindar verði tvær lykilkennitölur sem nýst geta sem stjórntæki:
- Endurskráningarhlutfall (miðað við haust 1. árs til hausts 2. árs)
- Brautskráningarhlutfall eftir 3 og 5 ár
·    Gerðar verði breytingar á skráningarferli og gagnavörslu
- Vöruhús gagna þar sem haldið er utan um sögu breytinga
·    Þessar kennitölur verði kynntar með markvissum hætti á innri vef skólans og á kennarafundum í öllum námsleiðum.
·    Tölur um endurskráningarhlutfall og brottfallshlutfall fyrir háskólaárið 2006-2007 og háskólaárið 2007-2008 verði birtar á innri vef skólans eigi síðar en 1. nóvember 2008.
·    Allar deildir og fræðasvið taki árlega saman gæðaskýrslur þar sem meðal annars er gerð grein fyrir námsframvindu nemenda og aðgerðum deilda/fræðasviða.
·    Skrásetningargjaldið verði hækkað. Það verði hærra á fyrsta ári en á síðari árum.
- Til að vinna gegn skráningarbrottfalli
- Ýmsar mögulegar útfærslur eru ræddar í skýrslu nefndarinnar
- Nemendur staðfesti skráningu í próf 10. september í stað 19. nóvember.
- Staðfesting skylda fyrir alla nemendur
- Fyrsti ferill nemenda miðist við skráningarstöðu 10. september.
·    Háskóli Íslands meti hvort setja þurfi á laggirnar starf skýrslustjóra sem beri ábyrgð á allri innri og ytri skýrslugjöf skólans.
·    Erlendar kannanir og könnun brottfallsnefndar sýna að besta leiðin til að vinna gegn brottfalli er fólgin í því að auka faglega og félagslega þátttöku (e. integration) strax á fyrsta misseri náms.
·    Gert verði átak í að breyta kennsluháttum á fyrstu misserum náms þar sem meiri áhersla verði lögð á vinnustofur, verkefna- og umræðuhópa, minni námskeið og málstofur. Lögð verði áhersla á meiri endurgjöf (e. feedback) til nemenda og símat tekið upp í auknum mæli.
·    Tekin verði upp reglubundin formleg viðtöl milli kennara/starfsmanna og nýnema. Í tilvikum þar sem nemendahópurinn er mjög stór geta framhaldsnemar tekið þátt í slíkum viðtölum.
·    Tekin verði viðtöl við alla nemendur sem ekki sýna eðlilega námsframvindu samkvæmt skilgreiningu. Gildir þetta um nemendur á öllum árum í grunn- og framhaldsnámi.
·    Hámarksnámstími í grunnnámi verði að jafnaði 4,5 ár (fullt nám) og 6 ár (hlutanám), í meistaranámi 3 ár (fullt nám) og 4 ár (hlutanám).
·    Fræðasvið endurskoði reglur um hámarksnámstíma í grunn- og framhaldsnámi, í fullu námi og í hlutanámi.
·    Fræðasvið/deildir endurskoði reglur um námsframvindu fyrir 1. des. 2008.
- Eðlilegur námstími á einstökum námsleiðum í fullu námi og í hlutanámi, í grunn- og framhaldsnámi;
- hámarksnámstími á viðkomandi námsleið í fullu námi og hlutanámi, í grunn- og framhaldsnámi;
- framvindukröfur milli ára;
- reglur um undanþágu frá námsframvindukröfum;
- reglur um eftirlit með námsframvindunni;
- aðgerðaáætlun ef nemandi stenst ekki framvindukröfur.
·    Reglur verði kynntar með áberandi hætti á nýnemakynningu að hausti.
·    Einum aðila á hverju fræðasviði (t.d. kennslustjóra, kennslunefnd) verði falin höfuðábyrgð á eftirliti með brottfalli og námsframvindu nemenda, og aðgerðaáætlun fræðasviðs.

Rektor þakkaði Magnúsi fyrir kynninguna og gaf orðið laust.

Líflegar umræður spunnust um málið. Luku fundarmenn almennt lofsorði á skýrslu brottfallsnefndar og sögðu mikilvægt að hún yrði kynnt og rædd víðar í Háskólanum og tillögum hennar fylgt eftir.

Forseti Félagsvísindasviðs sagði skýrslu brottfallsnefndar vera eitthvert besta plagg um þetta efni sem fram hefði komið. Sérstaklega tók hann undir það sem segir í skýrslunni um upplýsingakerfi Háskólans. Þá lýsti hann undrun sinni á því hversu margir nemendur skráðu sig til náms og greiddu 45.000 kr. skrásetningargjald en hæfu í reynd aldrei nám. Sýndi þetta hvað skrásetningargjaldið væri í raun lágt. Einnig gerði hann að umtalsefni að brottfall væri mest í félags- og hugvísindum. Eins og fram kæmi í skýrslunni skipti fagleg og félagsleg þátttaka nemenda miklu máli í þessu sambandi, en einnig þyrfti að hafa í huga að greinar á fræðasviðum félags- og hugvísinda væru í lægsta reikniflokki sem kæmi í veg fyrir að hægt væri að bjóða upp á sem bestar kennsluaðstæður og ásættanlegt hlutfall milli kennara og nemenda. Í sumum tilvikum væri þetta hlutfall jafnvel 1:50 eða 1:80. Breyting á þessu væri frumforsenda fyrir því að hægt væri að draga úr brottfalli og það yrði aðeins gert með því að flytja umræddar greinar í hærri reikniflokk eða með því að fá heimild til að taka upp skólagjöld.

