Skip to main content
10. júlí 2017

Vinna að verkefnum með styrk frá Nýsköpunarsjóði

Sjúkdómsvaldandi stökkbreytingar í genum, réttarstaða kvenna sem brotaþolar kynbundins ofbeldis í ljósi femínískrar lögfræði, áhrif gróðurs á svifryksmengun, vefur um réttindabaráttu homma og lesbía á Íslandi og reynslan af styttingu vinnutíma hjá Reykjavíkurborg eru meðal fjölmargra rannsóknarverkefna sem nemendur við Háskóla Íslands vinna að í sumar fyrir tilstilli Nýsköpunarsjóðs námsmanna. Nærri helmingur  þeirra verkefna sem hlaut styrk frá sjóðnum í ár tengist Háskóla Íslands og nánum samstarfsstofnunum.

Nýsköpunarsjóður námsmanna, sem vistaður er hjá Rannís, veitir háskólum, rannsóknarstofnunum og fyrirtækjum tækifæri til að ráða háskólanema í grunn- og meistaranámi í sumarvinnu við rannsóknar- og þróunarverkefni sem þykja líkleg til að stuðla að nýsköpun og auknum tengslum háskóla, stofnana og fyrirtækja.

Líkt og undanfarin ár auglýsti sjóðurinn eftir umsóknum um styrki snemma árs og bárust alls 215 umsóknir um styrki fyrir 322 háskólanema. Alls var sótt um rúmlega 217 milljónir króna eða laun í 932 mannmánuði.

Sjóðurinn hafði 73 milljónir til umráða og fengu 68 verkefni styrk að þessu sinni og að þeim koma 107 nemendur. Af þeim verkefnum sem hlutu styrk  að þessu sinni eru 32 tengd Háskóla Íslands og samstarfsstofnunum en verkefnin eru jafnframt unnin í samstarfi við fyrirtæki og stofnanir víða í samfélaginu. Meðal annarra en áðurnefndra verkefna sem tengjast Háskólanum og hlutu styrk eru rannsóknir tengdar Listasafni ASÍ, svefni í hjarta- og öndunarmerkjun, loftpoppuðu byggi, plöntusöfnun og fræbönkum sem menningararfi, þróun vefjaræktunarkerfa til rannsókna á öndunarfærum og til lyfjarannsókna, fórnarfóðringu fyrir háhitaborholur, hópvirkjun í hreindýravöktun og rannsóknir á hugsanlegum áhrifum tungls og sólar á skjálftavirkni í Bárðarbungu.

Við þetta má bæta að árlega velur stjórn Nýsköpunarsjóðs námsmanna um 10-15 verkefni sem unnin eru á árinu sem úrvalsverkefni. Af þeim eru svo 4-6 verkefni valin sem öndvegisverkefni og hljóta þau tilnefningu til Nýsköpunarverðlauna forseta Íslands sem veitt verða snemma árs 2018. Nemendur við Háskóla Íslands hafa hlotið verðlaunin undanfarin þrjú ár.

Yfirlit yfir styrkt verkefni sumarið 2017 má sjá á vef Rannís.