Háskóli Íslands

Vísindavefurinn valinn besti vefmiðillinn

Vísindavefur Háskóla Íslands var valinn besti vefmiðill landsins á uppskeruhátíð Samtaka vefiðnaðarins í Gamla bíói fyrr í kvöld. Vísindavefurinn, sem nýverið fékk nýtt útlit, fékk tvær tilnefningar í ár, sem besti vefmiðillinn og besti non–profit vefurinn.  Hann hlaut verðlaunin í fyrrtalda flokknum. 
 
Aðalvefur Háskóla Íslands var tilnefndur til verðlauna sem aðgengilegasti vefurinn en hreppti ekki verðlaun að þessu sinni.
 
Alls voru veitt verðlaun í 14 flokkum fyrir þau íslensku vefverkefni sem þykja hafa skarað fram úr á árinu 2013. Að verðlaununum standa Samtök vefiðnaðarins (SVEF) en í heildina voru um 150 verkefni tilnefnd að þessu sinni. Sjö manna dómnefnd stóð að vali á bestu vefjum landsins. 
 
Vísindavef Háskóla Íslands hleypt af stokkunum þann 29. janúar árið 2000. Hann var í fyrstu hugsaður sem tímabundið framlag Háskóla Íslands til verkefnisins Reykjavík – menningarborg Evrópu árið 2000. Fljótlega kom þó á daginn að áhugi almennings á vísindum var svo mikill að ákveðið var að halda verkefninu áfram. Vísindavefurinn hefur verið einn vinsælasti vefur landsins um árabil og hefur fyrir löngu unnið sér fastan sess.
 
Vísindavefurinn fjallar um öll vísindi, allt frá stjörnufræði til handrita og frá sameindalíffræði til sálarfræði. Gestir geta lesið á vefnum svör við spurningum um flest milli himins og jarðar. Einnig getur fólk lagt fram nýjar spurningar um allt það sem ætla má að starfsmenn Háskólans og stuðningsmenn vefsins geti svarað eða fundið svör við. Gestir geta einnig sett fram efnisorð í leitarvél sem tengjast því sem þá fýsir að vita og fengið ábendingar um svör og annað tengt efni sem þegar er komið á vefinn.
 
Föstudagur, 31. janúar 2014 - 23:45
Þú ert að nota: drupalcl1.rhi.hi.is