Skip to main content
30. október 2015

Vísindadagur fyrir alla fjölskylduna á laugardag

Ferðalag um sólkerfið, efnafræði- og eðlisfræðitilraunir og rafmagnsknúinn kappakstursbíll auk fyrirlestra um Holuhraun, ferðamennsku og vindmyllur, himbrimarannsóknir, efnafræði alheimsins og nýtt app sem auðveldar matarinnkaupin er aðeins brot af því sem í boði verður á Vísindadegi Verkfræði- og náttúruvísindasviðs Háskóla Íslands sem fram fer í Öskju laugardaginn 31. október milli kl. 12 og 16.

Þetta er í annað sinn sem Verkfræði- og náttúruvísindasvið fagnar Vísindadeginum en í fyrra heimsótti mikill fjöldi fólks Öskju og kynnti sér hinar ýmsu hliðar verkfræðinnar og raun- og náttúruvísindanna. Vísindadagurinn er ætlaður allri fjölskyldunni enda er þar bæði hægt að hlýða á fræðandi fyrirlestra um bókstaflega allt milli himins og jarðar og uppgötva undur vísindanna í gegnum tæki og tól. Þema Vísindadagsins í ár er ljós enda stendur nú yfir Ár ljóssins hjá Sameinuðu þjóðunum.

Meðal þess sem fyrir augu ber í Öskju á laugardaginn eru efnafræðitilraunir hins sívinsæla Sprengjugengis og eðlisfræðitilraunir á vegum Vísindasmiðju Háskóla Íslands. Verkfræðinemarnir í Team Spark verða enn fremur á staðnum og bjóða gestum að skoða TS15, rafknúna kappakstursbílinn sem þau hönnuðu og fóru með í Formula Student kappaksturs- og hönnunarkeppnina á Silverstone-brautinni í sumar. Þá verður boðið upp á ferðalag um sólkerfið í Stjörnutjaldinu með reglulegu millibili.

Fremstu vísindamenn landsins munu enn fremur segja frá rannsóknum sínum í stuttum erindum og m.a. fara yfir efnafræði alheimsins, ljós og líf, hvali og fugla, ofurtölvur, eldfjöll og jökla, Einstein og Holuhraun ásamt því að útskýra virkni nýs jáeindaskanna Landspítalans og hvað sé líkt með spilakassa, krabbameini og kjarnorkusprengju. Hluti erindanna verður á ensku.

Ókeypis er á Vísindadag Verkfræði- og náttúruvísindasviðs og allir hjartanlega velkomnir. Boðið verður upp á veitingar í tilefni hrekkjavöku.

Frá Vísindadegi Verkfræði- og náttúruvísindasviðs árið 2014.
Frá Vísindadegi Verkfræði- og náttúruvísindasviðs árið 2014.