Háskóli Íslands

Algengar spurningar

Hvað þýðir að námið sé þverfræðilegt?
Með þverfræðilegu námi er átt við að nemendur og kennarar hafi fjölbreyttan fræðabakgrunn og að námið sé samsett úr námskeiðum fleiri en eins fræðasviðs og deilda innan þess. Námsbraut í lýðheilsuvísindum er vistuð innan læknadeildar og skipuleggur og sér um þau námskeið eru merkt LÝÐ í kennsluskrá (6 af kjarnanámskeiðunum í náminu og ýmis valnámskeið og styttri seminara) Önnur námskeið sem nemendur í lýðheilsuvísindum taka eru í umsjón annarra deilda í HÍ. Leiðbeinendur í lokaverkefni koma frá MLV (Miðstöð í lýðheilsuvísindum) og öðrum námsbrautum/deildum sem eru í samstarfi við lýðheilsuna.
Háskólinn býður upp á ýmsar þverfræðilegar námsbrautir í grunn- og framhaldsnámi. Þverfræðilegt nám gerir nemendum kleift að velja úr miklum fjölda valnámskeiða í hefðbundnum fræðigreinum og móta þannig námið í átt að sínu áhugasviði. Kjarnanámskeiðin í lýðheilsunni stuðla að því að nemendur fái hagnýta og rannsóknartengda þekkingu á heilsu og heilseflandi aðgerðum. Mikil breidd valnámskeiða mætir þörfum nemenda með ólík áhugasvið og ólíkan fræðabakgrunn að auka þekkingu sína innan ramma lýðheilsunnar, og í rannsóknar-/lokaverkefni byggja nemendur á þeirri kunnáttu sem þeir hafa aflað í námskeiðum og þjálfa um leið sjálfstæð vinnubrögð.

Er hægt að sækja um inngöngu í námið á vori?
Það er hægt að sækja um inngöngu í meistara- og diplómanámið á haust og vormisseri. Kjarnanámskeiðum er þó raðað upp miðað við að nemendur hefji nám að hausti. Við mælum því sérstaklega með því við umsækjendur um meistaranám sem hyggjast ljúka náminu á venjulegum námshraða (4 misseri) að hefja nám að hausti.

Hvað á að fylgja umsókninni? Hvar finn ég umsóknina? Hvenær get ég sótt um?
Inntökuskilyrði og fylgigögn með umsókn eru vel útlistuð hér.
Rafræn umsókn í meistaranám og viðbótardiplóma er hér á umsóknartíma (MPH nám frá miðjum mars til 15. apríl og frá miðjum september til 15. október, viðbótardiplóma til 5. júní og 15. október). Umsókn í doktorsnám er hér og tekið er á móti þeim umsóknum allt árið.

Er hægt að skipta úr diplómanámi yfir í meistaranám?
Að öllu jöfnu er miðað við 1stu einkunn í námskeiðinu LÝÐ102F Faraldsfræði þegar diplómanemar sækja um inngöngu í Meistaranám í lýðheilsuvísindum (MPH). Þeir þurfa að skila umsókn innan auglýsts umsóknarfrests á vor- eða haustmisseri. Diplómanámið fæst metið inn í MPH námið skv. gildandi reglum um mat á fyrra námi.

Kemst ég inn í meistaranámið ef ég er ekki með mótaða hugmynd um lokaverkefni?
Já. Við mælum þó með að umsækjendur leggi fram hugmyndir að verkefni eða tilgreini áhugasvið sitt í greinagerðinni sem þarf að skila með umsókninni; í það minnsta að nemendur tilgreini hverri af áherslulínunum þeir hafi hug á að fylgja. Vel skrifuð greinagerð ætti að innihalda upplýsingar um áhugasvið umsækjanda og væntingar hans í náminu. Áherslur nemenda geta hins vegar breyst þegar af stað er haldið í náminu og því er rannsóknar-/lokaverkefni aldrei fullmótað fyrr en lengra er komið. Nemendur fá viðtal við kennara við lok fyrsta misseris í náminu einmitt til að ræða verkefnið og fá aðstoð við að hefja þá vinnu, en einnig eru kjarnanámskeiðin Verklag í vísindum og Líftölfræði II sérstaklega mótuð til að nýtast nemendum við undirbúning og vinnslu verkefna.

