Skip to main content

GPS-mælingar og yfirvofandi eldgos

Sigrún Hreinsdóttir, gestadósent við Jarðvísindadeild

„Ný mælitækni gefur betri vísbendingar en áður um hvort eldgos er í aðsigi og hversu stórt það verður,“ segir Sigrún Hreinsdóttir, dósent í jarðeðlisfræði. „Síðustu tíu ár hafa vísindamönnum borist mælingar frá mörgum samfelldum stöðvum nánast á rauntíma. Það þýðir að mælingarnar berast næstum um leið og jarðskorpan hreyfist. Þetta gerir okkur kleift að uppgötva hluti sem við gátum ekki séð með gömlu netmælingunum.“

Sigrún Hreinsdóttir

„Síðustu tíu ár hafa vísindamönnum borist mælingar frá mörgum samfelldum stöðvum nánast á rauntíma. Það þýðir að mælingarnar berast næstum um leið og jarðskorpan hreyfist.“

Sigrún Hreinsdóttir

„Í gosinu í Grímsvötnum 2011 færðist GPSmælistöð á Grímsfjalli um 57 sentimetra á innan við þremur dögum þegar kvikuhólfið fyrir neðan tæmdist. Færslurnar hófust klukkustund áður en gosið hófst. Mælingarnar við Grímsvötn 2011 gáfu því upplýsingar um stærð gossins áður en það hófst,“ segir Sigrún.

Að sögn Sigrúnar veita mælingar frá samfelldum stöðvum ómetanlegar upplýsingar um flekahreyfingar, eðli eldfjalla og hvernig kvika safnast fyrir. „Yfirborðsmælingar benda til þess að kvikuhólfið í Grímsvötnum sé á tveggja kílómetra dýpi. Kvikuhólfið þenst út eins og blaðra þegar kvika safnast upp. GPS-mælistöðin á Grímsfjalli hækkar því smám saman vegna kvikusöfnunar eða þar til þrýstingurinn hefur náð ákveðnu marki og eldgos brýst út. Við eldgos dregst blaðran aftur saman og við það sígur GPS-mælistöðin. Með því að fylgjast með risi og sigi GPS-stöðva getum við farið að segja til um ástand eldstöðvarinnar og hversu líklegt sé að hún gjósi á næstunni,“ útskýrir Sigrún.