Skip to main content

Listin - uppspretta allrar þekkingar og skilnings?

„Víða í húsakynnum Háskóla Íslands eiga stúdentar, starfsfólk og gestir þess kost að kynnast íslenskri nútímamyndlist. Áhrif þessara verka háskólasamfélagið verða ekki vegin eða mæld með aðferðum vísinda. Listin opinberar og örvar skynjunina sem á sér stað í fylgsnum hugans og gerir þar með hið sýnilega ósýnilegt. Hver veit nema listin sé uppspretta allrar þekkingar- og skilningsleitar?”

Svo segir í minningarorðum Páls Skúlasonar  heimspekings og fyrrverandi rektors Háskóla Íslands um Sverri Sigurðsson, framkvæmdastjóra, sem lést á vordögum 2002.

Þær listsýningar sem gestir og gangandi njóta í Háskóla Íslands eru til komnar að frumkvæði Sverris Sigurðssonar og konu hans Ingibjargar Guðmundsdóttur sem lést árið 1994. Sverrir Sigurðsson var fæddur árið 1909 og Ingibjörg árið 1911. Þau hjón voru meðal stærstu listaverkasafnara landsins og ákváðu árið 1980 að gefa stóran hluta listaverkasafns síns til Háskóla Íslands. Á grundvelli gjafarinnar var Listasafn Háskóla Íslands stofnað.

Gjöf þeirra er ein sú stærsta og verðmætasta sem Háskóli Íslands hefur þegið og til hinsta dags jók Sverrir sífellt við hana. Alls gáfu þau hjón á annað þúsund verka til Listasafns Háskóla Íslands. Þar á  meðal voru 250 málverk og tæplega 900 teikningar og smámyndir eftir Þorvald Skúlason sem er langstærsta safn landsins af verkum eftir Þorvald. Þessi verk mynda sérstaka deild innan listasafnsins, Þorvaldssafn. Meðal annarra listaverka sem þau hjón gáfu skólanum eru verk eftir Karl Kvaran, Nínu Tryggvadóttur, Kristján Davíðsson, Svavar Guðnason, Valtý Pétursson og fleiri abstraktmálara sem áberandi voru í  íslensku listalífi um miðja síðustu öld, en einnig má í gjöf þeirra finna verk eftir yngri listamenn eins og Georg Guðna Hauksson.

Á níræðisafmæli sínu árið 1999 stofnaði Sverrir Styrktarsjóð Listasafns Háskóla Íslands með veglegu stofnframlagi en tilgangur sjóðsins er að styrkja rannsóknir á íslenskri myndlist. Fjölmargir fræðimenn hafa þegið styrki úr sjóðnum.

Sverrir Sigurðsson og Ingibjörg Guðmundsdóttir

Mynd af hjónunum Sverri og Ingibjörgu

Sverrir var athafnamaður og stofnaði m.a. Sjóklæðagerð Íslands hf., vann hann þar um langt skeið og var reyndar lengi kenndur við það fyrirtæki. Sjóklæðagerðin var grunnurinn að fyrirtækinu 66° N sem allir Íslendingar þekkja. Þau hjónin voru mjög samhent og höfðu m.a. sameiginlegan áhuga á nútímalist og söfnun listaverka eftir helstu listamenn sinnar tíðar. Voru þau einnig vinir og velgjörðamenn margra þeirra. Jafnframt höfðu þau yndi af skógrækt, auk þess sem Sverrir stundaði  laxveiði og leigði ár einn eða með öðrum.

Um tilurð gjafarinnar er getið í bók um Listasafn Háskóla Íslands sem kom út árið 2012. Þar segir að á árunum 1977-78 hafi þau hjón sótt tíma í listasögu hjá Birni Th. Björnssyni listfræðingi við Heimspekideild HÍ „sér til ánægju”. Ræddu þau hugmyndir sínar og fjölskyldunnar um fyrirhugaða ráðstöfun hins stóra einkasafns þeirra við Björn og báðu hann um góð ráð. Í viðtali við Sverri í tilefni af listaverkagjöf þeirra  hjóna árið 1980 greinir hann frá niðurstöðu samtalanna: „Eftir nokkra umhugsun lagði Björn hugmyndina að  listasafni Háskólans fyrir okkur, sem gæti orðið hvort tveggja í senn, mikill menningarauki og mikilvæg rannsóknarstofnun í íslenskri  myndlistarsögu, en víða erlendis eiga háskólar góð listasöfn.“

Það er eitt af sérkennum listasafnsins að því er dreift um byggingar háskólans í stað þess að vera komið fyrir í afmörkuðu rými. Þannig blasir örlæti þeirra hjóna við öllum sem eiga leið um háskólann og um leið auðga listaverkin bæði umhverfið og anda þeirra sem vilja gefa sér stund til að njóta.

Tengt efni