Hvaða bakgrunn hafa umsækjendur um námið?
Umsækjendur eru með mjög fjölbreyttan fræðabakgrunn í grunnnámi, og hafa lokið námi bæði við HÍ og aðra háskóla hérlendis og erlendis. Álíti inntökunefnd að umsækjanda skorti nauðsynlegan bakgrunn í aðferðar- og/eða tölfræði getur námsstjórn gert kröfu um að umsækjandi ljúki fornámi og/eða  diplómanámi í lýðheilsuvísindum áður en sótt er að nýju um inntöku í meistaranámið.
Sem dæmi um bakgrunn nokkurra umsækjenda um MPH námið má nefna: almenn lífvísindi, atvinnulífsfræði, búfræði, félagsfræði, fjölmiðlafræði, geislafræði, guðfræði, heilbrigðisverkfræði, heilbrigðisvísindi, heimspeki, hjúkrunarfræði, iðjuþjálfun, íþróttafræði, líffræði, líftækni, lyfjafræði, læknisfræði, mannfræði, matvælafræði, sálfræði, sjúkraþjálfun, tómstunda og félagsmálafræði og uppeldis- og menntunarfræði.
Doktorsnemar hafa til dæmis lokið meistaranámi í eftirtöldu: heilbrigðisvísindi, hjúkrunar- og iðnaðarverkfræði, landafræði heilbrigðis & sjúkdóma, lífefnafræði, lyfjafræði, lýðheilsuvísindi, læknisfræði, megindleg aðferðafræði, næringarfræði, sálfræði og sjúkraþjálfun.

Hvenær þarf ég að ákveða hvort ég vinni 60e rannsóknarverkefni eða 30e ritgerð í meistaranáminu? Hver er munurinn á þessu tvennu?
Í viðtali við kennara við lok fyrsta misseris ræða nemendur áhugasvið sitt og fyrirhugað verkefni og í framhaldinu skýrist hvor leiðin er farin.
60e rannsóknarverkefni er sjálfstæð rannsókn sem lýkur í vísindagrein, tilbúinni til birtingar, ásamt fræðilegum inngangi.
30e lokaverkefni er fræðileg ritgerð eða kerfisbundið yfirlit yfir þekkingargrunn á ákveðnu sviði lýðheilsuvísinda. Ef um rannsókn er að ræða er unnið með gögn sem ekki krefjast leyfis frá vísindasiðanefnd eða persónuvernd. Vinna við 30e lokaverkefni samsvarar fullu námi í eitt misseri.

Hvernig finn ég mér leiðbeinanda í lokaverkefni?
Doktorsnemendur bera sjálfir ábyrgð á að finna leiðbeinanda og vinna rannsóknaráætlun, sem skilað er inn með umsókn, í samvinnu við hann.
Meistaranemar ráðfæra sig við kennara í viðtali á fyrsta misseri í náminu, þegar vinna við lokaverkefni fer af stað. Nemendur bera þó sjálfir ábyrgð á að hafa samband við þann leiðbeinanda sem best þykir henta og leita eftir samstarfi við hann. Leiðbeinandi og nemandi koma í sameiningu með tillögu að nefndarmönnum og rannsóknaráætlun er lögð fram skv reglum deildar leiðbeinandans.

Hvernig get ég undirbúið mig sem best undir meistaranámið? Hafa ber í huga að ef langt er liðið síðan þú laukst grunnnámi og/eða ef þú hefur þunnan bakgrunn í aðferðar- og tölfræði væri mælt með einhverskonar fornámi eða upprifjun í þeim efnum (t.d. hjá Endurmenntun HÍ, einnig hefur Hagfræðideild boðið upp á námskeið í ágústmánuði). Ef umsækjendur telja sig skorta þennan bakgrunn mælum við með að þeir sækji fyrst um inngöngu í diplómanámið, bæði til að fá tækifæri til að átta sig á þeim kröfum sem gerðar eru til meistaranema, sem og til að geta þá jafnvel sótt um að taka grunnnámskeið í tölfræði innan annara deilda (athugið þó að slík námskeið fengjust ekki metin sem valnámskeið í diplóma- eða meistaranáminu).

