Skip to main content

Vinsæl fyrirlestraröð um ömmur komin út á bók

11. apr 2017

Út er komin bókin Margar myndir ömmu sem geymir sögur kvenna sem lifðu þann tíma þegar nútíminn hóf innreið sína á Íslandi. Bókin er gefin út í kjölfar vinsællar fyrirlestraraðar undir sama nafni og haldin var árið 2015 í tilefni þess að hundrað ár voru liðin frá því að konur fengu kosningarétt. Bókin er fjórða hefti ritraðarinnar Fléttur sem RIKK gefur út.

Í bókinni setja fræðimenn af ólíkum sviðum, s.s. sagnfræði, guðfræði, félagsfræði, stjórnmálafræði og bókmenntafræði, lífshlaup formæðra sinna í samhengi við samfélagsgerðina sem, hvað sem borgaralegum réttindum leið, takmarkaði möguleika þeirra til þátttöku í opinberu lífi og um leið til sjálfstæðis og frelsis. Jafnframt er þáttur þeirra í að endurmóta ríkjandi hugmyndir um kvenleikann og samfélagslegt hlutverk sitt metinn og spurt hvaða tækifæri konur höfðu til þess að hafa áhrif í samfélaginu, bæði með starfi sínu inn á við, í þágu heimilis, en ekki síður út á við, til dæmis í gegnum félagasamtök og kvenfélög sem voru í hverri sveit. Greinarnar draga upp fjölbreyttar myndir af lífi kvenna á Íslandi um aldamótin 1900 og fram á miðja 20. öld með því að tefla saman kenningarlegri nálgun og persónulegri frásögn.

Höfundar greina eru Irma Erlingsdóttir, Guðmundur Hálfdánarson, Dagný Kristjánsdóttir, Berglind Rós Magnúsdóttir, Sólveig Anna Bóasdóttir, Ármann Jakobsson, Erla Hulda Halldórsdóttir, Ingibjörg Sigurðardóttir, Sigrún Alba Sigurðardóttir, Annadís Gréta Rúdólfsdóttir, Silja Bára Ómarsdóttir og Súsanna Margrét Gestsdóttir og Guðni Th. Jóhannesson ritar formála.

Ritstjórar bókarinnar eru Irma Erlingsdóttir, Ragnheiður Kristjánsdóttir, Sigrún Alba Sigurðardóttir og Sólveig Anna Bóasdóttir. Fræðileg ritstjórn var í höndum Írisar Ellenberger. Útgefendur eru RIKK og Háskólaútgáfan en útgáfan er styrkt af Miðstöð íslenskra bókmennta, Framkvæmdanefnd um aldarafmæli kosningaréttar kvenna, Hugvísindastofnun og EDDU – öndvegissetri.

Kápa bókarinnar Margar myndir ömmu.