Skip to main content

Samstarf við Íslensku- og menningardeild

Alþjóðlegt samstarf

Deildin á í miklu alþjóðlegu samstarfi á sviði rannsókna, kennara- og stúdentaskipta. Fjölmargir kennarar taka þátt í fjölþjóðlegum rannsóknarverkefnum og samstarfsnetum, einkum norrænum og evrópskum. Þar má bæði nefna net á sviði málfræði eins og ScanDiaSyn, NORMS, NLVN, RILiVS og N’CLAV og net á sviði bókmennta eins og Nordisk Netværk for Avantgardestudier og European Network for Avant-Garde and Modernism Studies.

Margir kennarar fara árlega til skemmri eða lengri dvalar við erlenda samstarfsskóla, einkum á vegum Erasmus og Nordplus-skiptiáætlananna. Einnig koma kennarar frá erlendum samstarfsskólum til deildarinnar. Fjöldi stúdenta fer einnig utan í skiptinámi og sívaxandi fjöldi erlendra stúdenta stundar skiptinám við deildina, einkum í íslensku sem öðru máli.

Íslensku- og menningardeild hefur gert samninga við fræðimenn við aðra háskóla um að vinna að ákveðnum verkefnum við Háskóla Íslands samhliða aðalstörfum þeirra. Samið hefur verið við eftirtalda fræðimenn, sem eru því tengdir prófessorar við deildina:

  • Matthew J. Driscoll, prófessor við Kaupmannahafnarháskóla.
  • Anne Mette Hansen, dósent við Kaupmannahafnarháskóla.
  • Pernille Hermann, dósent við Árósaháskóla.
  • Jesse Byock, prófessor emeritus við UCLA.

Verkefnisstjóri alþjóðamála við Hugvísindasvið veitir upplýsingar um alþjóðleg samskipti. (Hér má nálgast upplýsingar um starfsfólk á skrifstofu sviðsins).

 Upplýsingar um alþjóðlegt samstarf:

Innlent samstarf

Deildin á gott samstarf við ýmsar innlendar stofnanir, félagasamtök og aðrar deildir Háskólans. Náið samstarf er við aðrar deildir á Hugvísindasviði og er mjög algengt að nemendur taki aðalgrein í Íslensku- og menningardeild en aukagrein í annarri deild á Hugvísindasviði, eða öfugt.

Samstarf er um meistaranám í íslenskukennslu við Menntavísindasvið og samstarf um meistaranám í talmeinafræði við Læknadeild og Sálfræðideild. Samstarfssamningur um kennslu er milli deildarinnar og Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.

Þá er samstarf við tölvunarfræðideild Háskólans í Reykjavík um meistaranám í máltækni.

Fræðimenn við deildina eiga gott samstarf við fjölmiðla, þá sérstaklega Ríkisútvarpið þar sem þeir flytja reglulega erindi í þáttum á vegum stofnunarinnar og eru kallaðir til viðtals af ýmsu tilefni.