Skip to main content
29. apríl 2015

Viðfangsefni nýsköpunar og viðskiptaþróunar

""

Í apríl var haldið opið námskeið fyrir doktorsnema á Íslandi og á Norðurlöndunum á vegum námslínu í nýsköpun og viðskiptaþróun. Námskeiðið fjallaði um viðfangsefni nýsköpunar og viðskiptaþróunar í samtímanum og bar heitið „Contemporary Issues in Innovation and Entrepreneurship.“

Námskeiðið var haldið á ensku og í boði fyrir bæði doktorsnema við Háskóla Íslands og á Norðurlöndunum sem hluti af samstarfsverkefninu NFF (Nordiska Företagsekominiska Föreningin). Efnt var til NFF-samstarfsins til þess að efla rannsóknir, menntun og framkvæmd á sviði viðskiptafræða á Norðurlöndunum, þ.e. í Danmörku, Finnlandi, Íslandi, Noregi og Svíþjóð.

Aukinn áhugi er á nýsköpun og viðskiptaþróun bæði innan akademíunnar, meðal frumkvöðla og í atvinnulífinu. Í námskeiðinu var leitast við að draga saman ólík viðfangsefni sem rannsóknir í nýsköpun og frumkvöðlafræði fást við. Markmiðið var bæði að gefa góða yfirsýn yfir fræðin og að aðstoða nemendur við að bæta sínar eigin rannsóknir og rannsóknarverkefni.

Í námskeiðinu var skoðuð skörun milli ólíkra viðfangsefna nýsköpunar og viðskiptaþróunar með áherslu á hvernig hegðun einstaklinga og hópa hefur áhrif á þekkingarsköpun. Meðal viðfangsefna voru ferli ákvarðanatöku við nýsköpun, þáttur frumkvöðla í nýsköpun og nýsköpun við smíði viðskiptalíkana.

Skipuleggjandi og einn þriggja kennara námskeiðsins var Magnús Þór Torfason, lektor við Viðskiptafræðideild. Hann er jafnframt einn af þeim sem kom meistaranámslínu í nýsköpun og viðskiptaþróun á laggirnar við Háskóla Íslands og er í forsvari fyrir línuna. Auk hans komu gestakennarar að utan, þeir John Christiansen og Magnus Holmén.

John Christiansen er prófessor við Viðskiptaháskólann í Kaupmannahöfn (CBS). Í rannsóknum sínum hefur hann lagt áherslu á stjórnun verkefna og vöruþróunar, stjórnun með hönnun og fleiru. Smellið til að fá nánari upplýsingar um John Christiansen.

Magnus Holmén er prófessor í nýsköpunarfræðum og iðnaðarverkfræði við Halmstad-háskóla í Svíþjóð. Hann hefur starfað við Chalmers-tækniháskólann (Chalmers University of Technology) og Ríkisháskóla Ástralíu. Hann hefur til margra ára stundað fjölbreyttar rannsóknir sviði nýsköpunar fyrirtækja. Smellið til að fá nánari upplýsingar um Magnus Holmen.

Námskeiðið þótti heppnast vel og var almenn ánægja með það meðal nemendanna. Nemendur töldu námskeið af þessu tagi uppfylla skýra þörf meðal nemenda og bera vott um það virði sem samstarf norrænna háskóla á vettvangi NFF skapar. Rúmlega tuttugu doktorsnemar sóttu námskeiðið, þar af voru 16 erlendir nemar sem komu til landsins til að taka þátt í námskeiðinu. 

Nemendur og kennarar námskeiðsins
Nemendur og kennarar námskeiðsins