Skip to main content
4. febrúar 2016

Viðamikil ráðstefna um fjölmenningarsamfélagið í HÍ

Fjölmenningarsamfélagið Ísland verður skoðað frá fjölbreyttum sjónarhornum á viðamikilli ráðstefnu sem fram fer í Háskóla Íslands laugardaginn 6. febrúar nk. frá kl. 10-14.30.

Ráðstefnan ber heitið Fræði og fjölmenning 2016: Uppbygging og þróun íslensks fjölmenningarsamfélags og er henni ætlað að miðla og byggja upp frekari þekkingu á sviði fjölmenningar. 

Um 60 erindi í um 20 málstofum verða flutt á ráðstefnunni og snúa þau bæði að aðstæðum innflytjenda, flóttafólks og hælisleitenda á Íslandi. Meðal þess sem fjallað verður um eru hatursglæpir og mansal á Íslandi, upplifun hælisleitenda og innflytjenda af þjónustu og stuðningi í samfélaginu, tækifæri nemenda af erlendum uppruna í skólakerfinu og velferð fólks af erlendum uppruna, mismunandi staða flóttafólks, staða Kvennaathvarfsins á tímum fjölmenningar, kosningaþátttaka innflytjenda í borgarstjórnarkosningum, húsnæðisaðstæður innflytjenda, flóttafólk á vinnumarkaði og íþróttir og fjölmenning. 

Fyrirlesarar koma bæði úr hópi innflytjenda og flóttafólks auk fræðimanna og nemenda úr Háskóla Íslands ásamt fagfólki víða að úr samfélaginu. Flutt verða erindi bæði á íslensku og ensku. 

Auk Háskóla Íslands koma Akureyrarbær, Hafnarfjarðarbær, innanríkisráðuneytið, Kópavogsbær, MARK  Miðstöð margbreytileika- og kynjarannsókna, Rannsóknarsetur í barna- og fjölskylduvernd, Rauði krossinn, Reykjavíkurborg, Stúdentaráð Háskóla Íslands og velferðarráðuneytið að ráðstefnunni.

Ókeypis er á ráðstefnuna og er hún öllum opin. Áhugasamir eru beðnir um að skrá sig á ráðstefnuna með því að senda tölvupóst á netfangið jse@hi.is

Dagskrá ráðstefnunnar og nánari upplýsingar um einstaka málstofur má finna á heimasíðu Háskóla Íslands.

Frá Alþjóðadegi Háskóla Íslands 2015