Skip to main content
29. desember 2016

Viljayfirlýsing um samstarf um náttúrusýningu í Perlu

""

Forseti Verkfræði- og náttúruvísindasviðs Háskóla Íslands og framkvæmdastjóri Perlu norðursins ehf. undirrituðu á dögunum viljayfirlýsingu um samstarf í tengslum við uppbyggingu náttúrusýningarinnar „Wonders of Iceland“, þeirrar stærstu sem sett hefur verið upp á Íslandi. 

Fyrsti hluti sýningarinnar verður opnaður sumarið 2017 í Perlunni. Sýningin hefur verið í undirbúningi frá því um mitt ár 2015 þegar Perla norðursins gerði samkomulag við Reykjavíkurborg um leigu á Perlunni næsta aldarfjórðunginn. Þar verður náttúra Íslands í forgrunni og sérstök áhersla verður lögð á fræðslu um jökla, jarðhita, eldvirkni, norðurljós, hafið, ferskvatnið, og lífríkið á Íslandi. Meðal þess sem finna má á sýningunni eru íshellir og fullkomið stjörnuver. Sýningin er því bæði hugsuð fyrir ferðamenn og Íslendinga, þar á meðal fyrir yngri skólastig.

Fræðsluefni sem miðlað verður á sýningunni verður byggt á nýjustu þekkingu í náttúru- og raunvísindum. Samkvæmt viljayfirlýsingu Verkfræði- og náttúruvísindasviðs og Perlu norðursins er m.a. stefnt að því að miðla þeim rannsóknum og rannsóknaniðurstöðum sem bæði vísindamenn og doktorsnemar á sviði náttúru- og raunvísinda við Háskóla Íslands hafa unnið að. Jafnframt er reiknað með að sérþekking vísindamanna innan þessara sviða nýtist vel við mótun sýningarinnar á næstu árum. Aðilarnir hyggjast vinna saman að því að skilgreina þau verkefni sem miðlað verður á sýningunni.

Hilmar Bragi Janusson, forseti Verkfræði- og náttúruvísinda, og Agnes Gunnarsdóttr, framkvæmdastjóri Perlu norðursins, undirrituðu viljayfirlýsinguna í Perlunni.

Hilmar fagnar því góða tækifæri sem opnast með viljayfirlýsingunni til þess að miðla rannsóknum vísindamanna Verkfræði- og náttúruvísindasviðs til almennings. „Innan sviðsins eru vísindamenn sem eru mjög framarlega á sínu sviði heiminum í rannsóknum tengdum jarð- og jarðeðlisfræði, jöklafræði, jarðhita, og umhverfis- og auðlindafræði. Þetta sést m.a. á því að bæði erlendir nemendur og vísindamenn sækjast eftir að koma hingað til að starfa og taka þátt í þeim þróttmiklu rannsóknum sem m.a. varpa ljósi á það hvaða áhrif loftslagsbreytingar og jarðhræringar hafa á bæði lífríki og samfélag. Hugmyndir aðstandenda Perlu norðursins eru afar metnaðarfullar og hér er á ferðinni gott dæmi um hvernig háskólar og atvinnulíf geta unnið saman að bæði miðlun rannsókna og uppbyggingu nýrra sprota innan hinnar ört vaxandi ferðaþjónustu sem skila samfélaginu bæði atvinnutækifærum og gjaldeyristekjum. Verkefnið fer einnig vel saman við aukna áherslu á kynningar og miðlun erlendra rannsóknarverkefna, “ segir Hilmar.

„Samstarf við Háskóla Íslands er gríðarlega mikilvægt og það á eftir að koma okkur og háskólanum að góðu gagni. Hvað varðar fræðslu þá skiptir öllu máli að allt efni sem við setjum fram í Perlunni sé rétt og vel stutt af fræðasamfélaginu. Sömuleiðis er þýðingarmikið að Perlan gegni hlutverki ákveðinnar gáttar fyrir nýjar rannsóknir sem fræðimenn innan Háskóla Íslands vinna. Þessi gátt er til þess fallin að opna fyrir flæði milli vísindasamfélagsins og almennings í gegnum rannsóknirnar. Við höfum alla burði til að vera sú gátt og höfum unnið náið með fræðimönnum frá háskólanum hingað til og erum þess fullviss að samstarfið muni áfram ganga vel.

Stefna okkar er að leggja til tugi milljóna króna í ný sýningaratriði ár hvert og Háskóli Íslands gegnir veigamiklu hlutverki er kemur að ráðleggingum á mótun þeirrar stefnu. Við sjáum fyrir okkur að samstarfið geti þróast þvert á deildir innan háskólans, ekki aðeins á sviði raunvísinda heldur einnig félagsvísinda, og líf- og umhverfisvísinda. Gott upplýsingaflæði milli okkar og Háskólans er hornsteinn sýningahaldsins og við bindum miklar vonir við gjöfult samstarf sem án nokkurs vafa á eftir að eflast mikið í framtíðinni,“ segir Agnes Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri Perlu norðursins.

Hilmar Bragi Janusson, forseti Verkfræði- og náttúruvísindasviðs, og Agnes Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri Perlu norðursins,
Hilmar Bragi Janusson, forseti Verkfræði- og náttúruvísindasviðs, og Agnes Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri Perlu norðursins,