Skip to main content
29. apríl 2015

Vísindamenn við Landspítala og HÍ verðlaunaðir

Pálmi V. Jónsson, yfirlæknir öldrunarlækninga á Landspítala og prófessor við Læknadeild Háskóla Íslands, hefur verið valinn heiðursvísindamaður Landspítala árið 2015. Tilkynnt var um það á Vísindum á vordögum, árlegri vísindadagskrá á Landspítala Hringbraut þriðjudaginn 28. apríl. Við sama tilefni hlaut Sigurður Yngvi Kristinsson, sérfræðilæknir og prófessor við Læknadeild, vegleg verðlaun úr Verðlaunasjóði í læknisfræði og skyldum greinum.

Pálmi V. Jónsson hefur sinnt öldrunarlækningum, ýmist sem yfirlæknir, forstöðulæknir eða sviðsstjóri, frá því að hann sneri heim til Íslands eftir að hafa lokið sérnámi við Harvard-háskóla árið 1990. Hann varð dósent í öldrunarlækningum við Háskóla Íslands 1994 og prófessor frá 2008. Pálmi hefur verið leiðbeinandi fjölda nemenda í rannsóknartengdu námi. Hann hefur enn fremur starfað í fjölmörgum nefndum innan sjúkrahúsa, Læknadeildar og í heilbrigðisþjónustunni, m.a. um takmörkun meðferðar við lífslok, vistunarmat aldraðra, um forgangsröðun í heilbrigðisþjónustu (1995-1998) og heilbrigðisáætlun til ársins 2010 og verið formaður sérfræðinefndar lækna. Pálmi beitti sér fyrir stofnun og hefur verið formaður Rannsóknarstofu Háskóla Íslands og Landspítala í öldrunarfræðum frá 1999 og er í stýrihópi öldrunarrannsóknar, sem er afar öflug rannsókn á heimsvísu og unnin í samvinnu Hjartaverndar og bandarísku öldrunarrannsóknarstofnunarinnar. 

Þá er Pálmi er þátttakandi og stjórnarmaður í InterRAI (www.InterRAI.org) sem er hópur vísindamanna sem vinnur að þróun samhæfðra alþjóðlegra matstækja fyrir fólk með langvinna sjúkdóma sem nýtur þjónustu innan heilbrigðis- og félagsþjónustunnar. Markmiðið er að skilgreina þarfir fólks á skilvirkan hátt, meta gæði, leggja mat á kostnað og auðvelda stefnumótun og alþjóðlegar rannsóknir. Pálmi hefur enn fremur stýrt evrópskum og samnorrænum rannsóknum er snúa að aðferðarfræði InterRAI. Pálmi hefur einnig verið í stjórn Middle Eastern Academy for Medicine on Aging frá 2005 og hefur sem sjálfboðaliði kennt öldrunarlækningar fyrir lyf- og heimilislækna í Mið-Austurlöndum. 

Tímaritsgreinar Pálma eru yfir 150, nokkrir bókakaflar í virtum kennslubókum í öldrunarlækningum og fjölmörg ágrip á vísindaþingum auk boðsfyrirlestra. Hann hlaut hvatningarstyrk Landspítala 2013. Rannsóknarverkefni Pálma eru af margvíslegu tagi og varða m.a. ákvarðanir við lífslok, aldurstengdar breytingar á heilsu og erfðafræði Alzheimer´s sjúkdóms auk áðurnefndra rannsókna tengdum InterRAI. 

Sigurður Yngvi  hlaut 3,5 milljóna verðlaun

Á Vísindum á vordögum var jafnframt tilkynnt að Sigurður Yngvi Kristinsson, sérfræðilæknir og prófessor við Læknadeild, hlyti verðlaun úr Verðlaunasjóði í læknisfræði og skyldum greinum. Verðlaunin nema þremur og hálfri milljón króna og því með veglegustu verðlaunum sem hlotnast íslenskum vísindamönnum. Þetta er í sjöunda sinn sem verðlaun eru veitt úr sjóðnum. Verðlaunasjóðinn stofnuðu læknarnir Árni Kristinsson og Þórður Harðarson en þeir voru báðir yfirlæknar á Landspítala og prófessorar við Háskóla Íslands. 

