Skip to main content
14. júní 2016

Vísindafélag Íslendinga styrkir nemendur í HUF

""

Hartnær 20 nemendur af erlendum uppruna sitja þessa vikuna á skólabekk í Háskóla unga fólksins sem fram fer í Háskóla Íslands. Það var Vísindafélag Íslendinga sem styrkti hópinn til náms en félagið hefur það að markmiði að efla vísindastarfsemi í landinu og styrkja stöðu vísinda í íslenskri menningu.  Félagið hefur starfað undir þeim formerkjum allar götur frá árinu 1918 og gerir enn. 

Alls sækja nú um 360 nemendur Háskóla unga fólksins og lífga þeir svo sannarlega upp á háskólasvæðið. Í boði eru á fimmta tug námskeiða en þeirra á meðal eru mannréttindalögfræði, dýrafræði, miðaldafræði, skurðlækningar, íþrótta- og heilsufræði, leikur að hljóði og náttúrvernd með hinni heimsfrægu vísindakonu Jane Goodall.
 
Háskólinn leggur áherslu á jafnrétti og fjölbreytileika nemendahópsins í starfi sínu, meðal annars að  kynna innflytjendum kosti til náms við skólann og auka aðsókn þeirra að námi. Innflytjendum bjóðast gjarnan færri tækifæri til starfs og náms en öðrum í samfélaginu. Með það í huga tók Háskóli Íslands höndum saman við Vísindafélag Íslendinga og bauð 20 nemendum af erlendum uppruna að taka þátt í Háskóla unga fólksins sér að kostnaðarlausu.  Ábendingar um nemendur bárust frá fulltrúum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu en þeir eru allir tvítyngdir og hafa staðið sig vel í námi. Í nýrri stefnu skólans eru svo stigin enn frekari skref í átt að jafnrétti og fjölbreytileika við uppbyggingu háskólasamfélagsins.

Háskóli unga fólksins er nú starfræktur í þrettánda sinn í Háskóla Íslands en hann hefur notið gríðarlegra vinsælda meðal ungu kynslóðarinnar undanfarin ár. Nemendur í skólanum kynna sér ótal greinar sem kenndar eru við Háskóla Íslands og skemmta sér þess á milli í skipulögðum leikjum á túninu fyrir framan Aðalbyggingu.

Vísindafélag Íslendinga var stofnað þann 1. desember 1918 af nokkrum kennurum við Háskóla Íslands. Félagið hefur verið í mikilli sókn undanfarin ár og starfar óháð stofnunum og þvert á fræðigreinar og er því frjór vettvangur vísindaumræðu í íslensku samfélagi.

Nemendur í Háskóla unga fólksins 2016
Nemendur í Háskóla unga fólksins 2016