Skip to main content
17. október 2016

Verk fyrir flautu og klarínettu á Háskólatónleikum

""

Hafdís Vigfúsdóttir og Grímur Helgason flytja verk fyrir flautu og klarínettu á háskólatónleikum miðvikudaginn 19. október. Flutt verða verk eftir Þorkel Sigurbjörnsson, Elínu Gunnlaugsdóttur, Hróðmar Inga Sigurbjörnsson og Jean Rivier. Sérstakur gestur tónleikanna verður Hildigunnur Einarsdóttir messósópran sem syngur í verki Hróðmars.

Tónleikarnir hefjast kl. 12.30 og þeir verða í Kapellunni á annarri hæð Aðalbyggingar Háskóla Íslands. 

Enginn aðgangseyrir er að tónleikunum og allir eru velkomnir.

Efnisskrá tónleikanna

Þorkell Sigurbjörnsson – Tvíteymi (2007) fyrir flautu og klarínettu.

Elín Gunnlaugsdóttir – Leikur (2010) fyrir flautu og klarínettu

Hróðmar Ingi Sigurbjörnsson – Pósthólf hjartans (1995/2016) fyrir mezzósópran, flautu og klarínettu.

Sérstakur gestur Hildigunnur Einarsdóttir, mezzósópran

Jean Rivier Duo – (1968) fyrir flautu og klarínettu.

I. Allegretto affettuoso

II. Lento molto doloroso

III. Presto

Nánar um verkin

Þorkell Sigurbjörnsson (1938-2013) tileinkaði Tvíteymi flautuleikaranum Averil Williams sem frumflutti verkið í Íslandsheimsókn sinni árið 2007 ásamt Einari Jóhannessyni klarínettuleikara. Verkið hefst á fallegu og látlausu stefi sem leikið er á fremur lágu tónsviði. Smám saman leitar stefið upp á við, tekur ýmsum breytingum í samleik hljóðfæranna og spannar tónsmíðin allt tónsvið hljóðfæranna af miklu listfengi höfundar.

Elín Gunnlaugsdóttir (1965) samdi Leik fyrir Hallfríði Ólafsdóttur flautuleikara og Ármann Helgason klarínettuleikara sem frumfluttu verkið í Melbourne í Ástralíu í október 2010. Segja má að verkið sé einmitt leikur að endurteknu stefjaefni. Verkið varð til þegar höfundur dvaldist í Cité Internationale des Arts í Paris en hljóðfæraleikurunum barst afraksturinn með nokkuð óhefðbundnum hætti: Elín sendi þeim Hallfríði og Ármanni verkið smám saman á póstkortum. 

Pósthólf hjartans eftir Hróðmar Inga Sigurbjörnsson (1958) var upphaflega hluti af söngflokknum Stokkseyri fyrir kontratenór og kammersveit sem Sverrir Guðjónsson og Caput hópurinn frumfluttu árið 1995. Á háskólatónleikunum heyrist þessi þáttur nú í fyrsta sinni í nýrri gerð fyrir mezzósópran, flautu og klarínettu. Ljóðið er eftir Ísak Harðarson. Ef til vill má segja að titill verksins rími með óvæntum hætti við Leik Elínar að tónum á póstkortum.

Duo Jeans Rivier (1896 – 1987) ber vott um þá miklu grósku sem var í tónsmíðum fyrir tréblásara í París á öldinni sem leið. Verkið samdi Rivier rúmlega sjötugur að aldri eftir afkastamikinn og fjölbreyttan feril sem tónskáld og kennari við Tónlistarháskóla Parísar. Verkið er í þremur þáttum og  tónmál þess vegur á spennandi hátt salt milli lagrænna og atónal stefjahugmynda; ljóðrænu, dramatíkur og glaðlegrar franskrar snerpu. 

Ferilskrár listamannanna 

Hafdís Vigfúsdóttir hefur lokið burtfararprófi í flautuleik frá Tónlistarskóla Kópavogs, B.Mus.- gráðum frá Listaháskóla Íslands og Konunglega Konservatoríinu í Den Haag í Hollandi og fjórum diplómum í flautuleik og kammertónlist frá Konservatoríinu í Rueil-Malmaison í Frakklandi auk mastersgráðu frá Tónlistarháskólanum í Osló.  Árið 2010 hlaut Hafdís önnur verðlaun í „Le Parnasse“, alþjóðlegri tónlistarkeppni í París. Hafdís hefur komið fram sem einleikari með Íslenska flautukórnum, Kammersveit Reykjavíkur, Ungfóníu, Sinfóníuhljómsveit áhugamanna og Sinfóníuhljómsveit Íslands. Hún er ein stofnenda og skipuleggjanda Tónlistarhátíðarinnar Bergmál á Dalvík og kennir á flautu við Tónlistarskóla Hafnarfjarðar. Hafdís leggur enn fremur stund á meistaranám í hagnýtri menningarmiðlun við Háskóla Íslands.

Grímur Helgason nam klarínettuleik hjá Sigurði I. Snorrasyni í Tónlistarskólanum í Reykjavík og hjá Einari Jóhannessyni í Listaháskóla Íslands þaðan sem hann lauk B.Mus.-prófi árið 2007. Sama ár hlaut hann brautargengi í einleikarakeppni LHÍ og Sinfóníuhljómsveitar Íslands og hlaut styrk úr Styrktarsjóði Halldórs Hansen. Enn fremur nam hann við Conservatorium van Amsterdam hjá Hans Colbers og lauk þaðan M.Mus.-prófi vorið 2011. Grímur hefur á undanförnum árum leikið með margskonar hljómsveitum og samleikshópum, þ.á m. hljómsveit Íslensku óperunnar, Caput-hópnum, Sinfóníuhljómsveit Norðurlands og Kúbus. Hann flytur reglulega kammertónlist og einleiksverk fyrir klarínettu og er einn stofnenda Tónlistarhátíðarinnar Bergmáls á Dalvík.  Nýverið var Grímur ráðinn til starfa hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands.

Hildigunnur Einarsdóttir mezzósópran hóf snemma tónlistarnám og söng í Barnakór Grensáskirkju undir stjórn Margrétar Pálmadóttur. Á menntaskólaárunum söng hún í Hamrahlíðarkórnum undir stjórn Þorgerðar Ingólfsdóttur. Hildigunnur lauk burtfararprófi frá Söngskólanum í Reykjavík 2010 undir handleiðslu Signýjar Sæmundsdóttur og Ólafar Kolbrúnar Harðardóttur.  Hildigunnur sótti síðar einkatíma til Janet Williams í Berlín og Jóns Þorsteinssonar í Utrecht. Hún er mjög virk í kórastarfi og stjórnar, ásamt Lilju Dögg Gunnarsdóttur, Kvennakórnum Kötlu og einnig yngstu deild Stúlknakórs Reykjavíkur. Hún kemur reglulega fram sem einsöngvari með kórum og hljóðfæraleikurum og stundar auk þess nám í skapandi tónlistarmiðlun við Listaháskóla Íslands. Hildigunnur var tilnefnd sem söngkona ársins til íslensku tónlistarverðlaunanna 2015.

Hafdís Vigfúsdóttir og Grímur Helgason
Hafdís Vigfúsdóttir og Grímur Helgason