Háskóli Íslands

Hjúkrunarstjórnun

Hjúkrunarstjórnun

Hjúkrunarfræðingar eru þekkingarstarfsmenn og bera ábyrgð á hjúkrun sjúklinga. Nútímahjúkrun krefst færni í stjórnun, forystu  og upplýsingatækni. Hjúkrunarstjórnun og upplýsingatækni í hjúkrun eru þverfræðilegar greinar og eru hluti af grunnnámi hjúkrunarfræðinga á Íslandi sem undirbýr þá undir flókin störf heilbrigðisþjónustunnar. Hjúkrunarstjórnun á sér langa sögu í námi og starfi hjúkrunarfræðinga en upplýsingatækni er ungt og vaxandi fræðasvið innan hjúkrunar.

Hjúkrunarstjórnun  

Þekking í hjúkrunarstjórnun og forystu er mikilvæg öllum hjúkrunarfræðingum og hefur áhrif á gæði heilbrigðisþjónustunnar. Hjúkrunarstjórnun felur m.a. í sér samþættingu hjúkrunarmeðferðar, skipulagningu, mönnun, færni, aðföng og fjármálastjórnun og varðar rekstur heilbrigðisstofnana. Forysta felur í sér færni í að leiða umbætur til að efla hjúkrun og bæta  gæði þjónustu við sjúklinga og vinnuumhverfi hjúkrunarfræðinga. Þekking og færni í stjórnun og forystu í hjúkrun er einn helsti styrkur hjúkrunar sem fagstéttar og hefur vaxandi mikilvægi í heilbrigðisþjónustu á heimsvísu. Því er afar brýnt að efla kennslu og rannsóknir sem styrkja færni framtíðarleiðtoga í hjúkrun, og nýta til þess fjölbreytta kennsluhætti og rannsóknaraðferðir.

Árangur:

Framhaldsnám í hjúkrunarstjórnun er vaxandi og fjölgar hjúkrunarfræðingum sem lokið hafa meistaranámi í hjúkrunarstjórnun.
Hjúkrunarstjórnun hefur fest sig í sessi sem fræðasvið og starfar fagráð í hjúkrunarstjórnun á Landspítala í samstarfi við Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands.
Rannsóknir í hjúkrunarstjórnun á Íslandi eru mikilvægar fyrir þekkingarsköpun og hagnýtingu innan lands og utan.

Upplýsingatækni í hjúkrun

Felur í sér skráningu, meðhöndlun og vinnslu gagna og upplýsinga, sem notuð eru í heilbrigðisþjónustu, á sviði stjórnunar, kennslu og rannsókna og við eflingu þekkingar á sviði hjúkrunar.  Upplýsingatækni samþættir gögn, upplýsingar og þekkingu sem stutt getur heilbrigðisstarfsmenn, stjórnendur og sjúklinga við ákvarðanatöku.  Slíkur stuðningur næst með skipulegri uppbyggingu gagna, vinnslu upplýsinga og tækniþekkingu.  Markmið náms í upplýsingatækni er að koma til móts við þarfir samfélagsins um rannsóknir, þróun, þjónustu og stefnumótun sem tengist skráningu, meðhöndlun og vinnslu gagna á sviði hjúkrunar og heilbrigðismála.

Árangur:

Fræðasviðið hefur lagt mikið af mörkum í þróun á rafrænni sjúkraskrá og þannig tryggt að klínísk hjúkrunargögn séu vistuð á varanlegan hátt og séu aðgengileg til frekari rannsókna. Verkefni þess hafa m.a.  verið þróun á stuðningi við ákvarðanatöku í hjúkrun þar sem byggt er á bestu þekkingu sem völ er á sem og að fanga reynsluþekkingu hjúkrunarfræðinga þar sem rannsóknir skortir.

Áherslur í rannsóknum í hjúkrunarstjórnun og upplýsingatækni:

•    Starfsumhverfi, starfsánægja, forysta og fagmennska í hjúkrun
•    Árangur, öryggi, gæði og teymisvinna
•    Gagnreynd hjúkrun, upplýsingatækni og upplýsingalæsi
•    Varanleg vistun hjúkrunargagna í vöruhúsi gagna
•    Hag- og endurnýting skráðra gagna fyrir árangursríkar samaburðarannsóknir innan lands og milli landa

Þú ert að nota: drupalcl1.rhi.hi.is