Á móti hélt fulltrúi stúdenta því fram að vandamálið væri ekki nemendur sem skráðu sig til náms og borguðu skrásetningargjald. Það ætti frekar við um hina sem ekki færu í skólann vegna þess að þeir hefðu ekki ráð á að greiða gjaldið.

Fulltrúi Félags prófessora og Félags háskólakennara fagnaði skýrslunni og tillögum brottfallsnefndar. Benti hann í fyrsta lagi á að hvað brottfall varðar hefði Háskóli Íslands sérstöðu í alþjóðlegum samanburði sökum mikillar atvinnuþátttöku stúdenta. Rannsóknir sýndu að allt að 30% íslenskra háskólanema væru í fullu launastarfi meðfram náminu. Í öðru lagi veldi Háskóli Íslands ekki úr hópi umsækjenda hæfustu nemendurna heldur veitti öllum umsækjendum inngöngu sem fullnægðu formlegum lágmarkskröfum. Í þriðja lagi skýrðist hátt brottfall við Háskóla Íslands miðað við aðra innlenda háskóla að nokkru af því að við skólann væru í mörgum námsgreinum gerðar miklar námskröfur á fyrsta ári. Ef ekki yrði slegið af þessum kröfum yrði brottfalli aldrei útrýmt með öllu, þótt vissulega mætti draga úr því með markvissum aðgerðum. Þá skiptu framvindukröfur miklu máli, en einnig eftirfylgd og félagsleg þátttaka og helgum nemenda.

Fulltrúi Félagsvísindasviðs hvatti til þess að á grundvelli skýrslunnar yrðu sett skýr töluleg og tímasett markmið um lækkun brottfalls. Þá vék fulltrúinn sérstaklega að hlutverki námsráðgjafar í þessu sambandi. Sagði hann að við Háskóla Íslands væri starfrækt öflug námsráðgjöf sem á hverjum degi legði fram dýrmætan skerf til að sporna gegn brottfalli. Vandinn væri hins vegar sá að námsráðgjafar við skólann væru alltof fáir, eða 8 manns fyrir um 13.000 nemendur sem þýddi að einn námsráðgjafi væri fyrir hverja 1.600 nemendur.

Fulltrúi stúdenta fagnaði skýrslunni en gagnrýndi þá hugmynd að draga mætti úr brottfalli og auka námsástundun með því að hækka skrásetningargjaldið. Gjaldið þjónaði skýru og skilgreindu hlutverki og því væri erfitt að rökstyðja að það ætti að vera hærra fyrir nýnema en aðra nemendur.

Forseti Menntavísindasviðs sagðist hafa þann hátt á í kennslu sinni að reyna að fá það á hreint strax í upphafi misseris hvaða nemendur hygðust taka þátt í námskeiðinu af fullri alvöru. Þannig teldust t.d. þeir sem ekki skiluðu verkefni á fyrstu vikum ekki lengur vera með í námskeiðinu. Reynslan hefði kennt sér að hæfileg festa ynni gegn brottfalli. Engu að síður væri hvorki mögulegt né æskilegt að ætlast til þess að útrýma mætti brottfalli alveg, því í sumum tilvikum væri um að ræða eðlilegt ferli þar sem nemendur væru að leita fyrir sér, t.d. með því að byrja í læknisfræði og fara svo í eitthvert annað nám. Þá hefði brottfallsvandinn einnig menntapólitíska vídd sem birtist í spennu á milli ólíkra krafna til skólakerfisins. Þannig gerðu stjórnvöld sífellt ríkari kröfu til háskólanna um aukin afköst, en væru samt ekki reiðubúin til að leggja fram nauðsynleg fjárframlög til þess að skólarnir gætu búið nægilega vel að nemendum sínum. Á móti þyrftu skólarnir að gæta sín á gera ekki svo ríka kröfu um að nemendur ljúki námi að það leiði til tilslökunar á sviði gæða og krafna. Varðandi tillögur brottfallsnefndarinnar um úrræði taldi forseti Menntavísindasviðs þær tillögur sem snéru að félagslegri þátttöku nemenda og bættri gæðamenningu vera sérstaklega áhugaverðar. Þá vék forsetinn að þeim tillögum er lúta að skrásetningargjöldum nemenda og sagði koma til greina að láta nemendur greiða staðfestingargjald sem yrði endurgreitt síðar að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Slík leið byggði á annarri hugsun en hækkun skrásetningargjaldsins eða upptaka skólagjalda.

