Háskóli Íslands

Hagur allra bættur með góðri heilsu sjómanna

Eliths Freyr Heimisson

Erlingur S. Jóhannsson prófessor og Eliths Freyr Heimisson, MS-nemi við Íþrótta-, tómstunda- og þroskaþjálfadeild

Sjómenn sækja fiskinn út á hið gjöfula haf og þegar aldan er stigin skiptir heilsufar þeirra gríðarlegu máli. Erlingur S. Jóhannsson, prófessor í íþrótta- og heilsufræði, hefur lagt kapp á að bæta heilsu sjómanna og með rannsókn fyrir fimm árum breytti hann lífsstíl heillar áhafnar.

Nú er Erlingur kominn aftur út á sjó með sömu áhöfn ásamt meistaranemanum Eliths Frey Heimissyni. „Tilgangurinn með rannsókninni núna er að skoða sambærilega heilsufarsþætti og kannaðir voru í meistaraverkefni Sonju Sifjar Jóhannsdóttur árið 2007. Núna viljum við sjá hvort lífsstílsbreytingarnar sem þá voru gerðar hafi skilað sér í auknum lífsgæðum og bættri heilsu að fimm árum liðnum,“ segir Erlingur.

„Áður en við hófumst handa núna vonuðumst við auðvitað til að íhlutunarrannsóknin frá 2007 hefði skilað sér í aukinni Erlingur S. Jóhannssonmeðvitund áhafnarinnar um mikilvægi holls lífernis. Jafnframt vonuðum við að rannsóknin hefði bætt heilsu sjómannanna og að þeir hreyfðu sig meira en áður,“ segir Eliths. Erlingur bætir því við að fyrstu niðurstöður staðfesti að sú sé einmitt raunin: „Þær sýna að þeir sjómenn sem tóku þátt í íhlutuninni árið 2007 hreyfa sig núna meira en áður, færri glíma við offitu og minna er um reykingar en hjá viðmiðunarhópi. Lífsgæði þeirra sem tóku þátt í íhlutunarrannsókninni fyrir fimm árum eru því meiri en hjá viðmiðunarhópnum,“ segir Erlingur.

„Sjávarútvegur er ein stærsta og mikilvægasta atvinnugrein Íslendinga en milli fimm og sex þúsund manns starfa úti á sjó. Skipin eru sjaldnast með búnaði til líkamsræktar og erfið vaktavinna og plássleysi um borð dregur úr möguleikum á hreyfingu,“ segir Eliths. „Okkur langar að koma með lausnir á þessu vandamáli.“

Eliths segir þá Erling hafa mikinn áhuga á að nota hreyfingu sem forvörn og jafnvel lækningu við ýmsum kvillum hjá sjómönnum. „Sjómennirnir afla tekna í þjóðarbúið en þeir eru í mikilli hættu á að fá ýmsa lífsstílssjúkdóma. Því er þetta einkar gott tækifæri til að gefa eitthvað af sér til stuðnings íslenskum sjómönnum. Eftir að búið er að túlka niðurstöður okkar verður hægt að skipuleggja og stuðla að forvörnum sem gætu bætt heilsu sjómanna mikið og þar af leiðandi dregið úr kostnaði í heilbrigðiskerfinu,“ segir Eliths.

Erlingur segir að afköst séu miklu meiri hjá hraustu fólki en því sem á við vanheilsu að stríða, minni líkur séu á fjarveru vegna veikinda og slysa auk þess sem líkur minnki á að fólk láti af störfum sökum bágrar heilsu. „Bættur lífsstíll skilar sér í betri heilsu, auknum tekjum, bættri afkomu fyrirtækja og minni kostnaði við heilbrigðiskerfið. Þetta er því mikilvægt verkefni fyrir allt samfélagið,“ segir Erlingur.

Þú ert að nota: drupalcl2.rhi.hi.is