Háskóli Íslands

Um deildina

Viðtalstímar kennara

Hagfræðideild Háskóla Íslands
Kennsla í hagfræði við Háskóla Íslands stendur á sterkum grunni. Hagfræði hefur verið kennd við háskólann allt frá því viðskiptadeild var stofnuð árið 1962 og reyndar allar götur frá stofnun laga og hagfræðideildar skólans árið 1941. Á meðal fyrstu kennara deildarinnar voru helstu frumkvöðlar hagfræði sem fræðigreinar á Íslandi, þeir Gylfi Þ. Gíslason og Ólafur Björnsson.
Um fimmtán fastir kennarar og sérfræðingar starfa við deildina. Námið er fjölbreytt, framsækið og krefjandi. Í boði eru um 50 námskeið á hverju skólaári auk þess sem nemendur geta tekið námskeið í öðrum deildum háskólans eða erlendum háskólum.

Greinar í stöðugri þróun
Markmið bæði BS og MS náms í deildinni er að veita nemendum góðan undirbúning í hagfræði, stærðfræði og tölfræði en gefa jafnframt möguleika á sérhæfingu í öðrum greinum sem falla að áformum nemenda um framtíðarnám og störf.

Einvalalið kennara
Við deildina starfa helstu sérfræðingar landsins á öllum sviðum hagfræði. Að auki koma erlendir háskólakennara að kennslu á ári hverju og fjöldi stundakennara, í flestum tilvikum fólk með framhaldsmenntun í hagfræði sem er við störf í atvinnulífinu. Sú þekking á íslensku efnahags- og atvinnulífi og fræðigreinum sínum sem þetta einvalalið býr yfir er einstök og kennarar leggja metnað sinn í að koma henni til skila til nemenda.

Öflugt rannsóknarstarf
Í hagfræðideild er öflugt rannsóknarstarf og birta kennarar deildarinnar niðurstöður tuga rannsókna á íslensku og erlendu atvinnu-og efnahagslífi á hverju ári, iðulega í alþjóðlega viðurkenndum fræðiritum. Einnig hafa margir þeirra skrifað bækur á sínu sérsviði, bæði kennslubækur, rit fyrir sérfræðinga og almenning á íslensku eða erlendum tungumálum. Fastráðnir starfsmenn fara reglulega til starfa við erlenda háskóla eða rannsóknarstofnanir um lengri eða skemmri tíma, sækja og skipuleggja ráðstefnur og stunda rannsóknir í samstarfi við erlenda fræðimenn. Þeir eru iðulega kvaddir til ráðgjafar stjórnvöldum og stjórnendum fyrirtækja bæði hér innanlands og utan. Innan skólans eru vísindamenn í fremstu röð í heiminum í dag.

Í takt við þarfir atvinnulífsins
Námsframboð í hagfræðideild hefur aukist jafnt og þétt með hverju ári. Framboð af námskeiðum tekur mið af þörfum atvinnulífsins sem er stöðugum breytingum undirorpið. Nýtt starfsumhverfi, nýjar aðferðir, ný tækni, nýir viðskiptahættir og aukið flækjustig koma þar til. Viðskipta- og hagfræðimenntun teygir sig inn á sífellt fleiri svið og sum þeirra þenjast út.

Alþjóðlegt samstarf
Hagfræðideild hefur náið samstarf við fjölda erlendra háskóla og nám við deildina tekur mið af kröfum og námsefni bestu háskóla erlendis. Fjöldi erlendra skiptinema sækir deildina heim á hverju ári og er hluti af námskeiðum í deildinni kenndur á ensku. Á sama hátt fer stór hópur nemenda frá deildinni á hverju ári til náms erlendis í eitt eða tvö misseri við góða erlenda háskóla og enn fleiri fara til starfa erlendis yfir sumartímann.

Að námi loknu
Menntun í hagfræðideildinni gagnast einstaklingum í hinum ýmsu atvinnugreinum; frá blaðamennsku til reksturs fyrirtækja, frá kennslu til starfa innan fjármálafyrirtækja, frá rannsóknum til opinberrar stjórnsýslu. Efnahagsmál, rekstur fyrirtækja, bankaviðskipti og opinber stjórnsýsla skipa háan sess í okkar þjóðfélagi. Menntun í hagfræðideild Háskóla Íslands er greiðasta leiðin til þátttöku, rannsókna og skilnings á hagkerfi okkar og aðgöngumiði að framhaldsnámi í hérlendum skólum og erlendum.

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

Sía fyrir ruslpóst
This question is for testing whether or not you are a human visitor and to prevent automated spam submissions.
Image CAPTCHA
Skrifaðu stafina sem sjást á myndinni.
Þú ert að nota: drupalcl1.rhi.hi.is