Sigurður Yngvi lauk sérnámi í lyflækningum og blóðsjúkdómafræði við Karólínska sjúkrahúsið í Stokkhólmi árið 2006 og doktorsprófi í blóðsjúkdómafræði árið 2009. Eftir það starfaði hann þrjú ár við sömu stofnun við lækningar og rannsóknir. Sigurður Yngvi er nú prófessor við Læknadeild Háskóla Íslands og starfandi læknir á Landspítala en viðheldur einnig starfstengslum við Karólínska sjúkrahúsið.

Strax eftir lokapróf í læknisfræði birti Sigurður Yngvi, sem fyrsti höfundur, tvær greinar í virtum tímaritum. Þær fjölluðu báðar um faraldsfræði sjúkdóma, sykursýki og hvítblæði og tengslum þeirra við erfðir. Nú liggja eftir hann á níunda tug vísindagreina sem birst hafa í virtum tímaritum. Þær hafa að verulegu leyti snúist um faraldsfræði blóð- og mergsjúkdóma út frá ýmsum hliðum. Sigurður Yngvi hefur oftar en ekki verið fyrsti höfundur greina sinna. 

Eftir heimkomuna hefur Sigurður Yngvi byggt upp sterkt rannsóknarteymi við Háskóla Íslands og Landspítala með fjölda doktorsnema. Hann hefur hlotið fjölda styrkja og verðlauna, haft örvandi áhrif á ungt íslenskt vísindafólk og gengið á hólm við vísindaverkefni sem íslenskur veruleiki ber í skauti sínu. Á sviði faraldsfræði blóðsjúkdóma stendur Sigurður Yngvi í fremstu röð á heimsvísu.

Ramona Lieder ungur vísindamaður ársins

Við athöfnina á Landspítala var jafnframt greint frá því að Ramona Lieder, náttúrufræðingur og nýdoktor, hefði verið valin ungur vísindamaður ársins 2015 á Landspítala. Hún lauk diplómaprófi í líftækni með sérhæfingu í efnafræði virkra efna frá University of Applied Sciences FH Campus Wien árið 2009 en í diplómaverkefni sínu dvaldi Ramona á Íslandi á Erasmus-styrk þar sem hún vann lokaverkefni sitt undir handleiðslu Ólafs E. Sigurjónssonar, dósents við Háskólann í Reykjavík, og Más Mássonar, prófessors við Lyfjafræðideild Háskóla Íslands.

Ramona flutti til Íslands að loknu diplómanámi sínu og innritaðist í doktorsnám við tækni- og verkfræðideild Háskólans í Reykjavík (HR) árið 2010 undir leiðsögns Ólafs E. Sigurjónssonar, Gissurar Örlygssonar við Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Más Mássonar, prófessors við Háskóla Íslands. Hún útskrifaðist með doktorsgráðu í líftækni vorið 2013 og starfar nú nýdoktor í rannsóknarhópi Ólafs E. Sigurjónssonar og er starfsmaður í gæðadeild Blóðbankans.

Pálmi V. Jónsson hefur sinnt öldrunarlækningum, ýmist sem yfirlæknir, forstöðulæknir eða sviðsstjóri, frá því að hann sneri heim til Íslands eftir að hafa lokið sérnámi. Hann hefur verið í akademísku starfi við Háskóla Íslands frá árinu 1994.
Sigurður Yngvi Kristinsson stendur í fremstu röð á heimsvísu á  sviði faraldsfræði blóðsjúkdóma.
 Ramona Lieder, náttúrufræðingur og nýdoktor, er ungur vísindamaður ársins á Landspítala.
Pálmi V. Jónsson hefur sinnt öldrunarlækningum, ýmist sem yfirlæknir, forstöðulæknir eða sviðsstjóri, frá því að hann sneri heim til Íslands eftir að hafa lokið sérnámi. Hann hefur verið í akademísku starfi við Háskóla Íslands frá árinu 1994.
Sigurður Yngvi Kristinsson stendur í fremstu röð á heimsvísu á  sviði faraldsfræði blóðsjúkdóma.
 Ramona Lieder, náttúrufræðingur og nýdoktor, er ungur vísindamaður ársins á Landspítala.