Skip to main content

Íslandsmeistari í að sitja í tíma!

Ingvar Sigurgeirsson, prófessor við Kennaradeild

Eitt af framlögum Kennaradeildar Menntavísindasviðs á aldarafmæli háskólans var fyrirlestur Ingvars Sigurgeirssonar, prófessors í kennslufræði, undir yfirskriftinni „Hvernig kenna góðir kennarar?.“ Fyrirlesturinn byggði Ingvar á efni úr vettvangsathugunum sem hann hefur gert í skólum þar sem hann hefur fylgst með öðrum kennurum kenna.

Ingvar Sigurgeirsson

„Það var árið 1986 að ég hóf að rannsaka kennsluhætti, í tengslum við doktorsnám mitt, og varði t.d. tveimur skólaárum í að fylgjast með kennslu í tuttugu bekkjardeildum, bæði á höfuðborgarsvæðinu og á Norðurlandi. Kynnti ég mér einkum kennsluhætti og hlutverk útgefins námsefnis.“

Ingvar Sigurgeirsson

„Ég byrjaði að fylgjast með kennslu í tengslum við námsefnisgerð upp úr 1970 en þá vann ég um skeið í skólarannsóknadeild menntamálaráðuneytisins og heimsótti kennara sem voru að prófa nýtt námsefni. Mikil áhersla var lögð á að prófa efnið áður en það var gefið út og fór ég í skóla víða um land til að sjá með eigin augum hvernig námsefnið nýttist,“ segir Ingvar. Það má því sjálfsagt fullyrða að enginn hafi setið oftar og lengur í kennslustundum en Ingvar sem hefur fylgst með kennslu í áratugi.

„Það var síðan árið 1986 að ég hóf að rannsaka kennsluhætti, í tengslum við doktorsnám mitt, og varði t.d. tveimur skólaárum í að fylgjast með kennslu í tuttugu bekkjardeildum, bæði á höfuðborgarsvæðinu og á Norðurlandi. Kynnti ég mér einkum kennsluhætti og hlutverk útgefins námsefnis,“ segir Ingvar.

„Einnig hef ég fengist við ytra mat á skólastarfi og fylgst með kennslu í tengslum við það. Þá rannsakaði ég háskólakennslu fyrir aldamótin og tók upp á myndband tæplega 100 fyrirlestra sem ég skoðaði og greindi í leit að megineinkennum góðra fyrirlestra. Loks hef ég undanfarin þrjú ár tekið þátt í einhverri umfangsmestu rannsókn sem gerð hefur verið í grunnskólum hér á landi en það er rannsóknin „Starfshættir í grunnskólum,“ segir Ingvar og tekur fram að rannsóknin nái til tuttugu skóla og að hann hafi farið í fimmtán þeirra og fylgst með rúmlega 90 kennslustundum.

Aðspurður hvað lýsingarorðið „góður“ feli í sér í sambandi við kennslu segir Ingvar: „Það kemur vonandi ekki á óvart að svarið við þessari spurningu er ekki einhlítt – en svörin engu að síður mörg og áhugaverð! Góðir kennarar eru eitthvað það dýrmætasta sem hver þjóð á!“