Hvernig er stundatafla í kjarnanámskeiðum? Get ég stundað vinnu meðfram náminu? Er mætingarskylda í námskeiðum?
Stundatafla kjarnanámskeiða er breytileg frá ári til árs. Margir fyrirlesarar koma að kennslu í sumum af námskeiðunum, sum eru lotukennd en önnur kennd einu sinni í viku allt misserið. Heimanám, dæmatímar og verkefni (bæði hóp- og einstaklingsverkefni) eru hluti af náminu og mætingarskylda í nokkrum námskeiðum. Uppbygging námsins er ekki þess eðlis að hægt sé að bjóða upp á þessi námskeið í fjarnámi. Reikna má með um 27klst í tímasókn og heimavinnu bak við hverja einingu, svo sjá má að töluverð vinna felst í hverju 6 eininga námskeiði.
Þó að námið sé ekki þannig uppbyggt eru margir sem kjósa að taka það á lengri tíma og stunda vinnu meðfram eins og hægt er. Við reynum því að birta stundatöflur eins fljótt og auðið er en óhjákvæmilega tekur mislangan tíma að skipuleggja námskeiðin. Við mælum þó vissulega með að meistaranemar amk minnki við sig vinnu meðan á námi stendur. Diplómanámið er góður kostur fyrir fólk sem vill stunda nám meðfram vinnu, en þó verður að gera ráð fyrir því að námskeið eru kennd á daginn og sum í lotum.

Er hægt að sækja um styrk til að vinna lokaverkefnið?
Ýmsir möguleikar eru á styrkjum en nemendur sækja um styrk í samstarfi við leiðbeinanda. Vissulega eru möguleikarnir fleiri fyrir stærri verkefni, sbr doktorsverkefni, en meistaraverkefni gæti í sumum tilfellum fallið undir stærra verkefni og þannig fengist einhver styrkur fyrir nemann. Meistaranemendum er bent á að ræða þessa möguleika frekar í viðtali við kennara á fyrsta misseri og við leiðbeinanda sinn. Hér má finna stuttan lista yfir þá sjóði sem hafa styrkt verkefni nema.

Hvernig er meistaranámið uppsett?
Skýr uppsetning á skipulagi námsins, lengd, vali á námskeiðum og áherslulínum er á heimasíðu námsins og í kennsluskrá HÍ.

Hvað er mikil vinna í hverju námskeiði?
Reikna má með um 27klst í tímasókn og heimavinnu bak við hverja einingu.

Get ég fengið nám úr öðrum skóla metið og þar með stytt námstímann?
Þess eru dæmi að nemendur fái námskeið sem lokið er við aðra háskóla metin sem valnámskeið. Til að skyldunámskeið metin þarf að sýna fram á amk 80% samsvörun. Því heyrir til undantekninga að nemendur geti stytt námstíma á þennan hátt. Reglur um mat á fyrra námi eru hér.

Er kennt á íslensku eða ensku? Er verkefnum skilað á íslensku eða ensku? Er mikilvægt að geta tjáð sig á ensku?
Námsefni og glærur í kjarnanámskeiðum eru að öllu jöfnu á ensku. Kennsla fer fram á íslensku og ensku. Erlendir gestakennarar kenna staka fyrirlestra í kjarnanámskeiðum og er þá bæði kennt á ensku og verkefni unnin á ensku. Rannsóknar- og lokaverkefni geta verið á ensku eða íslensku.
Það er því mjög mikilvægt að nemendur hafi góðan lesskilning og geti tjáð sig í orði og riti á ensku.

Hvað gera nemendur að námi loknu?
Námsbraut í lýðheilsuvísindum var stofnuð 2007 og fyrstu nemarnir útskrifuðust 2010. Því er ekki komin löng reynsla á afdrif nemenda í starfi að námi loknu. Nokkrir af meistaranemunum hafa haldið áfram námi og leggja nú stund á doktorsnám. Aðrir hafa horfið aftur til starfa á fyrri vinnustað eða til nýrra starfa á vettvangi forvarna. Markmiðið með náminu er að búa nemendur undir heilsueflingarstarf og leiðtogahlutverk á hinum fjölmörgu sviðum heilbrigðismála eða rannsóknir á sviðum lýðheilsu. Góð tengsl við atvinnulífið eru mikilvæg. Fjöldi stunda- og gestakennara í skyldunámskeiðum og meistaranefndum bera góðu samstarfi ekki síst vitni. Einnig er boðið upp á vettvangsnámskeið fyrir meistaranema. Á næstu misserum munum við einnig huga að því að kanna afdrif brautskráðra nema með formlegum hætti og að sjálfsögðu þróa námið enn frekar skv þeirra reynslu.

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

Sía fyrir ruslpóst
This question is for testing whether or not you are a human visitor and to prevent automated spam submissions.
Image CAPTCHA
Skrifaðu stafina sem sjást á myndinni.
Þú ert að nota: drupalcl2.rhi.hi.is