Fulltrúi Félagsvísindasviðs sagði það skipta miklu máli til að vinna gegn brottfalli að kennarar og nemendur vissu frá upphafi hverjir tækju þátt í viðkomandi námskeiði. Sagði hann það vera góða tillögu í skýrslu brottfallsnefndar að nemendur tilkynntu fyrir 10. september hvort þeir ætluðu að taka próf. Einnig hefðu virk tengsl og samtöl við nemendur miklu máli til að auka faglega og félagslega þátttöku og þar með að draga úr brottfalli.

Fulltrúi Verkfræði- og náttúruvísindasviðs taldi að hækkun skrásetningargjaldsins væri ekki vænleg leið til að lækka skráningarbrottfall. Meira máli skipti félagsleg þátttaka og samlögun nemenda. Þannig hefði t.d. Jarðvísindadeild ákveðið að fara með nemendur í þriggja daga ferð út á land þegar í fyrstu viku námsins. Á leið út úr bænum hefði ríkt þögn í rútunni, en á heimleið hefðu allir verið í hrókasamræðum.

Fulltrúi Menntavísindasviðs þakkaði fundarmönnum fyrir góðar umræður. Benti hann á að skráningarbrottfall væri ekki aðeins óheppilegt fyrir þá nemendur sem í hlut ættu heldur skaðaði það einnig orðspor Háskólans. Þá benti hann á að í skýrslunni væri aðallega fjallað um það hvað Háskólinn gæti gert til að draga úr brottfalli, en lítið væri talað um það hverju nemendur þyrftu að breyta. Staðreyndin væri sú að upp til hópa stunduðu nemendur nám með vinnu fremur en vinnu með námi, þrátt fyrir að þeim stæði til boða að taka námslán til að geta helgað sig náminu.

Formaður Stúdentaráðs benti á móti á að ástæðan fyrir því að nemendur ynnu mikið væri sú að námslán væru lág og þeir hefðu því ekki annan kost en að vinna með náminu til að láta enda ná saman.

Annar fulltrúi Félagsvísindasviðs lagði áherslu á að mestu máli skiptu samskipti við nemendur fremur en endurbætur í stjórnsýslu Háskólans. Þá benti hann á að í skýrslunni væri ekki talað um aðstöðu til að veita þjónustu, kennslustofur og annað þess háttar, þótt leiða mætti líkur að því að aðstöðuskortur hefði a.m.k. óbein áhrif á brottfall. Í könnuninni sem brottfallsnefnd hefði látið gera kæmi fram að sumir nemendur segðust hafa hætt í Háskólanum vegna þess að annar skóli hefði hentað þeim betur. Þetta þyrfti að athuga betur.

Að umræðu lokinni þakkaði rektor fulltrúum í brottfallsnefnd fyrir vel unna skýrslu og fundarmönnum fyrir góðar umræður. Lagði rektor til að bókað yrði að háskólaþing fagnaði skýrslu brottfallsnefndar og beindi því til háskólaráðs að það færi, í samráði við forseta fræðasviða, yfir tillögur hennar, forgangsraði þeim og setti tímamörk varðandi framkvæmd þeirra.

- Samþykkt einróma.

Til máls tóku undir þessum dagskrárlið, auk rektors og Magnúsar Diðriks, þau Ólafur Þ. Harðarson, Rúnar Vilhjálmsson, Guðbjörg Vilhjálmsdóttir, María Guðmundsdóttir, Jón Torfi Jónasson, Ingjaldur Hannibalsson, Magnús Tumi Guðmundsson, Ástríður Stefánsdóttir, Gestur Ólafsson, Björg Magnúsdóttir, Tinna Laufey Ásgeirsdóttir, Runólfur Smári Steinþórsson, Kristín Jónsdóttir,

Að lokum þakkaði rektor fulltrúum á háskólaþingi fyrir góðan fund og bauð þeim að þiggja hressingu í anddyri Hátíðasalar.

Fleira var ekki gert. Fundi slitið kl. 16.30.

Útsend gögn og gögn sem lögð voru fram á 1. háskólaþingi 25. september 2008:

1.    Dagskrá og tímaáætlun 1. háskólaþings 25. september 2008.
2.    Listi yfir fulltrúa á háskólaþingi.
3.    Reglur um skipan og fundarsköp háskólaþings.
4.    Reglur um tilnefningu fulltrúa háskólasamfélagsins og nemenda í háskólaráði Háskóla Íslands.
5.    Fundargerð 25. háskólafundar 17. apríl 2008.
6.    Listi yfir nöfn og stutt æviágrip þeirra einstaklinga sem bent hefur verið á eða boðið hafa sig fram til að verða fulltrúar háskólasamfélagins í háskólaráð til tveggja ára frá 1. október nk. að telja.
7.    Skýrsla nefndar um inntöku nýnema og aðgerðir gegn brottfalli úr námi.