Skip to main content

Saga Menntavísindasviðs

Saga Menntavísindasviðs - á vefsíðu Háskóla Íslands

Menntavísindasvið er eitt fimm fræðasviða Háskólans. Þann 1. júlí árið 2008 urðu skipulagsbreytingar á Háskóla Íslands þegar Kennaraháskóli Íslands sameinaðist stofnuninni og skipulaginu var breytt þannig að skólanum var skipt í fimm fræðasvið.

Frá stofnun hefur sviðið menntað kennara fyrir leik-, grunn- og framhaldsskóla, uppeldis- og menntunarfræðinga, íþrótta- og heilsufræðinga, tómstunda- og félagsmálafræðinga og þroskaþjálfa. Eitt af sérkennum náms á Menntavísindasviði er fjölbreytt framboð fjarnáms og mikil tengsl við starfsvettvang.

Miklar breytingar urðu á skipulagi kennaranáms árið 2011 þegar námið var lengt um tvö ár og aðeins boðið upp á kennsluréttindi á meistarastigi. Breytingin hafði umtalsverð áhrif á aðsókn í kennaranám og samsetning nemendahópsins tók stakkaskiptum.

Nám í íþrótta- og heilsufræði var flutt frá Laugarvatni til Reykjavíkur árið 2016. Við flutninginn jókst aðsókn í námið og gerði það öflugra enn nokkru sinni fyrr.

Deildaskipting

Í kjölfar sameiningar Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands var Menntavísindasviði skipt upp í þrjár deildir, þ.e. Íþrótta-, tómstunda- og þroskaþjálfadeild, Kennaradeild og Uppeldis- og menntunarfræðideild. Áhersla var lögð á að viðhalda því þverfaglega starfi sem tíðkaðist í Kennaraháskólanum sem m.a. felst í því að akademískir starfsmenn eru ráðnir til sviðsins en ekki við einstaka deildir. Ítrekað var í skýrslu um mat á sameiningunni sem unnin var á vegum háskólaráðs árið 2014 að deildaskipan yrði metin og endurskoðuð þegar reynsla væri komin á hana.

Þáttaskil urðu í starfsemi sviðsins þegar háskólaráð samþykkti nýja deildaskiptingu árið 2017. Í skýrslu nefndar um deildaskiptingu á Menntavísindasviði var gerð tillaga um fjölgun deilda fræðasviðsins úr þremur í fjórar. Menntavísindasvið skiptist nú í fjórar deildir, þ.e. Deild faggreinakennslu, Deild kennslu- og menntunarfræði, Deild menntunar og margbreytileika og Deild heilsueflingar, íþrótta og tómstunda.

Deild kennslu- og menntunarfræði leggur áherslu á menntun kennara yngri barna, allt frá leikskólaaldri að miðstigi grunnskólans auk menntastjórnunar en í Deild faggreinakennslu er viðfangsefnið fyrst og fremst menntun faggreinakennara í grunn- og framhaldsskólum. Deild menntunar og margbreytileika spannar vítt svið, m.a. uppeldis- og menntunarfræði, foreldrafræðslu, lýðræði, kynjafræði og sjálfbærni í menntun og þroskaþjálfafræði.

Deild heilsueflingar, íþrótta og tómstunda hefur tómstunda- og félagsmálafræði, íþrótta- og heilsufræði, fæðuval og heimilisfræði, forvarnir og heilsueflingu að viðfangsefni. Auk þess er diplómanám fyrir nemendur með þroskahömlun staðsett í deildinni.

Breytingin tók gildi 1. júlí 2018.

Skýrsla um starfsemi Menntavísindasviðs 2013-2018

Stefna Háskóla Íslands 2021-2026

Menntavísindasvið Háskóla Íslands starfar eftir stefnu Háskólans sem unnin hefur verið í víðtæku samráði við allt háskólasamfélagið og hagsmunaaðila víðs vegar að úr atvinnu- og þjóðlífi. Í stefnunni er lögð áhersla á opinn og alþjóðlegan háskóla, stjálfbærni og fjölbreytileika, og afl á grunni fræða. Einnig virka þátttöku Háskólans í samfélagi og atvinnulífi með skírskotun til heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna. Jafnframt er mannauði skipað í öndvegi og lögð áhersla á akademískt frelsi, jafnrétti og fagmennsku.

Fræðasviðsforsetar

Forseti fræðasviðs er ráðinn af rektor til fimm ára í senn og starfar í umboði hans. Forseti er yfirmaður sviðsins, stýrir daglegri starfsemi og er akademískur leiðtogi þess. 

Fyrsti forseti Menntavísindasviðs var Jón Torfi Jónasson prófessor og gegndi hann starfinu frá 1. september 2008 til 1. júlí 2013. Jóhanna Einarsdóttir prófessor var forseti sviðsins frá 1. júlí 2013 til 1. júlí 2018.

Kolbrún Pálsdóttir dósent tók við starfi sviðsforseta 1. júlí 2018.

Tengt efni