Háskóli Íslands

Um námið í kynfræði

Nám í kynfræði er þverfræðilegt nám á meistarastigi. Námið er í samstarfi tveggja deilda Háskóla Íslands, Guðfræði- og trúarbragðafræðideildar og Hjúkrunarfræðideildar. Hvert námskeið er sjálfstætt en öll saman geta þau myndað séráherslu í meistaranámi, samkvæmt reglum hvorrar deildar. Hvert námskeið er til 10 ECTS eininga. Eitt námskeið á hverri önn og nær námið í heild sinni yfir þrjár annir.  Hægt er að taka öll námskeiðin sem heild en einnig stök námskeið. Að jafnaði er kennt á íslensku en á ensku þegar um erlenda gestakennara er að ræða.

Meginmarkmið

Meginmarkmið náms í kynfræði eru að nemendur:

  • Öðlist fræðilega þekkingu á hugtökum, hugmyndafræði, kenningum,   viðfangsefnum og aðferðum kynfræða.
  • Kynnist nýjustu rannsóknum um kynheilbrigðismál.
  • Geti nýtt fræðilega þekkingu sína og skilning á kynfræði ásamt tjáskiptafærni í faglegri nálgun í starfi.
  • Búi yfir þekkingu og færni til að fræða skjólstæðinga og aðra um kynlíf.
  • Hafi víðtæka vitneskju um vandamál og viðfangsefni, fræðileg sem hagnýt, byggð á nýjustu rannsóknum í kynfræði.
  • Geri sér grein fyrir eigin gildismati og viðhorfum til kynferðismála.
  • Geti áttað sig á nýjungum og þróun á sviði kynfræða sem byggist á vísindalegum grunni.


Námskeið í boði

Haust 2017: Kroppurinn, kynlíf og kynheilsa. Umsjón: Sóley S. Bender, prófessor í Hjúkrunarfræðideild.

Vor 2018: Kynhegðun mannsins. Umsjón: Sóley S. Bender, prófessor í Hjúkrunarfræðideild.

Haust 2018:
Kynverund, siðfræði og samfélag. Umsjón: Sólveig A. Bóasdóttir, prófessor í Guðfræði- og trúarbragðafræðideild.
 

HJÚ128F Kroppurinn, kynlíf og kynheilsa 10 ECTS (haust 2017)
Námskeiðið fjallar um þrjá meginþætti sem eru a) hugmyndafræði kynheilbrigðis (e. sexual- and reproductive health), b) kynferðisþroski (e. sexual development) og kynheilbrigði mannsins yfir æviskeiðið og c) forvarnir og heilbrigðishvatningu.Farið er í hugmyndafræðilega þætti kynheilbrigðis og atriði sem stuðla að kynferðislega heilbrigðu samfélagi. Lögð er áhersla á kynferðisþroska mannsins yfir æviskeiðið, kynheilbrigði hans og áhrifaþætti. Skoðað er samspil líkama, sálar og tilfinninga mannsins út frá  skynjun hans á sjálfum sér sem kynveru og hæfni hans til að mynda náið kynferðislegt samband. Gerð er grein fyrir leiðum sem stuðla að kynheilbrigði mannsins einkum út frá fræðslu og ráðgjöf á þessu sviði.

HJÚ0AAF Kynhegðun mannsins 10 ECTS (vor 2018)
Námskeiðið fjallar um kynhegðun mannsins og þess margbreytileika sem einkennir kynlíf hans. Varpað er ljósi á kynhegðun mannsins og vandamál á því sviði út frá sálrænu, félagslegu, líkamlegu en jafnframt menningarlegu sjónarhorni. Gerð er grein fyrir helstu kynlífsvandamálum karla og kvenna, farið í helstu sjúkdóma og lyf sem geta haft áhrif á kynhegðun og gefin klínísk dæmi. Fjallað er um viðhorf til kynlífs aldraðra og hvaða breytingar verða á kynhegðun við hækkandi aldur. Skoðað er hvernig andleg og líkamleg fötlun getur haft áhrif á kynlíf fólks. Farið er í kynferðislegt ofbeldi, kynlíf sem markaðsvöru (vændi, klám) og óhefðbundið kynlíf (paraphilia).

GFR603M  Kynverund, siðfræði og samfélag 10 ECTS (haust 2018)
Námskeiðið leitar svara við því hvernig vestræn menning og gyðing-kristin trúarbrögð hafa mótað samtímahugmyndir um kynverund mannsins (e. human sexuality)  og kynlíf (e. sex). Nálgunin er í senn hugmyndasöguleg, kynjafræðileg, trúarbragðafræðileg, menningarfræðileg og siðfræðileg. Fjallað verður um kenningar um kynverund og kynlíf, siðfræði kynlífs,  mannréttindi og baráttu frjálsra félagasamtaka fyrir kynverundarréttindum (e. sexual rights). Rýnt verður í skýrslur og yfirlýsingar alþjóðlegra stofnana og frjálsra félagasamtaka um kynverund, kynheilsu, kynverundarréttindi og þróun á 21.öldinni.

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

Sía fyrir ruslpóst
This question is for testing whether or not you are a human visitor and to prevent automated spam submissions.
Image CAPTCHA
Skrifaðu stafina sem sjást á myndinni.
Þú ert að nota: drupalcl2.rhi.hi.is