Háskóli Íslands

Goðsögnin um fegurð íslenskra kvenna

Guðný Gústafsdóttir

Guðný Gústafsdóttir, doktorsnemi í kynjafræði við Stjórnmálafræðideild

„Á níunda áratug síðustu aldar öðlaðist fegurð íslenskra kvenna alheimsviðurkenningu. Með aðeins nokkurra ára millibili hrepptu tvær íslenskar konur titil keppninnar Ungfrú Heimur, Hólmfríður Karlsdóttir og Linda Pétursdóttir. Goðsögnin um fegurð íslenskra kvenna varð að félagslega samþykktum sannleika,“ segir Guðný Gústafsdóttir, doktorsnemi í kynjafræði við Stjórnmálafræðideild.

Hún flutti erindið „Hagfræði fegurðar“ á Þjóðarspeglinum haustið 2011. Erindið var tengt doktorsverkefni hennar. Í því hyggst Guðný m.a. sýna hvaða hugmyndir samfélagsins um kvenleika mótuðust og var haldið á lofti á árunum 1980 til 2008.

Í erindinu benti Guðný á að ein meginímynd hins íslenska kvenleika á síðari tímum hefði verið hin félagslega skilgreinda fegurð kvenna. Hin kvenlega fegurð hefði verið samofin hreinleika íslenskrar náttúru og menningarbundinni arfleifð þjóðarinnar. „Á sama tíma og fegurð íslenskra kvenna varð svo umtöluð leituðu ríkið og fyrirtæki landsins leiða til að markaðssetja íslenskar afurðir á alþjóðamarkaði. Það þótti liggja beint við að samnýta krafta fegurðardrottninga og kaupsýslumanna. Á árunum sem Hófí og Linda báru titilinn Ungfrú Heimur sinntu þær víðtæku markaðsstarfi fyrir Íslands hönd. Þær öfluðu þjóðarbúinu gjaldeyristekna og fegruðu ímynd Íslands út á við. Laun þeirra sjálfra á árinu numu þó ekki nema meðallaunum íslenskra kvenna á almennum vinnumarkaði,“ bendir Guðný á.

Á vinningsári sínu hafi konurnar tvær nálgast sögulegt vald kóngafólksins og viðskiptavald síns tíma. „Skilgreind fegurð þeirra og hlutverk, sem komið var á framfæri sem valdeflandi fyrir konur, var þó í raun takmarkandi þegar betur er að gáð. Með öðrum orðum þá endurspeglaði ímynd kvenleikans valdaleysi á sama tíma og það þjónaði hagsmunum samfélagsvaldsins sem jafnan er í höndum karla. Á þennan hátt gegnir skilgreind fegurð kvenna því hlutverki að undirbyggja þau kynjuðu valdatengsl sem liggja til grundvallar
hverju samfélagi á hverjum stað og tíma,“ segir Guðný enn fremur.

Leiðbeinandi: Þorgerður Einarsdóttir, prófessor við Stjórnmálafræðideild.
 

Þú ert að nota: drupalcl1.rhi.hi.is