Háskóli Íslands

Kortleggur plánetur

Giulia Troglio

Giulia Troglio, doktorsnemi við Rafmagns- og tölvuverkfræðideild

Giulia Troglio er doktorsnemi í rafmagns- og tölvuverkfræði sem ljúka mun sameiginlegri doktorsgráðu frá HÍ og Háskólanum í Genúa á Ítalíu. „Rannsóknir mínar beinast að þróun sjálfvirkra aðferða við myndgreiningu. Niðurstöður þessara rannsókna er hægt að nýta á afar margvíslegan hátt, allt frá því að þróa tækni sem hjálpar læknum við að greina sjúkdóma til þess að einfalda stjarnfræðilega myndgreiningu,“ segir Giulia.

Giulia hefur þegar vakið athygli hér á landi fyrir verkefni sem lúta að flókinni myndgreiningu á augnbotnum sem einfaldar að uppgötva alvarlega sjúkdóma fyrr en áður var mögulegt. Núna vinnur hún einnig að verkefnum í samstarfi við NASA sem beinast að því að gera rannsóknir á viðamiklum myndgögnum einfaldari en áður var hægt og gera þær sjálfvirkar.

„Með sjálfvirkninni er hægt að greina þætti miklu hraðar en áður, en stjörnufræðingar þurfa enn að fást við gríðarlegt magn mynda og verja ómældum tíma í að telja gíga og önnur sérkenni á yfirborði pláneta. Vinna mín miðar að því að gera þessa tímafreku yfirlegu nærri óþarfa,“ segir Troglio.

Á fyrsta námsári sínu varði Giulia Troglio þremur mánuðum við Goddard Space Flight Center hjá NASA í Maryland-fylki í Bandaríkjunum. Þar vann hún við verkefni sem tengjast svokölluðum Lunar Reconnaissance Orbiter leiðangri á vegum NASA. Leiðangurinn, sem enn stendur yfir, hefur það að markmiði að kortleggja sérkenni og auðlindir tunglsins. Farið komst á sporbraut um tunglið í júní árið 2009 og hefur nú verið á annað ár í leiðangri sínum.

„Strax á þessu fyrsta ári leiðangursins safnaði farið meira af stafrænum upplýsingum en nokkur fyrri geimleiðangur í sögunni. Miklu og ólíku gagnamagni fylgja vandamál við greiningar. Myndskráning og sérhæfð myndgreining er þannig nauðsynlegur liður í að skilja þessi ólíku gögn og fá í þau samhengi,“ segir Troglio en vinna hennar miðast við að ná utan um gögnin með sjálfvirkni.

Í fyrstu heimsókn sinni til NASA beindi Giulia Troglio sjónum að sjálfvirkri greiningu mynda af plánetum. Hún vann sérstaklega að kerfi sem greinir sjálfvirkt gíga og grjót á yfirborði Mars og tunglsins og þróaði sjálfvirka aðferð sem setur saman ýmsar myndvinnsluaðferðir. Sú aðferð hefur nú verið þróuð áfram og er henni beitt við myndskráningu og myndgreiningar, meðal annars í Lunar Reconnaissance Orbiter verkefninu. Aðferðin var auk þess valin af NASA úr hópi allra útgefinna verka fyrir bandaríska einkaleyfisumsókn.

„Þessi aðferð gæti nýst á ýmsan mikilvægan hátt í framtíðinni, m.a. við greiningu öruggra lendingarstaða fyrir framtíðarleiðangra og athugun á gerð jarðvegs á plánetum,“ segir Troglio.

Leiðbeinendur: Jón Atli Benediktsson, prófessor í rafmagns- og tölvuverkfræði og aðstoðarrektor vísinda og kennslu við HÍ, Sebastiano B. Serpico, prófessor í fjarskiptaverkfræði við Háskólann í Genúa, og Einar Stefánsson, prófessor í augnlækningum við Háskóla Íslands.

Giulia lauk doktorsprófi frá Háskóla Íslands árið 2011.

Þú ert að nota: drupalcl2.rhi.hi.is