Skip to main content

Rannsóknir

Helstu viðfangsefni rannsókna kennara við deildina eru á sviði íþrótta- og heilsufræða, næringarfræði, barna- og æskulýðsfræða, tómstundafræða, stjórnsýslu og félagsvísinda, þroskaþjálfafræða, fötlunarfræða, sálfræði og siðfræði. 

Íþrótta- og heilsufræði

Rannsóknarstofa í íþrótta- og heilsufræði er afar virk stofa þar sem unnið er að fjölda rannsókna. Meðal rannsóknarverkefna eru Lífsstíll 9 og 15 ára Íslendinga, Lífsstíll 7-9 ára barna, Líkams- og heilsurækt aldraðra og Heilsurækt sjómanna. 

Tómstunda- og félagsmálafræði

Rannsóknir og þróunarverkefni í tómstunda- og félagsmálafræði eru einkum á sviði félags- og uppeldisfræði. Sem dæmi um verkefni má nefna fagmennsku og starfsaðferðir í æskulýðsstarfi, uppeldisgildi viðburða, einelti í ýmsum myndum, börn og náttúra, útivist og útinám, skilgreining hugtaka og rannsóknir sem tengjast náminu sjálfu; gildi þess og gæðum. 

BÆR – Rannsóknastofa í barna- og æskulýðsrannsóknum er hluti af námsbraut í tómstunda- og félagsmálafræði sem leggur stund á rannsóknir er varða málefni barna og unglinga í víðu samhengi.

Þroskaþjálfafræði

Í þroskaþjálfafræði hefur áherslan m.a. verið á rannsóknir í samvinnu við fatlað fólk. Má þar nefna lífssögurannsóknir, rannsóknir sem beinast að notendastýrðri persónulegri aðstoð við fatlað fólk og þjónustu við fötluð börn og fjölskyldur þeirra. Auk þess hefur verið lögð áhersla á greiningu á siðferðilegum álitamálum fagstétta og störfum þroskaþjálfa.

Rannsóknastofa í þroskaþjálfafræði er starfrækt en markmið hennar er að stuðla að auknum rannsóknum, ráðgjöf og þróunarstarfi í málaflokkum fatlaðs fólks og á störfum þroskaþjálfa.